Kvikmyndafyrirtæki í tilvistarkreppu

Kvikmyndafyrirtæki eru komin í sömu tilvistarkreppu og plötufyrirtæki hvað varðar dreifingu á efni yfir netið. Undanfarin ár hafa menn getað sótt sér kvikmyndir á netinu jafnharðan og þær hafa verið frumsýndar og oft nokkur áður en þær koma á almennan markað. Ekki er svo bara það að hægt hefur verið að finna myndirnar á netinu heldur hefur einnig verið hægt að kaupa þær á mörkuðum og hjá götusölum víða um heim löngu áður en þær koma á markað. (Það er reyndar ekkert nýtt, ég keypti From Dusk Till Dawn á VHS spólu á Brick Lane markaðnum nokkrum dögum eftir að hún var frumsýnd vestan hafs 1996.)

Framan af var tiltölulega algengt að menn væru að dreifa Cam-útgáfum, þ.e. myndum sem teknar voru upp á stafrænar vídeóvélar í bíói og gæðin eftir því. Það var reyndar eitt af atriðinum í átaki kvikmyndaframleiðenda gegn ólöglegri dreifingu á bíómyndum að leggja áherslu á hve gæðin á slíkum myndum væru lítil. Sá tími er þó löngu liðinn og nú lítur enginn við Cam-útgáfum, allir vilja DVD-ripp af myndum, þ.e. afrit sem tekið er af DVD disk með viðkomandi mynd, en af slíku er alltaf slatti í gangi, ýmist sem eintök sem send eru til gagnrýnenda, til meðlima kvikmyndaakademíunnar vegna óskarsverðlauna, eða til bíóhúsa víða um heim.

Dreifing á kvikmyndum á Netinu er orðin álíka algeng og á tónlist sýnist mér, þó framboðið sé vitanlega minna og enn sem komið er fátítt að menn sendi heilar myndir sin á milli í tölvupósti. Annað sem spilar hér inní er lítil apparöt sem hægt er að nota til að horfa á kvikmyndir, því þó lengi hafi verið hægt að fá DVD ferðaspilara er nú ekki þverfótað fyrir spilastokkum sem sýnt geta kvikmyndir, allt frá iPod í Archos. Sumir framleiðendur slíkra tækja vilja vingast við kvikmyndaframleiðendur, til að mynda Apple sem leggur talsvert uppúr að dreifa tónlist og kvikmyndum í DRM-umbúðum. Aðrir vilja vingast við notendur og gera þeim kleift að horfa a það sem þeir vilja, til að mynda Archos sem spilarar frá þeim framleiðanda spila DiVX:), og Creative, en nýr spilari frá Creative, Zen Vision:M, sem er býsna flottur, spilar eiginlega hvað sem er.

Innlegg í þessa umræðu var er Steven Soderbergh frumsýndi mynd sína Bubble vestan hafs um daginn. Sú mynd er merkileg fyrir ýmislegt. Soderberg notar þannig ekki atvinnuleikara, heldur eru áhugaleikarar í öllum hlutverkum og myndin tekin upp á stafrænar vélar og unnin í háskerpu. Kostaði enda ekki nema um 100 milljónir kr. sem er ævintýralega lítið fyrir kvikmynd þar í landi. Mesta byltingin er þó að myndin kom út á DVD og var sýnd á kapalstöð daginn eftir að hún var frumsýnd. Stóru kvikmyndahúsakeðjurnar vestan hafs neituðu að sýna myndina enda þykir mönnum þar á bæ þetta háttarlag ógnun við framtíð sína.

Alla jafna hafa menn hagað því svo að fyrst er mynd frumsýnd í kvikmyndahúsi, nokkru síðan er hún gefin út á sölumyndbandi og þá fer hún í sjónvarp. Þetta er einfölduð mynd af því hvernig kvikmyndir eru markaðssettar, en almennt er reglan sú að hver sérmarkaður er mjólkaður eftir megni áður en haldið er inn á þann næsta. Þetta módel er nú búið að syngja sitt síðasta og gildir einu þó menn reyni að neita því að breytingin sé að eiga sér stað eins og stóru bíóhúsakeðjurnar og samtök myndrétthafa. Málsóknir og kergja munu ekki koma í veg fyrir að fólk sæki sér myndir á Netið.

Það sem vakir fyrir aðstandendum myndar Soderbergs, sem högnuðust gríðarlega á netviðskiptum, er að spara sér kostnað vegna markaðssetningar myndarinnar. Með því að frumsýna hana, selja sjónvarpsrétt og gefa út á myndbandi nánast samtímis spara þeir mikið fé og þurfa því eðlilega ekki eins miklar tekjur til að skila góðum hagnaði. Ýmsir sem starfa í kvikmyndaiðnaðinum hafa reyndar rætt opinberlega að ástæða sé til að bregðast við og til að mynda er ekki langt síðan eitt stóru kvikmyndafyrirtækjanna lýsti því yfir að það myndi gefa myndir út samtímis á DVD og í sjónvarp. Hvort þar sé nog að gert þykir mér ólíklegt.

Kvikmyndafyrirtækin hafa skákað í því skjólinu að kvikmyndaskrár eru svo stórar að erfitt er að dreifa þeim um Netið. Það breytist þó hratt og ekki gott fyrir fyrirtæki að treysta á það að tæknin þróist eftir þeim hraða sem þau helst kjósa. Á þessu sviði, líkt og með tónlistina, geirir fólk það sem því langar, notar kvikmyndir eins og því finnst hentugast, og ef stórfyrirtækin svara ekki kalli tímans gera það aðrir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Árni Matthíasson
Árni Matthíasson
Skoðanir á mönnum og málefnum á þessari síðu eru birtar með opnu notendaleyfi. Öllum er heimilt að tileinka sér þær og halda þeim fram sem sínum eigin.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband