Ekki hitta höfundinn

James GalwayEitt það fyrsta sem maður lærir í bransanum er að vera við öllu búinn þegar maður hittir þá listamenn sem maður hefur sérstakt dálæti á.

Mér er minnisstætt þegar flautuleikarinn snjalli James Galway kom hingað til lands til að leika á listahátíð og blaðakona af Morgunblaðinu, sem vel kunni að meta flautuleik hans, fór spennt til að taka við hann viðtal. Hún sneri aftur úr því viðtali með grátstafinn í kverkunum yfir því hver mikill dóni Galway hafi verið, frekur og afundinn, snúið útúr öllu og ef hann svaraði ekki með svívirðingum þá svaraði hann útí hött.

Hún var svo vitni að því að þegar Sjónvarpsmenn mættu með sínar upptökugræjur birti yfir honum, heillandi brosið braust fram og hann skrúfaði frá sjarmanum.

Af hverju, spyr kannski einhver, en gefur augaleið: Hann vissi sem er að blaðamaðurinn myndi gera hið besta út textanum, vinna almennilegt viðtal uppúr öllu saman, en sjónvarpsvélarnar myndu sýna hann eins og hann er og því kaus hann að vera annar.

Nú er það eflaust leiðinlegt að verða fyrir sífelldu áreiti blaðamanna, en við því er það einfalda ráð að neita að veita viðtöl, ekki síst ef maður hefur ekki nennu í að vera kurteis.

Ekki er bara að stjarnan sem maður hefur mænt á úr fjarska getur verið óuppdreginn dóni, heldur getur líka komið í ljós að snilligáfa á einu sviði hefur útilokað gáfur á öðrum sviðum.

Dæmi um það er rithöfundurinn mikli Victor Hugo (1802-1885), höfundur Vesalinganna og Maríukirkjunnar í París (Notre-Dame de Paris). Hann var mikið undrabarn, skrifaði smásögur og leikrit þrettán ára gamall og vann sín fyrstu verðlaun fyrir ritstörf sextán ára gamall. Ég hef séð þá samantekt að hann hafi skrifað tíu milljón orð, 10.000.000 orð (orðið sem þú varst að lesa var 280. orð þessarar greinar, fyrirsögn ekki meðtalin - margfaldaðu með 35.714).

Victor HugoNánar tiltekið gaf hann út 24 ljóðasöfn (3.000 ljóð eru skráð), reyting af leikritum, óteljandi ritgerðir, greinar og ferðasögur og níu skáldsögur (þrjár hafa komið út á íslensku Notre-Dame de Paris (Maríukirkjan í París, 1948), Les Misérables (Vesalingarnir, 1925 til 1928) og L'Homme qui rit (Maðurinn sem hlær, 1932)). Jón Helgason þýddi reyting af ljóðum Hugos í Tuttugu erlend kvæði og einu betur og Steingrímur Thorsteinsson þýddi líka ljóð eftir hann. Engum hefur dottið í hug að gefa út á íslensku skáldsöguna Han d'Islande, sem snarað mætti sem Íslands Hans, nú eða Hans Íslandi, en hún segir frá illmenninu Han (Hans) sem hyggst hefna sonarmissis með hrannvígum.

Þessi afkastamikli maður var einn helsti andans jöfur Frakka á sinni tíð, eða í það minnsta þar til hann opnaði munninn því samtímamenn hans eru á einu máli um að hann hafi ekki bara verið illa máli farinn, heldur var hann og grunnhygginn í samræðum, nískur og eigingjarn, smámunasamur veifiskati og tækisfærissinni (skipti þrisvar um grundvallarafstöðu í stjórnmálum til að halda þingsæti). Hann var semsagt maður sem maður ætti helst ekki að hitta - láta nægja að lesa bækurnar og ímynda sér göfuglynt gáfumenni.

Hugo og Galway eru dæmigerður fyrir listamennina sem við viljum ekki hitta, en eins getur verið óviðkunnanlegt að hitta lubbalega lúða, illa til hafða, órakað og illa lyktandi. Ég hitti eitt sinn norska rithöfundinn Lars Saabye Christensen (Hálfbróðirinn) á Holtinu og fann það á lyktinni þegar ég beygði inn á Bergstaðastræti að hann hafði verið að skemmta sér ótæpilega dagana á undan (hann var og glerþunnur, en mjög skemmtilegur svo það fór allt vel).

Mér fannst það því frábærlega til fundið þegar leikari mætti til að lesa upp úr nýrri bók eins þekktasta rithöfundar þjóðarinnar síðasta haust og mín tillaga er sú að menn geri miklu meira af því, þ.e. að fá leikara til að leika rithöfunda. Það myndi til að mynda gefa krassandi sakamálasögu meiri vigt ef Ingvar E. Sigurðsson myndi mæta á blaðamannafundi með sína ygglibrún, nú eða ef Margrét Vilhjálmsdóttir myndi kynna sig sem höfund erótískrar ættarsögu.

Þessa hugmynd má síðan þróa áfram og fá leikara í hverju landi þar sem bókin er gefin út til að leika rithöfundinn. Ég sé í anda blaðamenn taka andköf af hrifningu þegar "Arnaldur Indriðason" svarar spurningum þeirra á reiprennandi spænsku, þegar "Einar Már Jónsson" les upp úr Englum alheimsins á tærri frönsku eða "Kristín Marja" formælir karlaveldinu á lýtalausri rússnesku. Þó það kosti vissulega sitt að ráða góða leikara sparast vitanlega mikið fé í flugfargjöldum og gistingu (mínbarirnir!).

Ef allt kemst svo upp er ekki víst að það skipti máli - ekki gera Spánverjar sér veður útaf því þó frægar stjörnur tali á spænsku í öllum bíómyndum og öllu sjónvarpsefni með röddum sem alls ekki eiga við viðkomandi leikara (að því okkur finnst i að minnsta). Hví skyldu þeir, eða Frakkar og Þjóðverjar, sem leika sama leik, láta sér bregða þó andlitið sé ekki það sama? Svo geta menn alltaf gert það sama og ég mun gera næst þegar sendur er leikari fyrir rithöfundinn íslenska - senda leikara til að hlusta fyrir mig.

Es. Menn eru mis-meðvitaðir um galla sína. Skýt hér inn ljóði eftir Thomas S. Eliot:

How unpleasant to meet Mr. Eliot!

With his features of clerical cut.

And his brow so grim

And his mouth so prim

And his conversation, so nicely

Restricted to What Precisely

And If and Perhaps and But . . .

How unpleasant to meet Mr. Eliot!

(Whether his mouth be open or shut.)

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Aldrei hefur hvarflað að mér að miklir listamenn séu eitthvað öðruvísi en aðrir menn með öllum sínum göllum - og kostum. Ef ég væri blaðamaður myndi ég bara gjalda líku líkt og láta fræga manninn fá það óþvegið. Það á ekki að leyfa neinum að komast upp með dónaskap. Ég sá einu sinni, fyrir 44 árum, John Wayne tala spönsku í myndinni El Alamo, eins og hún hét þar og fannst það allt í lagi enda skildi ég þá heldur ekki ensku. En ég skil ekki hvers vegna mönnum er svona illa við að talsetja útlendar myndir. Á þá ekki krefjast þess að leikrit Shakespeare séu alltaf flutt á frummálinu að ég tali nú ekki um leikrit Tjekovs? Það er auðvitað fyrst og fremst verið að hugsa um amerískar myndir. Allir lúffa fyrir enskunni. Það á að vera svo agalega merkilegt að heyra enskuna t.d.hans Harrisomn Fords að það má með engu móti talsetja myndirnar hans. Það er svo hallærislegt að heyra íslensku af munni útlendra stórmenna. Mjá, það held ég nú! 

Sigurður Þór Guðjónsson, 30.6.2008 kl. 13:01

2 Smámynd: Árni Matthíasson

Hvað myndir þú nú segja ef hann Mali þinn væri talsettur upp á útlensku í erlendri bíómynd (heimildarmynd, nema hvað) og í stað hans kliðmjúka mjá kæmi frekjuleg miow eða þaðan af verra!

Árni Matthíasson , 30.6.2008 kl. 14:36

3 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Ég myndi tryllast!

Sigurður Þór Guðjónsson, 30.6.2008 kl. 17:53

4 Smámynd: Einar Steinsson

Þar sem ég er búsettur eru allar myndir talsettar á þýsku og það er vægast sagt hræðilegt. Þetta hefur ekkert með tungumál að gera heldur það að stór hlut af persónu leikarans er tekin í burtu. Í stað fyrsta flokks leikara er komin einhver þriðja flokks þýskur leikari.

Einar Steinsson, 1.7.2008 kl. 06:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Árni Matthíasson
Árni Matthíasson
Skoðanir á mönnum og málefnum á þessari síðu eru birtar með opnu notendaleyfi. Öllum er heimilt að tileinka sér þær og halda þeim fram sem sínum eigin.
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband