Miðvikudagur, 29. mars 2006
Himneskt samræmi
Það telst eðlileg afleiðing margra ára bóklesturs að bækur safnist fyrir á heimilinu og þó reglulega sé gripið til þess að hreinsa það út sem maður ekki vill eiga fyrir einhverjar sakir (lélegt, engin fræðileg not, afgreitt) hlýtur að fara svo að bókunum fjölgi með tímanum. (Engin góð formúla er til yfir að hvað margar bækur þarf til að mynda það sem maður myndi kalla gott bókasafn, en hleypur á einhverjum þúsundum - ég er kominn með nálægt 5.000 en vantar talsvert uppá).
Eitt af því sem auðveldast er að losa sig er tvítakið, bækur sem maður á í fleiri en einu eintaki, hefur til að mynda fengið annað eintak að gjöf, komist yfir bók í betra bandi, eða fullkomnari útgáfu til að mynda. Þegar maður rekst á slíkt er auðvelt að hreinsa út, gefa aukaeintökin eða henda þeim (enginn bissness í að selja gamlar bækur lengur, þær hafa fallið svo í verði að þær eru nánast einskis virði). Inn á milli eru þó alltaf bækur sem maður verður eiginlega að eiga í tvítaki, þrátt fyrir samviskubitið (plássið, rykið og kostnaðurinn) og sumar vill maður eiginlega eiga í fleiri eintökum.
Það vakti að vonum mikla athygli þegar sá kunni höfundur Neil Gaiman lét þau orð falla að bókin Jonathan Strange & Mr. Norrell eftir Susanna Clarke væri besta ævintýrabók, fantasía, sem komið hefði út á Bretlandseyjum síðustu 70 ár. Undrun manna var ekki síst til kominn vegna þess að bækur J.R.R. Tolkien um hringinn magnaða komu út fyrir minna en 70 árum, The Hobbit 1937, The Fellowship of the Ring og The Two Towers 1954 og The Return of the King 1955.
Það þarf kannski ekki að koma á óvart að einhver ævintýrabók sé betri en sagan af hringnum og föruneyti hans, þær eru fjölmargar betri, enda var Tolkien merkilegur hugsuður og hugmyndasmiður en minna fór fyrir stílsnilld hans. Það er aftur á móti sjaldgæfara að menn taki svo stórt upp í sig þegar verk eru mærð og Gaiman gerði, en þeir sem lesið hafa bók Clarkes hljóta að taka undir orð hans að einhverju eða öllu leyti - mér er til efs að skrifuð hafi verið betri ævintýrabók á síðustu áratugum austan hafs eða vestan.
Fyrir þá sem ekki vita þá gerist bókin Jonathan Strange & Mr. Norrell á Bretlandi á öndverðri nítjándu öld um það leyti er Bretar glíma við Napoleon og heri hans. Í því Bretlandi sem sagt er frá hafa galdrar nánast gleymst, en þó eru til menn sem kalla sig galdramenn, aðallega sagfræðingar sem fæstir trúa því að menn hafi í raun stundað galdur, heldur sé allt að sem til er af frásögnum um slíkt, bækur og annað, hindurvitni og þjóðögur.
Í borginni Jórvík er til félagsskapur áhugamanna um galdrafræði og hafa spurnir af einrænum manni sem búi í Jórvíkurskíri og eigi mikið safn af galdrabókum, mesta safn sem um geti reyndar. Þeir bjóða honum í félagsskap sinn, félagsskap galdramanna sem þeir kalla svo. Náunginn sá, hr. Norrell, tekur boðinu illa, enda geti þeir menn ekki kallað sig galdramenn sem ekki geti galdrað. Félagarnir fróðu taka afsvarinu illa og krefja hann um galdra þá sem hann segist kunna. Hann fellst að lokum á að sýna þeim galdur með því skilyrði þó að eftir þá sýningu hætti þeir allir að kalla sig galdramenn.
Í framhaldinu stefnir hr. Norell galdramönnunum sjálfskipuðu í Jórvíkurdómkirkju og fremur þar býsna eftirminnilegan galdur því líkneski öll í kirkjunni taka að mæla og segja því sem fyrir augu hefur borið þau hundruð ára sem þau hafa verið lífvana.
Svo vindur fram sögunni að smám saman fá menn trú á að galdrar séu raunverulegir og sannast fyrir fullt og fast er Norrell áskotnast einskonar lærisveinn, Jonathan Strange, sem skoðanir hans á göldrum ganga mjög á skjön við skoðanir lærimeistara síns sem síðan verður fjandi hans.
Ekki verður hér rakinn söguþráður þessar merku bókar, enda ekki rúm til þess að endursegja bók upp á mörg hundruð síður (kiljan er 1.066 síður, innbundin er bókin ríflega 800 síður). Nægir að nefna að bókin er öll ævintýraleg og þá ekki bara söguþráðurinn heldur allt það mikla verk sem Susanna Clarke lagði í verkið á þeim áratug sem það tók hana að skrifa það. Út um alla bók eru þannig óteljandi neðanmálsgreinar, sumar með eigin neðanmálsgreinar, þar sem finna má allskyns fróðleik og fjöldann allan af þjóð- og munnmælasögur sem koma sögunni ekki við í sjálfu sér en sem gerir heiminn sem hún gerist í stærri og veigameiri, svo stóran og veigamikinn reyndar að hann sprengir af sér viðjar bókarinnar, nær langt út fyrir hana.
Jonathan Strange & Mr. Norrell kom út haustið 2004 og bar svo við að ég var staddur í Lundúnum útgáfudaginn. Ekkert vissi ég um bókina þá, en fannst hún fróðleg er ég rakst á hana í Borders búðinni á Tottenham Court Road. Í stæðunni þar var bókin til í tveimur útgáfum, annars vegar til með hvítri kápu, hvít í skurðinn, og svartri með svörtum skurði. Ég var ekki lengi að hugsa mig um, keypti þá með svörtu kápunni, enda hljótum við að sækja í myrkrið.
Komum við nú að því er ég nefni í upphafi - tvítakinu. Málið er nefnilega það að varla var ég búinn að leggja bókina frá mér lesna ekki löngu síðar að að mér sótti efi, hvíta útgáfan sótti á huga minn. Víst gerði ég rétt í að taka þá svörtu, en hefði ég ekki átt að taka hvítu líka? Sjúklegt segir einhver, en það er bara svo heillandi samhverfa í því að hafa bækurnar í hillu hlið við hlið, hvíta og svarta, og mjög viðeigandi fyrir bók eins og þá sem hér um ræðir. Það vita þeir sem hafa lesið hana.
Það er kunnara en frá þurfi að segja að freistingar eru til að falla fyrir þeim og fyrir stuttu keypti ég mér eintak af hvítu útgáfunni. Áritað eintak meira að segja. Fann það á abebooks.com, sem allir þeir sem haldnir eru bókaáráttu ættu að forðast. Það kemur málinu ekki við hvað það kostaði, en mér fannst verðið sanngjarnt þegar ég sá bækurnar saman í hillunni, hvíta og svarta. Himneskt samræmi.
Meginflokkur: Bækur | Aukaflokkur: Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:32 | Facebook
Tenglar
Vefgreinar
- Dont Legalize Drugs by Theodore Dalrymple, City Journal Spring 1997 Advocates have almost convinced Americans that legalization will remove most of the evil that drugs inflict on society. Dont believe them. City Journal - Spring 1997
Vefmiðlar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (18.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 4
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Ég skal alveg bjarga einhverjum bókum frá þér, því ég er nú alin þannig upp að bókum og tónlist megi alls ekki henda. Það er nánast refsivert. Íhugaðu það áður en eitthvað fer í ruslatunnuna næst...;-)
Heiða (IP-tala skráð) 29.3.2006 kl. 20:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.