Pappírinn yfirgefinn

Henrici Cornelii AgrippæEngin listgrein er eins bundin miðlinum og skáldskapur; síðustu fimm þúsund árin eða svo hafa pappír og bókmenntir farið saman og gengur svo langt að árlega er haldin umbúðahátíð; 23. apríl hvert ár halda menn upp á dag bókarinnar (frá 1995 er það líka dagur höfundarréttar).

Pappír hefur vissulega reynst vel til að varðveita upplýsingar; í bókasafni mínu á ég til að mynda eitt lykilverka Henrici Cornelii Agrippæ ab Nettesheym (Heinrich Cornelius Agrippa) sem kom út í Köln 1584; hreint eintak og jafn læsilegt og það var fyrir 414 árum. Á öðrum stað geymi ég optical-disk sem ég vistaði gögn á fyrir tíu árum sem ekki er lengur hægt að lesa því búnaðurinn sem skrifaði gögnin er ekki lengur fáanlegur (nema með miklum tilkostnaði). Til viðbótar get ég ekki treyst því að diskurinn sé í lagi, þ.e. að ég geti lesið gögnin þó búnaður sé tiltækur.

Að þessu sögðu þá er varla ástæða til að halda upp á allt ritað mál; hver mun til að mynda hafa áhuga á að lesa bækur eftir Dan Brown árið 2508? Stór hluti af því sem gefið er út ár hvert, jafnvel obbinn, er nefnilega einnota bókmenntir, verk sem eru lesin í hraði og síðan aldrei lesin aftur, bækur sem deyja gamlar eftir stutta ævi eins og Bjarni Benediktsson frá Hofteigi lýsti skáldverkum Kristmanns Guðmundssonar (sem er flestum gleymdur í dag). Af hverju þurfa bókavinir framtíðarinnar að eiga til stafla af Kristmanni?

Í vesturheimi eru bókaútgefendur með böggum hildar yfir því uppátæki Amazon að setja á markað rafbókina Kindle að þeir geta ekki á heilum sér tekið - óttast að nú muni Amazon taka svo afgerandi forskot í sölu á pappírslausum bókum, rafrænum bókum, að ekki verði við neitt við ráðið. Í Bretlandi eru menn ekki síður óttaslegnir, enda er Amazon nú orðið stærsti bóksali Bretlands og þegar farið að beita útgefendur þrýstingi, neita að selja frá þeim bækur nema þeir bjóði þær á viðunandi heildsöluverði.

Allir þekkja eflaust hvernig hefur farið fyrir plötufyrirtækjum og þær píslir sem kvikmyndaframleiðendur þurfa nú að þola. Þegar bókin er annars vegar, og þá átt við innihaldið en ekki umbúðirnar, hafa bókaútgefendur treyst um of á formið, gleymt því að skáldverkið getur lifað utan pappírsins eins og það lifði góðu lífi í munnlegri geymd (eða fleygað á leirflísar)

Ég hef ekki tölu á bókunum í bókaskápunum sem þrengja að mér, þær skipta þúsundum, en ég veit að á hörðum disk við tölvuna, 8x12x1,5 sm að stærð, eru 20.387 reyfarar, afrakstur margra ára söfnunar (án þess þó að beinlínis sé verið að safna). Bækurnar eru velflestar á PDF-sniði, henta vel til að lesa í tölvu eða fartölvu og svo má snúa þeim á hvaða snið sem er með ókeypis hugbúnaði (calibre), til að mynda RB fyrir gömlu Rocket rafbókina, IMP fyrir nýrri rafbók, EBookwise 1150, eða í BBeB fyrir nýjustu græjuna, Sony Reader (sem getur reyndar birt PDF-skjöl).

Af þessum ríflega 20.000 bókum eru kannski ekki nema nokkur hundruð sem vert er að halda upp á, bækur sem maður á eftir að lesa aftur eða tímir ekki að henda, en það skiptir ekki svo miklu, með því að yfirgefa pappírinn eru að baki flest þau vandamál sem tengjast pappírsbókum.

Plötuútgefendum var kippt inn í nútímann heldur harkalega og kvikmyndafyrirtæki eru á sömu leið. Bókaútgefendur munu halda velli, enda veita þeir rithöfundum mikilvæga þjónustu sem trauðla verður fundin annars staðar. Heldur mun þó draga úr því að þeir haldi uppi norskum skógarhöggsmönnum, prentsmiðum í Kína, filippseyskum sjómönnum og íslenskum næturvörðum og ekki nema gott eitt um það að segja. Einu sinni voru lyftuverðir í öllum lyftum og enginn gat ímyndað sér að annar háttur yrði hafður á. Hvað eru þeir nú?

(Birtist í Lesbók Morgunblaðsins 12. júní sl.)

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Árni Matthíasson
Árni Matthíasson
Skoðanir á mönnum og málefnum á þessari síðu eru birtar með opnu notendaleyfi. Öllum er heimilt að tileinka sér þær og halda þeim fram sem sínum eigin.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband