Mánudagur, 27. mars 2006
Sagan endalausa
Fréttir af því að Microsoft muni ekki ná að gefa út næstu útgáfu af Windows, Windows Vista, á réttum tíma koma í sjálfu sér ekki á óvart - þær eru í takt við eðli þess hvernig fyrirtækið hefur starfað hingað til, þar sem sífellt hefur sigið á ógæfuhliðina hvað varðar umfang hugbúnaðarverkefna fyrirtækisins.
Ýmsar kenningar eru til um forritun og stór forritunarverkefni. Eitt af þeim lögmálum sem mönnum er hollt að hafa í huga er kennt við Frederick P. Brooks, prófessor í tölvunarfræðum, og hljóðar eitthvað á þessa leið: Sé forriturum fjölgað við hugbúnaðarverkefni sem er á eftir áætlun seinkar því enn. Í því felst sá kjarni að þann tíma sem tekur að koma nýjum mönnum inn í viðkomandi verkefni muni ekki nást að vinna upp. Af því leiðir svo að eftir því sem lengra er liðið á verkefnið skapar það meiri vandræði að fjölga forriturum. Fyrir vikið dugði ekki að setja meiri kraft í verkið þegar nær dró fyrirhuguðum útgáfudegi og þó menn segi nú að Vista eigi að koma út í janúar, en ljóst að þá er engin pressa að gefa búnaðinn út, ekkert sölutímabil í vændum, þannig að líklegt verður að teljast að útgáfa dragist enn lengur, líklega fram á vor eða sumar 2007.
Ef marka má frásagnir starfsmanna Microsoft, sem ekki hafa viljað koma fram undir nafni, hafa ýmsir alvarlegir vankantar komið í ljós á síðustu mánuðum, til að mynda hvað varða öryggismál, en helstu gallarnir hafi aftur á móti verið í því sem Microsoft kallar Media Centre, MCE, en það er hugbúnaðarsyrpa sem ætlað er að gera heimilistölvu að skemmtunarmiðstöð, stjórnstöð fyrir DVD myndir, sjónvarpsáhorf og -upptökur, tónlistarsafn heimilisins og einnig ljósmyndasafnið, netgátt heimilisins og svo má telja. Þetta er vitanlega hið versta mál því einn af helstu sölupunktum Vista átti einmitt að vera ný og fullkomin útgáfa af MCE og fjöldi vélbúnaðarframleiðenda hefur einmitt hagað framleiðslu og markaðssetningu á vélbúnaði með vísan til þess, enda hafa menn sé þar ört vaxandi markað eftir því sem heimilin verða stafrænni.
Sagan af Vista er orðin býsna löng, nær allt frá því fréttir bárust af því að næsta útgáfa af Windows á eftir XP væri á teikniborðinu og ætti að heita Longhorn. Á næstu árum bárist reglukega fréttir af því hvernig miðaði og í viðtali við Newsweek haustið 2003 ræpddi William Gates III þessa miklu uppfærslu á Windows og sagði Longhorn verða "stærra framfaraskref en nokkurt annað á síðustu 10 árum". Hann var varla búinn að sleppa orðinu er fregnir bárust af því að enn yrði bið á Longhorn, en ef allt færi á besta veg myndi það koma á markað haustið 2006, að mestu fullbúið en nýja skráarkerfið, sem átti að vera helsta byltingin í öllu saman, átti að koma á markað ári síðar, 2007.
Það hefur kostað smá yfirlegu að átta sig á Vista, eins og nýja útgáfan heitir sem stendur, enda herma fregnir að til verði sjö gerðir af Vista, mismunandi eftir því hvað eigi að nota hugbúnaðinn. Fyrst er þar að telja Starter Edition, sem er þannig gerð að aðeins er hægt að keyra þrjú forrit samtímis. Home Basic útgáfan kemur í stað Windows XP Home, en Home Premium útgáfan er Home Basic að viðbættum áðurnefndum Media Centre vöndli. Næstu útgáfur eru svo Windows Vista Professional, Small Business og Enterprise útgáfur, mis-öflugar eftir því sem menn (fyrirtæki) vilja. Að lokum er svo Ultimate útgáfan sem aðallega er ætluð fyrir áhugamenn um tónlist og kvikmyndir og leikjavini, en í henni verður sérstakt stjórnborð fyrir leikjakeyrslu, podcast-græja og ýmislegar viðbætur sem hægt er að sækja yfir netið, tónlist og kvikmyndir og svo má telja.
Apple-áhugamenn hafa tekið þessum fréttum fagnandi og sjá sóknarfæri hjá Apple, enda hefur það fyrirtæki haldið vel á sínum uppfærslumálum undanfarin ár, gefið út fjórar útgáfu af MacOS á síðustu fimm árum, og sú nýjasta er óneitanlega mögnuð. Ekki sýnist mér þó ástæða til að ætla að fólk muni skipta yfir í Macintosh bara vegna þess að þeir þurfa að keyra Windows XP einhverjum mánuðum lengur - slíkar vangaveltur eru álíka barnalegar og sá draumur að aukin sala á iPod myndi verða til þess að fólk skipti yfir í Makka, enda þá komið í Makkaumhverfi.
Í New York Times mátti lesa þá skemmtilegu ábendingu fyrir stuttu að þegar bandarísk yfirvöld beittu sér gegn ólögmætum viðskiptaháttum Microsoft 1998 hafi það verið á þeim forsendum að fyrirtækið beitti sér á þann veg að drægi úr nýsköpun í hugbúnaði almennt. Nú, segja þeir New York Times menn, hefur það og komið fram að Windows dregur úr nýsköpun, en það er þá nýsköpun innan Microsoft sem er í voða. Málið er nefnilega að verkefnið er orðið svo risavaxið að gríðarlega erfitt er að hafa yfirsýn yfir það, að tryggja að allir hlutar þess starfi rétt saman og séu á sama þróunarstigi.
Á sínum tíma var það sagt að Windows 2000 væri mesta hugbúnaðarverkefni sögunnar. Þegar stýrkerfið kom á markað snemma árs 2000 lá að baki starf 5.000 forritara í fjögur ár sem kostaði yfir 150 milljarða króna, en einnig komu að verkinu 750.000 sjálfboðaliðar sem betaprófuðu stýrikerfið (þrátt fyrir þann mikla fjölda voru 63.000 atriði ófrágengin þegar hugbúnaðurinn kom út, þar á meðal um 20.000 böggar sem vitað var um). Alls voru í stýrikerfinu um 40 milljón línur af kóða. Til gamans má geta þess að í Windows 3.1 voru 2,5 milljón línur og 15 milljónir í Windows 95.
Á þeim tíma sem Windows 2000 kom út var fyrirtækið með tvær gerðir af stýrikerfinu á markaði, Windows 95, 98 og Me sem voru ætluð heimilisnotendum og NT-línuna sem var fyrir fyrirtæki. Windows 2000 var í raun útgáfa NT 5.0 og var nokkuð frábrugðið Windows ME, til að mynda, mun öruggari útgáfa sem notaði til að mynda aðra rekla en 95, 98 og Me eins og margir komust að er þeir skiptu yfir í Windows 2000. XP var síðan ætlað að steypa þessum tveim afbrigðum af Windows saman en þegar kíkt er undir húddið kemur í ljós að í raun er hér á ferð NT 5.1.
Windows Longhorn sem síðan varð að Windows Vista er allmiklu meira verkefni en Windows 2000 og breytingar svo miklar að ekki er um að ræða púnktúgáfu heldur væntanlega hækkað um heilan, þ.e. Windows Vista verði þá Windows NT 6.0 á sama kvarða og venjuleg tölvufyrirtæki nota.
Fimm ár eru liðin síðan Windows XP kom á markað og getur nærri að kerfið sé orðið gloppótt og gamaldags, enda gríðarlega mikið breyst á síðustu fimm árum. (Internet Explorer er mun eldri, hefur ekki verið endurskrifaður af neinu viti í átta ár.) Smám saman hefur verkið stækkað í höndum þeirra Microsoft-manna, enda metnaður fyrirtækisins eins og áður að hægt verði að nota ekki bara allan nýjan og nýlegan vélbúnað, heldur líka sem mest af gömlum búnaði (nokkuð sem Apple blæs á til að mynda). Línurnar í Windows Vista eru víst orðnar fimmtíu milljónir og sumir gera því skóna ef svo fer fram sem horfir gæti Vista-verkefnið orðið svo stórt að ekki verði hægt að ljúka við það - svo margir séu í forritarateyminu að allur tími þeirra fari í að tala saman, sitja stöðufundi og skrifa nýjar þarfagreiningar.
Meginflokkur: Tölvur og tækni | Aukaflokkur: Bloggar | Breytt 30.3.2006 kl. 13:47 | Facebook
Tenglar
Vefgreinar
- Dont Legalize Drugs by Theodore Dalrymple, City Journal Spring 1997 Advocates have almost convinced Americans that legalization will remove most of the evil that drugs inflict on society. Dont believe them. City Journal - Spring 1997
Vefmiðlar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (18.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 4
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
test
Addý og Ingi, 29.3.2006 kl. 09:19
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.