Enginn er annars bróðir í leik

Góð þykir mér sú ábending að tónlistin sé fögur en mögur, enda verður seint sagt að það sé vel borgað starf að vera tónlistarmaður. Vissulega nær nokkur hópur því að verða vinsæll og vellauðugur, en fyrir hvern einn sem nær því eru tugþúsundir sem svelta hálfu hungri þar til þeir gefast upp, fara að afgreiða í plötubúð eða hverfa til annarra starfa.

Skýringin á því hvers vegna svo erfitt er að lifa af því að vera tónlistarmaður hér á landi liggur eiginlega í augum uppi - í landi þar sem ekki búa fáir neytendur er aldrei hægt að selja margar plötur. Málið er þó ekki svo einfalt, því úti í heimi, þar sem neytendur eru margir, er ekki endilega auðveldara að lifa af músík, til að mynda vestan hafs. Þar kemur margt til, til að mynda mikill markaðskostnaður, en líka það hve tónlistarmenn fá litla sneið af kökunni þegar sölutekjum er skipt. Kíkjum á dæmi:

Tónlistarmaður fær ákveðna prósentu af smásöluverði plötu, mis-háa prósentu eftir því hvernig samning hann er með við viðkomandi útgáfu. Alla jafna fá menn í kringum 10% af smásöluverðinu, en það er reyndar að frádregnum ýmsum kostnaði. Til að mynda er dreginn frá kostnaður vegna umbúða, sem er jafnan fjórðungur af smásöluverðinu, dreginn er frá kostnaður vegna affalla í flutningi, þ.e. diska sem skemmast í flutningi (10%), og  dreginn er frá kostnaður vegna "nýrrar tækni" sem settur var á þegar geisladiskar komu á markað og er enn í notkun, 25% þar. Þegar upp er staðið fær listamaðurinn því 10% af helmingi smásöluverðsins. Ekki þarf að taka fram að hann fær ekkert fyrr en búið að er að selja plötur upp í allan kostnað af af framleiðslunni, upptökum hljóðvinnslu og frumeintaki, og svo ákveðinn hluta af markaðskostnaði, til að mynda myndbandagerð og álíka. Gefur augaleið að margt af þeim frádrætti sem hér er tíndur til er útí hött, til að mynda frádráttur vegna nýrrar tækni og eins eru afföll vegna flutninga langt frá því að vera 10%, þó þau hafi kannski nálgast það á meðan menn voru enn að fást við lakkplötur.

Margir tónlistarmenn hafa gert sér vonir um að sala á Netinu myndi skila þeim stærri sneið af kökunni, enda kostnaður þar allt annar; dreifing kostar ekki nema brot af því sem kostar að dreifa tónlist á plötum eða diskum, engin afföll eru vegna afffalla í flutningi, umbúðir kosta ekkert og svo má telja. Raunin hefur þó verið önnur, því smásalar á tónlist á Netinu, þar fremst í flokki Apple fyrirtækið, hafa séð sér leik á borði og maka nú krókinn.

Undanfarna mánuði hafa útgefendur glímt við Apple um að hafa verðlagningu fjölbreyttari innan iTunes, hafa meðal annars lagt til að eldri tónlist sé seld á 60 sent og 80 sent, en nýrri og vinsælli tónlist á hærra verði en 99 sent. Þeir segjast einnig vilja geta boðið tónlist nýrra listamanna á sérstöku kynningarverði. Apple-menn hafa hinsvegar staðið fast á sínu - hvert lag kosti 99 sent. Síðustu fréttir benda til þess að þeir muni hafa sitt fram, enda hafa þeir hótað því að þau fyrirtæki sem krefjist breyttrar verðlagningar verði einfaldlega ekki með í iTunes.

Þegar Apple selur lag í gegnum iTunes fær fyrirtækið 35% af þeim 99 centum sem hver lag selst á, 26 kr. af þeim 77 sem lagið kostar skv. meðalgengi þegar þetta er skrifað. Útgefandinn fær þau 65% sem eftir eru. Ólíklegt verður að teljast að inni í frádrætti sem fyrirtækið notar til að stækka sinn skerf séu fyrirbæri eins og umbúðakostnaður, enda er hann enginn, eða afföll, enda eru þau engin, en vel hugsanlegt að 25% frádráttur vegna nýrrar tækni sé enn inni.

Það þýðir þá að tónlistarmaðurinn fær minna fyrir sinn snúð en hann fékk forðum og því skiptir það hann litlu sem engu hvort tónlistin sé seld í gegnum iTunes, Sony-sjoppuna (Sony Connect) eða á diskum. Þegar iTunes er annars vegar fær útgefandinn fær aftur á móti minna, hefur til að mynda ekki sömu tækifæri til að nýta sér frumlegan frádrátt.

Fréttin sem þessi færsla tengist sýnir svo hvernig plötufyrirtæki starfa - Sony dregur af Allman bræðrum og Cheap Trick, og væntanlega tugum tónlistamanna annarra, kostnað vegna umbúða og dreifingar við netsölu þó hvorugu sé til að dreifa (og örugglega vegna nýrrar tækni). Fyrir tónlistarmenn hjá Sony skiptir því engu hvort tónlist sé seld á diskum eða á netinu með minni tilkostnaði en nokkru sinn hingað til, en fyrirtækin fitna. Á meðan tónlistarmenn leggja fyrirtækjunum lið í baráttu gegn dreifingu á tónlist á Netinu hagnast fyrirtækin meira á hverju lagi seldu á Netinu en á diskum með því að arðræna listamennina - enginn er annars bróðir í leik.

(Til skýringar má nefna að myndin sem fylgir er af umslagi Eat a Peach, bestu Allman Brothers Band plötunni. Á henni er hið magnaða lag Little Martha þar sem Duane Allman fer á kostum, eitt af því síðasta sem hann tók upp.)


mbl.is Cheap Trick og Allman Brothers lögsækja Sony Music
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Tryggvi Thayer

Betri en Live at Fillmore East þar sem "In Memory of Elizabeth Reed" er svo læf að það bókstaflega andar? Tala nú ekki um CD útgáfuna þar sem "Mountain Jam" fær að fljóta með.

Tryggvi Thayer, 29.4.2006 kl. 01:58

2 identicon

Það er gaman að minnast á hljómsveitina The Books í þessu samhengi. Þó þeir fái almennt góða gagnrýni og fallega umfjöllun á stærri sölumörkuðum, þá segjast þeir sjálfir sjá meiri gróða af bolasölu en plötusölunni, sem hefur í þeirra tilviki alltaf verið frekar lítil. En þeir eru máski hljómsveit sem er of mikið á jaðrinum (hvað sem það þýðir) til að eiga von á mikilli sölu. Gróðinn sem þeir sjá er lítill þrátt fyrir að þeir sjái um tónlistarframleiðsluna alveg sjálfir og þurfi því ekki að eiga við hljóðverskostnað og "frumlegri frádrátt" stórfyrirtækja.

Halli (IP-tala skráð) 29.4.2006 kl. 06:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Árni Matthíasson
Árni Matthíasson
Skoðanir á mönnum og málefnum á þessari síðu eru birtar með opnu notendaleyfi. Öllum er heimilt að tileinka sér þær og halda þeim fram sem sínum eigin.
Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.12.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband