Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Kjöt með götum

Snow GatheringMikið hefur verið fjallað um ráðstefnu klámframleiðenda sem halda átti á Hótel Sögu, en var aflýst þegar hótelið afturkallaði bókun vegna gistingar ráðstefnugesta. Frétt á mbl.is um afturköllun bókunarinnar vakti mikla athygli og margir kusu að tjá sig um hana, blogga um hana, 73 alls frá því fréttin birtist rétt fyrir kl. 14:00 á fimmtudag og til miðnættis. Af þeim voru 28 andvígir ákvörðun hótelsins og lýstu henni, oft með sterkum orðum. Þrjár konur voru meðal þeirra sem andmæltu ákvörðun hótelsins.

Athugasemdir voru beinskeyttar og sumar harkalegar. Margir töluðu hástöfum um að þeir væru í raun að berjast fyrir frelsið og ekki fer milli mála, að þeirra mati, hverjum var um að kenna: femínískum vælukjóum, vinstra rauðsokkuliði, fasískum femínistum, femínasistum, ferköntuðum kverúlöntum, pemprum sem væru öskrandi af fáfræði og fordómum, ofstækisfullum fasistum, feminískum beljum og þess háttar lýð, feministapakki, kvenréttindasinnum, helv. feministum, öfga feministum, fasistunum í femínistasamtökum og rasistum. " ... eigendur og hótelstjóri Radisson SAS eru búnir að drulla svo svaðalega uppá bak, að maður finnur lyktina til Danmerkur" skrifaði einn frá Danmörku.

Þær þrjár stúlkur sem samsinntu piltunum fengu klapp á bakið: "Heyr heyr! Loksins kona með eitthvað á milli eyrnanna, ólíkt fasistunum í femínistasamtökum" og "Ég er mjööööög ánægður meðað sjá konu með þroskuð viðhorf. Þú hefur, án gríns, algjörlega viðreist virðingu mína fyrir kvennþjóðinni."

Ekki nennti ég að telja athugasemdir við bloggfærslur, með og á móti, enda skiptu þær hundruðum. Margir þeirra sem skrifuðu þær endurnýttu athugasemdir á milli blogga, til að mynda "Geir" og "Fannar frá Rifi" sem settu sömu athugasemdina inn ótal sinnum.

Karlarnir voru flestir á aldrinum 23 til 26 ára gamlir sýndist mér, af klámkynslóðinni, fyrstu kynslóðinni sem fékk Netið beint í æð, fyrsta kynslóðin sem gat komist í klámefni á Netinu á mótunarskeiði kynþroska. Þeir líta það greinilega öðrum augum en þeir sem eldri eru, finnst klám eiginlega vera hið besta mál. Kannski dreymdi einhverja þeirra um að vera foli í klámmynd.

"Konurnar eru á hærri taxta," segja þeir til sannindamerkis um það að klámleikkonur hafi það í raun bara gott. "Ættu þessar kerlingar ekki frekar að vera að berjast fyrir launajafnrétti í kámmyndum," sagði einn við mig. Annar skrifaði svo: "Afhverju er svo alltaf talað um að þær konur sem leika í klámmyndum séu fórnarlömbin??? Þær eru á mun hærri launum heldur en karlmennirnir sem leika á móti þeim.  Engin minnist á það að karlmennirnir í kláminu séu tilneyddir til þess að leika í klámmyndum."

Málið er bara það að konur í klámmyndum eru ekki í hlutverki kvenna, þær eru bara kjöt með götum, "fucktoys" segja folarnir kampakátir.


Hjartað slitið úr Mosfellsbæ

Bryndís SchramFyrir rúmum tuttugu árum settu menn í Mosfelsbæ á skipulag vegspotta sem tengja átti íbúðahverfi við helstu umferðaræðar. Gatan sú átti að vera svonefnd safngata og þjóna 200 íbúa byggð. Á skipulaginu lá hún skammt frá verksmiðjuhúsum í niðurníðslu í kvos við Varmá og öllum var sama.

Það breytist margt á tuttugu árum, 200 íbúa byggðin verður víst 1200 manna og hrófatildrin í Varmárkvosinni breyttust í íbúðarhús, menningarsetur, listakvos, Álafosskvos.

Um það leyti sem ég byrjaði að skrifa um tónlist fyrir Moggann, fyrir rúmum tuttugu árum, var Mosfellsbærinn fyrir mér bara staður þar sem hægt var að kaupa bensín. Ekki löngu síðar höfðu samband við mig strákar úr Mosfellsbæ sem þá voru nýkomnir frá útlöndum.

AmiinaHljómsveitin þeirra hét Gildran, hafði verið á samningi hjá útgáfu sem ekkert varð úr, en ætlaði nú að hasla sér völl hér heima. Talsmaður Gildrunnar var Karl Tómasson, framúrskarandi trommuleikari, en Birgir Haraldsson sá um söng og gítarleik og Þórhallur Árnason var geysiþéttur bassaleikari. Ég heimsótti Gildruna í Mosfellsbæinn oftar en einu sinni og komst síðan í kynni við fleiri hljómsveitir sem ráku ættir sínar þangað.

Álafosskvosin tók að byggjast upp á þessum árum, ýmislegt hugsjónafólk tók til við að endurbyggja hús í kvosinni og fluttist síðan þangað. Þorlákur Kristinsson vinur minn kom sér þar upp vinnustofu og þangað kom ég á sýningar eða til að sníkja kafi. Annar vinur, Arnþór Jónsson, sellóleikari, settist þar líka að. Smám saman byggist upp sérstakt samfélag í kvosinni, einskonar listamannanýlenda, þó ekki hafi allir íbúarnir verið listaspírur.

Sigur RósÞað var alltaf tilhlökkunarefni að koma í kvosina, aka í gegnum steinsteypu- og malbiksmartröð og síðan eftir eina beygju og nokkur hundruð metra var maður kominn upp í sveit, fann hvernig spennan hvarf úr líkamanum við það eitt að stíga út úr bílnum í kyrrðinni, kominn til annars lands, í annan heim. Hér sló hjarta Mosfellbæjar.

Fyrir um áratug byrjuðu ungir strákar að æfa í bílskúr í Mosfellsbænum. Þeir byrjuðu á Smashing Pumpkins lögum en áttuðu sig snemma á því að það væri ömurlegt og fóru að semja eigin lög. Með tímanum óx þeim ásmegin og þeir tóku upp plötu í Mosfelslbænum, máluðu hljóðver til að borga fyrir stúdíótíma.

Steindór í ÁsgarðiNæstu plötu unnu þeir að miklu leyti í Reykjavík, en þeir héldu tryggð við uppruna sinn og um leið og kostur gafst komu þeir sér upp vinnuaðstöðu þar, keyptu sundlaugina gömlu í kvosinni og breyttu í hljóðver. Þegar Sigur Rós var búin að sigra heiminn, sneri hún heim í sína heimabyggð.

Vegspottinn sem settur var á skipulag fyrir tutugu árum óx og dafnaði ofan í skúffu hjá bæjarstjórninni, byggðin sem hann átti að þjóna blés út og hann stækkaði að sama skapi eins og ormur á gulli, glópagulli. Á þessu áttuðu menn sig skyndilega - byggðin í kvosinni hafði þróast til hins betra, Álafosskvosin iðaði af mannlífi og var orðinn einn helsti ferðamannastaður Mosfellsbæjar, en vegurinn þróast til verri vegar og orðinn að ófreskju. Að þvílíkri ófreskju að einsýnt er að verði hann lagður eins og ætlað er er úti um sérstöðu Álafosskvosarinnar, útséð um listalíf það sem, þar hefur þróast, hjartað slitið úr bænum.

Pétur BenÞað er svo gráglettni örlaganna að Gildrumaðurinn Karl Tómasson sé einn helsti fjandi menningarlífsins í kvosinni, nú orðinn forseti bæjarstjórnar.

Nú er það svo að vegaspottinn ógurlegi, Helgafellsvegur er opinbert heiti hans, liggur ekki í gegnum kvosina, en hann liggur utan í kvosinni á þannig stað að úti verður um friðsældina, mengun eykst umtalsvert og mikið lýti verður af þessari framkvæmd. (Það er svo til að bíta höfuðið af skömminni að bæjaryfirvöld skuli birta á vefsetri sínu skekkta mynd af svæðinu eins og sjá má ef smellt er hér. Þessi mynd er nefnilega teygð eins og menn sjá væntanlega um leið, en mér þykir líklegt að það sé fyrir aulagang, frekar en vísvitandi gert.)

Steindór og SigurðurÍ gær voru í Verinu vestur í bæ tónleikar til styrktar Varmársamtökunum, samtökum sem tekið hafa að sér að berjast fyrir lífi Álafosskvosarinnar. Mæting var fín á tónleikana, húsið fullt og rúmlega það, sennilega vel á áttunda hundrað gesta í húsinu.

Á tónleikunum léku hljómsveitir og tónlistarmenn sem unnið hafa í hljóðverinu í kvosinni, Sundlauginni, eða tengast henni á annan hátt. Fram komu Amiina, Sigur Rós, Pétur Ben, Dór DNA, Bogomil Font og Flís og Benni Hemm Hemm. Ýmsir komu einnig við sögu, fluttu tölur og kynningar, fóru með gamanmál og kváðu rímur. Best að taka það fram hér að ég tók þátt í þessari skemmtan, flutti stutta ræðu og kynnti Sigur Rós á svið.

Dóri DNABryndís Schram setti tónleikana, flutti inngangsorð. Henni höfum við margt að þakka, því það var hún sem settist fyrir framan gröfurnar og kom þessari geðveikisframkvæmd þannig í alla fjölmiðla, gerði baráttu í héraði að landsmálabaráttu. Hún nefndi það og í sínu spjalli að baráttan gegn vegnum um kvosina er liður í stærri baráttu, baráttu gegn umhverfisspjöllum og skeytingareysi stjótrnvalda víðar - við byrjum í kvosinni, sagði hún efnislega, næst björgum við Hafnarfirði og svo landinu öllu.

Fyrsta hljómsveit á svið var Amina, sem átt hefur margar stundir í Sundlauginni, en segja má að Amiina hafi verið á sviðinu stóran hluta kvöldsins, því Amiinu-stöllur léku einnig með Sigur Rós og Pétri Ben. Upphafslag þeirra var einskonar elegía vegna kvosarinnar, ábending um hvernig farið getur, en lokalagið upp fullt af von og kærleika. Frábært lag sem hljómað hefur í kollinum á mér síðan.

Sigur Rós spilaði órafmagnað, ef svo má segja, hljóðfæri mækuð upp en ekki rafmögnuð sjálf. Það fannst mér ganga vel upp og viðeigandi af þessu tilefni. Lokalag þeirra félaga var Ágætis byrjun sem segir frá því er þeir luku við Von, plötu sem varð að mestu til í Mosfellbæ, og tilfinningunum sem bærðust með þeim þegar þeir höfðu lokið við hana, léttinum og voninni.

Á fætur Sigur Rósar komu á svið félagar úr listasmiðjunni í Ásgarði og sögðu frá tilurð hennar og starfi sem mér fannst mjög merkilegt. Ég náð því miður aðeins nafni annars þeirra, Steindórs, en frásögnin var góð.

Bogomil FontPétur Ben hefur unnið talsvert í Sundlauginni, gert þar tvær bíómyndir og að auki eina breiðskífu. Sú skífa, Wine for My Weakness, var vel heppnuð og því gat maður átt von á góðum tónleikum frá Pétri. Hann stóð og undir þeim væntingum því frammistaða hans var hreint út sagt framúrskarandi og lögin komu frábærlega vel út, hvort sem þau voru af plötunni eða úr bíómynd.

Þeir félagar Steindór Andersen og Sigurður Sigurðarson, sem aldrei er kallaður annað en Sigurður dýralæknir, tróðu næstir upp, fóru með gamanmál, kveðlinga og vísur, og kváðu svo rímu sem þeir áður tóku upp undir brúnni við Sundlaugina. Mjög skemmtileg uppákoma og bráðfyndin.

UnaSteindór kynnti á svið Halldór Halldórsson, Dóra DNA, sem fór hreinlega á kostum í magnaðri ræðu. Hann byrjaði mál sitt á að rifja upp fyrsta sleikinn sem hann upplifði tólf ára gamall í kvosinni þjóðhátíðardag einn fyrir löngu Hann rakti síðan hve bæjaryfirvöldum í Mosfellsbæ hefur illa tekist upp í viðleitni sinni að gæða bæinn lífi. Sannar ekki Helgafellsvegurinn að þau horfa jafnan í ranga átt? Leyfa græðginni að ráða.

Bogomil Font söng einmitt um græðgina, Perlur fyrir svín, í fínni sveiflu. Frábær hljómnsveit Flís og Bogomil í fínu formi, en þess má geta að skömmu áður átti hann stjörnuleik á trommurnar með Pétri Ben.

Ung stúlka úr Álafosskvosinni, sem ólst þar upp og hefur búið frá barnsaldri, kynnti lokaatriði kvöldsins,  Benna Hemm Hemm, en sagði okkur í leiðinni stuttega frá lífinu í kvosinni, hvernig það var að alast upp þar, fyrstu árin innan um hálfhrunda hættulega kofa og úreltar verksmiðjur sem síðan öðluðust nýtt líf. Færði okkur aðeins nær fólkinu sem býr í kvosinni og vill fá að búa þar í friði - ekki óðelileg ósk, eða hvað.

benni Hemm HemmFáar hljómsveitir eru eins skemmtilegar á sviði og Benni Hemm Hemm, með sín epísku háreistu mögnuðu lög. Því miður fengum við ekki nema þjú lög að þessu sinni, en Benni og félagar stóðu sig frábærlega vel, slógu botninni í fjölbreytta og skemmtilega tónleika með góðan og göfugan tilgang.

(Björg Sveinsdóttir tók myndirnar. Sleppi mönnum við mynd af mér.)

Fékk "vinsamlega" ábendingu um að núlli væri ofaukið. Það hefur verið leiðrétt í færslunni.


Keppt í lýsingarorðaklámi

Sigur Rós í MogganumÍ viðtali við Morgunblaðið fyrir nokkrum árum lét Atli Heimir Sveinsson þau orð falla að menn skyldu hafa hugfast að listir séu ekki íþróttakeppni, "listsköpun snýst ekki um að hreppa verðlaunasæti og enn hefur ekki verið sett heimsmet í listum," sagði hann. Það er nú samt svo að okkur finnst gaman að raða listamönnum í verðlaunasæti, velja bestu bækur, plötur eða myndir, fjasa um þær söluhæstu og svo má telja. Öðrum þræði er slíkt markaðstengt, þ.e. blöð velja lista til að selja fleiri eintök, útvarpsstöðvar spila topplista til að fleiri hlusti og svo má telja. (Líka er gaman að benda öðrum á einhverja snilld sem maður hefur sjálfur uppgötvað, en það er eiginlega til hliðar við þennan pistil.)

Alllengi hafa bókaútgefendur haldið úti bókmenntaverðlaunum sem nokkur sátt gefur verið um, en þau eru fyrst og fremst til að selja bækur, sýnist mér - eftir tilnefningu er merkimiða smellt á allar bækur sem tilnefndar hafa verið til að auka á þeim söluna. Nú veit ég ekki hversu vel hefur tekist til við þá söluaukningu, en skilst að sambærileg verðlaun bresk, Booker verðlaunin, hafi stóraukið sölu á þeim bókum sem tilnefndar eru. Íslensk tónlist á sér líka verðlaun, Íslensku tónlistarverðlaunin (hljómar eiginlega betur að segja Hin Íslensku tónlistarverðlaun, en kannski full hátíðlegt). Þau voru fyrst veitt 1993, en mér skilst að félagsmenn úr rokkdeild FÍH hafi verið upphafsmenn verðlaunanna, en síðastliðin ár hefur Samtónn "verið ábyrgðaraðili Íslensku tónlistarverðlaunanna" eins og það er orðað á síðu þeirra.

Fyrir þeim sem fylgjast með íslenskri tónlist hafa íslensku tónlistarverðlaunin eiginlega alltaf verið hálf hallærisleg og tilnefningar oft svo útúr kú að ekki er hægt annað en skella uppúr þegar þær eru lesnar. Hugsanleg skýring á þessu er að þeir sem um véla eru ekki að fylgjast með íslenskri tónlist og ég get borið vitni um það að í þau tvö skipti sem ég tók þátt í slíku vali var ég hissa á því hve sumt samstarfsfólk mitt í því vali, "samdómarar", var úti að aka, höfðu til að mynda ekki hlustað á alla þá diska sem velja átti úr, en völdu samt.

Tilnefningar vegna síðustu verðlauna þóttu mér til að mynda sérstaklega ankannanlegar, hljómsveit tilnefnd sem bjartasta vonin sem var að gefa út sína þriðju breiðskífu, tilnefnd hljómsveit sem ekki hafði gefið neitt út og svo má telja. (Vilji menn leita lengra aftur má nefna er Björk Guðmundsdóttir söng fyrir milljarða manna á Ólympíuleikunum árið sem Medúlla kom út og fékk enga tilnefningu þó.) Þetta ár er líka slæmt hvað þetta varðar að mínu viti, tilnefningarnar gefa mjög skakka og villandi mynd af tónlistarárinu og fyrir vikið eru Íslensku tónlistarverðlaunin sama ruglið og endranær. Hvernig stendur til að mynda á því að Sigur Rós er ekki tilnefnd fyrir að hafa spilað fyrir þorra þjóðarinnar á þessu ári með magnaðri tónleikaferð um landi síðsumars? (Ekkert tuð um að hún hafi ekkert gefið út, takk, annað eins hefur nú gerst.) Hvernig stendur á því að Jóhann Jóhansson er hvergi að finna? Hvernig stendur á því að Pældu í því sem pælandi (ýmsir flytja Megasarlög) er tilnefnd sem dægurtónlistarhljómplata ársins en Skakkamanage kemst ekki á lista?

Á síðu tónlistarverðlaunanna má síðan lesa rökstuðning dómnefndar sem er hvorki vandaður né ítarlegur: "Frábær frumraun söngkonunnar sem byrjaði að ferðast um heiminn með Gus Gus þegar hún var aðeins 15 ára gömul," segir til að mynda um plötu Hafdísar Huldar, en ekki ljóst hvort rökin fyrir tilnefningunni eru þau að frumraun hennar sé frábær eða að hún hafi ung lagst í ferðalög. "Popp með lúðrasveitaívafi er sjaldgæft og því sérstakt" segir í rökstuðningi vegna tilnefningar Kajak, þeirrar fínu plötu Benna Hemm Hemm. Þess má geta að hann fékk Íslensku tónlistarverðlaunin 2005 fyrir áþekka plötu.

Annars eru þessar "röksemdir" að mestu lýsingarorðaklám: "Afskaplega mikill gleðigjafi", "hljómsveitin sem íslenska þjóðin elskar að elska, aftur og aftur...", "Ein ferskasta rokkplata sem komið hefur út á Íslandi í langan tíma", "Heillandi nýliði ... " "Frábær frumraun ... " (aftur!), "Skemmtileg fjölbreytni ... ", "það er margt í mörgu" (!), ""Hressandi plata með suðrænni stemmningu", "Falleg tónlist ... Klassík fyrir popparana ... ?-)" (!), "Einn óvæntasti gleðigjafi ársins ... Algjör gullmoli!", " ... frábærir textar og æðislegar útsetningar", "SöngvarINN!", "Næstum fullkomið lag!", "Hún er sjúkleg á nýju ... plötunni ... ", "Ein sérstakasta gulrótin í matjurtagarðinum þetta misserið", "Óþarfi að segja meira".

Óttalegur vaðall er þetta. Hvað þýðir það til að mynda að einhver sé "SöngvarINN!"? Og hvað er átt við með þessum orðum: " ... hljómsveitin sem íslenska þjóðin elskar að elska, aftur og aftur..."? Óneitanlega setur þessi "rökstuðningur" Íslensku tónlistarverðlaunin í ankannalegt ljós, en hæfir skel kjafti.


Póstmódernisminn er dauður

Póstmódernisminn er uppfinning þeirra sem sitja við sitt heimspekilega hlaðborð og finna þar ekkert ætilegt, enga grósku engan gróanda. Undir borðinu iðar aftur á móti allt af lífi, þar er fólk upptekið við að lifa án þess að velta því fyrir sér hvers vegna, upptekið við að njóta án þess að hugsa úti hvað það sé nú smáborgaralegt að vera hamingjusamur.

Póstmódernistinn sækir í það sem honum finnst lágmenning því þar finnur hann lífsanda, lífsgleði, lífsháska. Skáldið kjáir framan í rapparana af því að í þeirra textum verður tungumálið eins og nýtt, málarinn öfundast við graffarana sem fundið hafa upp nýja tjáningu og tónspekingurinn gapir yfir hugmyndaauðgi þeirra sem kunna engar reglur, vita ekki hvað er hægt og gera því það sem ekki er hægt.

Póstmódernistinn minnist til lágmenningardrósarinnar því hann vil eiga við hana mök, finna sér lífsglaða úfna menntunarsnauða drós til að temja. Hann stígur niður af sínum ólympstindi til að sækja sér smá líf, smá svita, smá slor og heldur síðan upp aftur harla ánægður með sjálfan sig og sín víðsýnu viðhorf.

Póstmódernistinn segir af yfirlæti sínu: Þegar almenningur er farinn að tala um póstmódernisma er póstmódernisminn dauður. Orð að sönnu enda er þessu margtugða og -mærða stefna dæmigerður elítismi, hugmyndafræðilegt snobb.


Tölfræðileg ósannindi

Fyrirsögn þessarar fréttar er gott dæmi um það hvernig villa má fyrir fólki með réttu orðavali. Það þarf nefnilega að lesa aðeins lengra þar til kemur í ljós að það er ekki rétt að útstreymi gróðurhúsalofttegunda hjá Alcan hafi minnkað sl. sextán ár, það hefur nefnilega aukist nokkuð á þessum tíma.

Þessi frétt er liður í kosningabaráttu vegna fyrirhugaðrar stækkunar Alcan sem Lúðvík Geirsson og umhverfssóðagengi hans (les: Samfylkingin) hefur þegar samþykkt fyrir sitt leyti. Það má vel vera að útstreymi gróðurhúsalofttegunda hjá Alcan hafi minnkað verulega á 16 árum, jafnvel um 70% eins og haldið er fram í fréttinni, en það er útstreymi fyrir hvert framleitt tonn áls. Þegar svo litið er til þess að framleiðsla álversins hefur aukist um 80% á þessum sextán árum, var 100.000 tonn 1990 og er 180.000 tonn núna, gefur augaleið að útstreymi gróðurhúsalofttegunda vegna álversins í Straumsvík hefur aukist, ekki minnkað. (Það væru svo gaman að vita hvers vegna miðað er við árið 1990, eiga Alcan-menn ekki eldri tölur?)

Sé rýnt í tölur um um hlutfall álversins í Straumsvík sem hlutfall af heildarlosun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi má líka greina aukninguna, því frá 1990 hefur verið stöðug aukning losnunar gróðurhúsalofttegunda hér á landi, úr 3.282.000 tonnum 1990 í 3.631.000 tonn 2004 (skv. tölum Umhverfisstofnunar), og hlutfall álversins í þeirri losun hefur verið nokkuð stöðugt frá 1998 - er meira að segja meira í dag en það var 1993 til 1999 þrátt fyrir "öfluga umhverfisstjórnun" Alcan-manna.

Menn geta síðan skemmt sér við að reikna hverju 280 þúsund tonna framleiðsluaukningu á ári á eftir að skila. Að ekki sé talað um ef geðveikislegustu hugmyndir Alcan-manna og Lúðvíks álgreifa Geirssonar verða að veruleika - allt að 460 þúsund tonna ársframleiðsla! Ef teknar eru tölur frá Alcan-mönnum, 47 kíló af flúorkolefnum á tonn ("algengt er að útstreymi vegna framleiðslunnar sé um 47 kg á tonn"), þá hyggjast Alcan-menn dæla út yfir Hafnfirðinga ríflega 21.000 tonnum af  flúorkolefnum á ári, en þess má geta að flúorkolefni eru margfalt virkari gróðurhúsalofttegund en koltvíildi. Geri aðrir betur!

(Til gamans má nefna að glærurnar sem Guðrún Þóra Magnúsdóttir, "leiðtogi umhverfismála hjá Alcan" notaði á á fundi hjá Samtökum atvinnulífsins um útstreymi frá álverum á Íslandi í vikunni, og hér er vitnað til, eru nánast þær sömu og Hildur Atladóttir notaði á Umhverfisþingi 2005. Alcan sýnir hugmyndaflug í endurvinnslu ...)
 


mbl.is Útstreymi gróðurhúsalofttegunda hjá Alcan minnkað um 70% á 16 árum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hungri útrýmt vestan hafs

Þegar stjórnvöld standa frammi fyrir óþægilegum staðreyndum er stundum betra að breyta skilgreiningu á vandamáli frekar en að ráðast að rótum þess. Dæmi um slíkt væri til að mynda ef maður skilgreindi fílfa sem garðaprýði, frekar en illgresi og sjá: óræktargarðurinn breytist í unaðsreit. Þetta kunna stjórnvöld vestan hafs vel eins og oft hefur komið í ljós - Bush og félagar hans hafa löngu komið auga a að auðveldara (og fljótlegra) er að finna upp ný orð en finna lausnir.

Síðustu fimm ár hefur þeim fjölgað vestan hafs sem ekki eiga alltaf fé til að kaupa sér fæðu þegar líkaminn kallar á nærningu. Hingað til hafa menn kallað slíkt hungur og reynt að henda reiður á hve marga þetta hendir ár hvert og tilgreint fjöldann í skýrslu sem gefin er út reglulega. Í frétt í Washington Post um daginn kemur fram að fyrir ekki svo löngu hafi verið tekin ákvörðun um að hætta að nota orðið hungur í opinberum skýrslum og samantektum, enda sé það ekki nógu "vísindalegt" og ekki til viðurkenndir mælikvarðar á fyrirbærið. Á vef Landbúnaðarráðuneytis Bandaríkjanna er orðið hungur þannig varla að finna lengur en áður mátti sjá það notað með orðunum "fæðuöryggi" og "fæðuóöryggi", "food security" og "food insecurity".

Áður fyrr töldust þeir sem borða reglulega án þess að fá alltaf nóga næringu búa við fæðuóöryggi án hungurs. Þeir sem borðuðu ekki reglulega töldust þá búa við fæðuóöryggi með hungri. Nú er allt með öðrum brag: þeir sem ekki fá nóga fæðu til að uppfylla lágmarks næringarþörf þjást af "litlu fæðuöryggi" og þeir sem ekki fá alltaf að borða þjást af "miklu fæðuóöryggi". Semsé búið að útrýma orðinu ónákvæma hungri og setja í staðinn hin vísindalegu nákvæmu orð "mikið" og "lítið" ... og svo hljómar það svo miklu betur. (Til gamans má geta að um 35 milljónir Bandaríkjamanna búa við mikið eða lítið fæðuóöryggi, eða með öðrum orðum: 35 milljónir manna þurfta að glíma við hungur vestan hafs, mis-mikið þó. Einnig má nefna að forsetinn sjálfur hélt því fram að sögur af hungri í ríki hans, meðal annars í Texas, væru ekki sannar. Hann hefur nú eytt þeim ágreiningi.)


655.000 fallnir

Græna svæðið í Bagdad - önnur svæði í Írak kallar herstjórnin Sláandi tölur sem breska læknisfræðitímaritið The Lancet birtir í dag - 655.000 Írakar hafa látið lífið vegna innrásar Bandaríkjamanna og Breta fyrir þremur árum. Þessar tölur eru margfalt hærri en þær sem Bush sjálfur hefur nefnt, 35.000, og eins umtalsvert hærri en kemur fram á vefsetrinu iraqbodycount.org/, 43-48.000. Á síðarnefnda vefsetrinu, og hjá Bush væntanlega líka, eru menn reyndar aðeins að telja þá sem falla í beinum hernaðaraðgerðum, hvort sem það er vegna framferðis bandamanna eða vegna borgarastríðsins í Írak.

Aðferðarfræði Lancet-manna og samantektina má sjá með því að smella hér (PDF-skjal), en ekki sýnist mér í fljótu bragði að hægt sé að vefengja hana. Í skjalinu kemur einnig fram að dánartíðnin fer hækkandi, þ.e. það farast fleiri á degi hverjum um þessar mundir en fyrir ári. Gleymum því ekki í þessu samhengi að ekki er bara verið að tala um þá sem bandamenn hafa fellt (eða myrt í einhverjum tilvika), heldur einnig þá sem falla vegna bardaga milli ólíkra trúarhópa, eru myrtir af glæpamönnum (löggæsla í molum) eða vegna vandræða sem tengast innrásinni beint eða óbeint (skortur á lyfjum og læknisaðstoð, vatni, rafmagni eða álíka).

Eflaust munu margir bera þessar tölur saman við tölur um mannfall vegna harðstjórans Saddams Hussein, en þeir ættu þá að hafa í huga að Saddam vann sín illvirki á þremur áratugum, en Bandaríkjamenn og Bretar hafa aðeins ráðið Írak í þrjú ár.


Bono er handbendi djöfulsins!

Stephen BaldwinÍ húsi föður míns eru margar vistarverur, er haft eftir Jesú Jósepssyni í Jóhanesarguðspjalli. Það sannast vel vestan hafs þó sumar af þeim vistarverum séu líkari fóðruðum klefum. Dæmi þar um er Stephen Baldvin, bróðir leikarans Alec Baldvin, en Stephen reyndi fyrir sér í Hollywood um tíma, eða þar til hann "endurfæddist" í guðstrú eftir árásirnar á tvíturnana 11. september 2001.

Stephen fer nú um Bandaríkin og kallar ungmenni til liðs við sig og Krist - heldur skemmtanir þar sem skeitarar sýna listir í nafni Krists, selur Jesúboli og Jesúhúfur og prédikar, á stundum mjög skrautlega. Sjálfsævisaga hans, The Unusual Suspect, hefur selst vel en í henni heldur hann því meðal annars fram að frjáls vilji sé verkfæri djöfulsins sem hafi menn eins og Bono að handbendi. Baldvin telur að Bono eigi að eyða tíma sínum í að boða trúna á MTV, en láta Guð sjá um skuldstöðu Afríkuríkja, enda sé tilgangslaust að bæta hag fólks ef það trúi ekki á Jesú eins og hann lýsir svo snyrtilega í viðtali í tímaritinu Radar:

The problem I have is this: Let's say those poor people in those poor countries are relieved of their debt, but they don't know Jesus. Okay, so their life's more comfortable, but then what happens, according to the Bible? You tell me what the point of that is.

Þrátt fyrir allt telur Stephen Baldvin að Bono eigi vísa himnavist, enda sé ekki ástæða til að efast um trúarsannfæringu hans. Hann fær þó ekki eins góðar viðtökur og George Bush:

Oh, he's going to have a nice room in Heaven, Georgie is.


Leynilíf orðanna

Secret Life of WordsÞá komst maður loks í gang á kvikmyndahátíð - sá í gærkvöldi myndina Leynilíf orðanna, La vida secreta de las palabras, eftir Isabel Coixet. Mjög áhrifamikil mynd þó ekki sé hún gallalaus. Undir lokin ræðir söguhetjan Josef, sem Tim Robbins leikur, við Julie Christie sem er í hlutverki Inge, forstöðumanns, alþjóðastofnunar sem hjálpar fórnarlömbum pyntinga. Þau eru að ræða um hjúkrunarkonuna Hönnu, sem Sarah Polley leikur, sem sinnti Robbins eftir alvarlegt slys. Í því samtali segir Cristie Robbins að það versta sem fórnarlömb þjóðernishreinsana og gegndarlauss ofbeldis í Balkanskagastríðum þurfi að glíma við, en Hanna var hart leikin af löndum sínum, sé skömmin yfir því að hafa komist að.

Primo LeviÞetta rímar vel við það sem ítalski rithöfundurinn Primo Levi segir í bókinn I sommersi ei salvati, The Drowned and the Saved, sem var síðasta bókin sem hann lauk við og kom út 1986. Í þriðja kafla bókarinnar, Skömm, segir hann frá því hve erfitt það reyndist mörgum að hafa komist af og hve margir hafi svipt sig lífi eftir að hafa verið bjargað úr fanga- eða útrýmingarbúðum Þjóðverja. Eins og Levi orðaði það þá áttuðu menn sig þá fyrst á niðurlægingunni þegar henni lauk, og margir áttu erfitt með að horfast í augu við sjálfa sig. Hann ræðir einnig um þá tilfinningu að einhver annar hefði frekar átt að lifa af "hvert okkar [...] hefur tekið sess nágranna síns og lifir í hans stað".

Að mati Levis voru það aðeins hinir verstu sem lifðu hörmungarnar af, hinir sjálfselsku, svikulu, eigingjörnu, fláráðu komust af en hinir göfugu, góðu, hughraustu fórust, drukknuðu. Þeir sem fórust voru þeir einu sem þekktu til fullnustu hörmungar útrýmingarbúðanna og voru fyrir vikið ófærir um að segja frá reynslu sinni.

Eins og Levi lýsti því átti hann sífellt erfiðara með að sætta sig við að hafa komist af þegar svo margir létust, sektarkenndin varð æ sterkari eftir því sem hann lifði lengur. Enn deila menn um það hvort það hafi verið sektin sem varð til þess að hann stytti sér aldur 11. apríl 1987 í stigaganginum heima hjá sér eða hvort hann hafi fallið fyrir slysni.


Allur tilfinningaskalinn

Under byenÞegar danska hljómsveitin Under byen steig sín fyrstu spor fyrir um áratug vakti meðal annars athygli manna að sungið var á dönsku, nokkuð sem menn áttu ekki að venjast í Danmörku - þar var þá, og er reyndar enn, alsiða að sungið væri á ensku. Þegar söngkonan og textahöfundurinn Henriette Sennenvaldt var spurð um þetta atriði í viðtali fyrir nokkru sagði hún að til að byrja með hefði hún sungið á ensku vegna þess að henni fannst auðveldara að syngja hana en dönskuna, en síðan fannst henni holur hljómur í enskunni, að hún næði ekki jafn vel til áheyrenda og ef hún notaði dönsku.

Þetta rímar nokkuð vel við það sem Björk Guðmundsdóttir sagði í viðtali fyrir nokkrum árum - henni hefði liðið eins og hún væri að ljúga þegar byrjaði að syngja á ensku, svo langt fannst henni frá tilfinningunni sem hún var að tjá í tungumálið erlenda sem hún notaði til að tjá þær. Með tímanum hefur hún eflaust minnkað þetta bil, en þegar maður heyrir frá henni stök orð eða setningar á íslensku í lögum hennar finnur maður að þau orð koma beina leið frá hjartanu og rata skemmri leiði beint í hjartastað þess sem hlustar.

Það eru fjölmargar ástæður fyrir því að menn syngja á öðru tungumáli en sínu eigin, en að mínu viti er það oftast ótti sem verður til þess, ótti við orð, við tilfinningar. Þannig getur söngvari horft í augu hundruða áheyrenda og sungið "I love you" en ef hann á að segja þau orð á íslensku roðnar hann og stamar. Prófaðu þetta ágæti lesandi og finndu hvernig íslensku orðin hafa allt aðra og dýpri merkingu en þau ensku, hvernig maður fyrirverður sig eiginlega að vera segja annað eins við ókunnuga upp á íslensku, en getur svosem látið það vaða á ensku. (Þeir sem eiga annað móðurmál en íslensku get snúið þessu við til að finna sömu áhrif.)

Tilfinningavirkið í hausnum á okkur er allt byggt upp á móðurmálinu og fyrir vikið næst best samband við tilfinningarnar í gegnum móðurmálið. Ég hef því aldrei skilið hvers vegna tónlistarmenn sem eru að syngja fyrir Íslendinga nota ekki allan tilfinningaskalann, hvers vegna þeir breiða teppi yfir lögin áður en þau eru borin á borð fyrir áheyrendur, hvers vegna þeir ganga ekki alla leið. Nema þeir hafi ekkert að segja.

Á þessu ári hafa mér borist sextíu íslenskar plötur ólíkrar gerðar og mis-góðar eins og gengur. Af þeim eru sjö án söngs, nítján á ensku og ein á ensku að mestu. Einhverjar af þeim plötum sem sungnar eru á ensku eru gefnar út ytra og því skiljanlegt að því leyti að menn séu að syngja á alþjóðlegu tungumáli, en flestar þó gefnar út fyrir íslenskan markað og stendur ekki til að gefa þær úr erlendis að því ég best veit.

Mín reynsla er sú að það sé ákveðinn þröskuldur á íslenskum markaði fyrir þá sem syngja á ensku, þær plötur seljast almennt betur sem notast við það mál sem flestir skilja og gildi einu hvort verið sé að syngja um eitthvað sem skiptir máli eða bulla út í eitt. Þó eru dæmi um íslenskar plötur sem sungnar hafa verið á ensku og selst bráðvel hér á landi þannig að ekki er það einhlítt.

Að þessu sögðu má gera ráð fyrir að einhverjir af þeim sem senda frá sér ísl-enskar plötur sem ég hef heyrt á árinu séu að horfa til útlanda - syngi á ensku til að auðvelda sér leið á erlendan markað. Það er þó hægar sagt en gert, þarf til mikla hæfileika eins og dæmin sanna og líka það að vera öðruvísi, að skera sig úr. Til dæmis að syngja á íslensku.

(Rétt er að geta þess að myndin er af Under byen. Henriette Sennenvaldt er lengst til vinstri. Til gamans má svo nefna að ég er á leið til Kaupmannahafnar í byrjun desember með það að markmiði að sjá hljómsveitina á sviði öðru sinni, en ég sá hana fyrst í Árósum fyrir nokkrum árum.)


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Árni Matthíasson
Árni Matthíasson
Skoðanir á mönnum og málefnum á þessari síðu eru birtar með opnu notendaleyfi. Öllum er heimilt að tileinka sér þær og halda þeim fram sem sínum eigin.
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.5.): 5
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 28
  • Frá upphafi: 117517

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 26
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband