Magga Stína syngur Megas

Magga StínaÞað er mikil kúnst að túlka lög og einna mest ef verið er að glíma við lög annarra, ekki síst ef við komandi hefur flutt lögin opinberlega sjálfur. Þeir tónlistarmenn eru legíó sem klúðrað hafa slíkum flutningi, en líka mörg dæmi um að menn hafa flutt lög svo vel að upprunaleg útgáfa, hversu góð sem hún annars var, hverfur gersamlega í skuggann. One í flutningi Johnny Cash er gott dæmi um það. Eins nýleg útgáfa Gillian Welch á Radiohead-laginu Black Star. Og Magga Stína syngur Fílahirðinn svo vel að það lag er eiginlega orðið hennar í mínum eyrum.

 

Sumir lagahöfundar eru svo sérstakir flytjendur að erfitt er fyrir aðra að feta í þeirra spor. Víst er erfitt að heyra aðra syngja lög Magnúsar Þórs Jónssonar án þess maður heyri líka óminn af Megasi. Þetta var áberandi á skífunni Megasarlög, sem kom út fyrir nokkrum árum, þó þar hafi margt verið vel gert og svo eins á plötunni Pældu í því sem pælandi er í sem gefin var út fyrir skemmstu. Sumt gengur upp og annað ekki, reyndar ekki nema þrjú lög á síðarnefndu plötunni þar sem Trabant syngur Björt ljós, borgarljós, KK Dauða Snorra Sturlusonar og Rúnar Júlíusson Borgarblús, en í síðasttalda laginu fer Rúnar á kostum. Annað á plötunni er miður og sumt svo slæmt að það er ekki hafandi eftir.

 

Af hverju það er svo slæmt er ekki gott að segja. Sumir þeirra sem koma við sögu á skífunni bera kannski full mikla virðingu fyrir upphaflegri útgáfu, aðrir kunna kannski ekki að meta Megas, hafa jafnvel lítið hlustað á hann og á stundum finnst manni sem söngvarinn skilji ekki textann almennilega. Þeir eru líka margir all-lyklaðir og snúnir svo þeim er kannski vorkunn.

 

Magga Stína hélt tónleika í Salnum um daginn, í miðju slíku óveðri að búið var að vara fólk við að vera á ferli. Veðrið var nú ekki svo slæmt þegar á reyndi og hlýtt og bjart í Salnum, enda var hann smekkfullur af fólki. Hún var að kynna nýja plötu sína þar sem hún syngur lög eftir Megas með hljómsveitarundirleik og var með hljómsveit með sér þó ekki væri það nákvæmlega sama sveit og kemur fram á plötunni.

 

Lögin sem Magga söng í Salnum eru og lögin sem hún syngur á plötunni, þó flutningurinn hafi verið eilítið frjálslegri þetta kvöld eins og við var að búast, ekki síst fyrir frábærlega lipra og lifandi spilamennsku Sigtryggs Baldurssonar, lífrænn og ekki of agaður. Ekki má gleyma öðrum knáum liðsmönnum; Hörður organisti Bragason, Kristinn Árnason gítarfimleikamaður og svo Jakob Smári Magnússon bassameistari.

 

Útsetningar laganna finnast mér einkar vel af hendi leystar og rýmið sem þeim var gefið á tónleikunum dró það líka vel fram hve þessi lög eru vel samin. Fáir eru lagnari lagasmiðir en Magnús Þór Jónsson - hans verk eru gerð af meistarans höndum.

Það er mikil og góð upplifun að heyra listamenn fara höndum um annarra listaverk, ekki síst ef í hlut eiga lög sem hafa tekið sér bólfestu í manni sjálfum. Best af öllu er þegar menn fara svo fimlega með að maður rétt kannast við lag sem maður þekkti áður vel í upprunalegum búningi. Hamskipti Voulez Vous? eru til sannindamerkis um það - víst veit maður hvaða lag um ræðir en þó ekki, hér var komið eitthvað allt annað. Magga Stína gengur ekki svo langt en víða hefur hún sniðið lögin svo til og skorið að þau verða ný, öðlast nýtt líf. Fílahirðirinn hefur þannig verið að mótast í hennar meðförum ansi lengi og er til að mynda býsna breyttur frá því á Náttúrutónleikunum fyrir margt löngu. Stundum vildi maður að hún gengi aðeins lengra, tæki sér meira skáldaleyfi. Þannig lifnaði Aðeins eina nótt ekki vel í höndum hennar og hljómsveitarinnar, í það minnsta ekki fyrir þeim sem man Megas syngja það lag í Óperunni á sínum tíma. Önnur lög fengu svo nýtt rúm í kollinum á manni, sérstaklega Fílahirðirinn og svo Flökkusagan sem var í hreint magnaðri útsetningu þetta magnaða kvöld í Salnum.

 (Björg tók myndina í Salnum.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: snillingur-jón

Ditto, ditto. Var reyndar ekki á tónleikunum en á plötuna. Frábært stöff. 

En að öðru og óskyldu:

Það hefði náttúrlega verið miklu skemmtilegra að fyrirsögnina svona:

"Magga Stína tekur Megas..." 

snillingur-jón, 23.11.2006 kl. 20:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Árni Matthíasson
Árni Matthíasson
Skoðanir á mönnum og málefnum á þessari síðu eru birtar með opnu notendaleyfi. Öllum er heimilt að tileinka sér þær og halda þeim fram sem sínum eigin.
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband