Lazarus snýr aftur

mut113-001-MFÁ tónleikum Nick Cave í Hótel Íslandi fyrir nokkrum árum var stemmningin á köflum líkt og á vakningarsamkomu, áheyrendur upp fullir af heilögum anda og geislaði af þeim náðin; þegar fyrstu hljómarnir af The Mercy Seat ómuðu tók ég eftir því að kona við hlið mér fór að gráta.

Iðulega grípa menn til samlíkinga úr gamla testamentinu þegar þeir lýsa Nick Cave, líkja honum veðurbarinn hálf-bilaðan spámann sem muldrar eitthvað sem trauðla verður skilið eða má eiginlega skilja hvernig sem er eins og allir góðir trúartextar eiga sammerkt. Vísast er þessi trúartenging til komin vegna þess hve Cave er sjálfur gjarn á að grípa til Biblíunnar við textagerð.

Á meðan Cave var þannig á leið til Helvítis, þegar hann hafði sett kúrsinn kyrfilega á gröfina með sprautuna í annarri hendinni og pyttluna í hinni var gamla testamentin honum hugleikið,eldur brennisteinn, eilíf pína í díkinu mikla sem logar af eldi og brennisteini. (Svo uppgötvaði hann Nýja Testamentið og fór að syngja öllu dægilegri lög og reyndarbragðdaufari.)

Lagið The Mercy Seat sem getið er hér að ofan sækir til að mynda líkingu í aðra Mósebók, þar sem tínduð eru ákvæði um helgihald: "Þú skalt og gjöra lok af skíru gulli; skal það vera hálf þriðja alin á lengd og hálf önnur alin á breidd. Og þú skalt gjöra tvo kerúba af gulli, af drifnu smíði skalt þú gjöra þá á hvorumtveggja loksendanum. Og lát annan kerúbinn vera á öðrum endanum, en hinn á hinum endanum; þú skalt gjöra kerúbana áfasta við lokið á báðum endum þess. En kerúbarnir skulu breiða út vængina uppi yfir, svo að þeir hylji lokið með vængjum sínum, og andlit þeirra snúa hvort í mót öðru; að lokinu skulu andlit kerúbanna snúa." (II. Mósebók, 25:17-20

Nick Cave leikur sér með þessa samlíkingu í laginu The Mercy Seat (á Tender Prey, 1988), les lýsinguna á því sem kallast lok í íslenskum biblíuútgáfum en snara má sem  "líknarsæti" í enskri útgáfu, en í laginu bíður fanginn þess að setjast í rafmagnsstólinn og losna frá lífsins þraut. (The Mercy Seat fékk svo á sig enn trúarlegri blæ þegar Johnny Cash tók það upp á American III, en það er önnur saga.)

Því er þetta rifjað upp hér að á morgun kemur út ný breiðskífa Nick Cave með því magnaða heiti Dig!!! Lazarus Dig!!! sem er tvímælalaust með helstu verkum hans undanfarin ár ef ekki áratugi. Á plötunni nýtur hann fulltingis félaga sinna í The Bad Seeds, sem eru þeirra náttúru að geta spilað allt, brugðið sér í allra kvikinda líki og hreytt út úr sér kraftmikið hráslagalegt rokk, kveinandi döprum blús, tilfinningaþrungnum ballöðum eða ljúfsárum fíngerðum mæðusöng. Tónlistin á plötunni er rokk, en önnur gerð rokks en finna mátti á Grinderman-skífu Cave sem kom út á síðasta ári - nú standa menn föstum fótum í gömlum tíma, blúskennt og þróttmikið.

Líklegt verður að teljast að allir þekki líkingu þá sem titill skífunnar vísar í og á vefsetri Caves segir hann einmitt að sagan af Lazarusi hafi verið sér hugleikin frá barnsaldri og þá ekki bara hve mikið kraftaverk þetta hafi verið heldur hafi hann líka mikið hugsað um það hvernig Lazarus hafi tekið þessu öllu saman, hvað honum hafi fundist um það að hafa verið ræstur til lífs. "Sem krakki fannst mér þetta heldur óhuggulegt," segir hann á vefsetrinu og bætir við að hann hafi ekki bara endurreist Lazarus heldur skotið honum fram á tíma til New York áttunda áratugarins; hinn nýi Lazarus vaknar til lífsins á Times torgi, lastamiðstöðin mikla þar sem drukkið og hórast var út í eitt.

Ég meina, hann bað aldrei um að verða vakinn upp frá dauðum
ég meina enginn bað hann um að yfirgefa drauma sína
hann endaði, líkt og svo margir, á götunni í New York
í súpuröð, dóphaus, þræll, síðan fangelsi, þá geðveikrahæli, loks gröfin.
Æ, aumingja Larry.

Í hálfan fjórða áratug hefur Nick Cave verið að fást við tónlist og þar af hefur hann starfað með The Bad Seeds með hléum í tæpan aldarfjórðung. Á þeim árum og áratugum hefur hann glímt við spurningar um tilgang eða tilgangsleysi, leitað svara hinstu rök tilverunnar, en Lazarus frá Betaníu getur ekki svarað; hann segir ekkert frá því sem beið hans, eftir honum er ekkert haft og við erum engu nær - æ, aumingja Larry með nályktina sína.

(Hluti úr þessari færslu birtist í Morgunblaðinu 2. mars.) 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Alfreð Símonarson

Ég vona að ég sé ekki ókurteis ef ég pota hérna aðeins minni nýust færslu um efnarákir yfir Reykjavík. Ég er að reyna að safna sem flestum í þessa umræðu og er öllum það frjálst að bæta við athugasemd ef þið viljið tjá ykkur um þetta ákveðna málefni:

Víða efnarákir yfir Reykjavík, krakkar ekki borða snjóinn!!





Kær kveðja Alli

Alfreð Símonarson, 2.3.2008 kl. 23:22

2 Smámynd: SeeingRed

Skemmtileg grein.

SeeingRed, 3.3.2008 kl. 23:19

3 Smámynd: SeeingRed

p.s ....æðislegt að heyra lag af My Life in the Bush Of Ghosts, hef ekki heyrt þetta mjög lengi, verð að fara að fá mér plötuspilara svo að ég geti farið að dusta rykið af vínylplötunum.

SeeingRed, 3.3.2008 kl. 23:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Árni Matthíasson
Árni Matthíasson
Skoðanir á mönnum og málefnum á þessari síðu eru birtar með opnu notendaleyfi. Öllum er heimilt að tileinka sér þær og halda þeim fram sem sínum eigin.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 12
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 12
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband