Færsluflokkur: Tónlist
Fimmtudagur, 12. janúar 2006
Pjátur og látún
Tónlist er list en hún er líka varningur. Hún byggist á beislun hins óræða og óáþreifanlega en þarfnast hins áþreifanlega og hversdagslega til að listamaðurinn sem skapar geti haft af henni eitthvert viðurværi og eins að gera þeim kleift að njóta listarinnar sem vilja. Þetta tvennt togast jafnan á, gleymum því ekki að fremstu listamenn hafa skapað sín helstu verk eftir pöntun og til að hafa í sig og á, en um hver jól nær hið síðarnefnda yfirhöndinni.
Ekki þarf að orðlengja það hve kjánalegt það er þegar list er metin á mælikvarða íþrótta, hver selur mest eða hraðast eða víðast. Skondin var til að mynda sú markaðssetning á skáldverki fyrir jól að hún væri helst eiguleg fyrir það í hve mörgum löndum hún myndi hugsanlega koma út. Eins má segja með tónlistina, því þó það sé fréttnæmt ef íslendingum gengur vel verður listaverk ekki merkilegra fyrir það að margir vilji eiga það.
Bóka- og plötuútgáfa hér á landi nær jafnan hæst síðustu mánuðina fyrir jól, enda kemur þá út obbinn af þeim bókum og plötum sem koma út á hverju ári. Skýring á þessu er aðallega sú að jólamarkaðurinn er aðallega gjafamarkaður, þ.e. fólk er að kaupa bækur eða plötur til að gjafa en alla jafna síður fyrir sjálft sig.
Þetta má til að mynda sjá á því hvernig Tónlistinn, sem birtur er vikulega í Morgunblaðinu og byggist á sölutölum úr nokkrum helstu plötuverslunum, gerbreytist um hver áramót. Síðasti listi ársins er þannig allt öðruvísi en fyrsti listi næsta árs enda eru fjöldi eintaka sem skilað dreginn frá þeim sem keypt eru og oftar en ekki mikill halli (mínustala). Þannig háttaði því svo til á tónlistanum fyrir 52. viku liðins árs að nærfellt allar metsöluplöturnar voru horfnar sem sátu á toppnum í 51. viku. Ekki var nema ein plata eftir, plata Magnúsar Þórs Sigmundssonar, sem bendir til þess að þá plötu hafi fólk fyrst og fremst verið að kaupa fyrir sjálft sig (þó víst geti það verið að þeir sem gefið hafa þá plötu séu naskari að velja gjafir en gengur og gerist). Það er svo ekki nema eðlilegt að þær plötur sem mest seljast séu og þær plötur sem mest er skilað.
Snar þáttur í markaðssetningu gjafamarkaði, eins og háttar með íslenskan plötu- og bókamarkað, er að vekja athygli á því hvað sé vinsælast, hvað flesta langi til að fá í jólagjöf. Gæði eða listrænt inntak hugverkanna sem um ræðir skiptir vissulega einnig máli, en minna máli. Þegar bækur eru annars vegar er það gert með bóksölulistanum og með auglýsingum um að upplag sé búið og því meiri spenna eftir því sem hærri raðtölu er skeytt framan við. Á plötumarkaði, sem er meginviðfangsefni þessa pistils, nýta menn Tónlistann og auglýsa vel hvar þeirra plötur hafa lent, en líka eru þeir duglegir við að senda frá sér fréttatilkynningar um plötusölu, sérstaklega ef hægt er að skreyta slíkar tilkynningar með gulli og platínu.
Veittar eru tvær viðurkenningar fyrir plötusölu, annars vegar gullviðurkenning fyrir 5.000 seld eintök og svo platínuviðurkenning fyrir 10.000 seld eintök. Nú er málum svo háttað á plötumarkaði að plötur eru almennt seldar með skilarétti, þ.e. annarsvegar hafa verslanir alla jafna heimild til að skila til útgefanda óseldum eintökum og svo hinsvegar hafa viðskiptavinir skilarétt á þeim plötum sem þeir hafa keypt eða fengið að gjöf. Um þetta gilda ýmsar reglur sem þarflaust er að tíunda hér, en gefur augaleið að erfitt er að gefa upp af nokkurri nákvæmni hve mikið hefur selst af plötu á þeim tíma sem mest sala er í gangi (gleymum því ekki að að þær plötur sem mest seljast séu og þær plötur sem mest er skilað).
Í raun er eini marktæki mælikvarðinn á árssölu á plötu sú tala sem útgefandinn gefur upp við STEF, Samband tónskálda og eigenda flutningsréttar, að loknu ársuppgjöri, því hann þarf að greiða höfundarréttargjöld af þeirri tölu og þá kostar skreytnin (helstu útgefendur greiða aðeins af seldum eintökum, aðrir af hverju framleiddu eintaki). Dæmi eru um það að uppgefin sala við STEF hafi verið lægri en auglýst var og tilkynnt fyrir jólin á undan og jafnvel að listamenn hefðu þurft að skila gullplötu sem þeir fengu afhenta ef nokkur hefði gengið eftir slíku.
Þrátt fyrir þennan vankanta, þ.e. að erfitt sé að meta hve mikið hefur raunverulega selst af plötu í miðri jólaösinni, hafa útgefendur ekki hikað við að gefa hástemmdar yfirlýsingar um glæsilega sölu og raðað á listamenn sína gull- og platínuplötum. Í því tilviki eru þeir að notfæra sér að plötumarkaðurinn fyrir jól er gjafamarkaður að stærstum hluta, eins og getið er, og því skipti máli að koma því sem best á framfæri hvað sé vinsælast.
Vissulega hafa þeir nokkuð til síns máls, því seld plata er seld plata á því augnabliki sem hún er seld, og í mörgum tilfellum, kannski flestum, eru sölutölurnar sannar þegar þeim er slegið fram, þó framtíðin eigi kannski eftir að leiða annað í ljós. Á móti kemur að söluviðurkenningar eins og gull- eða platínuplötur hljóta að þurfa að byggja á traustari grunni en æsing jólavertíðar. Það er varla skemmtilegt fyrir listamann að hafa hangandi upp á vegg hjá sér gullplötu sem er er í raun glópagull og ekki sanngjarnt gagnavart plötukaupendum að viðurkenningar sem alla jafna hafa notið virðingar skuli verðfelldar með þessum hætti.
Í eina tíð staðfesti samband hljómplötuframleiðenda söluna sem lá að baki gull- og platínuviðurkenningum, en ekki veit ég hvaða háttur er hafður á núorðið. Mín tillaga er sú að menn láti af þessu gull- og platínuskrumi fyrir jólin og geri að alvöru viðurkenningum að nýju. Vilji þeir hengja skraut á listamenn sína fyrir jól má eins kalla það látúns- og pjáturplötur.
Tónlist | Breytt 20.4.2006 kl. 12:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 9. janúar 2006
Náttúruvakningarsamkona
Það besta við Nattúrutónleikana sl. laugardagskvöld var að þetta voru ekki bara tónleikar, ekki bara tónlistarsamkoma heldur var tilgangurinn með öllu saman alltaf ljós. Í stað þess að vera með endalausar ræður og yfirlýsingar ræddu menn lítið um náttúruvernd, tónlistarmennirnir nánast ekkert, en létu myndskeið á milli atriða tala, sýndu skýringarmyndir, línurit og landslagsmyndir. Það var gríðarlega áhrifamikið og því áhrifameira sem leið á tónleikana. Það var óneitanlega gaman að heyra fimm þúsund manns baula á Friðrik Sophusson og Landsvirkjun og víst að þær Sif Friðleifsdóttir og Valgerður Sverrisdóttir eru ekki hátt skrifaðar hjá þeim ungmennum sem sóttu tónleikana, sérstaklega þó Sif enda klaufalegum yfirlýsingum hennar gerð góð skil. Smám saman urðu tónleikarnir að vakningarsamkomu
Það var ævintýralegt hve vel allt var heppnað, hve hratt gekk að skipta út sviðsbúnaði milli atriða og í raun hve kvöldið var vel upp sett, vel skipulagt hvað varðar hljómsveitir. Grímur Atlason og sviðsstjóri stóðu sig frábærlega. Það eina sem ég saknaði var ein eða fleiri unghljómsveitir, til að mynda Mammút eða Jakobínarína, og líka hefði mátt gefa þeim NBC félögum eða Forgotten Lores færi á að láta í sér heyra, til að mynda með Hjálmum eða Ghostigital.
KK byrjaði kvöldið mjög skemmtilega, sérstaklega fannst mér fyrsta lagið gott hjá honum. Fólk tók honum líka vel og gaman hvað unga liði virtist þekkja Paradís vel.
Björk og Zeena Parkins voru ekki síður góðar, sérstaklega fannst mér Generous Palmstroke frábærlega flutt. Múm voru venju fremur frábær. allt gekk upp hjá þeim og inpromptu kór, sem kallaður var víst saman með litlum fyrirvara, stóð sig með prýði, hvort sem hann var að humma, spila á bjöllur eða syngja með. Skildist á Kristínu Björk að kórinn ætlaði að halda hópinn og fá menn til að semja fyrir sig lög eða tónverk sem er frábær hugmynd.
Sigur Rós spilaði Heysátuna og gerði það vel, ætla víst að spila hana fyrir Conan O'Brien í næsta mánuði. Þeir eru greinilega búnir að æfa það vel - takturinn á hreinu.
Mikið var gaman að sjá Möggu Stínu á sviði aftur þó hún væri að spila eldgömul lög. Það er tími til kominn að hún snúi sig í gang aftur, kalli saman heimsmeistarana og búi til nýja tónlist. Fílahirðirinn frá Súrinn var í frábærri útsetningu og sungið af mikilli tilfinningu. Björgvin Gíslason fór á kostum á sítareinn. Mikið er gaman að hann sé kominn upp úr kjallaranum og vonandi á maður eftir að sjá meira af honum.
Aðal rokkband kvöldsins var Rass, greinilegt að unglingarnir kunnu vel að meta andstöðurokkið því þeim var innilega fagnað, aðallega þó Óttarri sem átti eftir að koma tvívegis á svið til viðbótar, fyrst með Dr. Spock, sem tók því miður bara eitt lag, og svo með Ham. Meira um það síðar.
Það fór ekki á milli mála þegar Damien Rice kom á svið að fyrir mörgum var hann aðalnúmer kvöldsins. Hann er fínn lagasmiður með einkar innilega og ljúfa rödd. Mér fannst hann full daufur framan af en svo setti hann í gang með miklum látum í lokalaginu og rokkaði sem mest hann mátti á kassagítarinn vel studdur skælifetlum.
Mugison var einn með gítarinn til að byrja með, en kallaði svo á Hjálma og tók með þeim eitt lag. Hann fór á kostum pilturinn og vakti mikla hrifningu viðstaddra, sérstaklega þegar hann tók sólóið sitt. Gríðarleg útgeislun.
Hjálmar voru eitt besta band kvöldsins, hápunktarnir reyndar Hjálmar, Rass og Múm. Sérstaklega var flutningur þeirra Húsið hrynur magnaður og mjög viðeigandi á þessum stað þar sem kalkaða gröfin Landsvirkjun var í aðalhlutverki.
Gaman þótti mér að sjá hve fólk var ringlað yfir Ghostigital, skildi ekki hvar var í gangi framan af en fór svo smám saman að komast í samband. Bibbi var gríðarhress og dansaði af list og stýrði fjöldaklappi. In Cod We Trust var frábært hjá þeim fannst mér. Damon Albarn spilaði smá melódíku í In Cod We Trust og síðan flutti hann nýtt lag með þeim félögum þar sem sungið var um land og ál. Ekki merkilegt lag en fínt á þessum stað og þessari stund.
Ólíklegt þykir mér að margir viðstaddra hafi nokkurn tíman séð Ham spila, nema þá þeir sem mættu á fyrri Rammstein-tónleikana. Partíbær (The Groove of Hafnir City) er löngu orðið klassískt lag og eftirminnilegt er ég heyrði Buttercup spila það eitt sinn fyrir löngu. Mér fannst þó upphafslag þeirra félaga að þessu sinni enn betra, Rape Machine hét það á demóum en fékk síðan nafnið Animalia. Það var aðeins frábrugðið frumgerðinni, sérstaklega í viðlaginu (engin Super Maxima-gól) og eins var 2000 talsvert breytt. Alltaf gaman að sjá Ham og Sigurjón Kjartansson er mesti riffsmiður íslands.
Bubbi Morthens og Egó áttu svo lokaorðið að þessu sinni og mættu á svið með látum. Bubbi var ekki að keyra á fullum krafti, nýstiginn uppúr veikindum, en það var þó kraftur í honum. Þeir félagar beittu líka flugeldasprengingum af kappi og vel til fundið. Sérstaklega var sjónarspilið mikið í Fjöllin hafa vakað, sem er náttúrlega virkjanalag eða í það minnsta í samhengi kvöldsins. Merkileg hvað krakkarnir, sem almennt voru ekki fædd þegar Egó-lögin komu út á sínum tíma, kunnu textana vel, upp á tíu sýndist mér.
Tónlist | Breytt 20.4.2006 kl. 12:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Tenglar
Vefgreinar
- Dont Legalize Drugs by Theodore Dalrymple, City Journal Spring 1997 Advocates have almost convinced Americans that legalization will remove most of the evil that drugs inflict on society. Dont believe them. City Journal - Spring 1997
Vefmiðlar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.4.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 4
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 4
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar