Færsluflokkur: Tónlist
Föstudagur, 28. apríl 2006
Enginn er annars bróðir í leik
Góð þykir mér sú ábending að tónlistin sé fögur en mögur, enda verður seint sagt að það sé vel borgað starf að vera tónlistarmaður. Vissulega nær nokkur hópur því að verða vinsæll og vellauðugur, en fyrir hvern einn sem nær því eru tugþúsundir sem svelta hálfu hungri þar til þeir gefast upp, fara að afgreiða í plötubúð eða hverfa til annarra starfa.
Skýringin á því hvers vegna svo erfitt er að lifa af því að vera tónlistarmaður hér á landi liggur eiginlega í augum uppi - í landi þar sem ekki búa fáir neytendur er aldrei hægt að selja margar plötur. Málið er þó ekki svo einfalt, því úti í heimi, þar sem neytendur eru margir, er ekki endilega auðveldara að lifa af músík, til að mynda vestan hafs. Þar kemur margt til, til að mynda mikill markaðskostnaður, en líka það hve tónlistarmenn fá litla sneið af kökunni þegar sölutekjum er skipt. Kíkjum á dæmi:
Tónlistarmaður fær ákveðna prósentu af smásöluverði plötu, mis-háa prósentu eftir því hvernig samning hann er með við viðkomandi útgáfu. Alla jafna fá menn í kringum 10% af smásöluverðinu, en það er reyndar að frádregnum ýmsum kostnaði. Til að mynda er dreginn frá kostnaður vegna umbúða, sem er jafnan fjórðungur af smásöluverðinu, dreginn er frá kostnaður vegna affalla í flutningi, þ.e. diska sem skemmast í flutningi (10%), og dreginn er frá kostnaður vegna "nýrrar tækni" sem settur var á þegar geisladiskar komu á markað og er enn í notkun, 25% þar. Þegar upp er staðið fær listamaðurinn því 10% af helmingi smásöluverðsins. Ekki þarf að taka fram að hann fær ekkert fyrr en búið að er að selja plötur upp í allan kostnað af af framleiðslunni, upptökum hljóðvinnslu og frumeintaki, og svo ákveðinn hluta af markaðskostnaði, til að mynda myndbandagerð og álíka. Gefur augaleið að margt af þeim frádrætti sem hér er tíndur til er útí hött, til að mynda frádráttur vegna nýrrar tækni og eins eru afföll vegna flutninga langt frá því að vera 10%, þó þau hafi kannski nálgast það á meðan menn voru enn að fást við lakkplötur.
Margir tónlistarmenn hafa gert sér vonir um að sala á Netinu myndi skila þeim stærri sneið af kökunni, enda kostnaður þar allt annar; dreifing kostar ekki nema brot af því sem kostar að dreifa tónlist á plötum eða diskum, engin afföll eru vegna afffalla í flutningi, umbúðir kosta ekkert og svo má telja. Raunin hefur þó verið önnur, því smásalar á tónlist á Netinu, þar fremst í flokki Apple fyrirtækið, hafa séð sér leik á borði og maka nú krókinn.
Undanfarna mánuði hafa útgefendur glímt við Apple um að hafa verðlagningu fjölbreyttari innan iTunes, hafa meðal annars lagt til að eldri tónlist sé seld á 60 sent og 80 sent, en nýrri og vinsælli tónlist á hærra verði en 99 sent. Þeir segjast einnig vilja geta boðið tónlist nýrra listamanna á sérstöku kynningarverði. Apple-menn hafa hinsvegar staðið fast á sínu - hvert lag kosti 99 sent. Síðustu fréttir benda til þess að þeir muni hafa sitt fram, enda hafa þeir hótað því að þau fyrirtæki sem krefjist breyttrar verðlagningar verði einfaldlega ekki með í iTunes.
Þegar Apple selur lag í gegnum iTunes fær fyrirtækið 35% af þeim 99 centum sem hver lag selst á, 26 kr. af þeim 77 sem lagið kostar skv. meðalgengi þegar þetta er skrifað. Útgefandinn fær þau 65% sem eftir eru. Ólíklegt verður að teljast að inni í frádrætti sem fyrirtækið notar til að stækka sinn skerf séu fyrirbæri eins og umbúðakostnaður, enda er hann enginn, eða afföll, enda eru þau engin, en vel hugsanlegt að 25% frádráttur vegna nýrrar tækni sé enn inni.
Það þýðir þá að tónlistarmaðurinn fær minna fyrir sinn snúð en hann fékk forðum og því skiptir það hann litlu sem engu hvort tónlistin sé seld í gegnum iTunes, Sony-sjoppuna (Sony Connect) eða á diskum. Þegar iTunes er annars vegar fær útgefandinn fær aftur á móti minna, hefur til að mynda ekki sömu tækifæri til að nýta sér frumlegan frádrátt.
Fréttin sem þessi færsla tengist sýnir svo hvernig plötufyrirtæki starfa - Sony dregur af Allman bræðrum og Cheap Trick, og væntanlega tugum tónlistamanna annarra, kostnað vegna umbúða og dreifingar við netsölu þó hvorugu sé til að dreifa (og örugglega vegna nýrrar tækni). Fyrir tónlistarmenn hjá Sony skiptir því engu hvort tónlist sé seld á diskum eða á netinu með minni tilkostnaði en nokkru sinn hingað til, en fyrirtækin fitna. Á meðan tónlistarmenn leggja fyrirtækjunum lið í baráttu gegn dreifingu á tónlist á Netinu hagnast fyrirtækin meira á hverju lagi seldu á Netinu en á diskum með því að arðræna listamennina - enginn er annars bróðir í leik.
(Til skýringar má nefna að myndin sem fylgir er af umslagi Eat a Peach, bestu Allman Brothers Band plötunni. Á henni er hið magnaða lag Little Martha þar sem Duane Allman fer á kostum, eitt af því síðasta sem hann tók upp.)
![]() |
Cheap Trick og Allman Brothers lögsækja Sony Music |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Tónlist | Breytt 2.5.2006 kl. 22:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Mánudagur, 24. apríl 2006
Meiri tækni, minni gæði
Einhversstaðar las ég það að Elvis hafi hlustað á prufupressur af upptökum á ódýrum ferðaplötuspilurum til að meta mixið því þannig myndi obbinn af aðdáendum hans heyra lögin. Þarf varla að taka fram að hljómgæði í slíkum græjum eru ekki nema miðlungi góð. Kannski eru menn þegar farnir að gera eins með iPodinn og álíka spilastokka - taka upp lög og þjappa þeim síðan í mp3 eða m4a og hlusta á í spilastokk. Þarf varla að taka fram að hljómgæði í slíkum apparötum eru talsvert minni en á venjulegum geisladisk, þó þau séu vissulega meiri en á ferðaplötuspilurunum gömlu.
Undanfarna áratugi hafa menn lagt mikið á sig til að skila tónlist sem best til áheyrenda, byggt fullkomin hljóðver, bætt upptökutækni til muna, smíðað æ betri hljóðnema og beitt tölvutækni til að skila sem bestum hljómi til tónlistarunnenda. Ámóta þróun hefur verið í hljómtækjunum sjálfum, en nú verður væntanlega breyting á - vinsælasta fermingjargjöfin er græjur fyrir iPodinn.
Málið er hinsvegar að músík sem búið að er þjappa á mp3-snið tapar talsvert af gæðum við þá þjöppun, og því meiri gæðum eftir því sem þjöppunin er meiri. Mp3-sniðið byggist nefnilega á svonefndi lossy-þjöppun, þ.e. þjöppun þar sem hluta af upplýsingum er hent. (Annað dæmi um lossy-þjöppun er JPEG-þjöppun sem notuð er fyrir ljósmyndir og algengasta myndasnið á vefnum (.jpg myndir).)
Þegar tónlist er snúið á mp3-snið metur hugbúnaður hvað mannseyrað getur greint og hvað ekki. Til að mynda greinir mannseyrað ekki hljóð sem eru yfir 16.000 sveiflur á sek., 16 kílóhertz, og því er þeim öllum sleppt, menn heyra illa mjög dauft hljóð strax á eftir háværu hljóði og því má henda út þeim lágu hljóðum sem svo háttar um og svo má telja.
Hversu langt er gengið í þjöppuninni fer vitanlega eftir því hvaða gæði menn velja. Fyrir nokkrum árum var alsiða að þjappa tónlistinni í 128 Kbita gæði, síðan fór menn upp í 160, þá 192 og nú er algengt að rekast á skrár sem eru 320 K bitar á sek, sem er í áttina en ekki nógu langt - tónlist á geisladisk er vistuð í mun meiri gæðum; (16 bitar sinnum 44.100 × 2 rásir) = 1411,2 kílóbitar á sek.
Mjög er misjafnt hversu vel gengur að þjappa tónlist, fer meðal annars eftir tónlistinni, þ.e. gerð hennar, og atriðum eins og hvort um tónleikaupptöku sé að ræða, hljóðmynd upptökusalarins og svo má telja. Það hversu vel tónlistin hljómar síðan þegar búið er að þjappa henni er svo smekksatriði, sumum finnst ekkert að því að hlusta á tónlist í 128 kbita gæðum, aðrir þola það ekki og enn aðrir sætta sig ekki einu sinni við 320 kbita gæði.
Það þarf ekki mikla þjálfun eða þroskaða athyglisgáfu til að heyra að tónlist sem er í 128 kílóbita sniði hljómar illa, flatneskjuleg og köld, en ef menn hafa aldrei heyrt annað finnst þeim eflaust eins og þannig eigi þetta bara að vera, svo eigi viðkomandi lag einmitt að hljóma. Þeir kaupa sér síðan stereogræjur til að stinga iPoddnum í, jafnvel allt sambyggt, eins og til að mynda iPod Hi-Fi sem Apple mærir á vefsíðu sinni, og trúa jafnvel bullinu sem þar stendur: "Dock to turn on and tune in to digital music as you've never heard it before. From pumping bass to bright treble, iPod Hi-Fi delivers natural, room-filling sound. Close your eyes and you'd think you were listening to a huge stack of speakers." Það var og.
Tónlist | Breytt s.d. kl. 13:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Þriðjudagur, 18. apríl 2006
Flugvélamúsík
Í ferð til Lundúna fyrir stuttu hlustaði ég ekki annað á leiðinni út en nýja plötu Wilderness, Vessel States. Lokalag skífunnar, Monumental, kallaði á meira - um leið og því var lokið varð ég eiginlega að ræsa plötuna aftur.
Fleiri góð lög eru á plötunni, til að mynda upphafslag hennar, The Blood is on the Wall, og næst síðasta lagið, Gravity Bent Light, sem er frábærum trommuleik þó einfaldur sé.
Sama gerðist svo í síðustu viku er ég brá mér í stutt frí til Parísar - búinn að safna saman miklu af góðri músík á spilarann til að hlusta á á leiðinni. Þegar á reyndi komst þó ekki annað að en Wilderness ... þangað til ég píndi mig til að skipta og setti á nýju Mates of State plötuna, Bring It Back.
Best að viðurkenna það strax að ég þekkti lítið sem ekkert til Mates of State, hafði ekkert heyrt í sveitinni og hélt alltaf að hún væri gimmick-sveit, enda alltaf nefnt í viðtölum og greinum að þau væru bara tvö í sveitinni, spiluðu poppmúsík og notuðu engan gítar, 'sjáðu til: engan gítar' var endurtekið í sífellu eins og það væri einhver listrænn stimpill.
Fyrir vikið missti ég af Team Boo sem kom út 2003, en datt semsé inn í að spila Bring It Back í einskonar samviskubiti, af skyldurækni, en sú skyldurækni vék snemma fyrir ómengaðri ánægju því hér var á ferð framúrskatrandi skemmtileg indípopplata, upp fuill með húmor og fjöri, en líka þónokkurri hugsun og pælingum.
Hápunktur plötunnar var eiginlega síðasta lagið Running Out, sem er snilldarlega samið, en önnur eru lítt síðri, til að mynda Punchlines, What it Means, For the Actor, So Many Ways og Fraud in the 80's sem er ekki dæmigert fyrir sveitina, en þó dæmigert á sinn hátt. Fraud in the 80's má nálgast með því að smella hér. Alla plötuna má heyra á vefsetri útgefandans, Barsuk, með því að smella hér og nota flash-spilarann sem er efst til hægri á síðunni.
Þeir sem þekkja ekki Wilderness geta hlustað á lagið Emergency af nýju plötunni, Vessel States með því að smella hér.
Tónlist | Breytt s.d. kl. 21:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 6. apríl 2006
Konungurinn kveður
Var á tónleikum í fyrradag með BB King og hljómsveit í Wembley íþróttahölinni.
Það var sérkennilegt upplifun að vera innan um alla þá gamlingja sem þar voru saman komnir, lunginn af áheyrendum hvítir karlmenn á fimmtugs- og sextugsaldri. Karlar eins og ég, eiginlega, en þrátt fyrir það fannst mér ég ekki heima í þessum hópi, sjálfsagt vegna þess að ég er vanur að vera innan um mun yngra fólk á tónleikum alla jafna.
BB King var magnaður, eiginlega mun betri en ég átti von á, enda karlinn kominn á níræðisaldur, varð áttræður 16. september sl. ferðin hans út þetta ár er kveðjutónleikaferð, þ.e. hann er að kveðja Evrópu þó hann eigi eflaust eftir að halda áfram að spila vestan hafs.
Það er eins og annað hjá karlinum að hann er með 89 tónleika á planinu hjá sér fyrir þetta kveðjuár og enn eftir að bóka einhverja tónleika í september, október og nóvember sýnist mér. Ekki eins mikið og í þá gömlu góðu daga þegar hann lék á yfir 300 tónleikum á ári (og hélt þeirri háttsemi í áratugi), en ansi gott samt af áttræðum manni.
King var með framúrskarandi hljómsveit með sér, fjóra blásara, bassa, gítar, trommur og hljómborð. Sveitin sú byrjaði líka að hita upp fyrir hann, spilaði tvö lög áður en kóngurinn birtist.
BB King hefur verið allt of feitur árum saman og þegar við bætist að flest kvöld undanfarin ár hefur hann staðið upp á endann að spila kemur ekki á óvart að lappirnar eru orðnar lélegar. Svo lélegar að hann getur ekki lengur spilað standandi. Það kom þó ekki niður á spilamennskunni.
Framan af var mikið stuð á mönnum, hornaflokkurinn í stuði og fullmikið í gangi fannst mér. Síðan hægði sá gamli á öllu saman og þeir settust hvor sínu megin við hann, bassaleikarinn og gítarleikarinn. Þá fékk maður að heyra að King er enn fanta söngvari og frábær gítarleikari. Tónninn í Lucille var harðari en ég átti von á, en spilamennskan söm við sig, nett fimleg gítarinnskot og snyrtilegar fléttur. Gaman að bera þessa spunakafla Kings saman við það sem Gary Moore bauð upp á til upphitunar fyrir tónleikana, hátt í klukkutíma af gítarsólóum, eiginlega sama sólóið endurtekið með tilbrigðum - drepleiðinlegt.
Stemmningin undir lokin hja King var tregablandin, enda var hann að kveðja þá sem best hafa stutt hann í gegnum árin, hann hefur nánast alltaf leikið fyrir fullu húsi í Bretlandi á sinni löngu tónlistarævi, líka þegar hann átti dapra daga heima fyrir. Gæti svosem trúað því að hann ætti eftir að spila einhvern tímann í Evrópu aftur að loknum kveðjutúrnum sem stendur eiginlega út árið - á meðan hann er í þessu formi er ekki ástæða til að draga sig í hlé.
Tónlist | Breytt 2.5.2006 kl. 22:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 16. mars 2006
"Soft silly music is meaningful magical"
Jeff Mangum var á sínum tíma þátttakandi í Elephant Six samsteypunni, samstarfi skólafélaga frá Ruston í Louisiana-fylki. Tónlistaráhuginn sameinaði þá Mangum, Rob Schneider, Will Cullen Hart og Bill Doss og þeir skiptust á snældum með eigin upptökum, flestum frumstæðum. Þeir Mangum, Doss og Hart stofnuðu saman hljómsveitina Synthetic Flying Machine og uppúr henni varð svo til The Olivia Tremor Control sem var að mestu hljómsveit Hart og Doss, en Mangum lék á trommur í henni um tíma og var með á fyrstu smáskífunni. Aðrar hljómsveitir sem tengjast þeim félögum eru Apples in Stereo (Schneider), Circulatory System (Hart) og Sunshine Fix (Bill Doss).
Mangum var alltaf eilítið utangarðs, hélst ekki í vinnu og var oft á flækingi. Hann byrjaði að semja lög einn og fékk til liðs við sig þá tónlistarmenn sem næst voru hverju sinni. Hann gerði nokkrar snældur undir nafninu Neutral Milk Hotel í litlu upplagi en fyrsta smáskífan, Everything Is, kom út 1994.
Fyrsta breiðskífa Neutral Milk Hotel var On Avery Island og kom út 1996. Það er góð plata, mjög tilraunakennd og útsetningar venju fremur fjölbreyttar. Þá plötu tók Mangum upp með ýmsum vinum og félögum og í framhaldinu varð til eiginleg hljómsveit sem lék á tónleikum. Sú sveit tók síðan upp In the Aeroplane Over the Sea sem kom út 1998.
Núorðið telst með helstu og áhrifamestu rokkskífum sögunnar vestan hafs og kemur kannski ekki á óvart - mann setur hljóðan til að mynda þegar maður heyrir lagið Two Headed Boy á plötunni þar sem gítarstrengirnir eru slegnir af svo miklu krafti að þeir eru við að slitna og sungið er af svo mikilli innlifun og tilfinningaþunga að röddin brestur. Enn ýtir það undir aðdáun manns á verkinu að víða er ekki hægt að skilja um hvað er sungið því textarnir eru svo lyklaðir og snúnir, Mangum gæti verið að syngja um hvað sem er. Hver sá sem á hlýðir upplifir textann á sinn hátt, leggur í hann sína merkingu sem fer fyrir vikið nær hjartanu er texti þar sem allt liggur ljóst fyrir og greinilegt.
Að þessu sögðu er þó eitt leiðistef, sagan af Annie Frank, dagbók gyðingastúlkunnar þýsku sem varð nasistum að bráð. Stuttu eftir að On Avery Island kom út las Mangum Dagbók Önnu Frank og lýsir því svo að hann hafi verið nánast yfirbugaður af sorg eftir lesturinn. Sú sorg gegnsýrir plötuna, en ekki bara sorg, heldur felst í henni líka von og gleði, dýpra á henni kannski, en þó þar að finna - víst er heimurinn vondur og við erum öll glötuð, en njótum þó þess sem það hefur upp á að bjóða. Í titillagi plötunnar segir einmitt: "Einhvern daginn deyjum við / og aska okkar svífur úr flugvélinni til sjávar / en nú erum við ung - liggjum í sólinni og tínum til allt það fallegt sem við sjáum."
Önnu Frank sér víða stað á plötunni, en helst þó í þremur lögum, Holland 1945, Oh Comely og Ghost, þar sem Mangum syngur um fæðingu, dauða og upprisu með textum sem eru margræðir og snúnir, "Now she's a little boy in Spain / Playing pianos filled with flames / On empty rings around the sun / All sing to say my dream has come".
Hún er líka stödd í titillaginu: "Anna's ghost all around / Hear her voice as it's rolling and ringing through me / Soft and sweet / How the notes all bend and reach above the trees" sem kallast á við Oh Comely: "So make all your fat fleshy fingers to moving / And pluck all your silly strings / And bend all your notes for me"
Í lokalaginu, sem er frekar dapurlegt, tempruð uppgjöf: "And in my dreams you're alive and you're crying, / as your mouth moves in mine, soft and sweet, / Rings of flowers round your eyes and / I'll love you for the rest of your life (when you're ready)
In the Aeroplane Over the Sea seldist þokkalega til að byrja með og hefur síðan sótt í sig veðrið. Merge gaf plötuna út vestan hafs á sínum tíma, en dreifing utan Bandaríkjanna var takmörkuð framan af. Seint á síðasta ári gaf svo öðlingsútgáfan Domino plötuna út að nýju, setti utan um hana þekkilegt pappaumslag og skreytti meðal annars tilvitnunum í hljómsveitir eins og Franz Ferdinand, Arcade Fire og Fog, aukinheldur sem Boom Bip fær að leggja orð í belg. Í tilvitnunum mæra viðkomandi plötuna fyrir inntak hennar, tilfinningaríkan flutning og útsetningar. Ýmsir hafa síðan orðið til að taka lög af henni upp á sína arma, til að mynda hefur John Darnelle (Mountain Goats) haft á tónleikadagskrá sinni Two Headed Boy.
Eftir stífa tónleikaferð til að fylgja plötunni eftir má segja að sveitin hafi verið á barmi frægðarinnar, útgáfufyrirtæki voru á höttunum eftir henni og buðu gull og græna skóga fyrir samning. Mangum var þó ekki sáttur við lífið, kunni því illa að vera í sviðsljósinu og félagar hans lýsa því svo að það hafi eiginlega "slökknað á honum" eftir að heim til Atlanta var komið. Hann hætti að umgangast fólk að mestu, neitaði viðtölum og hætti að troða upp opinberlega, hélt sig heima allan daginn og gerði ekkert, sat og horfði út í loftið. Lagðist svo í stefnulaust flakk. Hans saga verður ekki rakin frekar hér, en ólíklegt verður að telja að Neutral Milk Hotel snúi aftur.
Þegar menn lofa In the Aeroplane Over the Sea fyrir tifinningaólguna sem einkennir plötuna, magnaða texta og kraftmikinn flutning Mangums gleymist oft hljómsveitin sem leikur undir en því má halda fram að platan hefði ekki orðið nema svipur hjá sjón ef Mangum hefði ekki haft það einvalaleið sem vann með honum á þeim tíma. Ekki var nefnilega bara að rokk lék í höndum aðstoðarmanna hans heldur gátu þeir brugðið sér í allra kvikinda líki þegar tónlistin var annars vegar og ef lag kallaði á óvenjulega útsetningu lærðu þeir á þau hljóðfæri sem þurfti til.
Forðum liðsmenn Neutral Milk Hotel hafa haldið áfram í tónlist, reka nú sveitirnar The Music Tapes, The Gerbils, A Hawk & A Hacksaw, Bablicon og Marta Tennae.
Víða má finna umfjöllun um In the Aeroplane Over the Sea á netinu og sumir ganga lagt í lofa hana, of langt kannski - eitt dæmi veit ég um þar sem viðkomandi lagðist í ferðalög til að reyna að hafa upp á Mangum og leitaði meðal annars upp föður hans og fyrrverandi kærustu. Mangum vildi ekkert með hann hafa sjálfur, neitaði að hitta hann og benti honum á að hann væri ekki hugmynd heldur persóna sem vildi fá að vera í friði. Sjá hérna.
Best að hafa bara í huga það sem Mangum syngur sjálfur á plötunni: "Soft silly music is meaningful magical".
Tónlist | Breytt s.d. kl. 10:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 28. febrúar 2006
Er gráminn góður?
Mér hefur sýnst það í gegnum árin að framfarir séu alla jafna vegna núnings milli manna og hugmynda, átaka hugmyndanna og togstreitu, sprottnar af ástríðu og áhuga, glíma í góðu. Sú ósk að allir geti lifað saman í sátt og samlyndi er góð og göfug og á vissulega rétt á sér. Óspennandi finnst mér þó sú ósk Lennons um heim þar sem séu engar eignir, engin trúarbrögð, engin lönd og engar þjóðir, engar langanir. Óttalega yrði það grár heimur og daufur.
Tónlist | Breytt 16.3.2006 kl. 10:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Mánudagur, 27. febrúar 2006
Skipta textar máli?
What does T.S. Eliot know about you?
He knows nothing in particular
but you talk and talk as if he do
You bought that April stuff
Just like an innocent pup
But all those months are equally cruel
When I rip off the mask
You wanna hang with Slash
Smoke bong hits by a heated pool
What does T.S. Eliot know about you?
He knows nothing in particular
but you talk and talk as if he do
Yeah, you read half a book
Then you say "Take a look!"
T.S. is my new best friend!"
You just want showbiz kisses
From Hollywood bitches
Not visits from the hollow men
He knows nothing 'bout you
Nothing 'bout you
He knows nothing in particular
Nú las ég Eliot mér til óbóta fyrir mörgum árum, var með ljóðsafnið hans í kojunni eitt sumarið á Ögra og las gjarnan ljóð eftir hann á frívaktinni. Við endurtekinn lestur fannst mér þó margt það sem hann skrifaði óttaleg þunnt, eiginlega frekar orðheppni en merkilega ljóðagerð. Vissulega voru mörg góð ljóð inn á milli, sum snilldarleg, til að mynda Öskudagsljóðin og Death by Water úr Eyðilandinu, en margt var svo lyklað og læst í menntahroka og menningasnobb að það var pínlega leiðinlegt að lesa það þó maður hefði allar skýringar handbærar. Af hverju eru menn að skrifa svoleiðis tilgerðarlegt blaður?
Annað sem gerði mig afhuga Eliot var gyðingahatur hans og elítisimi - ég er viss um að hann hafi verið leiðinlegur maður.
Hitt lagið sem mig langar til að nefna hér og nú er lagið Easy to Be Around með Diane Cluck af plötu hennar Oh Vanille/Ova Nil sem kom út síðasta sumar. Diane Cluck tilheyrir svokallaðri Free Folk hreyfingu vestan hafs þar sem menn eru að finna upp þjóðlagatrónlist upp á nýtt, fyrir nýja tíma, nýta það sem þeim líst best af þjóðlagatónlist og þjóðlegri tónlist fyrri tíma og bræða saman við það tilraunatónlist óhljóðhefð og rokkhugsun, þó leikið sé á órafmögnuð hljóðfæri. Diane Cluck er alla jafna ein með gítarinn en bregður útaf í framvindu laganna og söng, leyfir hjartanu að ráða för finnst manni. Ég á tónleikaupptökur með henni sem er eiginlega ekki hægt að hlusta á því hún syngur ekki alltaf í hljóðnemann, á það til að muldra ofan í bringu, hættir í miðju lagi til að segja einhverja sögu eða erinda eitthvað og svo má telja.
Textinn við Easy to Be Around er skemmtilega snúinn, hún er að syngja um ást eða eiginlega um ástleysi,takið eftir því hvernig stemmningin í laginu breytist smám saman eins og sjá má í fyrsta erindi og því fimmta ("I was in the coal mine / Picking up diamonds / That the miners had left behind" og svo "Oh I was in the coal mine / Picking up diamonds so heavy / I had to leave them all behind"). Snilldarvel gert og einkar vel sungið.
I was in the coal mine
Picking up diamonds
That the miners had left behind
And I admired their cold shine
Simple and bright
And I pocketed many
In the cavernous stime
Clear when held up to the light
You belong to no one
You are easy to be around cause
You belong to no one
You are easy to be around because
You belong to no one
You are easy to be around
and I scattered them on the ground
The weight in your eyes
It decays your smile anyway
And because and because and because and because
You did it all
You are easy to be around
I like to walk beside you
You're so easy to be around
It's like I'm not even walking beside you
We are rolling along the ground
White shadow made of mercury
We were two 'till we melted down
Now you're easy to be around
You're easy to be around
Easy to be around
Easy to be around
Oh I was in the coal mine
Picking up diamonds so heavy
I had to leave them all behind
Coming up from the mineshafts sparkling bright
See me laughing, having nothing in an infinite night
Clear and dangling in the light
Same as what you came with
Makes you easy to be around
Cause the door remains the same width
You're so easy to be around but
You're getting what our name is
And I dance as the sun goes down
You are easy to be around
Tónlist | Breytt 16.3.2006 kl. 10:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 18. febrúar 2006
Treystu viðskiptavininum
Vendipunktur í rafrænum viðskiptum með tónlist var iTunes-verslun Apple sem bauð upp á einfalda hugmynd, engin áskrift heldur gátu menn keypt það sem þeir vildu og síðan spilað að vild í iPod spilastokk sínum, á tölvunni eða brennt á disk. verðið var líka einfalt: 99 sent fyrir hvert lag, sama hver flytjandinn var. Eini gallinn að maður þurfti að eiga iPod.
Verðið er mismunandi á milli landa og þannig kostar hvert lag 79 pens hjá iTunes í Bretlandi sem samsvarar um 87 krónum. Íslensk netverslun með tónlist er Tónlist.is og þar á bæ hafa menn valið að hafa gjaldskrána fullflókna og því erfitt að átta sig á hvað hvert lag kostar. Þar stendur þó að lag sem sótt er á harðan disk tölvunnar kosti allt að 99 kr. Síðan er hægt að kaupa inneignir og í boði er streymiáskrift, hvort tveggja óttalegt rugl að mínu mati.
Engu er hægt að spá um það hvort iTunes eigi eftir að skila sér hingað til lands og reyndar segja menn að upplýsingar um það hvar næst verði opnuð slík verslun liggi sjaldnast á lausu. Fljótt á litið er íslenskur markaður það lítill að menn flýta sér ekki að sækja inn á hann, í það minnsta ekki á meðan stærri markaðssvæði eru óunnin.
Íslensk tónlist er til sölu á Tónlist.is, ýmisleg tónlist og líklega flestallt það sem komið hefur út hér á landi. Þar er einnig hægt að kaupa eitthvað af erlendri tónlist. Í þeirri sjoppu er úrval þó ekki nema meðallagi gott fyrir minn smekk í það minnsta. Víst eru í boði 250.000 lög, sem hljómar kannski gríðarlega mikið en er það reyndar ekki. Úrval íslenskra laga hjá Tónlist.is er víst um 200.000 lög og á utanáliggjandi disk sem ég er með tengdan við heimatölvuna mína eru alls 47.711 lög (3.954 plötur), sem mér þykir ekki ýkja mikið þegar ég er að leita að einhverju til að hlusta á enda skiptir í sjálfu sér ekki máli hvað lögin eru mörg ef þar er ekki að finna þau lög sem maður vill heyra.
Ég kannaði hvað til var hjá Tónlist.is af bestu tónlist liðins árs, að mínu mati að minnsta kosti, og leitaði að fjórum plötum sem ég skipaði á topp tíu: I Am A Bird Now með Antony & The Johnsons, Feels með Animal Collective, Illnoise með Sufjan Stevens og Separation Sunday með Hold Steady. Af þessum plötum fann ég eina plötu, I Am A Bird Now og gat keypt hana á 1.049 kr. Hinsvegar fann ég gríðarlegt magn af tónlist sem ég vissi ekki að væri til, mikið safn af norsku poppi og óteljandi hljómsveitir sem ég hafði hvort heyrt um né séð áður. Ekki er gott að telja það upp hér, en mér leið eins og ég væri kominn í plötubúð í annarri vídd - hugsanlega frábær tónlist en gersamlega framandi mér sem hef þó haft atvinnu af að fylgjast með tónlist í um tæpa tvo áratugi og fylgst með af áhuga í rúma fjóra.
(Það er svo annað mál hvað tækileg atriði eru í miklu ólagi hjá Tónlist.is, eins og til að mynda það hvað allt er illa skipulagt hjá þeim, óhentugt og hægvirkt, hve langan tíma það tekur að sækja sér lög og svo það að allt er bundið við Microsoft-lausnir - þegar ég reyni að tengjast með Firefox eða Opera kemur upp: "Því miður er vafrinn þinn ekki studdur af vefsvæðinu." Meiri aulagangurinn.)
Þó ekki sé hægt að komast í iTunes hér á landi og lítið af viti að finna á vefþjónum Tónlistar.is ef litið er til erlendrar tónlistar eru ýmsar leiðir færar til að skaffa tónlist. Margir sækja sér tónlist á Netið án þess að hirða um höfundarrétt og hungraða listamenn (eða sílspikaða útgefendur). Betur hugnast mér að greiða fyrir tónlistina, ekki síst ef ég kemst í nýjustu tónlist jafnharðan og hún kemur út (og þarf ekki að ösla úrgangspopp í ökkla). Í þónokkurn tíma hef ég nýtt mér þjónustu fyrirtækis sem kallast Emusic.
Emusic rekur vefverslun með tónlist og er ein sú elsta á sínu sviði. Þar var snemma tekin sú skynsamlega ákvörðun að dreifa tónlist á mp3-sniði og án þess að pakka henni svo saman að það sé ekki hægt að spila hana nema í einni gerð spilastokka, ekki hægt að gera afrit eða ámóta. Viðskiptamódelið byggist reyndar á áskrift, en þó ekki dýrari en svo að fyrir níu dali og níutíuogníu sent, um 630 kr., er hægt að sækja sér 40 lög á mánuði. Það myndi duga fyrir megninu af ofangreindum plötum og öllum ef Sufjan væri ekki svo fjandi frjór (22 lög eru á Illinoise). Það er reyndar einn af göllunum við skipulag þeirra Emusic-manna að miðað er við stök lög og þannig getur verið dýrt að sækja sér plötu með stuttum lögum. Nefni sem dæmi plötuna Sounds of North American Frogs, sem mig hefur lengi langað í. Hjá Emusic get ég sótt þá plötu alla, en það er býsna dýrt, myndi kosta hálfa þriðja mánuð af lögum því á plötunni eru 92 "lög", flest um eða innan við hálf mínuta hvert. Þá er hagkvæmara að kaupa hana á Amazon á 11,98 dali (um 760 kr.).
Emusic leggur áherslu á að semja við smáfyrirtæki og óháð og úrvalið af tónlist er einmitt mjög mér að skapi, lítið um léttasta popp, en þess meira af spennandi og forvitnilegri tónlist. Ritstjórn er starfandi við vefinn sem skrifar plötudóma og greinar um tónlistarstefnur, tímabil og tónlistarmenn þá sem tónlist eiga á vefnum. Lagasafnið er nú komið í milljón lög og salan hálf fimmta milljón laga á mánuði, en alls hefur fyrirtækið selt ríflega 45 milljón lög á síðustu tveimur árum. Talsvert minna en iTunes, en mun meira en aðrar álíka verslanir, til að mynda Rhapsody, MSN, Yahoo! og Napster. Reyndar er þetta meira en þessi fyrirtæki öll hafa selt samanlagt, svo greinilegt er að Emusic hefur valið rétta leið inn á markaðinn, annars vegar með því að treysta viðskiptavinum sínum (nota opið gagnasnið) og hins vegar með því að stíla in á tónlistaráhugamenn, því þeir hafa eðlilega fæstir beinlínis áhuga á léttri popptónlist. (Það er reyndar nokkuð af poppi til hjá Emusic, til að mynda plötur Coldplay, því útgefandi þeirra telst óháð fyrirtæki þó risi dreifi.)
Ekki er hægt að sækja allt til Íslands sem Emusic hefur upp á að bjóða, öðru hvoru rekst maður á plötur sem samningar leyfa ekki að séu seldar yfir netið hingað. Sem dæmi má nefna Bloomed, fyrstu plötu Richards Buckners sem kom út 1994, en hana er ekki hægt að sækja sem stendur í það minnsta.
Nýjar fréttir herma að Amazon hyggist hefja sölu á tónlist í rafrænu formi og að sú sala byggist á áskrift, semsé: notendur greiða fyrir ákveðið mánaðargjald og geta síðan sótt sér tónlist að vild. Í ljósi þess hve Amazon hefur lagt mikla áherslu á að vera með sem mest úrval af tónlist til sölu má gera ráð fyrir því að eins verði að málum staðið með sölu á tónlist á rafrænu sniði og þá verður erfitt að standast Amazon snúning. Þeim farnast best sem treysta viðskiptavininum
Tónlist | Breytt 16.3.2006 kl. 10:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 26. janúar 2006
Tónlistarverðlaunin og ég
Þá eru afstaðin íslensku tónlistarverðlaunin eitt árið til, mikill glaumur og einhver gleði í Þjóðleikhúsinu sl. miðvikudagskvöld. Ég var ekki á staðnum, hef reyndar aldrei verið á staðnum frá því verðlaunin voru endurvakin fyrir nokkrum árum. Af hverju ekki? Tja, ýmsar ástæður, aðallega þó að mér finnst svona samkomur alla jafna leiðinlegar. ("It's always entertaining when you're hanging out with entertainers" söng Neil Finn í Hold Steady og víst er skemtilegt að skemmta sér með skemmtikröftum, ekki síst ef þeir eru að taka við verðlaunum, en ekki súrir á barnum.)
Lengi vel þótti mér tónlistarverðlaunin ekki marktæk vegna nálægðar þeirra við DV, þetta voru eiginlega DV-verðlaun framan af, hálfgerð Stjörunmessa, en síðan kom alltaf eitthvað uppá þegar á reyndi. Eitt árið ætlaði ég að fara til að mynda, en miðinn týndist í höndum skipuleggjenda. Annað árið átti ég að afhenda verðlaun en var upptekinn við annað og svo má telja. Með tímanum hafa verðlaunin þó fengið á sig klúðurslegt yfirbragð, tilnefningar kjánalegar og jafnvel þvert á reglur verðlaunanna, verðlaunin út í hött, skipast í flokka í tómu tjóni og svo má telja. Keyrði svo um þverbak á síðustu verðlaunahátíð að ég held þau eigi varla viðreisnar von
Verðlaunin voru nú veitt í tólfta sinn. Stjórn verðlaunanna skipa Margrét Bóasdóttir, sem er stjórnarformaður, Pétur Grétarsson, Sigurgeir Sigmundsson og Björn Th. Árnson. Berglind María Tómasdóttir er framkvæmdastjóri þeirra.
Reglur verðlaunanna eru ekki tiltækar öllum og ekki gott að átta sig á því hversu vel menn þekkja þær almennt. Framkvæmd verðlaunanna er að einhverju leyti níu manna nefndar sem skipuð er þeim Frey Eyjólfssyni, Lísu Pálsdóttur, Ragheiði Eiríksdóttur, Bjarna Braga Kjartanssyni, Skarphéðni Guðmundssyni, Pálma Sigurhjartarsyni, Birgi Nielsen, Andreu Jónsdóttur og Trausta Júlíussyni. Allt klúður skrifast á ofangreinda.
Ég tók einu sinni þátt í að tilnefna plötur til verðlauna og kom á óvart hve skipulagning væri ófullkomin og eins hvað þeir sem störfuðu með mér að því vali væru illa að sér um þá tónlist sem við vorum með í höndunum. Í einhverjum tilfellum var viðkomandi ekki búinn að hlusta á nema lítinn hluta af þeim plötum sem hann síðan tók þátt í að tilnefna. Það er nefnilega svo að þeir sem starfa að tónlist hafa oft ekki áhuga á tónlist nema á sínu þrönga áhugasviði, eða jafnvel alls engan. Það er þó erfitt við að eiga fyrir aðstandendur þykist ég vita, því ekki er hægt að hlýða fólki yfir.
Rétt er að hafa það í huga þegar amast er yfir Íslensku tónlistarverðlaununum að ekki er verið að velja bestu plötur / listamenn / lög eða umslög ársins. Slíkt væri ómögulegt, enda byggist þannig val á smekk viðkomandi en ekki vísindalegu mati. Þrátt fyrir það eru tilnefningar og verðlaun oft sérkennileg, eiginlega óskiljanleg á köflum. Ég sæki þó skýringar í reynslu mína af störfum dómnefnda.
Tónlist | Breytt 20.4.2006 kl. 12:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 18. janúar 2006
Vandi vestan hafs
- Universal bætti við sig, náði 32% markaðshlutdeild og átti sex af tíu mest seldu plötum ársins. Enginn samdráttur var hjá Warner. EMI hélt í horfinu, sala dróst saman um 0,4%. Sony BMG átti erfiða daga; valdabarátta, klúður vegna falins hugbúnaðar á geisladiskum, milljónasekt vegna útvarpsspilunarsvika (sem Warner tók reyndar þátt í líka) og 3% minni markaðshlutdeild.
- Smáfyrirtækjum gekk almennt vel, enda treysta þau ekki á milljónasölu stórstjörnu eins og stórfyrirtækin heldur að selja margar plötur vel. Markaðshlutdeild þeirra jókst og, er nú í kringum 18%.
- Söluaukning á lögum á Netinu er um 150%, alls seldust 352 milljónir laga. Enn deila menn um verð á þeim vígstöðvum, fyrirtækin vilja hækka verðið , sætta sig ekki við 99 cent, um 60 kr., fyrir hvert lag, en skerfur þeirra af því er almennt um 17 cent, 10 kr. Þau vilja hærra verð til að vinna upp tap á geisladiskasölu. Dæmigerð rökleysa.
- Barátta útgefenda vestan hafs gegn þeim sem sækja sér tónlist á netinu, hundruð málshöfðana, skilaði litlu að því best verður séð, því samkvæmt mælingum voru þeir sem skiptust á tónlist á Netinu 21% fleiri í nóvember 2005 en í nóvember 2004. (Nú segja eflaust einhverjir: Aukningin hefði örugglega verið 210% ef ekkert hefði verið að gert, en hefði eins getað orðið 2,1% ef útgefendur hefðu haldið sig á mottunni.)
Tónlist | Breytt 20.4.2006 kl. 12:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Tenglar
Vefgreinar
- Dont Legalize Drugs by Theodore Dalrymple, City Journal Spring 1997 Advocates have almost convinced Americans that legalization will remove most of the evil that drugs inflict on society. Dont believe them. City Journal - Spring 1997
Vefmiðlar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.4.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 5
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 5
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar