Pjátur og látún

Tónlist er list en hún er líka varningur. Hún byggist á beislun hins óræða og óáþreifanlega en þarfnast hins áþreifanlega og hversdagslega til að listamaðurinn sem skapar geti haft af henni eitthvert viðurværi og eins að gera þeim kleift að njóta listarinnar sem vilja. Þetta tvennt togast jafnan á, gleymum því ekki að fremstu listamenn hafa skapað sín helstu verk eftir pöntun og til að hafa í sig og á, en um hver jól nær hið síðarnefnda yfirhöndinni.

Ekki þarf að orðlengja það hve kjánalegt það er þegar list er metin á mælikvarða íþrótta, hver selur mest eða hraðast eða víðast. Skondin var til að mynda sú markaðssetning á skáldverki fyrir jól að hún væri helst eiguleg fyrir það í hve mörgum löndum hún myndi hugsanlega koma út. Eins má segja með tónlistina, því þó það sé fréttnæmt ef íslendingum gengur vel verður listaverk ekki merkilegra fyrir það að margir vilji eiga það.

Bóka- og plötuútgáfa hér á landi nær jafnan hæst síðustu mánuðina fyrir jól, enda kemur þá út obbinn af þeim bókum og plötum sem koma út á hverju ári. Skýring á þessu er aðallega sú að jólamarkaðurinn er aðallega gjafamarkaður, þ.e. fólk er að kaupa bækur eða plötur til að gjafa en alla jafna síður fyrir sjálft sig.

Þetta má til að mynda sjá á því hvernig Tónlistinn, sem birtur er vikulega í Morgunblaðinu og byggist á sölutölum úr nokkrum helstu plötuverslunum, gerbreytist um hver áramót. Síðasti listi ársins er þannig allt öðruvísi en fyrsti listi næsta árs enda eru fjöldi eintaka sem skilað dreginn frá þeim sem keypt eru og oftar en ekki mikill halli (mínustala). Þannig háttaði því svo til á tónlistanum fyrir 52. viku liðins árs að nærfellt allar metsöluplöturnar voru horfnar sem sátu á toppnum í 51. viku. Ekki var nema ein plata eftir, plata Magnúsar Þórs Sigmundssonar, sem bendir til þess að þá plötu hafi fólk fyrst og fremst verið að kaupa fyrir sjálft sig (þó víst geti það verið að þeir sem gefið hafa þá plötu séu naskari að velja gjafir en gengur og gerist). Það er svo ekki nema eðlilegt að þær plötur sem mest seljast séu og þær plötur sem mest er skilað.

Snar þáttur í markaðssetningu gjafamarkaði, eins og háttar með íslenskan plötu- og bókamarkað, er að vekja athygli á því hvað sé vinsælast, hvað flesta langi til að fá í jólagjöf. Gæði eða listrænt inntak hugverkanna sem um ræðir skiptir vissulega einnig máli, en minna máli. Þegar bækur eru annars vegar er það gert með bóksölulistanum og með auglýsingum um að upplag sé búið og því meiri spenna eftir því sem hærri raðtölu er skeytt framan við. Á plötumarkaði, sem er meginviðfangsefni þessa pistils, nýta menn Tónlistann og auglýsa vel hvar þeirra plötur hafa lent, en líka eru þeir duglegir við að senda frá sér fréttatilkynningar um plötusölu, sérstaklega ef hægt er að skreyta slíkar tilkynningar með gulli og platínu.

Veittar eru tvær viðurkenningar fyrir plötusölu, annars vegar gullviðurkenning fyrir 5.000 seld eintök og svo platínuviðurkenning fyrir 10.000 seld eintök. Nú er málum svo háttað á plötumarkaði að plötur eru almennt seldar með skilarétti, þ.e. annarsvegar hafa verslanir alla jafna heimild til að skila til útgefanda óseldum eintökum og svo hinsvegar hafa viðskiptavinir skilarétt á þeim plötum sem þeir hafa keypt eða fengið að gjöf. Um þetta gilda ýmsar reglur sem þarflaust er að tíunda hér, en gefur augaleið að erfitt er að gefa upp af nokkurri nákvæmni hve mikið hefur selst af plötu á þeim tíma sem mest sala er í gangi (gleymum því ekki að að þær plötur sem mest seljast séu og þær plötur sem mest er skilað).

Í raun er eini marktæki mælikvarðinn á árssölu á plötu sú tala sem útgefandinn gefur upp við STEF, Samband tónskálda og eigenda flutningsréttar, að loknu ársuppgjöri, því hann þarf að greiða höfundarréttargjöld af þeirri tölu og þá kostar skreytnin (helstu útgefendur greiða aðeins af seldum eintökum, aðrir af hverju framleiddu eintaki). Dæmi eru um það að uppgefin sala við STEF hafi verið lægri en auglýst var og tilkynnt fyrir jólin á undan og jafnvel að listamenn hefðu þurft að skila gullplötu sem þeir fengu afhenta ef nokkur hefði gengið eftir slíku.

Þrátt fyrir þennan vankanta, þ.e. að erfitt sé að meta hve mikið hefur raunverulega selst af plötu í miðri jólaösinni, hafa útgefendur ekki hikað við að gefa hástemmdar yfirlýsingar um glæsilega sölu og raðað á listamenn sína gull- og platínuplötum. Í því tilviki eru þeir að notfæra sér að plötumarkaðurinn fyrir jól er gjafamarkaður að stærstum hluta, eins og getið er, og því skipti máli að koma því sem best á framfæri hvað sé vinsælast.

Vissulega hafa þeir nokkuð til síns máls, því seld plata er seld plata á því augnabliki sem hún er seld, og í mörgum tilfellum, kannski flestum, eru sölutölurnar sannar þegar þeim er slegið fram, þó framtíðin eigi kannski eftir að leiða annað í ljós. Á móti kemur að söluviðurkenningar eins og gull- eða platínuplötur hljóta að þurfa að byggja á traustari grunni en æsing jólavertíðar. Það er varla skemmtilegt fyrir listamann að hafa hangandi upp á vegg hjá sér gullplötu sem er er í raun glópagull og ekki sanngjarnt gagnavart plötukaupendum að viðurkenningar sem alla jafna hafa notið virðingar skuli verðfelldar með þessum hætti.

Í eina tíð staðfesti samband hljómplötuframleiðenda söluna sem lá að baki gull- og platínuviðurkenningum, en ekki veit ég hvaða háttur er hafður á núorðið. Mín tillaga er sú að menn láti af þessu gull- og platínuskrumi fyrir jólin og geri að alvöru viðurkenningum að nýju. Vilji þeir hengja skraut á listamenn sína fyrir jól má eins kalla það látúns- og pjáturplötur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Árni Matthíasson
Árni Matthíasson
Skoðanir á mönnum og málefnum á þessari síðu eru birtar með opnu notendaleyfi. Öllum er heimilt að tileinka sér þær og halda þeim fram sem sínum eigin.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband