Færsluflokkur: Trúmál og siðferði
Fimmtudagur, 3. júlí 2008
Kirkja og kynjaaðskilnaður
Mjög þótti mér fróðleg umræða á BBC fyrir stuttu þar sem menn vörpuðu fram þeirri spurningu hvort við ættum að sætta okkur við það að trúarbrögð fælu í sér ójafnrétti, Is it ok for religion to enshrine inequality? (Undirliggjandi vitanlega spurningin: Hvað myndum við gera við stórfyrirtæki sem sýndu sömu kynjamismunun og kirkjur/moskur?)
Kveikjan að þessari spurningu var bréf sem 1.300 prestar í ensku biskupakirkjunni skrifuðu til kirkjuyfirvalda þar sem þeir lýstu því yfir að ef konum yrði veitt biskupstign myndu þeir yfirgefa kirkjuna og til vara að þeir þurfi ekki að lúta kennivaldi kvenbiskupa.
Nú þarf það í sjálfu sér ekki að koma á óvart að liðmenn í biskupakirkjunni séu andsnúnir konum, gleymum því ekki að hún er afkvæmi kaþólsku kirkjunnar, en fróðlegt þótti mér að hlusta á einn 1300-menninganna, prestinn Giles, að mig minnir, sem kynnti sig sem kaþólikka í ensku biskupakirkjunni (nú er ég ekki vel að mér í kirkjusögu, en í ljósi þess að á þessum kirkjum er bitamunur en ekki fjár, þykir mér líklegt að hans kennisetningar séu ekki langt frá dogma kaþólikka.
Giles fór um víðan völl í röksemdafærslu, var oft fyndinn, væntanlega án þess að ætla sér það, til að mynda þegar hann talaði um að það það að vilja verða prestur væri köllun, en konur fengju bara ekki slíka köllun.
Laugardagur, 1. mars 2008
Lazarus snýr aftur
Á tónleikum Nick Cave í Hótel Íslandi fyrir nokkrum árum var stemmningin á köflum líkt og á vakningarsamkomu, áheyrendur upp fullir af heilögum anda og geislaði af þeim náðin; þegar fyrstu hljómarnir af The Mercy Seat ómuðu tók ég eftir því að kona við hlið mér fór að gráta.
Iðulega grípa menn til samlíkinga úr gamla testamentinu þegar þeir lýsa Nick Cave, líkja honum veðurbarinn hálf-bilaðan spámann sem muldrar eitthvað sem trauðla verður skilið eða má eiginlega skilja hvernig sem er eins og allir góðir trúartextar eiga sammerkt. Vísast er þessi trúartenging til komin vegna þess hve Cave er sjálfur gjarn á að grípa til Biblíunnar við textagerð.
Á meðan Cave var þannig á leið til Helvítis, þegar hann hafði sett kúrsinn kyrfilega á gröfina með sprautuna í annarri hendinni og pyttluna í hinni var gamla testamentin honum hugleikið,eldur brennisteinn, eilíf pína í díkinu mikla sem logar af eldi og brennisteini. (Svo uppgötvaði hann Nýja Testamentið og fór að syngja öllu dægilegri lög og reyndarbragðdaufari.)
Lagið The Mercy Seat sem getið er hér að ofan sækir til að mynda líkingu í aðra Mósebók, þar sem tínduð eru ákvæði um helgihald: "Þú skalt og gjöra lok af skíru gulli; skal það vera hálf þriðja alin á lengd og hálf önnur alin á breidd. Og þú skalt gjöra tvo kerúba af gulli, af drifnu smíði skalt þú gjöra þá á hvorumtveggja loksendanum. Og lát annan kerúbinn vera á öðrum endanum, en hinn á hinum endanum; þú skalt gjöra kerúbana áfasta við lokið á báðum endum þess. En kerúbarnir skulu breiða út vængina uppi yfir, svo að þeir hylji lokið með vængjum sínum, og andlit þeirra snúa hvort í mót öðru; að lokinu skulu andlit kerúbanna snúa." (II. Mósebók, 25:17-20
Nick Cave leikur sér með þessa samlíkingu í laginu The Mercy Seat (á Tender Prey, 1988), les lýsinguna á því sem kallast lok í íslenskum biblíuútgáfum en snara má sem "líknarsæti" í enskri útgáfu, en í laginu bíður fanginn þess að setjast í rafmagnsstólinn og losna frá lífsins þraut. (The Mercy Seat fékk svo á sig enn trúarlegri blæ þegar Johnny Cash tók það upp á American III, en það er önnur saga.)
Því er þetta rifjað upp hér að á morgun kemur út ný breiðskífa Nick Cave með því magnaða heiti Dig!!! Lazarus Dig!!! sem er tvímælalaust með helstu verkum hans undanfarin ár ef ekki áratugi. Á plötunni nýtur hann fulltingis félaga sinna í The Bad Seeds, sem eru þeirra náttúru að geta spilað allt, brugðið sér í allra kvikinda líki og hreytt út úr sér kraftmikið hráslagalegt rokk, kveinandi döprum blús, tilfinningaþrungnum ballöðum eða ljúfsárum fíngerðum mæðusöng. Tónlistin á plötunni er rokk, en önnur gerð rokks en finna mátti á Grinderman-skífu Cave sem kom út á síðasta ári - nú standa menn föstum fótum í gömlum tíma, blúskennt og þróttmikið.
Líklegt verður að teljast að allir þekki líkingu þá sem titill skífunnar vísar í og á vefsetri Caves segir hann einmitt að sagan af Lazarusi hafi verið sér hugleikin frá barnsaldri og þá ekki bara hve mikið kraftaverk þetta hafi verið heldur hafi hann líka mikið hugsað um það hvernig Lazarus hafi tekið þessu öllu saman, hvað honum hafi fundist um það að hafa verið ræstur til lífs. "Sem krakki fannst mér þetta heldur óhuggulegt," segir hann á vefsetrinu og bætir við að hann hafi ekki bara endurreist Lazarus heldur skotið honum fram á tíma til New York áttunda áratugarins; hinn nýi Lazarus vaknar til lífsins á Times torgi, lastamiðstöðin mikla þar sem drukkið og hórast var út í eitt.
Ég meina, hann bað aldrei um að verða vakinn upp frá dauðum
ég meina enginn bað hann um að yfirgefa drauma sína
hann endaði, líkt og svo margir, á götunni í New York
í súpuröð, dóphaus, þræll, síðan fangelsi, þá geðveikrahæli, loks gröfin.
Æ, aumingja Larry.
Í hálfan fjórða áratug hefur Nick Cave verið að fást við tónlist og þar af hefur hann starfað með The Bad Seeds með hléum í tæpan aldarfjórðung. Á þeim árum og áratugum hefur hann glímt við spurningar um tilgang eða tilgangsleysi, leitað svara hinstu rök tilverunnar, en Lazarus frá Betaníu getur ekki svarað; hann segir ekkert frá því sem beið hans, eftir honum er ekkert haft og við erum engu nær - æ, aumingja Larry með nályktina sína.
(Hluti úr þessari færslu birtist í Morgunblaðinu 2. mars.)
Trúmál og siðferði | Breytt 4.3.2008 kl. 09:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Þriðjudagur, 5. desember 2006
Póstmódernisminn er dauður
Póstmódernisminn er uppfinning þeirra sem sitja við sitt heimspekilega hlaðborð og finna þar ekkert ætilegt, enga grósku engan gróanda. Undir borðinu iðar aftur á móti allt af lífi, þar er fólk upptekið við að lifa án þess að velta því fyrir sér hvers vegna, upptekið við að njóta án þess að hugsa úti hvað það sé nú smáborgaralegt að vera hamingjusamur.
Póstmódernistinn sækir í það sem honum finnst lágmenning því þar finnur hann lífsanda, lífsgleði, lífsháska. Skáldið kjáir framan í rapparana af því að í þeirra textum verður tungumálið eins og nýtt, málarinn öfundast við graffarana sem fundið hafa upp nýja tjáningu og tónspekingurinn gapir yfir hugmyndaauðgi þeirra sem kunna engar reglur, vita ekki hvað er hægt og gera því það sem ekki er hægt.
Póstmódernistinn minnist til lágmenningardrósarinnar því hann vil eiga við hana mök, finna sér lífsglaða úfna menntunarsnauða drós til að temja. Hann stígur niður af sínum ólympstindi til að sækja sér smá líf, smá svita, smá slor og heldur síðan upp aftur harla ánægður með sjálfan sig og sín víðsýnu viðhorf.
Póstmódernistinn segir af yfirlæti sínu: Þegar almenningur er farinn að tala um póstmódernisma er póstmódernisminn dauður. Orð að sönnu enda er þessu margtugða og -mærða stefna dæmigerður elítismi, hugmyndafræðilegt snobb.
Trúmál og siðferði | Breytt 14.5.2007 kl. 16:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Þriðjudagur, 10. október 2006
Bono er handbendi djöfulsins!
Í húsi föður míns eru margar vistarverur, er haft eftir Jesú Jósepssyni í Jóhanesarguðspjalli. Það sannast vel vestan hafs þó sumar af þeim vistarverum séu líkari fóðruðum klefum. Dæmi þar um er Stephen Baldvin, bróðir leikarans Alec Baldvin, en Stephen reyndi fyrir sér í Hollywood um tíma, eða þar til hann "endurfæddist" í guðstrú eftir árásirnar á tvíturnana 11. september 2001.
Stephen fer nú um Bandaríkin og kallar ungmenni til liðs við sig og Krist - heldur skemmtanir þar sem skeitarar sýna listir í nafni Krists, selur Jesúboli og Jesúhúfur og prédikar, á stundum mjög skrautlega. Sjálfsævisaga hans, The Unusual Suspect, hefur selst vel en í henni heldur hann því meðal annars fram að frjáls vilji sé verkfæri djöfulsins sem hafi menn eins og Bono að handbendi. Baldvin telur að Bono eigi að eyða tíma sínum í að boða trúna á MTV, en láta Guð sjá um skuldstöðu Afríkuríkja, enda sé tilgangslaust að bæta hag fólks ef það trúi ekki á Jesú eins og hann lýsir svo snyrtilega í viðtali í tímaritinu Radar:
The problem I have is this: Let's say those poor people in those poor countries are relieved of their debt, but they don't know Jesus. Okay, so their life's more comfortable, but then what happens, according to the Bible? You tell me what the point of that is.
Þrátt fyrir allt telur Stephen Baldvin að Bono eigi vísa himnavist, enda sé ekki ástæða til að efast um trúarsannfæringu hans. Hann fær þó ekki eins góðar viðtökur og George Bush:
Oh, he's going to have a nice room in Heaven, Georgie is.
Fimmtudagur, 17. ágúst 2006
Ósigur Ísraela
Þvert á von bókstafstrúarmanna vestan hafs og víðar varð árás Ísraela á Líbanon ekki til þess að flýta fyrir heimsendi og það þó menn hefði vísað í Opinberunarbókina fram og aftur. Sjá til að mynda hér, hér eða hér. (Ævintýraleg della.)
Öllu verra, fyrir Ísraela í það minnsta, var að árásirnar urðu ekki til þess að auka öryggi Ísraels og merkilegt hve hinn vel vopnaði her landsins var illa búinn undir stríðið þegar á reyndi. Ýmsir hafa gert því skóna að ráðamenn vestan hafs hafi lagt hart að Ísraelum að láta til skarar skríða og talið þeim trú um að loftárásir á bækistöðvar Hizbolla myndu draga broddinn úr Hizbolla og síðan mætti sprengja Líbani til hlýðni - með árásum á óbreytta borgara í bland við árásir á Hamas, samanber fjöldamorðin í Qana, mætti berja Líbani til þess að afvopna Hamas. það hefur og komið framað Bandaríkjamenn áttu von á því að átökin í Líbanon gætu veikt stöðu Sýrlendinga og þar með breytt valdahlutföllum fyrir botni Miðjarðarhafs.
Málið er bara það að Hizbolla hefur komið sér svo vel fyrir í samfélagi sjíta í Suður-Líbanon og nýtur svo mikillar velvildar að eina leiðin til að sigra samtökin er að drepa alla íbúa svæðisins eða hrekja þá á brott fyrir fullt og allt. Það bætir enn stöðu samtakanna að nú þegar flóttamenn snúa aftur til sína heima eru það Hamas-liðar sem leggja þeim lið við að endurreisa húsnæði, tengja vatnsleiðslur, endurbyggja skóla og sjúkrahús og útdeila mat og lyfjum til þurfandi. Stjórnvöld í Beirút hafa ekki brugðist við af sama krafti og ekki Sameinuðu þjóðirnar - ekki er bara að Hizbolla hafi unnið stríðið (með því að lifa það af og gott betur) - samtökin eru líka að vinna friðinn.
Ýmsir hafa reynt að gera hið besta úr öllu saman, halda því fram að Hizbolla sé nánast óstarfhæft, að friðargæsluliðar Sameinuðu þjóðanna muni tryggja öryggi Ísraels og halda Hizbolla í skefjum, en það er bara tálsýn og óskhyggja. Yfirlýsingar Bush um þessi máli eru til að mynda hreinn barnaskapur og eins var flest það sem frá Condolezza Rice utanríkisráðherra Bandaríkjanna tóm steypa. Hún er rúin trausti í þessum heimshluta.
Ísraelskur almenningur er sleginn yfir lélegri frammistöðu hersins, ekki síður en yfir aulagangi yfirmanna hans og forsætisráðherrans - ríflega helmingur Ísraelsmanna telur að hernum hafi mistekist ætlunarverk sitt og enn fleiri telja að Ísrael hafi ekki náð neinu af markmiðum sínum með árásinni á Líbanon. Kemur ekki á óvart að menn eru almennt mjög óánægðir með forsætisráðherrann og enn óánægðari með varnarmálaráðherrann.
Ágæt úttekt á niðurstöðu stríðsins í Suður-Líbanon hjá Shmuel Rosner blaðamanni Haaretz hér. ("My Lebanese friend wrote me a couple of days ago: "Destroying Lebanon will do you no good; all you're doing is nurturing additional hate towards the Israelis." I have not yet answered. I don't really know what to say.")
Hann tekur líka fyrir orðaleppana og hálfsannleikinn sem stjórnmálamenn bregða fyrir sig hér. ("70% of Hezbollah capability was destroyed But it appears that these terrorist bastards had 750% before the war.")
Laugardagur, 24. júní 2006
Trú og trúleysi
Sérkennileg spurning í Morgunblaðinu í dag í annars ágætu viðtali við breska þróunarlíffræðinginn Richard Dawkins: "Af hverju kýst þú að vera trúleysingi?"
Nú veit ég ekki hvernig spurningin hljóðaði á ensku, kannski var hún bara "Why are you an atheist?" en eins og hún hljómar á íslensku er líklegra að hún hafi verið "Why did you decide to be an atheist" eða "Why did you choose to be an atheist?" Það þykir mér sýna sérkennilegan skilning á trúleysi - stillir því upp eins og kerfisbundnu hugmyndakerfi, nánast eins og trúarbrögðum.
Að mínu viti er lítið betra að tilheyra trúleysissöfnuði en trúarsöfnuði. Annað hvort trúa menn eða ekki. Það þarf enga ástæðu fyrir því eða réttlætingu. Trúleysi er augljóst fyrir hinum trúlausu á sama hátt og trúin er augljós fyrir þeim sem trúa.
Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 23:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
Þriðjudagur, 30. maí 2006
Hatursguðspjallið
Þeir eru samir við sig höfuðsmenn hræsninnar í repúblikanaflokknum vestan hafs. Árum saman hefur Fred Waldron Phelps, leiðtogi baptistakirkjunnar í Westboro, og hyski hans komið sér fyrir við útfarir samkynhneigðra, með spjöld og borða þar sem því er haldið fram að hinn látni sé nú í vítisloga og þaðan af verra og gert hróp að syrgjendum. (Þess má geta að Phelps hefur látið þau orð falla að biblían mæli fyrir um dauðrefsingu við samkynhneigð.)
Stjórnvöld hafa látið sér þetta atferli Phelps og fylgjenda í léttu rúmi liggja og vísað í lög um tjáningarfrelsi.
Fred Phelps lét þó ekki þar við sitja, hann sækist eftir athygli og fannst menn ekki taka nógu vel eftir mótmælunum við útfarin samkynhneigðra. Næst á dagskrá var þá að mótmæla við útfarir þekktra manna og ættingja þeirra, til að mynda mótmælti hann er faðir Al Gore var jarðsettur, Barry Goldwater, Sonny Bono, Móðir Clintons og svo má telja.
Nú síðast tók Phelps og safnaðarmeðlimir, sem eru víst allir ættingjar hans utan einn, að mótmæla við útfarir hermanna sem fallið hafa í Írak, enda tekja þeir að mannfallið þar sé refsing guðs vegna þess að Bandaríkjamenn skeri ekki upp herör gegn samkynhneigð. Þá loks bregðast menn við á þingi vestan hafs og setja lög um að bannað sé að mótmæla innan 100 metra frá kirkjugarði og í 50 metra frá veg að kirkjugarði.
Af Fred Phelps er það annað að segja að saga hans hljómar eins og lygasaga. Ekki er bara að maðurinn sé upp fullur af hatri og fordómum, heldur var hann ofbeldisfullur fíkniefnaneytandi áratugum samana, misþyrmdi konu sinni og börnum, stal og laug og gerði börnin út sem þjófagengi til að fjármagna neysluna. Wikipedia er með ágæta samantekt og eins er til á netinu bók sem skrifuð var um hann, Addicted to Hate.
Þriðjudagur, 28. febrúar 2006
Er gráminn góður?
Mér hefur sýnst það í gegnum árin að framfarir séu alla jafna vegna núnings milli manna og hugmynda, átaka hugmyndanna og togstreitu, sprottnar af ástríðu og áhuga, glíma í góðu. Sú ósk að allir geti lifað saman í sátt og samlyndi er góð og göfug og á vissulega rétt á sér. Óspennandi finnst mér þó sú ósk Lennons um heim þar sem séu engar eignir, engin trúarbrögð, engin lönd og engar þjóðir, engar langanir. Óttalega yrði það grár heimur og daufur.
Trúmál og siðferði | Breytt 16.3.2006 kl. 10:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Miðvikudagur, 8. febrúar 2006
Breiði pensillinn
Ívar Páll hefur pistilinn á þessum orðum: "Lýðræði og mannréttindi eru af einhverjum orsökum ekki við lýði í ríkum múslima."
Múslimar í heiminum eru nokkuð á annan milljarð. Af múslimum eru arabar fimmtungur eða þar um bil. 20% múslima búa í Afríku sunnan Sahara. 30% í Suðaustur-Asíu. Fjölmennir hópar múslima eru í Kína, Evrópu, Mið-Asíu og Rússlandi.
Meðal þeirra fimm landa þar sem múslimar eru fjölmennastir er ekkert arabaríki: Indónesía, Pakistan, Bangladesh, Indland og Tyrkland. Af þessum löndum má segja að Indónesía, Bangladesh og Tyrkland séu ríki múslima, því þar eru múslimar í meirhluta. Þau eru lýðræðisríki, þó vissulega sé víða pottur brotinn í mannréttindamálum.
Í pistli Ívars segir: "Flestir afkastamestu hryðjuverkamenn síðustu ára eru múslimar og arabar." Villandi, því þó þeir séu múslimar flestir, held ég að þeir sem ekki eru arabar séu býsna margir. Sjá til að mynda hryðjuverkið á Balí í október 2002 og annað mannskætt hryðjuverk þar í landi í ágúst 2003. Í þeim tilfellum voru illvirkjarnir Indónesar. Ekki arabar. Bendi og á að hryðjuverkamennirnir í Lundúnum fyrir ekki svo löngu voru Bretar ættaðir frá Pakistan.
Yfirskrift pistils Ívars Páls er lærð tilvísun hans í hugvekju Johns Donnes, "Devotions upon Emergent Occasions", frá 1623. Sú hugvekja er mögnuð lesning, eins og flest það sem Donne skrifaði, og gegnsýrt af húmanískri kristni, eiginlega sósíalískri kristni. Í þeim þrengingum Dana sem nú standa yfir geta þeir huggað sig við þessa tilvitnun í téða hugvekju:
"No man hath affliction enough that is not matured and ripened by it, and made fit for God by that affliction."
Trúmál og siðferði | Breytt 16.3.2006 kl. 10:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Tenglar
Vefgreinar
- Dont Legalize Drugs by Theodore Dalrymple, City Journal Spring 1997 Advocates have almost convinced Americans that legalization will remove most of the evil that drugs inflict on society. Dont believe them. City Journal - Spring 1997
Vefmiðlar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (18.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 4
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar