Miðvikudagur, 4. janúar 2006
Karlmennskan óbeisluð
Fræg eru þau ummæli Dino De Laurentiis: "When the monkey die, everybody cry", sem hann lét falla um endurgerð sína af King Kong frá 1976. Laurentiis var þá að vísa í Jaws, enda felldi enginn tár þegar óvætturinn sá gaf upp öndina ólíkt því þegar apinn mikli fellur til jarðar í King Kong Peters Jacksons sem ég sá í gærkvöldi með félögum mínum.
Jackson er um margt gallaður kvikmyndagerðarmaður eins og sást af sögunni um Frodo og félaga hans þar sem langdregnar bardagasenur voru að drepa mann, sérstaklega í þriðju og síðustu myndinni (mér fannst hún miklu betri er ég horfði á hana í annað sinn, enda þá með fjarstýringu og gat hraðspólað yfir mesta bardagaruglið). En í Kong tekst honum býsna vel upp, missir reyndar aðeins um miðjuna, en annað er fyrsta flokks, ekki mikið innihald en þess meiri og glæsilegri umbúðir.
Ágætt dæmi um það hve Jackson á erfitt með sig var hremmingar leitarmanna á ferð um eyna, fyrst glíma við risaeðlur og svo ógeðsleg skorkvikindi og mannætusæbjúgu (vel lýst á Salon: " ... a squad of vicious sea-cucumber-type things that resemble uncircumcised penises outfitted with vagina dentata. Sjá hér. ) Mér Jóhanni Páll bíófélagi minn líka lýsa þessu vel: Allt of mikið dýralíf um miðjuna.
Það má reyndar líta á þennan langdregna eltingarleik og skrímslastríðið sem gamaninnskot því Jackson er býsna mikill húmoristi. Þannig er í myndinni fjöldi broslegra smáatriða og þá ekki bara mannskapurinn á skipinu (upp til hópa skrípamyndir) heldur einnig hinar merkingaþrungnu setningar sem hann skýtur inn í hér og þar, nefni sem dæmi það sem Carl Denham (Jack Black) segir við Ann Darrow (Naomi Watts) þegar hann gefur henni að borða (makkarónur með osti): "You're the saddest girl I've ever met."
Fyndin tilgerð en mjög í takt við myndina - í henni er allt stórskorið, ekki bara apinn. Þau atriði þar sem skipið er við að steyta á höfuðskeljasker eru þannig frábærlega útfærð og ná vel að draga það fram hve menn eru í raun hjálparvana í greipum hafsins, sama hve skipið er stórt eða traustbyggt. (Gaman væri að sjá Jackson glíma við hvíta hvalinn.)
Mér finnst hann líka fara vel með frumbyggjana sem eru gersamlega búnir á sálinni eftir nábýlið við Toru Kong (ætlaði að segja sál og líkama, en þeir voru nú margir býsna massaðir sem er svosem á skjön við ömurlegar aðstæður).
Mér skilst að Jackson hafi ætlað sér að gera King Kong áður en hann tók til við hringaþríleikinn mikla og hugsanlega hefði myndin verið betri þá, ekki eins miklir peningar og fyrir vikið ekki eins mikið tölvudót.
Það er svo langt síðan ég sá fyrstu myndina (af myndbandi) að ég man varla eftir henni en þó það að í henni var apinn ófreskja og ekkert reynt að vekja samúð með honum. Í myndinni hans Laurentiis, sem John Guillermin leikstýrði, er höfuðáherslan lögð á samband fríðu og dýrsins og eins í myndinni hans Jacksons - ástin milli þeirra Kong og Darrow er ekki andleg. Apinn mikli karlmennskan óbeisluð, þrótt- og kraftmikil, og stúlkan girnilegur biti fyrir slíkan hlunk.
Þegar King Kong fyrsti var sýndur var þekkt minni í bandarísku samfélagi hve blökkumenn þráðu að hafa mök við ungar ljóshærðar stúlkur, ímynd hreinleika og fegurðar. Það var því vel til fundið að nýta sér þennan undirliggjandi ótta og Kong-höfundar voru ekki einir um það - á næstu árum var gerður grúi slíkra mynda þar sem mis-hávaxinn api réðst á fáklæddar stúlkur, til að mynda Bride of the Gorilla (1951), Nabonga (1944), Zamba (1949) og Konga (1961). Sumar þessara mynda gengu býsna langt í átt að erótíkinni, enda kjörið tækifæri til að sýna túttur þegar menn voru að sýna myndir af frumstæðum ættbálkum, og sumar nánast alla leið eins og sjá má á myndinni sem fylgir, en hún er úr kanadísku myndinni Tanya's Island frá 1980.
(Kannski viðeigandi að minnast þess að í King Kong mynd Laurentiis léku tvíturnarnir í New York eitt aðalhlutverkanna, þessir miklu minnisvarðar um græðgi áttunda áratugarins sem sýnast nú í öðru ljósi er maður sér þeim bregða fyrir í gamalli kvikmynd. Svona leikur sagan okkur, snýr ólund í einskonar trega.)
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkur: Bloggar | Breytt 20.4.2006 kl. 12:48 | Facebook
Tenglar
Vefgreinar
- Dont Legalize Drugs by Theodore Dalrymple, City Journal Spring 1997 Advocates have almost convinced Americans that legalization will remove most of the evil that drugs inflict on society. Dont believe them. City Journal - Spring 1997
Vefmiðlar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 4
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 4
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.