Sunnudagur, 29. nóvember 2009
Hvenær er Kani Kani?
Þrátt fyrir unglegt útlit og æskuþrótt man ég eftir Kananum gamla, útvarpsstöð sem rekin var af bandaríska herliðinu á Keflavíkur-flugvelli frá 1952. Á þeim árum sem ég byrjaði að spekúlera í músík var nóg af klassík í Ríkisútvarpinu, sem ég hlustaði og mikið á, en erfiðara að finna aðrar gerðir af tónlist. Þá kom Kaninn sér vel enda var þar að finna kalla eins og Casey Kasem, sem spilaði vinsældalista, Wolfman Jack og fleiri músíkmenn sem miðluðu til okkar þeirri tónlist sem vinsæl var vestan hafs.
Á þeim árum sem ég hlustaði hvað mest á Kanann, í upphafi áttunda áratugarins, var heilmikið að gerast í músíkinni og ekki bara popp; í bland við Kool and the Gang, Johnny Cash, Jimmy Buffet og Stevie Wonder fékk maður meira fjör frá Lynyrd Skynrd, Mike Oldfield, Led Zeppelin, Doors, Rolling Stones, Santana, Alice Cooper, Derek and the Dominoes, James Brown og KC and The Sunshine Band (víst voru þeir frábærir!).
Ég rifja þetta upp hér í kjölfar samtals sem ég átti við gamlan kunningja fyrir stuttu þar sem hann emjaði yfir músíkinni sem spiluð er á útvarpstöðinni Kananum sem byrjaði útsendingar nýverið. Það sem hann hafði helst út á stöðina að setja var að hún var ekki eins og gamli Kaninn, þ.e. að spila tónlist frá áttunda áratugnum (af einhverjum orsökum nefndi hann ekki tónlist frá sjöunda áratugnum, nú eða þeim sjötta þegar útsendingar hófust).
Í kjölfar þessa hlustaði ég á Kanann til að grennslast fyrir um hvað væri á seyði og ekki gat ég betur heyrt en að Kaninn anno 2009 væri nákvæmlega eins og Kaninn forðum, þ.e. að spila þá tónlist sem vinsælust er hverju sinni. Til gamans kannaði ég hvað væri efst á baugi hjá þeim Kanamönnum, það er útvarpstöðvum í herstöðvum Bandaríkjamanna víða í Evrópu. Þar eru menn við sama heygarðshornið, þ.e. að spila þá músík sem er vinsælust vestan hafs; listamenn eins og Shakira, Black Eyed Peas, Mariah Carey, Sean Paul og Pink, svo dæmi séu tekin. Að vísu sýnist mér og heyrist menn vera að spila meira rokk á þeim stöðvum en í Kananum íslenska, en það er þá alloft frekar þreytt iðnaðardót og lítið eftirsjá að því: Weezer, Bon Jovi, Pearl Jam og Linkin Park.
Það er gott að minnast gömlu daganna, en óheilbrigt að fagna ekki þeim nýju. Eitt það besta við músík er að hún er síbreytileg og þeir sem hafa gaman af tónlistinni tónlistarinnar vegna hljóta að fagna því að sífellt koma nýjar stefnur og nýir straumar. Þeir sem ríghalda í gamalt dót til að reyna að halda í æskuna ættu að skafa aðeins út úr eyrunum og gefa nútímanum sjens. Kananum líka.
(Birtist í Mogunblaðinu 24. nóvember sl.)
Meginflokkur: Tónlist | Aukaflokkur: Bloggar | Breytt 30.1.2014 kl. 09:50 | Facebook
Tenglar
Vefgreinar
- Dont Legalize Drugs by Theodore Dalrymple, City Journal Spring 1997 Advocates have almost convinced Americans that legalization will remove most of the evil that drugs inflict on society. Dont believe them. City Journal - Spring 1997
Vefmiðlar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Ég man afar vel eftir Kananum. Ég man vel þegar Heartbreak Hotel fór að koma þar fram vorið 1956. Elstu vinsældalistarnir voru kl. hálf tíu á laugardagskvöldum og hét The Big Top Ten. Fróðleiksmolar um Kanann: Sá sem sá um þáttinn sumarið 1956 var George Vobis. Þetta var amerískur listi sem kom frá New York og var bundinn herstöðvum. Seinna var listinn lengdur í 20 lög og var þá líklega Billboardlistinn. Í kananum mátti heyra um miðjan 6. áratuginn nýjasta poppið, hillbilly, hawaian tunes, rhythm and blues, swing, latin, dixieland, jazz, óperur og klassik. Aðalpopptíminn var á daginn frá kl. 3-hálf 5 og á kvöldin frá 9-10 eða hálf ellefu. Sú sem sá um kvöldið 1957 var hjúkka á vellinum, Patricia A. Feltz sem kölluð var Miss Melody enda sá hún um óskalög en á daginn réð Bob Strupe ríkjum en það voru ekki óskalög heldur réð hann lagavalinu. Dagskránni var oft breytt gegnum árin. Á næturna 1957 frá kl. hálf eitt og til morguns var þáttur sem hét Nite Owl Show og var Bill Jones með hann en Gary Mercer þegar kom frá á árið 1958. Útvarpsstjórinn árið 1959 var Frank Leary. Haustið 1960 hét dagspoppþátturinn Platter Party og var frá hálf fjögur til hálf sex. Þegar komið var fram á árið 1963 var vinsældalistinn Hit Parade kl. 10-11 á laugardagsmorgnum en Miss Melody, óskalögin, áfram á kvöldin frá 9-10. Um miðjan dag var þá kántrý músik og nýjasta poppið, fyrst kántrýið .Klukkan 13-14 var klassík alla daga og á sunnudögu var útvarpað frá Fílharmóníuhljómsveitinni í New York.
Sigurður Þór Guðjónsson, 29.11.2009 kl. 13:44
Sæll Siggi.
Eitt það besta við Kanann gamla var einmitt fjölbreytnin; það var hægt að heyra allan andskotann þar og hann tók líka talsverðum breytingum eftir því sem smekkur manna (dátanna) breyttist.
Árni Matthíasson , 29.11.2009 kl. 13:48
Það má bæta því við að stöðin fór fyrst í loftið 15. nóvember 1951 en var ekki alllan sólaarhringinn í fyrstu.
Sigurður Þór Guðjónsson, 29.11.2009 kl. 14:00
"This is Keflavik radio on 1485" Hver sem hlustaði í denn getur gleymt þessu?
Kveðja að norðan.
Arinbjörn Kúld, 29.11.2009 kl. 17:24