Miðvikudagur, 27. desember 2006
... úr allt annarri átt,
Árslistar eru til margs brúklegir en einna best nýtast þeir til að leita að nýrri músík, tónlist sem maður missti af á árinu eða hlustaði ekki nógu mikið á. Víst eru þeir oft svo almennar upptalningar að lítið er á þeim að græða, allir með nýju Dylan plötuna, Scott Walker (ein af þessum plötum sem kemst á lista án þess að menn geti hlutað á hana), Arctic Monkeys allstaðar, Yeah Yeah Yeahs líka og gott ef Band of Horses er ekki á öllum listum.
Skemmtilegast er að rekast á eitthvað sem maður þekkir ekki, að ekki sé talað um ef það er mikil snilld, og þó það gerist því miður ekki oft verður það æ algengara, hugsanlega vegna netvæðingar heimsins, skyndilega opnast fyrr mönnum að til er heill heimur tónlistar sem er fersk, framandlega og spennandi, við þurfum ekki að sitja föst í vestrænni rokkformúlu eða iðnaðarpoppi.
Það er kannski óskhyggja, en síðustu ár hefur mér sýnst ég sjá breytingu á árslistum hjá helstu plötuverslunum á Netinu og gott dæmi árslisti Amazon netverslunarinnar, þar sem tíundaðar eru bestu plötur að mati tónlistarritstjórnar verslunarinnar. Þegar skoðaðar eru þrjátíu bestu plöturnar gefur að líta allt það sem búast mátti við, Dylan, Beck, TV on the Radio og Hold Steady, svo dæmi séu tekin, en kemur á óvart hve margar plötur eru úr allt annarri átt, frá öðrum löndum en þessum venjulegu, Bandaríkjunum og Bretlandi. Fimm plötur er með breskum listamönnum, fjórtán bandarískar, en síðan eru plötur frá ýmsum löndum, ein frá Kanada, ein frá Venesúela, ein frá Ástralíu, tvær frá Malí, ein frá Mexíkó, ein frá Frakklandi, ein frá Noregi og þrjár frá Brasilíu.
Væntanlega þekkja margir kanadísku söngkonuna Neko Case, frönsku sveitina Gotan Project og Ástralina í Wolfmother. Eins má gera ráð fyrir því að einhverjir kannist við norska söngvarann Sondre Lerche og Malímennina Ali Farka Toure og Toumani Diabate, en sá fyrrnefndi lék eitt sinn hér á landi. Væntanlega þekkja svo fáir venesúelsku fjörkálfana í Los Amigos Invisibles, sem sendu frá sér stuðplötuna Superpop Venezuela og rataði á lista Amazon - blanda af fönki, dansdjass, merengue og diskó, en lögin á skífunni, sautján alls, eru einskonar saga venesúelsks vinsældapopps síðustu áratuga. Eins geri ég ráð fyrir að fæstir kannist við mexíkóska parið Rodrigo Sanchez og Gabriela Quintero, sem hafa þó náð hylli á Írlandi sem Rodrigo y Gabriela, en þau leika líflegt kassagítarpopp og taka meðal annars Zepplin-lummuna Stairway to Heaven og Metallicu-lagið Orion á síðustu skífu sinni.
Af öðru forvitnilegu sem Amazon tínir til er þrjár skífur brasilískar; Tropicalia-safnplata, ný plata Badi Assad og einkar skemmtileg plata CSS, Cansei de Ser Sexy, sem er upp full með nýbylgjukenndu dansskotnu rokki - frábær plata.
Í áratugi hafa útgefendur skammtað okkur tónlist sem iðulega var frekar að sem þeim hentaði að selja frekar en það sem okkur langaði til að heyra og nú þegar netið hefur rutt þeim úr vegi að mestu uppgötvar maður ótalmargt nýtt, hvort sem það er á MySpace, YouTube.com, eMusic, Pitchforkmedia, Stylus Magazine, mundanesounds eða einhverju af þeim milljón músíkbloggum sem dreifa mis-löglegri tónlist.
(Þess má geta að Cansei de Ser Sexy, sem er á meðfylgjandi mynd, heitir eftir heimskulegu tilsvari Beyonce sem sagðist eitt sinn vera leið á því að vera kynþokkafull, cansei de ser sexy upp á portúgölsku.)
Tenglar
Vefgreinar
- Dont Legalize Drugs by Theodore Dalrymple, City Journal Spring 1997 Advocates have almost convinced Americans that legalization will remove most of the evil that drugs inflict on society. Dont believe them. City Journal - Spring 1997
Vefmiðlar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (18.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 4
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.