Sunnudagur, 29. nóvember 2009
Sterkar konur óskast
Það eru viðtekin sannindi í bókaútgáfu að hinn dæmigerði lesandi er kona á miðjum aldri, áhugasöm um menningu og oftar en ekki langskólagengin. Þrátt fyrir það er bókmenntahefð okkar enn karllæg; þó blessunarlega sé sjatnað flóðið af mæðulegum þroskasögum ungra karla sem ætlaði okkur lifandi að drepa fyrir nokkrum árum, er fátt um sterkar konur að pakka inn fyrir þessi jól.
Það kemur í sjálfu sér ekki á óvart að lítið fari fyrir konum sem sögupersónum; af þeim íslensku skáldverkum sem ég hef lesið undanfarinn mánuð eða svo eru karlar í góðum meirihluta 38 á móti 19.
Flestar karlabókanna eru þroska- og baráttusögur karla sem þurfa að komast að því hverjir þeir eru (eða hverjir þeir voru), en inn á milli eru líka bækur sem eru með sterkum konum eða stúlkum í aðalhlutverki, til að mynda Svo skal dansa eftir Bjarna Harðarson, þar sem umkomulausar konur bogna en brotna ekki, og eins í sögunni hans Sindra, Dóttir mæðra minna, þar sem helstu sögupersónur eru konur sem takast á við mikil og erfið örlög.
Þá eru eiginlega upp taldar sterkar konur fyrir þessi bókajól, og þær eru í boði karla.
Í bókum kvenna birtast meiri gufur, nefni sem dæmi pasturslitla aðalpersónu Blómanna frá Maó eftir Hlín Agnarsdóttur, og höfuðpersónu Hins fullkomna landslags Rögnu Sigurðardóttur sem er óttalegur veifiskati (veifiskata?); hefur lítið sem ekkert frumkvæði þó hún sé alltaf að setja sig í skylmingastellingar (enda eru skylmingar nútímans í eðli sínu varnaríþrótt).
Í Góða elskhuganum hennar Steinunnar eru þrjár veigamiklar persónur, forvitnilegur karl, kona sem þýðist hann fyrir einhverjar sakir og svo geðlæknir, fínt efni í sterka sögupersónu, vel menntuð, gáfuð og ákveðin, en svo kemur það í ljós í bókinni að hún þráir ekkert frekar en gullhamra frá karlinum og þegar þeir loks koma er lífi hennar lokið.
Kristin Marja kemst eiginlega einna best frá þessu öllu saman í Karlsvagninum, þó hún sé frekar að velta fyrir sér kynslóðabili en bili milli karla og kvenna þá eru konurnar heilar og saga þeirra trúverðug.
Svo verður ekki annað sagt en að sú Auður djúpúðga sem birtist í samnefndri bók Vilborgar Davíðsdóttur sé mikið kjarnakvendi. Ég bíð spenntur eftir framhaldinu.
(Birtist í Morgunblaðinu 22. nóvember sl.)
Meginflokkur: Bækur | Aukaflokkur: Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:57 | Facebook
Tenglar
Vefgreinar
- Dont Legalize Drugs by Theodore Dalrymple, City Journal Spring 1997 Advocates have almost convinced Americans that legalization will remove most of the evil that drugs inflict on society. Dont believe them. City Journal - Spring 1997
Vefmiðlar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (18.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 4
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.