Langdregin leiðindi

ÓþurftaentarÞað er nú svo að oft verða bækur frægar fyrir eitthvað allt annað en gæði og sumar svo frægar að gæðin hætta að skipta máli. Þannig er því til að mynda farið með skáldsöguna miklu Lord of the Rings, eftir J.R.R. Tolkien, sem snarað var sem Hringadróttins saga á íslensku og endaði sem bíómynd. Bókin hefur notið gríðarlegrar hylli í fjóra áratugi og það þó hún sé bæði langdregin og leiðinleg – líkt og kvikmyndirnar sem gerðar voru eftir henni.

Undir lok sjöunda áratugarins, er ég var táningur, var enginn maður með mönnum nema hann hefði lesið Lord of the Rings og þá í þeirri útgáfu sem var með alla eftirmálana og viðbæturnar (eftirmálarnir voru sex alls, hver öðrum leiðinlegri, og fjölluðu um tímalínu atburða, ættartengsl (vei!), dagsetningar, tilbúin tungumál Tolkiens og fleira). Það varð því ekki undan vikist að lesa bókina og það þó ég hafi snemma komist að því að Tolkien hafði ekki beitt sjálfan sig neinum aga við samningu bókarinnar, hann var svo óðamála að úr varð hálfgerður grautur sem brotinn var upp með langdregnum ferðalýsingum.

Varla er þörf á að rekja söguþráð bókarinnar fyrir þér, ágæti lesandi, en hann má læsa í eina setningu: Ef þú ert vondur tapar þú þó að þú vinnir. Þessi einfaldi (augljósi) sannleikur er svo grafinn í orðskrúði á ríflega tólf hundruð síðum í eins bindis útgáfunni, en Tolkien hugðist einmitt gefa bókina út í einu bindi þó pappírsskortur á stríðsárunum hafi komið í veg fyrir það.

Ég spáði í það á sínum tíma, þegar ég var samviskusamlega búinn að lesa langlokuna alla og að auki viðaukana og skýringarnar, að þetta hefði hugsanlega getað orðið góð bók með rækilegri styttingu. Til að mynda hefði mátt draga mjög úr landslagslýsingum, klippa út endurtekningar og álfabull, fækka aðalpersónum og stytta rækilega allar bardagalýsingar. Úr hefði þá orðið ágætis bók, kannski 3-400 síður.

Sumir lesa Lord of the Rings reglulega að mér skilst, en eftir skyldulesturinn um 1970 leit ég ekki í bókina að nýju fyrr en ég frétti að til stæði að kvikmynda hana. Skemmst er frá því að segja að hún hafði lítið batnað í millitíðinni. landslagslýsingarnar fóru að vísu ekki eins mikið í taugarnar á mér og forðum, en dulspekin í bókinni var enn leiðinlegri, álfarnir enn tilgerðarlegri og rómantíkin enn væmnari.

Fyrir nokkru kom út aukin útgáfa myndanna þriggja á tólf DVD-diskum. Myndirnar þrjár eru reyndar ekki nema ellefu klukkutímar að lengd (Föruneyti hringsins er hálfur fjórði tími, Turnarnir tveir tólf mínútum betur og Hilmir snýr heimfullir fjórir tímar og ellefu mínútur til), svo það er talsvert af aukaefni í boði, en í ljósi þess að upprunalegar myndir voru eiginlega ekki annað en löng ferðasaga með innskotum af mönnum í hetjuleik og óteljandi orrustum þar sem menn frömdu óteljandi hetjudáðir má gera ráð fyrir að viðbæturnar séu meira af því sama.

Draumur minn er sá að einhver taki að sér að klippa þessi ósköp saman í eina mynd, úr ellefu tíma langloku verði til ein mynd, tveir tímar eða svo. Mín tillaga er þessi: Byrja á að klippa út nánast öll bardagaatriði, allar tilvísanir í Treebeard og Ent-ana mættu hverfa, burt með Tom Bombadil og hans náttúrutilfinningaklám, sleppa mætti Saruman með öllu og hætta við heimsóknina í krána Prancing Pony, stytta til muna langdreginn flæking þeirra Frodos og Sam, gleyma Gimli og banna Boromir og allt hans slekti og svo má lengi telja. Já, svo má gjarnan gleyma álfunum. Algerlega.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Þetta er skemmtilega önugur pistill hjá þér Árni. Þú lætur samt vera ??? að skýra þessar gríðarlegu og víðfeðmu vinsældir bókanna þrátt fyrir öll leiðindin og lengdina sem þú segir plaga verkið. -

Í kvikmyndunum kemur reyndar Tom Bomadil hvergi við sögu. En ef við færum að öðru leiti að þínum ráðum, mundum við þá ekki enda uppi með Mad Max ll ?

Svanur Gísli Þorkelsson, 17.3.2009 kl. 03:13

2 Smámynd: Árni Matthíasson

Jamm, það er stundum gaman að vera önugur.

Þetta er rétt athugað hjá þér, Tom Bombadil / Iarwain Ben-adar / Forn / Orald er ekki í myndinni enda hefur Nýsjálendingurinn Peter Jackson ekki fallið fyrir Oxford-rómantíkinni.

Hvað Mad Max II varðar þá sá ég það fyrir mér að þessi loðmollubók gæti kannski orðin hæka:

Hringur
týndur, fundinn
teygður lopi, slitinn

Árni Matthíasson , 17.3.2009 kl. 14:17

3 identicon

Það er nú þegar búið að ráðast í hressilegar styttingar á þessum bókum

Sjá Book-a-minute:

Henrý Þór (IP-tala skráð) 17.3.2009 kl. 18:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Árni Matthíasson
Árni Matthíasson
Skoðanir á mönnum og málefnum á þessari síðu eru birtar með opnu notendaleyfi. Öllum er heimilt að tileinka sér þær og halda þeim fram sem sínum eigin.
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband