Hvað vita konur um rokk?

Dolly PartonÍ fáum listgreinum er eins mikill kynjamunur og rokkinu; það telst tíðindi ef hljómsveit er skipuð konum og konur eru í minnihluta þegar kemur að því að fjalla um tónlistina. Víst hefur konum meðal rokkkrítíkera fjölgað, til að mynda eru kynjahlutföll nánast jöfn hér á blaðinu hvað varðar rokkgagnrýni, en þrátt fyrir það er félagsskapur rokkblaðamanna karlaklúbbur.

Á námskeiði tónlistarblaðamanna í Árósum fyrir stuttu ræddu menn sérstaklega stöðu kvenna í rokkblaðamennsku, hvers vegna þær væru ekki fleiri og um leið hvort þær hefðu eitthvað fram að færa sem karlmenn hefðu ekki. Fyrirlesarar á námskeiðinu voru danska útvarpskonan Anya Mathilde Poulsen, sem skrifað hefur bók sem byggist á samtölum við tónlistarkonur, "Feminint Forstærket - syv samtaler med kvindelige musikere", Morten Michelsen, sem er prófessor við háskólann í Kaupmanahöfn og einn höfunda ritsins "Rock Criticism from the Beginning: Amusers, Bruisers & Cool-Headed Cruisers", sem fjallar um rokkblaðamennsku í gegnum tíðina, og Mone B. Riise, sem starfar hjá norska útvarpinu.

Í fyrirlestrunum kom fram að rokkkonur fá alla jafna aðra meðhöndlun í fjölmiðlum en rokkarar og sérstaklega sé það áberandi hve spurningar sem beint er til tónlistarkvenna snúist að miklu leyti um það hvers vegna þær hafi snúið sér að tónlist og hvort erfitt sé að vera kona í rokkheimi karla.

Þetta skýrist eðlilega að mestu af því hve sjaldséðar konur eru í rokkinu, en eykur varla áhuga þeirra á að hella sér í slaginn þegar öll viðtöl við þær snúast um aukaatriði í stað þess að ræða tónlistina og inntak hennar. Eins kom fram að þykir tónlistarkonum óþægilegt hve blaðamenn leggi mikla áherslu á að lýsa útliti þeirra og nefnd dæmi um það hve algengt væri að blaðamenn gerðu lítið úr Dolly Parton - spurningar og vangaveltur snerust að miklu leyti um vaxtarlag hennar ("ertu ekki að drepast í bakinu?"), en lítið væri fjallað um tónlistina, þó enginn frýi henni hæfileika á því sviði.

Síðustu ár hefur konum í rokkblaðamannastétt fjölgað og þeirri spurningu var varpað fram hvort það væri vegna þess að umfjöllun um tónlist væri orðin almennari og minni áhersla væri lögð á alfræðiþekkingarhefð rokkpælaranna. Eins var því haldið fram að umræða um tónlist myndi breytast í takt við fjölgun kvenna í gagnrýnenda- og rokkblaðamannastétt því smekkur þeirra væri alla jafnan ekki metinn jafn rétthár og karla og því væru þær ekki eins áfram um að halda honum fram, væru óöruggari með skoðanir sínar og ekki eins sannfærðar og karlarnir um að þær hefðu rétt fyrir sér.

Vel má vera að það sé rétt, en er það þá ekki hið besta mál? Eru verstu gagnrýnendurnir ekki þeir sem eru svo sannfærðir um að þeir hafi rétt fyrir sér að þeir ná ekki að koma til móts við listamanninn?

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þakka áhugaverðan pistil. Sem kona og rokkunnandi til margra áratuga hef ég einnig spáð í þetta. Í þessum málum sem öðrum koma stereótýpurnar til sögunnar þar sem gefið er í skyn að konur hafi svona almennan áhuga á tónlist en karlar séu meira sérhæfðir, meiri pælarar, fari dýpra. Þetta er misskilningur. Ég þekki margar konur sem halda"alfræðiþekkingarhefð rokkpælaranna" vel á lofti og eru miklir rokkgrúskarar. Þær komast bara ekki að í fjölmiðlum og ekki er leitað til þeirra eftir áliti, jú nema til þessarar einu.... "the token woman". Konur sem virkilega pæla í tónlist eru ekkert óöruggari með skoðanir sínar að mínu mati heldur mættu fá fleiri tækifæri til að skrifa um tónlist og komast að. Kannski þarf tvo til, þá sem stjóna og þær sem vilja vinna við þetta komis sér betur á framfæri. En erum við þá ekki komin í innanhússpólitík á fjölmiðlum sem er kapituli útaf fyrir sig.

 Kveðja

Gústa

Gústa (IP-tala skráð) 12.7.2008 kl. 13:44

2 identicon

Gaman að sjá umræðu um þetta. Það er örugglega í okkar höndum sem erum eldri að hvetja til að konur taki að sér meira af störfum í tónlistargeiranum almennt. Hjá útgáfufyrirtækjunum eru þær sjaldséðar ef það bólar yfir höfuð á þeim. Og í flestum ábyrgðarstörfum tónlistargeirans eru karlar í miklum meirihluta. Á ráðstefnu sem Iceland Music Export stendur fyrir í október verða á milli 25 og 30 fyrirlesarar og pallborðsþátttakendur og þar verður leitast við að hafa jafnmargar konur og karla. Að hluta til er þetta meðvituð ákvörðum til að draga fram fyrirmyndir fyrir konur af yngri kynslóðinni og hvetja þær til að koma með okkur sem höfum haft gaman af að stússa í þessum bransa. Það er almennt talið til góðs þegar konur hasla sér völl innan geirans hér í Bretlandi þar sem ég bý og gerist æ oftar að þær fara í þau störf sem hafa þótt hefðbundin karlastörf. Það er hins vegar ennþá mikið algengara í allri umfjöllun og á ráðstefnum að karlar séu með orðið. Í þeim efnum mættu fjölmiðlar eflaust vanda sig meira og leita til tónlistarkvenna í meira magni um viðtöl og þeirra kvenna sem vinna innan tónlistargeirans um umsagnir og álit á málefnum líðandi stundar.  Fjölbreytni, ólík reynsla og val er hér eins og annars staðar alltaf kostur.   

Anna HIldur (IP-tala skráð) 13.7.2008 kl. 10:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Árni Matthíasson
Árni Matthíasson
Skoðanir á mönnum og málefnum á þessari síðu eru birtar með opnu notendaleyfi. Öllum er heimilt að tileinka sér þær og halda þeim fram sem sínum eigin.
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband