Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

80,8% treysta borgarstjóra

grafÍ fyrirsögn í Fréttablaðinu sl. þriðjudag sagði svo: "Fjórtán prósent bera traust til borgarstjóra" Þegar fréttin var lesin kom aftur á móti í ljós að ekki var rétt farið með.

Ef marka má graf sem blaðið birti með greininni og sést hér til hliðar, voru þátttakendur í könnuninni spurðir hvort þeir bæru mjög mikið traust til borgarstjóra, mikið traust, lítið traust, mjög lítið traust eða hvorki né, hvernig sem það síðastnefnda var annars orðað.

Samkvæmt téðu grafi treysta því 80,8% Reykvíkinga borgarstjóranum Ólafi F. Magnússyni, bara mis-mikið. Til hamingju með það Ólafur!


Óteljandi grátónar

Nicholson BakerBandaríski rithöfundurinn Nicholson Baker er líklega þekktastur fyrir bækur um hið smáa enda sló hann í gegn með sinni fyrstu bók sem byggðist á hugleiðingum manns sem er á leið upp rúllustiga til að kaupa sér skóreimar en veltir fyrir sér hvernig best sé að drekka mjólk með röri úr lítilli fernu - annað gerist ekki í bókinni. Í nýrri bók hans, Human Smoke, sem Simon & Schuster gefur út, er öllu meira undir því hún fjallar um seinni heimsstyrjöldina.

Eins og Baker rekur söguna hugðist hann skrifa bók um bandaríska þingbóksafnið á dögum seinni heimsstyrjaldarinnar en áttaði sig snemma á því að hann skildi ekki stríðið, gat ekki áttað sig á hvers vegna það hófst og til hvers það var háð. Hann lagðist því í rannsóknir, tók að fletta gömlum blöðum, lesa dagbækur, endurminningar og ævisögur og segist þá hafa áttað sig á því að viðtekin söguskýring - bandamenn gripu til vopna til að verjast nánast fyrirvaralausri útþenslustefnu Þjóðverja og Japana (sem stýrt var af illmennum) - var ekki alveg rétt.

Human Smoke hefst með tilvitnun í Afred Nobel þar sem hann lýsir þeirri von sinni að dýnamítið, sem hann fann upp, verði til þess að útrýma stríði því þegar eyðingarmátturinn sé orðinn svo mikill muni menn hika við að hefja átök. Annað kom á daginn og kenning Bakers er sú að ýmsir hafi róið að því öllum árum að koma á stríði, helst iðnjöfrar og stjórnmálamenn, og leiðir til vitnis tilvitnanir í blöð og bækur sem sýna meðal annars fram á að bandamenn seldu Þjóðverjum (og Japönum) vopn og verjur á millistríðsárunum og gilti einu þó þýskir lýðræðissinnar og bandarískir gyðingar hafi þrýst á um viðskiptabann.

Einnig birtir Baker heimildir um það hve gyðingahatur var víða á Vesturlöndum; það er alkunna að Hitler hataði gyðinga, en hve margir vita að Roosevelt, Neville Chamberlain og Churchill fyrirlitu og hötuðu gyðinga líka? Málið er nefnilega það að mannkynssagan er ekki eins svart/hvít og okkur hefur verið kennt - hún er óteljandi grátónar.

Að þessu sögðu þá kemur Baker ekki að ritun bókarinnar algerlega skoðanalaus, frekar en sagnfræðingar; hann er friðarsinni og það skín líka í gegn. Það fólk sem kemur best úr þessari nýstárlegu mannkynssögu eru nefnilega friðarsinnarnir, fólk sem barðist gegn stríði frá því löngu áður en það hófst og lét ekki af sannfæringu sinni hvað sem á gekk. Hann bendir líka á að það jafnan sama fólkið og vildi liðsinna gyðingum, barðist til að mynda fyrir því að tekið yrði við börnum gyðinga í Bandaríkjunum en varð ekki ágengt vegna Roosevelt.

Human SmokeÞað kemur væntanlega ekki á óvart að Human Smoke er þegar orðin umdeild bók og ýmsir hana þannig gagnrýnt Baker fyrir að líta framhjá því hvaða örlög milljónir manna, aðallega gyðingar hlutu fyrir tilstilli þýskra nasista (og atbeina illmenna af ólíkum þjóðum) - þau örlög hljóti að undirstrika að seinni heimsstyrjöldin hafi verið réttlátt og nauðsynlegt stríð. Segja má að svarið við þeirri gagnrýni sé að finna í bókinni því úr tilvitnunum í henni má lesa að Hitler hafi komist eins langt og raun bar vitni vegna þess að valdamenn í vesturálfu óttuðust kommúnismann (og mest af öllu kommúníska gyðinga) - menn litu framhjá geðveikisglampanum í augum Hitlers vegna þess að þeir töldu hann illskárri kost en kommúnismann.

Eins og getið er er innihald bókarinnar að mestu fengið úr dagblöðum, úrklippur, dagbókum og endurminningum og hvernig heyrist í Baker. Það er þó hann sem velur úrklippurnar og raðar þeim upp, setur atburði í samhengi og gefur til kynna framvindu eins og honum sýnist hún vera. Þetta er nýstárleg aðferð og sláandi en ekki endilega betri en aðrar aðferðir til að skrá þessa hörmungasögu, því það sem ekki er sagt skiptir oft meira máli en hitt. Gleymum því þó ekki að hann er að segja sögu sem ekki hefur verið sögð, sögu þeirra sem margir létu lífið fyrir sannfæringu sína um að manndráp væri aldrei réttlætanlegt.

Bókinni lýkur 31. desember 1941 og eins og Baker nefnir í eftirmála hennar þá voru flestir þeir sem létust í seinni heimsstyrjöldinni þá enn lifandi. Þess má geta að heiti hennar er fengið úr lýsingu eins hershöfðingja Hitlers á reykflyksunum sem bárust inn í klefa hans í Auschwitz - mannareyknum.

Frægasti maður Ameríku

Henry Ward BeecherUndir lok ævisögu prédikarans bandaríska Henry Ward Beecher er vitnað í málskjöl vegna dómsmáls sem varðaði framferði hans þar sem einn þeirra sem við sögu segir svo frá að Beecher hefði aldrei náð þeim árangri sem predikari hann vissulega náði ef ekki hefði verið fyrir dýrlegt eðli hans; hann hafi prédikað svo innblásið um veikleikaholdsins vegna þess hve hann var veiklundaður sjálfur. Nokkuð sem má vissulega heimfæra upp á fjölmarga predikara og guðsmenn.

Ævisagan sem hér er gerð að umtalsefni hefur hið skemmtilega heiti "Frægasti maður Ameríku" og þar er ekki farið með fleipur því Henry Ward Beecher var gríðarlega vinsæll sem predikari, þekkur ræðusnillingur, frægur fyrirlesari, ritstjóri og pistlahöfundur í vinsælasta blaði Norður-Ameríku og þegar hann var sakaður um hórdóm vaktið það þvílíka athygli að annað eins hafði ekki sést; blöð um gervöll Bandaríkin voru uppfull af fréttum af dómsmálinu sem spratt í kjölfarið og annað var ekki rætt manna í millum. Við þetta má svo bæta því að hann var ötull baráttumaður gegn þrælahaldi og bróðir Harriet Beecher Stowe sem skrifaði fyrstu alþjóðlegu metsölubókina (sem margir héldu að bróðir hennar hefði í raun skrifað).

Henry Ward Beecher (1813 – 1887) ólst upp í kalvínisma líkt og flestir samtíðarmenn hans bandarískir, trú á náðarútvalningu og brennisteinseld helvítis, en faðir hans, Lyman Beecher, var með þekktustu predikurum í þeim afkima trúarinnar. Henry Ward varð smám saman fráhverfur þessari heimsmynd og tók að boða það sem hann kallaði kærleiksboðskapinn; lagði höfuðáherslu á elsku drottins til mannkynsins, en sú trúarsýn hafði mikil áhrif á kristna trú vestan hafs og hefur enn.

Frægðarsól Henrys Ward Beecher reis hæst eftir að hann var ráðinn sem predikari við Plymouth-kirkju í Brooklyn, sem var þá sjálfstæð borg. Þar var hann í essinu sínu sem magnaður predikari, ekki síst eftir að hann hannaði innviði nýrrar kirkju þar sem sérstakt svið var fyrir hann, en ekki bara predikunarstóll. Hann gerðist líka ötull baráttumaður gegn þrælahaldi og hélt meðal annars einskonar þrælauppboð í kirkjunni þar sem söfnuðurinn gat keypt frelsi handa þrælum, aukinheldur sem hann beitti sér sem pistlahöfundur í áhrifamesta blaði Bandaríkjanna. Svo langt gekk hann í stuðningi sínum við baráttuna gegn þrælahaldi í Suðurríkjunum að hann sendi riffla til bardagamanna og kom síðan sjálfur á fót herdeild, greiddi fyrir hana allan útbúnað, til að taka þátt í þrælastríðinu á sínum tíma.

Því hefur verið haldið fram að systkinin Harriet og Henry Ward hafi haft úrslitaáhrif í að snúa almenningi í Norður- og Miðvesturríkjum Bandaríkjanna á sveif með andstæðingum þrælahalds, hún með bókinni um kofa Tómasar frænda, sem var fyrsta bókin til að seljast í milljón eintökum í Bandaríkjunum (á þeim, tíma voru íbúar 24 milljónir), og hann með predikunum, fyrirlestrum og blaðaskrifum. Þó var Beecher lengi tvístígandi í afstöðu sinni, ekki þó að hann hafi verið fylgjandi þrælahaldi heldur vegna þess að hann vildi ekki styggja valdamikla menn. Það bráði þó af honum, ekki síst þegar hann fann undirtektir hjá safnaðabörnum sínum, og eftir það þrumaði hann yfir lýðnum af krafti og íþrótt.

Eins og sagan hefur leitt í ljós eru framúrskarandi predikarar iðulega svo þrungnir dýrslegum krafti að þeir eru bókstaflega ómótstæðilegir, ekki síst í augum kvenna. Þegar við bætist aðdáun tugþúsunda, frægð og ómælt fé kemur ekki á óvart að þeir falla fyrir freistingunum. Að því leyti var Beecher dæmigerður, reyndar einskonar frumgerð að þeim predikurum sem á eftir komu og við þekkjum flest í dag, menn sem rísa svo hátt í baráttu sinni fyrir trúna að siðferðisboð dauðlegra hætta að eiga við um þá.

Henry Ward Beecher var kraftmikill og glæsilegur maður þó ekki hafi hann verið fríður og ýmislegt bendir til þess að hann hafi átt nokkrar ástkonur. Það er reyndar erfitt eða ómögulegt að sanna slíkt svo löngu eftir daga hans, ekki síst í ljós þess að hann var uppi á Viktoríutímanum þegar kynferðismál voru ekki rædd, ekki einu sinni í einkabréfum. Eitt slíkt mál komst í hámæli og það var samband hans við eiginkonu síns nánasta samstarfsmanns, Elizebeth Tilton, en sá, Theodore Tilton, brást þannig við að hann sagði öllum sem frétta vildu og endaði fyrir dómstólum. Fyrst fór málið fyrir öldungaráð Plymouth-kirkju sem komst að þeirri niðurstöðu að ekkert ósiðlegt hefði átt sér stað og síðan fyrir almenna dómstóla þegar Tilton stefndi Beecher fyrir að hafa spillt konu sinni.

Það flækti mál til muna að Elizebeth Tilton ýmist játaði að hafa staðið í ástarsambandi við Beecher eða neitaði því; í henni togaðist ótti við fordæmingu samfélagsins sem bitna myndi á börnum hennar og löngun til að gera hreint fyrir sínum dyrum. Á endanum komst kviðdómur ekki að niðurstöðu, níu vildu sýkna Beecher en þrír sakfella.

Eins og getið er var gríðarlega mikið um málið fjallað í fjölmiðlum og það varð snemma pólitískt, bæði vegna stuðnings Beechers við nústofnaðan flokk Repúblikana og eins vegna aðkomu kvenréttindakvenna að því, en það er mál manna að þetta dómsmál og skrif um það hafi tafið fyrir réttindabaráttu kvenna vestan hafs í allmörg ár.

Málið var síðar tekið upp að nýju fyrir dómi Plymouth-kirkju en enn var Beecher sýknaður. (Þess má geta að skömmu fyrir andlát sitt játaði Elizebeth Tilton enn og aftur að hafa átt í ástarsambandi við Henry Ward Beecher.)

Frægasti maður Ameríku / The Most Famous Man in America eftir Debby Applegate er sérdeilis vel skrifuð og lífleg ævisaga. Hún er ekki bara saga Henrys Ward Beecher, heldur er sögð saga Bandaríkjanna á miklum umbrotatíma þegar grunnur er lagður að Bandaríkjum nútímans, þegar hástemmdar hugsjónir og strangur siðferðisboðskapur víkur fyrir nútímanum og að því leyti er Beecher að vissu leyti tákngervingur Bandaríkjanna; hlýr, ástríkur, óraunsær draumóramaður sem upp fullur er af starfsorku og dugnaði, alþýðumaður sem tekur fagnandi vellystingunum ríkidæmisins.

Smátt saxaður laukur

Günter GrassFyrir nokkru bloggaði ég um sjálfsævisögu Günters Grass Peeling the Onion / Beim Häuten der Zwiebel. Ég jók nokkuð við þá bloggfærslu að beiðni útgefanda þess ágæta rits Þjóðmála og hún birtist í síðasta hefti ritsins og síðan hér:

Sjálfsævisaga , Laukurinn flysjaður, Beim Häuten der Zwiebel (Peeling the Onion í enskri þýðingu), vakti gríðarlegar deilur þegar hún kom út á þarsíðasta ári, enda skýrir hann frá því í bókinni, og lét þess reyndar getið skömmu áður en hún kom út, að hann hafi verið liðsmaður í Waffen-SS, úrvalssveitum þýska hersins sem höfðu mikil tengsl við nasistaflokkinn.

Þetta þótti mörgum mikið hneyksli enda Grass þekktur fyrir gagnrýni sína á auðvalds- og hernaðarhyggju alla tíð og sumir gengu svo langt fyrr á árum að kalla hann samvisku Þýskalands, ekki íslenskir vinstrimenn sem höfðu mætur á vestur-þýskum sósíaldemókratisma og fögnuðu tilraunum Willy Brants til að bæta samskiptin við ríkin austan járntjalds.

Grass ætlaði að verða listamaður, málari, en varð rithöfundur. Fyrsta bók hans var Blikktromman, Die Blechtrommel, kom út 1959, sem sagði frá drengnum of Óskari Matzerath sem neitaði að verða stór, hafnaði lygum og málamiðlunum heims hinna fullorðnu. Blikktomman var fyrsta bókin í svonefndum Danzig-þríleik, önnur bókin var Köttur og mús, Katz und Maus, sem kom út 1961 og sú þriðja Hundaár, Hundejahre, sem kom út 1963. Bækurnar tengjast allar innbyrðis, deila persónum, og segja sögu Þýskalands frá því fyrir seinna stríð og til eftirstríðsáranna.

2002 kom svo út Krabbagangur, Im Krebsgang, sem mætti telja fjórðu Danzig-bókina, enda rekur hún söguna áfram, rifjar upp þegar skipinu Wilhelm Gustloff var sökkt 30. janúar 1945 með um 10.000 manns innan borðs, en talið er að um 9.400 hafi látið lífið. Í Krabbagangi er Tulla Pokriefke ein af þeim sem komast af.

Grass var gagnrýndur fyrir Krabbagang, enda fannst mörgum sem hann væri að draga upp mynd af Þjóðverjum sem fórnarlömbum í seinni heimsstyrjöldinni, en hann lýsti því svo í viðtali við The New York Times í apríl 2003 að fyrir honum hafi vakað það eitt að koma í veg fyrir að hægriöfgamenn nýttu sér harmleikinn sem skipsskaðinn vissulega var. "[Öfgamennirnir] halda því fram að Gustloff-harmleikurinn hafi verið stríðsglæpur, en svo var ekki. Víst var hann skelfilegur, en hann var afleiðing stríðs, hræðileg afleiðing stríðs."

Blikktomman, Köttur og mús og Krabbagangur hafa komið út á íslensku en ekkert bólar á Hundaárum, en í þeirri bók gerir Grass upp við fortíðina og sjálfan sig, gerir upp við Þýskaland nasismans og Þýskaland eftirstríðsáranna sem ekki getur horfst í augu við voðaverk nasismans og lítur því undan.

Þetta var reyndar margkveðið stef í þýskum bókmenntum og vel kynnt hér á landi á sjöunda og áttunda áratugnum, meðal annars fyrir atbeina Íslendinga sem menntaðir voru í Austur-Þýskalandi og fengu þar þá innrætingu að í Vestur-Þýskalandi hefðu menn sæst við nasista á meðan hreintrúaðir sósíalistar hefðu haldið baráttunni áfram. Sjá til að mynda forvitnilega Morgunblaðsgrein 14. febrúar sl. eftir Ingimar Jónsson íþróttafræðing og rithöfund, sem menntaður var í Austur-Þýskalandi og hefur ekki kastað trúnni.

Í ljósi þess sem Günter Grass ljóstraði síðar upp er Hundaár einkar forvitnileg lesning því hann er ekki síst að lýsa því hvernig hann neitaði að horfast í augu við sjálfan sig:

Hundaár er í þrem hlutum. Í fyrsta hluta hennar segir gyðingurinn Eudard Arnsler frá Walter Matern vini sínum og lífi þeirra á árunum fyrir stríð þegar nasistaflokkurinn verður til.

Í öðrum hlutanum segir Harry Liebenau frá, rekur sögu ástar sinnar á Tulla Pokriefke, en eins og Grass nefnir í Beim Häuten der Zwiebel er hann Harry Liebenau og ekki þarf mikið ímyndunarafl til að sjá borgina Danzig í Tullu Pokriefke, borgina sem hann elskar sem heimabæ sinn en sem verður síðan ógeðfelld minning um ofsóknir og kúgun.

Walter Matern, sem var andvígur nasistum og fékk að kenna á því á árunum fyrir stríð, segir svo frá í þriðja hlutanum, rekur ferð um land í sárum til að leita hefnda fyrir allt það sem hann hlaut að þola fyrir andúð sína á nasistum.

(Þess má geta að Hundaár heitir svo eftir hundum, fyrst Senta sem gat Harras sem gat Prinz, svartan fjárhund sem borgarstjórn Danzig gaf Adolf Hitler við heimsókn kanslarans til borgarinnar. Á endanum strauk Prinz úr byrginu í Berlín og leitaði uppi nýjan eiganda - fékk nóg af nasistum.)

Í upphafi Beim Häuten der Zwiebel líkir Grass minni sínu við lauk; þegar flett er utan af lauknum ysta laginu, þurru og sprungnu, kemur í ljós annað lag safaríkt og þar fyrir innan enn annað og svo enn eitt til. "Laukurinn hefur mörg lög. Fjölda laga. Ef hann er flysjaður endurnýjar hann sig; ef hann er saxaður koma tárin; sannleikurinn birtist því aðeins að hann sé flysjaður."

Þessi samlíking er bráðsnjöll og vel nýtt í gegnum bókina. Hún kemur líka heim og saman við gríðarlegan áhuga Grass á matreiðslu sem sér stað í mörgum bóka hans, en uppspretta þess áhuga var matreiðslunámskeið sem hann fór á sem stríðsfangi Bandaríkjamanna og lýst er á óborganlegan hátt í bókinni.

Í bókinni lýsir hann æsku sinni og uppeldi og því hvað hann varð snemma listhneigður, skrifaði meira að segja snemma skáldsögu mikla, en þakkar fyrir það í dag að hún hafi glatast í umróti stríðsáranna og með með henni hugsanleg ljóðs, ljóð sem hann segir hafa hugsanlega samið það sem hann mærði leiðtogann mikla og drauminn um þriðjaríkið ; Grass var nefnilega nasisti og vildi leggja sitt af mörkum, skráði sig í herinn með á von í brjósti að verða kafbátssjómaður. Hann þótti aftur á móti ekki nógu mikill bógur í svo erfitt hlutverk, var settur í heimavarnarliðið en síðan kallaður í Waffen-SS, hernaðararm hinna innræmdu stormsveita Himmlers í nóvember 1944.

Hersveit hans var send á vígstöðvarnar í ferbúar árið eftir, en í apríl særðist hann í orrustu, var handtekinn og sendur í bandarískar stríðsfangabúðir sem varð honum væntanlega til lífs því ef hann hefði lent í klóm sovéska hersins hefði hann líkastil endað ævina í Síberíu því Sovétmenn tóku mjög hart á liðsmönnum SS og Waffen-SS.

Grass rekur þessa sögu skilmerkilega í bókinni en víða ber hann þó við minnisleysi eða fer fljótt yfir sögu. Það er til að mynda erfitt að trúa því að hann hafi aldrei hleypt af skoti, þó hersveit hans hafi ekki komist á vígstöðvarnar fyrr en stríðinu var nánast lokið.

Þegar hann lýsir bréfinu sem berst þar sem það er tilkynnt að hann sé kallaður til herþjónustu í Waffen-SS mann hann til að mynda lítið og nefni hve freistandi það sé að draga fram allskyns afsakanir og útskýringar, en vísar síðan í söguna af Harry Liebenau sem getið er hér að ofan.

Í ævisögunni segir Grass frá fyrirmyndum fjölda persóna sem við þekkjum úr verkum hans, aðallega úr Danzig-þríleiknum, Blikktrommunni, Ketti og mús og Hundaárum, en hann kynnir líka til sögunnar ýmsar persónur sem hann nýtti síðar, aukinheldur sem ýmsar uppákomur í bókum hans eiga sér stoð í raunveruleikanum.

Joseph Alois RatzingerSvo var það hermaðurinn guðhræddi sem var samfangi hans í haldi hjá bandaríska hernum í stríðslok, kýtti við hann um trúmál og heimspeki, spilaði við hann teningaspil og deildi með honum kúmenfræjum. Jósep hét hann, jafnaldri hans frá Bæjaralandi, hafði verið í Hitlersæskunni en ætlaði sér að verða kardínáli. Ætli það sé Joseph Alois Ratzinger? Grass segir það ekki beint, en hann gefur það óneitanlega sterklega í skyn.

Eftir að hafa verið í haldi Bandaríkjamanna og síðar Breta var Grass sleppt úr haldi enda var hann ekki talinn hæfur til erfiðisvinnu vegna sprengjubrots sem hann var, og ber enn, í vinstri öxlinni - fyrir vikið losnaði hann við það að vera sendur til að vinna í welskri kolanámu eins margir félagar hans. Hann lenti í basli við að eiga í sig og á, líkt og flestir samlandar hans um þessar mundir, og lýsir tilfinningum sínum svo eftir að honum var sleppt, eftir að hann fékk frelsi sem hann átti erfitt með að skilja og skilgreina:

"Notaði stefnulausi svartamarkaðsbraskarinn sem bar nafn mitt klæki sína sem afsökun til að komast hjá því að fara aftur í skóla og fresta lokaprófi sínu? Hugleiddi ég að gerast lærlingur og þá í hvaða iðn?

Saknaði ég föður míns, móður og systur svo mjög að ég var tíður gestur á skrifstofum sem birtu flóttamannalista?

Voru þrengingar mínar bundnar við mig einan eða náðu þær til heimsins alls? Nánar tiltekið, tók ég þátt í því sem þá hafði fengið heitið, gæsalappalaust, samsekt Þjóðverja? Getur verið að sorg mín hafi aðeins náð til þess að ég glataði húsi, heimili og fjölskyldu og einskis annars? Hvað syrgði ég annað sem glataðist?

Svör lauksins eru eftirfarandi, þó með eyðum:

Ég gerði engar tilraunir til að skrá mig í skóla í Köln og lærlingsstaða freistaði mín ekki.

Ég skilaði engum umsóknum til skráningarstofu sem hélt skrá yfir flóttamenn frá austurhluta landsins eða yfir þá sem misst höfðu heimili sín í loftárásum. Mynd móður minnar var skýr í huga mér, en ég saknaði hennar ekki svo mjög. Ég skrifaði engin saknaðarljóð.

Ég fann ekki til neinnar sektar."

Beim Häuten der Zwiebel lýkur um það leyti sem Blikktromman kemur út, enda sú bók vendipunktur í sögu hans, og lokaorð Grass eru þau að hann hafi hvorki lauk né löngun til að segja meira af ævi sinni - vill kannski forðast að fletta of mörgum lauklögum, enda er enginn kjarni þegar flett hefur verið öllum lögum lauksins.

(Minni myndin er af Joseph Alois Ratzinger sem síðar tók sér nafnið Benedictus, sextándi páfinn sem það gerði.)


Lifandi tunga

Það er til marks um styrk íslenskrar tungu hve málið tekur sífelldum stakkaskiptum, ný orð slást í hópinn og önnur breyta merkingu sinni. Orðasambönd eiga það líka til að breytast, fá nýja merkingu, eins og við sáum í sjónvarpinu í gærdag:

Að axla ábyrgð hefur þannig tekið á sig sömu merkingu og að yppta öxlum.


Hvert fóru allir?

theworldwithoutusBókin The World Without Us eftir Alan Weisman vakti mikla athygli vestan hafs og austan á síðasta ári enda fjallar hún um mál sem mörgum er hugleikið, en á nýstárlegan hátt. Bókin byggir nefnilega á þeirri einföldu spurningu: Hvernig yrði líf á jörðinni ef mannkynið gufaði upp? Hann leitar víða svara við spurningu sinni, heimsækir frumstæðan ættbálk indíána á bökkum Amason-fljóts, skoða neðanjarðarborg í Tyrklandi, fer á hnotskóg í síðasta stórskógi Evrópu, kafar í hákarlavöðu við Suðureyjakóralrif, gengur eftir varðstöðvum á landamærum Kóreuríkjanna, klífur fjöll í Afríku og svo má telja. Fyrir þá sem nenna ekki að lesa lengra þá er svarið alltaf það sama: heimurinn hefði það betra án okkar, en það kemur kannski ekki á óvart

Bókin er ekki bara fróðleg fyrir vangavelturnar um það hvernig heiminum reiði af án okkar, heldur eru í honum líka fjölmargar skemmtilegar staðreyndir um heiminn eins og hann er, sumt sem verður til þess að mann langar að heyra meira og skoða meira. Það er til að mynda mjög skemmtilegt að lesa um Panamaskurðinn og tilurð hans, vangaveltur um upphaf mannkyns og hvernig það breiddist um jörðina, hvað varð um stórvaxin spendýr í Norður-Ameríku og fróðlegt þótti mér að lesa um það að einn mesti mengunarvaldur okkar tíma er fegurðarsmyrsl ýmiskonar (í þeim eru örsmáar plastörður sem rata í smádýr í sjónum og drepa þau smám saman).

Alan Weisman hefur skrifað greinar í ýmis blöð og tímarit vestan hafs: Harpers, tímarit New York Times og Atlantic meðal annars. Ein af þeim greinum sem hann skrifaði var um það hvernig dýralíf tók því fagnandi þegar menn hrökkluðust undan Tsjernobyl-kjarnorkuslysinu - í nágrenni kjarnakljúfsins, sem enn er lífshættulegur og verður væntanlega í hundruð eða þúsundir ára, blómstrar dýralíf og smám saman brýtur náttúran niður allar mannvistarmenjar. Í kjölfar þeirra greinar var hann beðinn að skrifa grein um það ef allt mannkyn hyrfi á brott og sú grein endaði sem bókin sem hér er gerð að umtalsefni.

Ef mannkyn allt hyrfi skyndilega væri það ekki í fyrsta sinn sem ráðandi lífform á jörðinni stigi inn í eilífðina - gleymum því ekki að það tímaskeið sem nú er er þriðja tilraun til lífs á jörðinni - fyrst var það fornlífsöld sem iðaði af lífi þar til það eyddist nánast alveg á skömmum tíma (95% lífs á jörðinni hurfu í hamförum), síðan miðlífsöld sem endaði líka með látum og loks nýlífsöld sem við lifum. Hún gæti sem best endað með látum líka. Kannski af manna völdum

Hann skoðar líka hvað verður um mannvirkin, húsin okkar og minnisvarða, og kemst að því að þau verða ekki ýkja lengi að hverfa, stíflur fyllast og gefa sig á endanum, hús grotna niður á skemmri tíma en eiganda þeirra grunar (eða kannski þekkja þeir það manna best á eigin skrokki), bændabýli hverfa í óræktina og smám saman hristir landið af sér allt manngert. Allt tekur þetta þó mislangan tíma, hugsanlega líða þúsundir ára þar til fram koma örverur sem éta platsagnirnar, þungmálmar hverfa seint, PCB er nánast eilíft, nema einhver ördýr læri að brjóta það niður, og helmingunartími geislavirks úrgangs er talinn í þúsundum ef ekki milljónum ára (helmingunartími úrans U-238 er hálfur fimmti milljarður ára).

Það verður því ýmislegt eftir en það hverfur smám saman ofan í jörðina og á meðan ekki kemur fram önnur eins dýrategund og við sem getum ekkert séð í friði þá fer allt vel. Það er reyndar huggun að lesa í bók Weismans hve heimurinn verður fljótur að jafna sig á okkur og eins hvað þeir vísindamenn sem hann ræðir við eru rólegir yfir hugsanlegu hvarfi mannsins; allt hverfur á endanum segja þeir, engin dýrategund er eilíf - vísindin hafa kennt okkur það - og maðurinn ekki heldur.

Brotabelti hugans

Ítalska borgin Messína er á Sikiley, á norðausturenda eyjarinnar. Í lok nítjándu aldar og upphafi þeirrar tuttugustu var Messína áttunda stærsta borg Ítalíu, en þar bjuggu þá um 150.000 manns. 28. desember það ár reið jarðskjálfti yfir borgina og hafði í för með sér miklar hörmungar fyrir íbúana. Á fyrstu mínútunum fórust um 80.000 manns í Messína og um 25.000 fórust í Reggio di Calabria sem er handan við Messína-sund, sem var stærstur hluti íbúa þeirrar borgar.

Skemmdir á Messína og nálægum þorpum var ekki bara vegna skjálftans, heldur kom hann einnig af stað flóðbylgju, fimmtán metra hárri, sem skall á þorpum og borgum við ströndina og talið að á þriðja tug þorpa hafi eyðst á skömmum tíma. Alls er takið að 160.000 manns hafi farist í jarðskjálftanum og sumir halda því fram að mannfall hafi verið enn meira, jafnvel allt að 250.000.

Nánast allar byggingar hrundu í Messína, en borgin hafði verið endurbyggð af vanefnum eftir mannskæðan jarðskjálfta 1783.

Skjálftar eru tíðir á Ítalíu enda liggur brotabelti liggur eftir endilöngu landinu suður eftir Apennín-fjöllum og annað slíkt er þvert yfir landið um miðbik þess. Álíka belti, og þó öllu meira, er yfir Anatólíu þvera, hefst skammt sunnan við Izmir/Smyrnu (og um 20 kílómetra frá Istanbúl). Þar hafa orðið mannskæðir jarðskjálftar, síðast kl. 3 aðfaranótt 17. ágúst 1999 þegar skjálfti, sem átti upptök sín skammt frá Izmir, varð tugþúsundum að fjörtjóni, en talið er að um 30.000 manns hafi farist á þeim 45 sekúndum sem fyrsta skjálftahrinan varði.

orhanpamukÍ greinasafninu Other Colurs lýsir tyrkneski rithöfundurinn Orhan Pamuk því hvernig hann upplifði skjálftann. Hann var þá staddur með fjölskyldu sinni á eyju í Bosporussundi, skammt frá Istanbúl, í sumarleyfi. Hann, og fjölskyldan öll, vaknaði við gríðarlegar drunur og sótti konu sína og dætur á efri hæð sumarhússins í myrkrinu, enda varð þegar rafmagnslaust:

"Við fórum út í garð og næturkyrrðin umlukti okkur. Drunurnar hræðilegu höfðu hljóðnað og þar var eins og allt umhverfi okkar biði óttaslegið líkt og við. Garðurinn, trén, eyjan litla umkringd stórgrýti - þögn í óttunni nema fyrir dauft skrjáf í laufi og hjartað sem ólmaðist í brjósti mér sem vísbending um eitthvað skelfilegt. Í skugga trjánna hvísluðum við einkennilega hikandi - óttuðumst kannski að framkalla annan jarðskjálfta."

Pamuk hét sig fjarri hörmungunum í tvo daga, hélt kyrru fyrir á eyjunni, en hélt síðan til strandbæjarins Yalova við Izmit flóa, eftirlætis Atatürks, og lýsir aðkomunni þar, óreiðunni, hörmungunum og vonleysinu á átakanlega hátt:

"Það eru tvennskonar rústir. Annarsvegar þær sem liggja á hliðinni eins og kassastæða, sem bera enn upprunalegt svipmót þó sumar hæðirnar hafi fallið saman eins og á harmonikku; í þeim byggingum er hugsanlegt að finna eftirlifendur í lofthólfum. Í hinni gert rústa eru engin lög, engin steypubrot, og það er ógerningur að gera sér grein fyrir því hvernig húsið leit út; það er bara hrúga af ryki, járni, brotnum húsgögnum, steypumylsnu. Það er ekki hægt að trúa því að þar sé nokkurn lifandi að finna."

Skammt frá heimili Pamuks í Istanbúl, í húsi sem afi hans byggði og hann ólst upp í frá barnsaldri, er moska með háan bænaturn. Í kjölfar skjálftans við Izmir greip eðlilega mikill ótti um sig í Istanbúl, enda urðu íbúar þar vel varir jarðskjálftans.  Pamuk lýsir því í greinsafninu hvernig hann fékk sömu þráhyggjuna og aðrir, hvernig hann stóð sig að því að vera sífellt að hugsa um jarðskjálfta og gekk svo langt að hann reiknaði út með nágranna sínum hvar bænaturninn mynd lenda og hvort hann myndi lenda á húsi þeirra.

theworldwithoutusÍ bókinni The World Without Us eftir Alan Weisman, sem vakti mikla athygli ytra á síðasta ári, veltir Weisman því fyrir sér hvernig heiminum myndi farnast ef mannkynið hyrfi skyndilega eða dæi út friðsamlega á skömmum tíma. Hann kemur víða við í þessari mögnuðu bók og fer víða. Meðal annars fer hann til Istanbúl og ræðir þar um moskuna miklu Hagia Sophia, og bænaturna hennar; hvað ætli verði um hvelfinguna miklu og bænaturna hennar þegar næsti stór jarðskjálfti ríður yfir Istanbúl?

Hvelfing moskunnar, sem var þá kirkja, hefur áður hrunið í jarðskjálftum, til að mynda skömmu eftir að hún var endurbyggð í þriðja sinn árið 537 (fyrstu tvær kirkjurnar eyðilagði æstur múgur). Hvelfingin féll í jarðskjálfta 557 og þú hún hafi verið endurreist þá skemmdist hún hvað eftir annað í jarðskjálftum þar til helsti arkítekt ottómana, Miman Sinan, endurbyggði og -hannaði hana á sextándu öld. Bænaturnarnir munu falla, en hvelfingin standa eftir í árhundruð þó engir séu mennirnir til að styrkja hana.

Istanbúl á sér langa sögu, reyndar má rekja hana allt aftur til 5.500 f.Kr. Hún hefur gengið undir ýmsum nöfnum á þeim tíma en Byzantium er elsta þekkta borgarnafnið. 330 e.Kr. fékk hún heitið Nýja-Róm, Nova Roma, en var þó snemma frekar kölluð Konstantínópel, borg Konstantíns keisara. Við Íslendingar þekkjum heitið Mikligarður, en frá því í mars 1930 hefur Istanbúl verið opinbert heiti.

Á þeim tíma bjó nærfellt milljón manna  í borginni, um 1950 fóru íbúar yfir milljónina, en 2000 voru þeir orðnir fimmtán milljónir. Miklir fólksflutningar áttu sér stað til borgarinnar í kjölfar seinni heimsstyrjaldarinnar. Þó Tyrkir hafi ekki tekið þátt í átökum í seinni heimsstyrjöldinni bitnaði kreppan í kjölfarið líka á þeim og bændur flosnuðu upp af jörðum sínum að streymdi til borganna í leit að betra lífi.

Lítið fé var til húsbyggingar en þó þurfti að byggja og byggja hratt. Það var líka gert, oft með lélegri steypu og litlu járni og tæplega hirt um burðarþol. Þannig urðu hún sem hönnuð voru fyrir tvær hæðir að hálfgerðum skýjakljúfum, gólf stóðust ekki á í húsum með samliggjandi veggi, veggir náðu ekki alltaf upp í loft (göt til kælingar) og svo má telja.

Eins og getið er ofar liggur brotabelti yfir Anatólíu þvera og spennan þar eykst jafn og þétt. Í The World Without Us segir Weisman frá því er hann hitti að máli jarðfræðing í Istanbúl, Mere Sözen, sem sagði honum að enginn vafi væri á því að jarðskjálfti væri væntanlegur í Istanbúl á næstu þrjátíu árum og hann yrði stór. Að hans mati myndu að minnsta kosti 50.000 hrynja með ólýsanlegu mannfalli.

"Þegar jarðskjálftinn ríður yfir Istanbúl stíflast þröngar krókóttar götur borgarinnar svo gersamlega við hrun þúsunda bygginga, að mati Sözens, að stórum hlutum borgarinnar verður einfaldlega lokað í þrjá áratugi á meðan hægt er að hreinsa burtu rústirnar."

Í Other Colours lýsir Pamuk því hvernig óttinn gegnsýrði allt líf í borginni í kjölfar skjálftans 1999; margir kusu að sofa utan dyra, aðrir voru ávallt reiðubúnir - með vasaljós og neyðarbúnað við rúmstokkinn, allir óttuðust dauðann, enda vissi þorri manna, að sögn Pamuks, að byggingar í borginni voru illa reistar, byggðar af vanefnum og kæruleysi, en þrátt fyrir allt geta þeir ekki hugsað sér að yfirgefa borgina:

"[É]g fór út á svalir að dást að bænaturnunum og fegurð Istanbúl og Bosporussund hulið mistri. Ég hef búið í þessari borg alla ævi. Ég hef spurt sjálfan mig sömu spurningar og maðurinn þarna sem mælir göturnar; hvers vegna ætti maður ekki að geta flutt? Það er vegna þess að ég gæti ekki einu sinni ímyndað mér að búa ekki í Istanbúl."


Minnkandi ójöfnuður

Í ljósi þeirra hamfara sem nokkrir helstu auðjöfrar Íslands hafa nú gengið í gegnum (og sér ekki fyrir endann á) er ég steinhissa á að ekki hafi meira heyrst í þeim mæta hagfræðingi Stefáni Ólafssyni.

Málið er nefnilega það að eftir því sem milljarðar grósseranna hafa gufað upp hefur ójöfnuður minnkað í þjóðfélaginu eins og Stefán Ólafsson mælir hann, bilið milli ríkra og fátækra hefur mjókkað sem gerist vissulega þegar hinum ríku fækkar.

Úr orðum Stefáns mátti og lesa að ef sá ójöfnuður yrði minnkaður myndi hinum fátæku líða betur. Gengur það eftir?


Aðskildir og ójafnir

race-beatÁrin frá 1955 til 1968 voru mikill átaka og örlagatími í Bandaríkjunum. Blökkumenn í Suðurríkjunum bjuggu við mismunun og fordóma og svo kom að þeir sættu sig ekki við að vera annars flokks og hófu baráttu til að fá því breytt. Á ýmsu gekk í þeirri baráttu og í bókinni The Race Beat, eftir blaðamennina Gene Roberts og Hank Klibanoff, er því haldið fram að veigamikill þáttur í því að blökkumenn báru sigur úr býtum sé sá að þeir nýttu sér fjölmiðla á skipulegan hátt, enda gekk það gersamlega fram af þorra Bandaríkjamanna þegar þeir sáu hvaða ofbeldi fólk var beitt sem sóttist eftir mannréttindum sem áttu þó að teljast sjálfsögð þar vestan hafs.

Eitt af því sem vekur athygli við lestur bókarinnar er að á þessum árum var til grúi dagblaða og tímarita sem blökkumenn gáfu út, 1951 voru 175 slík blöð gefur út vestan hafs, og eins það hve þau voru óvægin í gagnrýni sinni á kynþáttafordómana og aðskilnaðarstefnuna sem gegnsýrði bandarískt þjóðfélag. Þessi fjöldi blaða sem gefinn var út ber því vitni að frelsi fjölmiðla var virt í Bandaríkjunum, þó hluta skýringarinnar á því af hverju þau fengu að starfa í friði sé eflaust líka að leita í því að þetta voru blöð fyrir blökkumenn og hvítum lesendum datt ekki í hug að lesa þau.

Ákveðinn vendipunktur í baráttu blökkumanna fyrir mannréttindi var þegar hæstiréttur Bandaríkjanna felldi þann úrskurð að aðskilnaðarstefnan væri brot á stjórnarskránni. Í því gekk hæstiréttur þvert á eldri dóm, mál frá 1896, en í þeim dómi var staðfest að ríki mættu koma upp aðskilnaði svo framarlega sem kynþættirnir nytu sömu réttinda; væru "separate but equal". Fljótlega varð þó ljóst að þetta voru bara orðin tóm, þ.e. það sem sneri að jafnrétti, því þó flest suðurríkjanna kæmu sér upp sérstökum skólum fyrir svarta var allur aðbúnaður þar mun lakari en í skólum fyrir hvíta, húsnæði lélegt, skólagögn fátækleg og fátt um kennara.

Þessi ákvörðum hæstaréttar hleypti illu blóði í marga suðurríkjamenn, en gagnrýni þeirra byggðist ekki bara á kynþáttafordómum. Nokkrum hóp manna fannst þannig úrskurðurinn vera íhlutun alríkisins í mál sem væri fylkjanna sjálfra að stjórna (umræða sem enn er hávær vestan hafs, þ.e. að hve miklu leyti alríkisstjórnin eigi að setja lög, til að mynda varðandi réttindi samkynhneigðra). Öllu háværari bar þó sá hópur sem byggði afstöðu sína að mestu á kynþáttafordómum, eða þannig birtist það í það minnsta lesanda uppi á Íslandi, þó eflaust hafi iðulega legið flóknari ástæður að baki. Þeirra sjónarmið urðu snemma áberandi í ljósi fjölda ofbeldisverka - líkamsárása, brennuárása og morða auk þess sem lynching, aftökur án dóms og laga, fjölgaði til muna.

Forystumönnum blökkumanna varð snemma ljóst að eina leiðin til að ná árangri í baráttunni væri að ná til almennings í norðurríkjum Bandaríkjanna og eins þóttust þeir vissir um að margir kristnir suðurríkjamenn myndu snúa baki við aðskilnaðarstefnunni ef þeir sæju harðræðið sem blökkumenn voru beittir. Baráttu þeirra var líka stýrt markvisst eftir því hvað búast mætti við ofsafengnustum viðbrögðum yfirvalda, leitaðir voru uppi þeir lögreglustjórar sem áttu erfiðast með að hemja sig og þar var látið sverfa til stáls. Fyrir vikið meiddust fleiri og líka biðu fleiri bana í baráttunni, en sjónvarpsáhorfendur og lesendur blaða og frétttímarita trúðu ekki sínum eigin augum þegar þeir sáu lögreglumenn og skríl berja snyrtilega kurteisa blökkumenn sem sóttust eftir því einu að fá að kjósa eða fá afgreiðslu á veitingastað.

Dæmi um það hvernig sterk áhrif fjölmiðlaumfjöllun hafði var er lögreglumenn réðust á friðsama göngu blökkumanna af mikilli grimmd skammt frá borginni Selma 7. mars 1965. Blaða- og sjónvarpsmenn voru þar og kvikmynduðu átökin og ein fréttastöðin, ABC, rauf dagskrá til að sýna myndir frá átökunum í miðri kvikmynd. Það var svo til að ýta enn undir reiði áhorfenda að myndin sem var rofin var Judgement at Nuremberg, leikin mynd um stríðsglæparéttarhöldin yfir frammámönnum þýskra nasista, því fyrir vikið fannst þeim sem þeir væru að horfa upp á viðlíka viðurstyggð í sínu eigin landi. Í kjölfarið stóðu hundruð manna upp frá sjónvarpstækjunum og fóru beina leið til Selma til að taka þátt í baráttu blökkumanna, sumir án þess að skipta um föt og margir án þess að hafa efni á því; fóru með bílum, lestum, hestvögnum, á puttanum eða fótgangandi.

Eftir því sem þrýstingur jókst frá stjórnvöldum hertust margir suðurríkjamenn í afstöðu sinni og aðskilnaðarstefnunni, segregationism (sem má kannski snara sem "fjölmenning"), sótti í sig veðrið. Ýmsir stjórnmálamenn gerður út á óánægju almennings með réttindabaráttu blökkumanna með góðum árangri - eftir því sem þeir voru glannalegri í yfirlýsingum þeim mun meira fylgi fengu þeir í kosningum.

Þessi bók er merkileg lesning og þó hún sé frásögn af mikilli kúgun og mannvonsku, þá er hún fyrst og fremst hylling mannsandans, þeirra fjölmörgu sem lögðu allt að veði til að berjast fyrir frelsi sínu og annarra og um leið vitnisburður um hve miklu máli það skiptir að í landi séu frjálsir fjölmiðlar.

Sovétmenn bentu iðulega á hlutskipti blökkumanna vestan hafs á sjötta og sjöunda áratugnum til að sýna fram á að líf þar væri lakara en austan járntjalds. Víst má taka undir það að þeir þurftu að þola ýmsar þrautir í baráttu sinni fyrir því sem alla jafna voru talin sjálfsögð mannréttindi fyrir hvíta, en ekki má gleyma því að fyrir tilstilli óháðs dómskerfis og frjálsra fjölmiðla vannst sigur.


The Race Beat - The Press, the Civil Rights Struggle, and the Awakening of a Nation eftir Gene Roberts og Hank Klibanoff. 528 bls. innb. Random House gefur út. Fæst í Máli og menningu.


Leyndarmálið mikla

The SecretSvonefndar sjálfshjálparbækur byggjast að því mér hefur sýnst á því sem kalla má almælt sannindi eða almenna vitneskju. Til að mynda deila menn varla um það að þeim vegnar yfirleitt vel í lífinu sem skipuleggja tíma sinn vel, bægja frá sér þráhyggju og slæmum hugsunum og eru fullir sjálfstrausts. Frá því sjónarhorni eru bækur þessarar gerðar þarfaþing þeim sem á þurfa á sjálfstyrkingu að halda og reyndar má færa fyrir því rök að flestir hafi gott af að tileinka sér margt það sem kennt er í slíkum ritum þó leiðir að því marki sé alla jafna betra að finna með almennri skynsemi en með því að lesa bækur sem pakka sannindum inn í gervivísindi eða trúarstagl.

Sjálfshjálparfræðin eru arðbær í meira lagi og bækur þeirrar gerðar eru gjarnan metsölubækur víða um heim, því við viljum öll verða betri, eða flest í það minnsta. Reglulega rísa líka bylgjur sjálfshjálparfræða, allir verða að kynna sér þennan eða hinn fræðinginn, lesa allt sem hægt er um þessa eða hina aðferðina. Algengt er að þessi fræði berist hingað frá Bandaríkjunum, enda eru trúarbrögð þar markaðsvædd, sjálfshjálpartrú líka, og það sem best er gert, hannað eða útfært góð útflutningsvara. Nú ber aftur á móti svo við að mest selda sjálfshjálparbók vestan hafs er ættuð frá Ástralíu. The Secret heitir hún. 

The Secret hefur ekki enn borist hingað til lands, en á eflaust eftir að gera það, kemur örugglega út á íslensku fljótlega, kannski í sumar eða haust, enda er markaðssetning á bókinni snilldarlega útfærð; í senn höfðað til þeirra milljóna sem keyptu Da Vinci Lykilinn og þeirra sem keypt hafa bækur eftir Mitch Albom, Paulo Cohelo og Robin Sharma og ótal annarra sjálfshjálparfræðinga. leydarmálið er nefnilega sannkallað leyndarmál, eða var það í það minnsta þar til Rhonda Byrne kom upp um allt saman.

Eins og því er lýst á vefsetri útgáfunnar og ótal vefsetrum sem mæra bókina hefur leyndarmálið verið ljóst öllum helstu stórmennum sögunnar, Plato, Leonardo Da Vinci, Galileo, Napoleon, Victor Hugo, Ludwig van Beethoven, Jesú Kristur, Abraham Lincoln, Thomas A. Edison, Alfred Einstein og Dale Carnegie, svo dæmi séu tekin (ekki ætla ég að hætta mér út í deilur um það hvort Dale Carnegie eigi það skilið að vera nefndur í sömu setningu og Albert Einstein, Ludvig van Beethoven eða Abraham Lincoln). Allir þekktu þessir andans jöfrar leyndarmálið, eða réttara sagt Leyndarmálið, og nýttu það í vísindum sínum, listsköpun, heimspeki, stjórnmálastarfi, hernaðarbrölti eða gróðabralli.

Leyndarmálið mikla var aðeins varðveitt í munnlegri geymd í gegnum aldirnar og það var ekki fyrr en Rhonda Byrne, fráskilin miðalda móðir sem glímdi við þunglyndi rakst á bók frá 1910 sem hét því dægilega nafni Vísindin við að verða ríkur, The Science of Getting Rich. Í þeirri bók var því haldið fram að það eina sem þyrfti til að verða auðugur væri að hugsa sér það - ef maður hugsar nógu stíft um það sem manni langar í fær maður það. (Þetta er semsagt leyndarmálið, Leyndarmálið, sem þú, kæri lesandi, færð hér gratís.)

Gleymum því svo ekki að hvert selt eintak af Leyndarmálinu er sönnun þess að það sé sannleikur - aðstandendur útgáfunnar, sem hljóta að vera öðrum fremri í fræðunum, vaða í peningum geislandi af lífshamingju á öllum myndum. Þarf frekari vitnanna við?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Árni Matthíasson
Árni Matthíasson
Skoðanir á mönnum og málefnum á þessari síðu eru birtar með opnu notendaleyfi. Öllum er heimilt að tileinka sér þær og halda þeim fram sem sínum eigin.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 18
  • Frá upphafi: 117482

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 18
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband