Stanislaw Lem, 1921 - 2006

Einu sinni las ég mikið af vísindaskáldsögum, svo mikið að ég las þær eiginlega mér til óbóta, sérstaklega af bandarískum vísindaskáldskap frá sjötta og sjöunda áratugnum. Þær bækur voru upp fullar með gríðarlegri bjartsýni og trú á manninn, að vísindin myndu sigra allt, leggja heiminn að fótum okkar, þ.e. þeirra okkar sem vorum svo heppin að búa í Bandaríkjum Norður-Ameríku.

Þegar mest var átti ég sennilega á fjórða þúsund vísindaskáldsagna sem ég hafði safnað frá því ég las fyrstu vísindaskáldsöguna á tíunda ári (The Voyage of the Space Beagle eftir Alfred Elton Van Vogt. Þegar ég sá Alien löngu síðar kannaðist ég við söguþráðinn, enda er sú mynd bygð á síðasta hluta bókarinnar).

Á endanum óx ég upp úr vísindaskáldskapnum og losaði mig við allar bækurnar á nokkrum dögum, seldi Ingvari á Laufásveginum þær. Þær fóru þó ekki allar; ég hélt eftir öllu sem átti eftir Philip K. Dick, nokkrum bókum eftir Jack Vance, Clifford Simak, Robert Sheckley og reyting af öðrum höfundum sem mér fast eitthvað spunnið (enginn Heinlein, Asimov, Pohl, Varderman, Niven eða Farmer). Tvo höfunda hélt ég mest upp á, og finnst merkilegir enn þann dag í dag, Philip Kindred Dick og Stanislav Lem, en sá síðarnefndi er einmitt kveikjan að þessum skrifum, því hann lést í vikubyrjun, háaldraður. Dick er löngu látinn.

Stanislav Lem var pólskur, lifði heimsstyrjöldina síðari og bjó í alræðisríki. kemur væntanlega ekki á óvart að hann hafði tölvuvert aðra sýn á heiminn en amrískir vísindaskáldsagnahöfundar, átti til að mynda ekki þá barnalegu trú á vísindin sem gegnsýrði skrif samhöfunda hans eða var eins bjartsýnn á mannlegt eðli. lem var efahyggjumaður á flest og þess sér stað í bókum hans. Einna þekktust er sjálfsagt bókin Solaris, sem hefur verið kvikmynduð tvívegis, fyrst af Andrei Tarkovskíj 1972 og síðan af Steven Soderbergh 2002.

Stanislaw LemBáðar myndirnar eru prýðilegar, sú fyrrnefnda þó betri finnst mér, en hef reyndar ekki séð hana síðan ég sá hana í MÍR fyrir tuttugu átum eða svo. Þær eru þó báðar nokkuð á skjön við inntak bókarinnar að mér finnst - að mínu viti snýst Solaris um það að þrátt fyrir leit að vitsmunalífi um alheiminn muni menn aðeins finna sjálfa sig, ef svo má segja, aðeins skilja það sem passar í ramma mannlegrar þekkingar.

Fyrir stuttu las ég skemmtilega bók eftir Lem sem ég fann á útsölu í Bóksölu stúdenta, Highcastle: A Remembrance, þar sem Lem skrifar um æsku sína eins og hann man hana, en bókin nær fram til 1940. Bókin er ekki venjuleg ævisaga, heldur tilraun Lems til að draga fram úr skúmaskotum minnis síns raunsanna frásögn af því hvernig æsku hans var háttað, reyna gefa hlutlausa mynd af sannleikanum sem er vitanlega óráð, eins og hann játar í lokin; minnið er ekki vinur okkar, frekar óvinur, samskipti okkar við minnið er eins og hesta sem fara vilja hvor sína leið með vagninn, segir hann. (sama samlíking reyndar og hann notaði um Tarkovskíj og sig í viðtali um kvikmyndum Solaris skömmu eftir að hún var frumsýnd.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Baldur Kristinsson

Lem var frábær rithöfundur en þó fyrst og fremst mjög fjölhæfur hugsuður sem bara svo vildi til að kom hugmyndum sínum á framfæri í skáldverkum. Hann sameinaði tvær dyggðir sem því miður fara sjaldan saman: frjótt ímyndunarafl og rökvísi. Hann hefði átt skilið að fá Nóbelsverðlaun, og ég held það hafi einunigs verið vegna þess lágmenningarstimpils sem vísindaskáldskapur virðist fá í hugum menningarvita, að hann gerði það ekki.

Baldur Kristinsson, 31.3.2006 kl. 00:50

2 Smámynd: Steinn E. Sigurðarson

Vel athugað Baldur, góður vísindaskáldskapur getur nefnilega verið mjög áhugaverður vettvangur fyrir góðar hugmyndir, verst hvað margir vísindaskáldsagnahöfundar hafa fengið stærri skammt af frjórri hugsun en rökvísi.

Steinn E. Sigurðarson, 31.3.2006 kl. 13:22

3 identicon

Svo las ég allar bækurnar þínar, og er örugglega ennþá með nokkrar sem ég hef alltaf ætlað að skila síðan ég fékk þær lánaðar fyrir 15-20 árum. En mér heyrist á þér að þú hafir ekki áhuga á þeim lengur þannig að ég held kannski í þær í nokkur ár í viðbót. Ég les nú ekki eins mikinn vísindaskáldskap og á unglingsárunum en enn finnst mér gott að leggjast í sófann með góðan sæfæarra þegar ég hef ekkert að gera. Það eru nokkrir nýlegir í geiranum sem hafa verið að endurvekja áhugann minn á vísindaskáldskap undanfarið. Mæli sérstaklega með Charles Stross og Cory Doctorow.

Tryggvi
http://blog.lib.umn.edu/thay0012/leapfrog/

Tryggvi Thayer (IP-tala skráð) 31.3.2006 kl. 21:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Árni Matthíasson
Árni Matthíasson
Skoðanir á mönnum og málefnum á þessari síðu eru birtar með opnu notendaleyfi. Öllum er heimilt að tileinka sér þær og halda þeim fram sem sínum eigin.
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband