Skemmtilega bresk og blátt áfram

Ekki er langt síðan söngkonan Sandi Thom var á allra vörum fyrir "útsendingar" hennar yfir Netið sem gert hefðu hana að stjörnu. Á daginn kom að útsendingarnar fóru líklega aldrei fram, en segir sitt hvað menn eru spennir yfir þeim möguleikum sem Vefurinn gefur tónlistarmönnum að allir voru tilbúnir til að trúa því. Nú hampa menn söngkonunni Lily Allen sem nýtti sér Vefinn til að safna vinum og búa þannig í haginn fyrir tónlistarferil sem hófst svo með látum í vor. Það er og hið besta mál, því Thom er óttaleg tilgerðartuðra, umbúðir án innihalds, en Allen skemmtilega bresk og blátt áfram.

Lili Allen er dóttir breska grínarans Keith Allen, en hafði víst lítið af honum að segja sem barn þó það hafi komið góðs síðar. Eins og hún hefur lýst æsku sinni var hún á síðfelldu flandri með móður sinni, alltaf að flytja milli hverfa í Lundúnum, fædd í Hammersmith en segist hafa búið einhvern tíma í öllum hverfum meira og minna sem sést meðal annars af því að hún var í þrettán skólum á aldrinum fimm til fimmtán ára. Getur nærri að henni hafi reynst erfitt að eignast vini en hún fann sér fróun í bókmenntum og tónlist.

Allen varð snemma sjálfri sé nóg og þótti ódæl, reki úr skólum og strauk að heima, fór meðal annars á Glastonbury hátíðina þegar hún var fjórtán ára. þegar hún var fimmtán ára var ljóst að hún átti ekki heima í skóla og hætti, hékk heima og samdi lög. Það haust fór hún með fjölskyldunni í sólarferð til Ibiza og fékk síðan leyfi til að vera eftir, sagðist vera komin gistingu hjá vinum, en hún var í raun ein á ferð, bjó á farfuglaheimili, vann í plötubúð á daginn og seldi alsælu á kvöldin.

Á Ibiza komst hún í kynni við útsendara plötufyrirtækis sem kom henni á samning við  Warner útgáfuna, en hún heldur því fram sjálf að samninginn hafi hún fengið vegna ætternis fyrst og fremst. Þegar til Englands var komið komst hún síðan að því að Warner var eiginlegs ekki að semja við hana vegna hennar eigin tónlistar heldur voru menn þar á bæ að leita að stúlku í stúknahljómsveit sem heita átti Sugababes.

Þetta var nokkuð annað en Allen hafði ætlað sér og kemur kannski eki á óvart að ekkert varð úr útgáfu hjá Warner að svo stöddu og samningurinn felldur út gildi. Hún var þó ekki hætt að fást við tónlist, hélt áfram að semja og tók upp lög.

Haustið 2005 gerði hún annan samning, að þessu sinni við Regal Records, sem er reyndar í eigu sama risa og á Warner. Allen segir svo frá að þessi útgefandi hafi líka viljað móta hana eftir sínu höfði, fá þautreynda lagasmiði til að semja fyrir hana lög og útlitssmiði til að kenna hennu að klæða sig og hreyfa. Hún fór þó sínu fram, kom sér upp MySpace síðu og bloggaði það sem mest hún mátti á milli þess sem hún etti inn kynningarupptökur af lögum á væntanlega sólóskífu.

MySpace svínvirkaði, svo vel reyndar að varð kveikja að umfjöllun blaða og tímarita sem ýtti svo undir enn frekara umtal. Þegar fyrsta smáskífan, LDN, kom út í apríllok var hún með tilbúinn gríðarstóran áheyrendahóp sem skilaði laginu á toppinn á breska smáskífulistanum. Fyrsta stóra platan, Alright, Still, kom svo út fyrir stuttu, fyrst í takmörkuðu vínylupplagi 3. júlí sl. og síðan almenn útgáfa 17. júlí.

Þegar hlustað er á Alright, Still kemur vel í ljós hve fjölbreyttan tónlistarsmekk Lily hefur þar ægir öllum saman frá léttu sumarlegu poppi eins og í laginu vinsæla LDN, í skalega sveiflu eins og heyra má í upphafslagi plötunnar, Smile. Söngurinn er líka fjölbreyttur, alla jafna ekki svo langt frá talsöng að hætti Mike Skinner, en hún getur líka sungið. textarnir eru svo sérstakur kapítuli útaf fyrir sig, kæruleysislegir en þó útpældir. Garnan er fjallað niðrandi um fyrrverandi kærasta eða fyrrverandi vinkonur og fyrir vikið flokka sumir Allen sem bitchpop. Hún er þó ekki bara að syngja um sína fyrrverandi - sjá til að myndatextann við LDN þar sem meðal annars er sungið um að ekki sé allt sem sýnist; strákurinn sem tekur að sér að bera þungu bónuspokana fyrir gömlu konuna er að ræna hana.

There was a little old lady who was walking down the road
She was struggling with bags from Tesco
There were people in the city having lunch in the park
I believe that is called alfresco
Then a kid came along to offer a hand
But before she had time to accept it
Hits her over the head, doesn't care if she's dead
'Cause he's got all her jewelry and wallet

MySpace hefur dugað Lili Allen vel til að komast á samning, en þó takmarkinu sé eiginlega náð heldur hún áfram að skrifa inn á það og rétt að benda fólki á að kíkja þar inn, hún er oft hressilega hreinskilin og skemmtilega ósvífin, sjá: www.myspace.com/lilymusic.


Elvis Eþíópíu

Eitt af því skemmtilegasta við þá ágætu mynd Broken Flowers var tónlistin, óhemju fjölbreytt og skemmtileg blanda af tónlist úr ólíkum áttum. Innan um klassíkina, þungarokkið og poppið var sérkennileg blanda af djass, fönki og afrískum takti sem setti sterkan svip á myndina, undirleikur leitarinnar að tilgangi sem myndin snerist um. Blandan sú var með tónlist eftir eþíópískan tónlistarmann,  Mulatu Astatke, sem var meðal frumherja í eþíópískum djass.

Eþíópískur djass varð til á næturklúbbum Addis Ababa á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar þar sem menn bræddu saman bandaríska soul-tónlist, fönk og djass og þjóðlega eþíópíska tónlits. Þannig má heyra í músíkinni djassspuna, súran fönkgítar, fjölsnærðan afrískan takt og sjóðandi hammond. Mikið af tónlistinn er sungið, megnið jafnvel, og söngvararnir alla jafna framúrskarandi, enginn þó betri en Mahmoud Ahmed, sem er sennilega þekktasti tónlistarmaður Eþíópíu hér á Vesturlöndum og einn fremsti söngvari Afríku. Hann væri eflaust enn þekktari ef heimaland hans hefði ekki verið undir marxískri harðstjórn á níunda áratugnum og ill- eða ómögulegt að fá leyfi til að fara úr landi.

Mahmoud Ahmed er fæddur í Addis Ababa 1941, af Gouragué kyni, en sá þjóðflokkur býr í suðvesturhluta landsins.  Hann fékk snemma áhuga á tónlist en lítil tækifæri til að rækta þann áhuga. Hann aflaði sér aukatekna sem skóburstari og hafði það sem aðalstarf eftir að hann flosnaði upp úr skóla og fékk svo vinnu á Arizona næturklúbbnum í Addis Ababa 1962, fyrst sem sendisveinn og síðan í eldhúsinu.

Klúbbar eins og Arizona, sem voru eiginlega ólöglegir, urðu athvarf tónlistarmanna úr her- og lögreglulúðrasveitum og á Arizona var húshljómsveitin skipuð tónlistarmönnum úr lúðrasveit lífvarða keisarans. Söngvari með þeirri sveit var Tlahoun Gèssèssè, sem þá var mesta söngstjarna Eþíópíu, og hinn ungi Ahmed komst þannig í tæri við suma fremstu listamenn Eþíópíu á þeim tíma. Hann lærði prógrammið utanað og þegar Gèssèssè forfallaðist eitt sinn bað Ahed um að fá að taka lagið með sveitinni. Það gekk svo vel að áður en varði var hann kominn með fasta vinnu sem söngvari í lúðrasveit lífarðarins og söng með þeirri sveit í ellefu ár.

Haile Selassie hafði verið við völd áratugum saman, krýndur konungur 1928 og keisari 1930. Hann hafði beitt sér fyrir ýmsum umbótum sem voru ýmist of róttækar fyrir íhaldsöfl með orþódoxkirkjuna í broddi fylkingar, eða ekki nógu róttækar að mati menntamanna. Tilraun til stjórnarbyltingar var gerð 1960 að undirlagi manna í lífvarðasveit keisarans sem nutu stuðning róttækra menntamanna. Keisarinn brást við með ýmsum tilraunum til umbóta.

Ein greina menningar sem naut takmarkaðs frelsis var tónlistarútgáfu því frá 1948 hafði rikisstofnunin Agher Feqer Mahber, föðurlandsástarsambandið, haft einkarétt til að gefa út plötur og fyrir vikið voru allar plötur sem komu út með þjóðlegri tónlist nema þegar hylla þurfti keisarann.

Fyrstur til að rjúfa einkaréttinn var armenskur kaupmaður sem flutti til landsins segulbandstæki og byrjaði að taka upp helstu hljómsveitir og gefa út kassettur. Sporgöngumaður hans var ungur áhugamaður um tónlist, Amha Eshete, sem ákvað að stofna útgáfufyrirtæki og tók að hljóðrita þessa nýju gerð eþíópískrar tónlistar og gaf svo út smáskífur og stórar plötur á merkinu Amha. þetta var í upphafi áttunda áratugarins og á var Ahmed farinn að syngja með nýrri hljómsveit, Ibiz sveitinni, sem spilaði reglulega á Ras hótelinu í Addis Ababa. Forsvarsmenn ríkisútgáfunar mótmæltu þessu en keisarinn ákvað að láta útgáfuna afskiptalausa. Alls gaf Ahma Eshèté út 250 lög á 103 tveggja laga plötum og á annan tug af breiðskífum sem voru alla jafna söfn af smáskífum.

Þetta blómaskeið eþíópískrar tónlistar stóð þó ekki lengi því spenna hafði aukist í landinu smám saman - annars vegar voru menntamenn sem vildi róttækar breytingar á eþíópísku samfélagi og hins vegar íhaldssamir sem sáu upplausn og lausung í hverju horni og vildu færa flest í gamlar skorður. Eftir að upp komst að stjórnvöld höfðu leynt fyrir þjóðinni hungursneyð vegna þurrka í Wollo héraði 1972–73 jókst verulega fylgi við maríska róttæklinga og eftir ólgu í hernum var sett saman rannsóknarnefnd liðþjálfa til að leita úrbóta. Hún var ekki lengi að gera upp við sig hvað ætti að gera, steypti keisaranum og tók völdin, kom á marxískri harðstjórn í landinu og lét myrða Haile Selassie. Í Eþíópíu kalla menn harðstjórnarárin Derg-tíma, eftir nafni nefndarinnar. Einn nefndarmanna var Mengistu Haile Mariam, sem á heiðurssess meðal helstu harðstjóra og illvirkja mannkynssögunnar.

Eitt af því fyrsta sem hreinlífismarxistarnir bönnuðu var starfsemi næturklúbba og stóð það bann í fimmtán ár. Menn máttu taka upp tónlist en ekki spila hana opinberlega nema fyrir útenda gesti eða frammámenn innan stjórnarinnar. Hvað útgáfuna varðaði var skylda að á hverri plötu (snældu) sem gefin var út urðu að vera að minnsta kosti tveir lofsöngvar um stjórnvöld. Á endanum lagðist plötuútgáfa af að mestu og þegar Mengistu var loks steypt 1991 var eiginlega áþekkt ástand í eþíópískum tónlistarheimi og menn þekkja af ævintýrinu um Buena Vista Social Club - skoðana og menningarkúgun stjórnvalda varð til þess að ríkjandi vinsæl tónlistarstefna staðnaði, hætti að þróast og breytast í takt við tímann og flestir helstu tónlistarmenn landsins hættu að spila á besta aldri. Þegar menn síðan fara að kynna sér eþíópíska tónlist frá áttunda áratugnum er það eins og að taka sér far í tímavél eða rekast á týndan fjársjóð - tónlist sem stenst samanburð við að besta sem samið var og spilað annars staðar í heiminum með skírskotun í að sem almennt var á seyði í tónlist á þessum tíma en þó gersamlega einstakt, svo framandleg þrátt fyrir kunnuglega tilburði að hún hljómar sem tónlist frá annarri vídd.

Fyrst komust menn á Vesturlöndum almennilega í tæri við Mahmoud Ahmed með plötunni Erè mèla mèla sem Crammed Discs útgáfan belgíska gaf út 1986 og Hannibal gaf síðan út í Bretlandi. Á þeirri plötu syngur Ahmed með Ibiz hljómsveitinni, en platan var tekin upp 1972. Á síðustu árum hefur plötum með honum fjölgað nokkuð, en alla jafna eru menn að gefa út gamlar upptökur. Erè mèla mèla er sígild plata og afskaplega skemmtileg en líka er óhætt að mæla með Soul of Addis sem Earthworks gaf út fyrir áratug eða svo. Live in Paris hefur stundum fengist hér á landi, en á þeirri plötu eru tónleikaupptökur frá 1994.

Þó Mahmoud Ahmed hafi notið mikilla vinsælda hjá Eþíópíumönnum víða um heim er sá áhugi á eþíópískri músík sem opinberast í Broken Flowers ekki sprottinn af vinsældum hans heldur af áhuga eins manns, Francis Falceto, sem byrjaði að gefa út gamla eþíópíska tónlist 1997. Hann samdi við Amha Eshete um afnot af upptökum Amha útgáfunnar, þar á meðal umtalsverðu af tónlist sem aldrei var gefin út, og taldi forsvarsmenn Buda útgáfunnar frönsku á að hrinda úr vör útgáfuröð sem helguð yrði þessari gósentíð tónlistarinnar í Eþíópíu. Fyrsta platan hét líka Gullár nútímatónlistar og síðan hafa þær komið út fleiri, sú 21. nú í byrjun þessa árs. 7. platan í röðinni var Erè mèla mèla með Mahmoud Ahmed endurútgefin, en alls er þrjár plötur í útgáfuröðinni helgaðar honum, en hann á að auki stök lög á mörgum af plötunum.

Ekki hef ég heyrt alla seríuna, á sennilega tíu til fimmtán af plötunum, en af þeim sem ég hef heyrt bendi ég á 1. plötuna, þá 3., 4., 7. (Erè mèla mèla), 8. 14. og 17. en á henni er einmitt goðsögnin sjálf, Tlahoun Gèssèssè.

Tóndæmi er víða að finna, til að mynda hjá WPS1, sem er netúrvarp rekið í tengslum við  MoMA listasafnið í New York. Beinn tengill er hér, en einnig er vert að vísa á síðuna sem geymir safn útvarpsþáttanna - mikið af góðri og merkilegri músík þar.


Leiðakerfi andskotans

Gaman að þessu, Fyrst eyðileggja Vinstri Grænir strætó með Björk Vilhelmsdóttur í broddi fylkingar - taka upp leiðakerfi andskotans, og síðan vilja þeir leggja byggðasamlagið af.

 "Við hjá Strætó höfum mikla trú á þessu kerfi og erum í raun sannfærð um að þegar fólk kynnist því verði mikil ánægja með kerfið," sagði Björk Vilhelmsdóttir, þáverandi borgarfulltrúi vinstri græna innan R-listans og stjórnarformaður Strætó bs. í viðtali í Morgunblaðinu fyrir rétt rúmu ári. Hvað segir hún nú? En allir þeir mörgu merku sérfræðingar sem hún vitnaði svo gjarnan í?


mbl.is VG leggja fram tillögu í borgarráði um endurreisn Strætisvagna Reykjavíkur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gaman að gera ekkert

Menn hafa mikið rætt um Syd Barrett að undanförnu, sem er vonlegt, enda lést hann fyrir stuttu. Mér hefur löngum verið minnisstætt svar sem hann gaf í viðtali fyrir löngu:

What about the future, are you looking forward to singing and playing again?

S.B.: Yes that would be nice, I used to enjoy it. It was a gas, but so is doing nothing [...].

Viðtalið var víst tekið 1971 og birtist í Terrapin haustið 1974. Sjá hér.


Leyfi til að drepa

Merkilegur andskoti.

Sprengingar í Mumbai, á annað hundrað óbreyttra borgara ferst, mikil rannsókn, 300 handteknir.

Sprengingar í Beirút, hátt í hundrað óbeyttra borgara ferst. Enginn handtekinn.


Rottur!

Skemmtilegur pistill eftir Þormóð Dagsson í Morgunblaðinu í dag um þá merku menningarstarfsemi sem stunduð var í Siglufjarðarprentsmiðju á níunda áratugnum (Hasarblöðin frá Siglufirði). Þar var gefin út íslensk útgáfa hasarblaða, aðallega frá Marvel og DC Comics, meðal annars blöð um Tarsan og Korak son hans, Gög & Gokke, Superman, Hulk, Batman, Kóngulóarmanninn og Tomma & Jenna.

Eitt það skemmtilegasta við blöðin voru þýðingarnar sem voru oft frábærlega klaufalegar. Segir sitt að Superman var íslenskaður með því að skeyta n-i við titil blaðsins sem hét eftir það Supermann - merkilegur andskoti að láta hasarblað heita eftir heiti söguhetjunnar í þolfalli!

Eins var gaman að lesa (og nota upp frá því) upphrópanir eins og "úh-oh", "rottur!" og "ó, bróðir", sem Þormóður nefnir í grein sinni, og svo voru það setningar sem voru svo klunnalega þýddar að maður gleymir þeim ekki. Gott dæmi er eftirfarandi setning sem hraut af vörum Koraks í einu blaðinu: "Tennur mínar hlaupa í vatni."


Kurt Wagner = Lambchop

Lambchop er býsna skemmtileg sveit ættuð frá Nashville. Sveitin hefur verið að í fimmtán ár undir styrkri stjórn Kurts Wagners og sent frá sér átta plötur - sú níunda, Damaged, kemur út í lok ágúst.

Þó Lambchop hafi haldið sig að mestu við einskonar nýkántrí eða nútímalegt þjóðlagarokk hefur sveitin daðrað við flestar gerðir tónlistar í gegnum árin og stækkað og minnkað eftir þörfum - um tíma voru sautján manns í sveitinni en alla jafna eru þeir fimm. Undanfarin ár hefur Wagner verið venju fremur duglegur; til að mynda gaf Lambchop út tvær breiðskífur sama daginn í hitteðfyrra og plöturnar á þessu ári verða líka tvær - um daginn kom út b-hliðaplatan The Decline of Country and Western Civilization og eins og getið er kemur Damaged út eftir mánuð. Sú plata hljómar einkar vel, heyr til að mynda lagið Crackers.


Ensemble: taka tvö

Ensemble er listamannsnafn franska tónlistarmannsins Olivier Alary sem tók sér það fyrir átta árum um líkt leyti og hann fluttist til Lundúna. Til að byrja með notaði hann reyndar nafnið Hearing Is Our Concern og sendi til að mynda fyrstu prufu sína út undir því nafni til Fat Cat úgtáfunnar sem er Íslendingum að góðu kunn. Fyrsta platan, Sketch Proposals, kom þó út á vegum Rephlex Records árið 2000.

Sagan hermir að Björk Guðmundsdóttir hafi mikið hlustað á Sketch Proposals þegar hún vann að Vespertine og kemur ekki á óvart að hún fékk Ensemble til að véla um tvö lög af plötunni, Sun In My Mouth og Cocoon, sem voru síðan notuð sem b-hliðar. Ensemble samdi síðan með henni lag á Medulla, Desired Constellation, og gerði sérútgáfu af Triumph of a Heart.

Eins og getið er kom Sketch Proposals út fyrir sex árum en síðan ekki söguna meir - Olivier "Ensemble" Alary tók sér góðan tíma í að gera næstu skífu og það var ekki fyrr en í vor að hann lauk loks við hana eftrir þriggja ára upptökur víða um heim. Gestir á plötunni eru ýmsir, til að mynda Chan Marshall, sem flestir þekkja sem Cat Power, Lou Barlow Dinosaur Jr. bóndi og  Adam Pierce úr Mice Parade sem hefur einnig spilað með múm.

Lagið sem Cat Power syngur á plötunni heitir Disown, Delete og er öldungis frábært. Rakst á tengil á það á netinu en sá er týndur. Þessi virkar aftur á móti.


Natchez brennur

Hinn 23. apríl 1940 var haldin skemmtun í Natchez, smábæ í Mississippi, um 200 kílómetra norðvestur af New Orleans. Skemmtunin var í gamalli bárujárnsskemmu og neglt fyrir gluggana til að koma í veg fyrir að menn svindluðu sér inn. Skemman var um 70 metrar að lengd og á henni einar dyr, fyrir endanum, og eina loftræsingin var vifta sem blés lofti í átt að þeim dyrum. Í nokkur ár hafði verið rekin í henni hrynklúbburinn, The Rhythm Club, vinsæll staður til að skvetta úr klaufunum, en hann var ætlaður svertingjum.

Skemmst er frá því að segja að það kviknaði í mosaskreytingu sem var um allan skálann að innan. Mosinn sem notaður var, spánarmosi, sem er reyndar ekki mosi, er mjög eldfimur og klúbburinn, sem var troðfullur af fólki, varð alelda á svipstundu. Erfitt var fyrir fólk að komast út vegna troðnings og æsings og ekki bætti úr skák að dyrnar einu opnuðust inn og fyrir vikið komust fáir út. Alls létust 212 í brunanum, 212 negrar, eins og tekið var fram í dagblaðinu Nashville Banner daginn eftir.

Hljómsveitin sem spilaði þetta kvöld hét Walter Barnes and his Royal Creolians Orchestra, en Barnes var vinsæll hljómsveitastjóri á sinni tíð og virtur. Sagan segir að Barnes hafi verið eini rólegi maðurinn í eldhafinu, hann hafi reynt að róa fólk niður, en allt kom fyrir ekki. Hljómsveitin hélt þó áfram að spila þótt hljómsveitarmenn væru banvænir - síðasta lagið sem spilað var hét Marie og það síðasta sem heyrðist frá hljómsveitinni var tær trompettónn um leið og þakið hrundi.

Þessi fallega saga og átakanlega er meðal annars rakin í bókinni Lost Delta Found sem Vanderbilt-háskóli gefur út, en í þeirri bók er safnað saman áður týndum rannsóknarskjölum þriggja litra fræðimanna. Fræðimennirnir héldu til Mississippi á vegum Fisk-háskóla, háskóla svartra, 1942 meðal annars til að leita laga sem samin hefðu verið um þennan hörmulega atburð, en þar sem stærstur hluti negra var ólæs og óskrifandi á þeim slóðum á þessum tíma var munnleg geymd mjög mikilvæg til að miðla fréttum, frásögnum og skoðunum manna á milli. Í kafla sem segir frá brunanum er meðal annars vitnað í einn þeirra sem komust úr eldinum við illan leik og hann lýsir þessu svo: "[Hljómsveitin kaus] ekki hlutverk hugleysingjans. Þeir voru eins og hugdjarfur skipstjóri og áhöfn hans sem fer í dauðann með skipi sínu."

Ég geri ráð fyrir að eins sé farið flestum þeim sem þetta lesa og mér - ósjálfrátt kemur upp í hugann hljómsveitin á ólánsfleyinu Titanic sem lék undir harmleiknum og fór síðan niður með skipinu vorið 1912. Sá harmleikur átti sér líka stað í apríl, ólánsdaginn 14. apríl sem blökkumenn nefndu svo því þann dag 1985 féll lausnarinn mikli Abraham Lincoln fyrir morðingjahendi. Lincoln var að vísu ekki lýstur látinn fyrr en morguninn fimmtánda apríl, en 14., föstudagurinn langi, var ólánsdagurinn. Uppáhaldssálmur Lincolns var "Nearer, My God, to Thee" eftir ensku skáldkonuna Sarah Flower Adams og var sunginn við útför hans. Eftir andlát og útför Lincolns varð sálmurinn gríðarlega vinsæll vestan hafs.

(Matthías Jochumsson heyrði sálminn sunginn í Chicago-för sinni 1893 og hreifst af, snaraði honum á íslensku sem "Hærra minn Guð til þín" og birti í tímaritinu Sameiningunni í Winnipeg sama ár.)

Á Titanic var átta manna hljómsveit undir stjórn Englendingsins Wallaces Hartleys. Skipið sigldi á ísjaka að kvöldi 14. apríl 1912 og hóf þegar að sökkva. Upp úr miðnætti aðfaranótt fimmtánda apríl kom hljómsveitin sér fyrir í stássstofu fyrsta farrýmis og byrjaði að spila til að reyna að róa fólk. Síðar færði hljómsveitin sig framarlega á bátadekkið og spilaði á meðan skipið sökk. Ýmsar sögur hafa verið uppi um hvaða lag hljómsveitin lék er hún hvarf í djúpið en mestra vinsælda naut snemma sú að það hefði verið sálmurinn "Hærra minn Guð til þín".

Fræðimennirnir frá Fisk-háskóla héldu til Mississippi að leita að söngvum um brunann í Natchez og af slíkum söngvum er líka til nóg. Það var líka til gríðarmikið af söngvum um Titanic-slysið. Einn af þeim sem sömdu slíka söngva, slíka blúsa, var Blind Lemon Jefferson.

Framan af tónlistarferlinum framfleytti Blind Lemon Jefferson sér með því að syngja á götum úti, í samkvæmum og á skemmtunum blökkumanna, jafnan við annan mann. Einn af þeim sem spiluðu með honum á þeim tíma var Huddie William Ledbetter sem þekktur varð sem Lead Belly eða Leadbelly. Hann spilaði með Jefferson í Dallas og eitt laganna sem hann sagðist hafa lært af honum var "The Titanic", fyrsta lagið sem hann lærði að spila á tólfstrengja gítar.

Lead Belly tók The Titanic í tveimur útgáfum, en hann breytti textanum ef hann var að syngja fyrir hvíta. Texti annarrar útgáfunnar hefst svo:

"It was midnight on the sea,
Band playin' "Nearer My Got to Thee".
Cryin' "Fare thee, Titanic, fare the well"."

Það var hluti af þjóðtrú bandarískra negra að hnefaleikakappinn Jack Johnson hefði verið meðal þeirra sem ætluðu að fara með Titanic frá Liverpool til New York en honum hefði verið neitað um pláss á fyrsta farrými þar sem hann var svartur. Leadbelly segir frá þessu í útgáfunni sem hvítir fengu helst ekki að heyra:

"Jack Johnson wanted to ge on boa'd;
Captain Smith hollered, "I ain' haulin' no coal."
Cryin', "Fare thee, Titanic, fare thee well"."

Fyrir vikið, sagði sagan, fórst enginn svartur maður með Titanic og þegar Johnson heyrði um skipsskaðann dansaði hann og söng:

"Black man oughta shout for joy.
Never lost a girl or either a boy.
Cryin', "Fare thee, Titanic, fare thee well."


Gamalt og gott

Spoon átti eina ágætustu plötu síðasta árs, Gimme Fiction, og fyrri verk hafa einnig verið góð, Kill The Moonlight og Girls Can Tell. Erfiðlega hefur þó gengið að ná í eldra efni sveitarinnar, en á meðan menn bíða eftir nýrri plötu sem kemur væntanlega ekki út fyrr en á næsta ári, hafa þeir Merge-menn (útgefandinn góði) tekið sig til og pakkað saman á einn tvöfaldan disk fyrstu plötum Spoon, breiðskífunni Telephono og stuttskífunni Soft Effects sem hafa verið ófáanlega lengi (Telephono kom út 1996 og Soft Effects 1997, báðar á vegum Matador). Útgáfudagur er 25. júlí.

Tvö Spoon-lög frá í fornöld:

Idiot Driver (af Telephono)
Mountain To Sound (af Soft Effects)


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Árni Matthíasson
Árni Matthíasson
Skoðanir á mönnum og málefnum á þessari síðu eru birtar með opnu notendaleyfi. Öllum er heimilt að tileinka sér þær og halda þeim fram sem sínum eigin.
Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.9.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband