Færsluflokkur: Bækur
Mánudagur, 27. febrúar 2006
Hálfgert matarklám
Ég hef ekki lesið margar umsagnir eftir Miller, enda lítið sport í því að lesa um veitingahús í borg sem maður heimsótti sjaldan í þá tíð, en man þó að mér fannst hann skemmtilega orðheppinn en einnig uppskrúfaður og upp fullur með hroka á köflum. Ég ræddi við Miller áður en hann kom hingað og fannst hann viðræðugóður, vissulega ánægður með sig eins og næstumfrægra amríkana er siður, en þó skemmtilegur.
Miller þekkti ég semsagt í gegnum stöku veitingaumsaumsagnir frá fornri tíð og eins frá uppistandi sem varð þegar hann gagnrýndi arftaka sinn fyrir að hafa "eyðilagt" arfleifð sína, fyrir að hafa dregið New York Times í fjölmenningarsvaðið í matargerð. Málið var nefnilega það að sú sem tók við af Miller, Ruth Reichl, var laus við allt matarsnobb, fannst góður matur einfaldlega góður hvort sem hann kom úr frönsku eldhúsi meistarakokks eða grillað á staðnum í kóreskri búllu.
Ég las um daginn þriðja bindið í ævisögu Ruth Reichl, Garlic and Saphires, sem var mjög skemmtileg lesning um margt. Reichl var veitingahúsagagnrýnandi dagblaðs í Kaliforníu þegar henni var boðið starf Millers og þáði það með eftirgangsmunum.
Hún kom úr allt annarri átt en Miller, hafði starfað sem kokkur í ýmsum veitingahúsum áður en hún fór að skrifa og oft eldað mat við erfiðar og jafnvek fríkaðar aðstæður. Hún er hluti af byltingarkynslóðinni, fólkinu sem ætlaði að breyta heiminum með því að hætta að borða dýran mat, rækta helst allt sjálf og gera allt sjálf, sjálfþurftasósíalistar.
Ekki er getið um það í bókinni en má nefna hér að Reichl byrjaði kornung að elda heima fyrir til að koma í veg fyrir að móðir hennar, sem haldin var geðsjúkdómi, eitraði fyrir gestum, en sjúkdómurinn hafði meðal annars þær afleiðingar að hún bar ekki skynbragð á það hvort matur væri skemmdur eða ekki og því eldaði hún oft úr dragúldnu og mygluðu hráefni.
Það kom og snemma í ljós þegar Reichl kom til starfa hjá NYT að hún passaði ekki vel inní umhverfið, en kom ekki að sök, hún fékk býsna frjálsar hendur, var treyst til að gera sjálfa sig að fífli sýndist henni svo.
Reichl komst snemma að því að hún fékk aðra þjónustu og betri á veitingahúsum en almúginn ef stjórar staðarins þekktu hana sem gagnrýnanda NYT - hún fékk betra borð, betri þjónustu, betri mat og betra vín. Það var vitanlega hið versta mál þegar hún var að taka út veitingahús, enda gat sá sem las dóma hennar ekki búist við því að fá sömu þjónustu og sama mat. Hún tók því upp á því að dulbúast, kom sér upp aukasjálfum á ýmsum aldri og þau aukasjálf, eitt byggt á móður hennar sálugri, fór fyrir hana í veitingahús til að kynnast matnum sem borin var á borð fyrir sauðsvartan almúgann.
Þessi dulargervi urðu meðal annars til þess að Reichl fækkaði stjörnunum hjá einu frægasta veitingahúsi New York borgar, Le Ciruqe, og varð til þess að Bryan Miller, sem getið er í upphafi þessa spjalls, tók að skrifa tölvupósta til manna inna blaðsins þar sem hann þrýsti á um að Reichl yrði rekin, enda væri hún að eyðileggja allt það traust á veitingahúsarýni New York Times sem hann hefði byggt upp.
Ég las það einhversstaðar að Miller hafi aldrei farið dulbúinn á veitingahús sem hann var að fjalla um, sagðist ekki hafa séð ástæðu til þess, og eftir að hafa lesið frásögn Reichl af því hvernig menn brugðust við eftir að hafa þekkt hana dregur óneitanlega úr trú minni á Miller sem gagnrýnanda.
Eins og ég nefni að ofan er bók Reichl skemmtileg um margt; skemmtileg að því leyti að hún segir skemmtilega frá uppákomum í veitingahúsabransanum í New York, segir frá fullt af forvitnilegu fólki og birtir í bókinni nokkrar ágætisuppskriftir sýnist mér (á eftir að prófa).
Gallar á bókinni eru nokkrir, til að mynda það hve frásagnir hennar af persónuleikaumskiptum við það að hún setur á sig hárkollu eru full yfirdrifnir og endurtekningar of margar. Frásögn af veislunni misheppnuðu um miðbik bókarinnar er hálf tilgangslaus þó hún byrji vel og stundum skjótast inn í bókina aukapersónur sem eru svo horfnar eins og hendi sé veifað og maður veit hvorki hvers vegna þær birtust eða hvert þær fóru.
Ég verð svo að segja að mér finnst gagnrýni hennar, en það eru birt nokkur sýnishorn af henni, óttalega leiðinleg, munúðarlegur lýsingaorðaflaumur - hálfgert matarklám. Væntanlega hefði verið í lagi að lesa einn slíkan dóm vikulega eða svo, en fullmikið að lesa þá nokkra á einu kvöldi.
Að þessu frátöldu þá er bókin hin besta skemmtun, gefur ágæta mynd af lífinu innan New York Times og góða af veitingahúsalífi í New York. þess má svo geta að lokum að Reichl hafði vit á að hætta í starfinu áður en hún lenti í því sama og Bryan Millert (ofmetnaðist) og er nú ritstjóri þess ágæta tímarits Gourmet.
Bækur | Breytt 16.3.2006 kl. 10:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 27. febrúar 2006
Er David Irving sagnfræðingur?
Fyrsta bók Irvings, Apocalypse 1945: The Destruction of Dresden, er gott dæmi um vinnubrögð hans. en í henni fer hann með ýmsar staðleysur um loftárásir Breta á borgina 13. febrúar 1945. (Bók Irvings er hægt að sækja ókeypis á vefsetur hans.) Irving byggir bókina að mestu á áróðri þýskra stjórnvalda, enda hófst áróðursteymi Göbbels handa tveimur dögum eftir árásina við að ýkja íbúatölur og tölur yfir fjölda fallinna. Stjórnvöld í Austur-Þýskalandi tóku þráðinn upp í kringum 1950 og héldu því meðal annars fram að árásin hefði verið að undirlagi Bandaríkjamanna.
Árásin á Dresden hefur alla tíð verið eitt helsta sameiningartákn nýnasista sem nýtt hafa sér rangfærslur nasista og kommúnista, aukinheldur sem ýmsir aðrir hafa orðið til að ýta undir rangtúlkun á árásinni, til að mynda bandaríski rithöfundurinn Kurt Vonnegut (sjá bókina Slaughterhouse Five). Meðal þess sem Irving og skoðanabræður hans hafa haldið á lofti er að 250.000 manns hafi látist í árásinni (sumir segja 135.000, aðrir 320.000) sem sé meira en í nokkurri loftárás sögunnar, fleiri en í Nagasaki og Hiroshima samanlagt. Eins er því haldið fram að borgin hafi verið óvarin og ekki haft neina hernaðarlega þýðingu, eiginlega verið athvarf flóttamanna fyrst og fremst.
Í nýlegri bók eftir sagnfræðinginn Frederick Taylor, Dresden: Tuesday 13 February 1945, kemur fram að staðhæfingar Irvings eru staðleysur. Víst fórust margir í Dresden-árásinni en mun færri en áður hafði verið talið, 25.000 (til samanburðar má geta þess að um 40.000 fórust í einni árás á Hamborg í júlí 1943). Eins gegndi borgin hernaðarlegu hlutverki líkt og aðrar helstu borgir Þýskalands, þar voru hergagnaverksmiðjur og stjórnstöð herflutninga á austurvígstöðvarnar. Fróðlegt viðtal við Taylor er á vef Der Spiegel. (Gaman að því að tengill á þetta viðtal barst mér í spam-pósti frá þýskum nýnasistum fyrir nokkru.)
Ólíkt David Irving er Frederick Taylor sagnfræðingur, menntaður sem slíkur og vinnur í samræmi við starfshætti sagnfræðinga. Það kom fram í réttarhöldum vegna máls sem David Irving höfðaði gegn Deborah Lipstadt og Penguin útgáfunni að Irving beitir öðrum vinnubrögðum, hann notar þær heimildir sem honum þykir henta en sleppir öðrum, setur fram tilgátur sem hann rökstyður ekki og þýðir vísvitandi vitlaust ef það hentar honum. Það er því rangt að kalla hann sagnfræðing og í raun móðgun við þá sem stunda sagnfræðileg vinnubrögð.
Í kjölfar þess að Irving var dæmdur í fangelsi í Austurríki fyrir að þræta fyrir að nasistar hafi stundað skipulagða útrýmingu á gyðingum hafa ýmsir haft orð á því að með því að dæma Irving í fanglesi fái hann frægð sem hann hafi þráð, best sé að láta sem hann sé ekki til. Að mínu viti er þetta óttalegt bull. Sömu raddir heyrðust þegar Irving höfðaði málið gegn Lipstadt og Penguin - að það að þau skyldu taka til varna hafi verið til þess falli að auka hróður Irvings, hann myndi nota tímann í réttinum til að útvarpa skoðunum sínum. Annað kom á daginn - eftir réttarhöldin var Irving rúinn ærunni (og gjaldþrota) og hefur vart borið sitt barr síðan.
Eins hafa menn haft orð á því að það sé aðför að málfrelsi að banna David Irving að halda fram sínum fáránlegu skoðunum. Mér eru minnisstæðar bækur sem ég hef lesið um fjöldamorð Hútúa á Tútsum í Rúanda 1994. Snar þáttur í morðæðinu var það er Hútúar voru hvattir til að myrða Tútsa, samlanda sína, á fjölmörgum útvarpsstöðvum. Þar lögðu menn að Hútúum að láta nú hendur skipa, æstu menn upp og hvöttu til mannvíga, lásu upp lista yfir Tútsa með heimilisföngum þeirra og lofsungu þá sem harðast gengu fram í morðunum. Þeir voru að nota málfrelsi sitt.
Bækur | Breytt 16.3.2006 kl. 10:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 14. febrúar 2006
Barnabækur fjórar
The Diamond of Drury Lane eftir Julia Golding er glæný bók, kom út 2. janúar sl. Hún gerist í Lundúnum í lok átjándu aldar, um 1790 nánar tiltekið, og segir frá stúlkunni Cat Royal sem alist hefur upp í leikhúsi á Drury Lane. Bókin er fjörlega skrifuð og ævintýraleg, ævintýralega órökrétt nánar tiltekið, en það skiptir ekki meginmáli. Bókin gefur lesanda nokkuð góða mynd af því hvernig líf í Lundúnum gæti hafa verið á þessum árum, en hallærislegt finnst mér alltaf þegar höfundar bóka sem gerast í fortíðinni eyða miklu púðri í að lýsa óhreinindum og óþef, sérstaklega þegar það er gert með sterkum lýsingarorðum. Fyrir vikið missir lesandinn sjónar á söguhetjunum og fer eiginlega að horfa frekar í kringum sig og hrylla sig en að sökkva sér í söguna.
Einn vinsælasti barnabókahöfundur seinni tíma er írski höfundurinn Eoin Colfer, sem skrifaði meðal annars bækurnar um Artemis Fowl, en þær hafa komið út hér á landi og gengið vel að ég best veit. Colfer hefur skrifað fjöldann allan af bókum og sumar góðar. Bækurnar um Artemis Fowl eru ágæt skemmtun, en betri fannst mér The Wish List og The Supernaturalist, sérstaklega sú síðarnefnda sem var snúin og spennandi.
Bækurnar hans Colfers eru alla jafna miklar ævintýrabækur líkt og Artemis Fowl-serían, sem er reyndar líka vísindaskáldskapur í bland, og sumar eru hreinn vísindaskáldskapur eins og The Supernaturalist. Í sumar hefur göngu sína ný sería eftir Colfer sem er laus við allt slíkt, þ.e. ekkert yfirnáttúrlegt og lítil vísindi, sem á örugglega eftir að verða vinsæl. Fyrsta bókin í þeirri útgáfuröð heitir Half Moon Investigations og segir frá spæjaranum Fletcher Moon, sem fékk viðurnefnið Half Moon fyrir það hvað hann var smávaxinn, en hann er tólf ára gamall. Hann ákvað snemma að hann vildi verða einkaspæjari, leysti fyrsta málið þriggja ára gamall, og lærði til spæjara á Netinu. Sagan hefst þar sem hann flækist í mál sem byrjar heldur illa þegar hann brýtur fyrstu reglu einkaspæjarans - ekki verða hluti af rannsókninni. Skemmtilega skrifuð bók og nóg að gerast. Alla jafna er gamanið græskulaust, en passalega ógnvekjandi. Kemur út 1. júní næstkomandi í Bretlandi, 1. apríl vestan hafs.
Besta bókin af þeim sem hér eru nefndar að þessu sinni er Princess Academy eftir Shannon Hasle. Hún er ekki alveg ný, kom út í júlí sl. Princess Academy segir frá stúlkunni Miri sem býr í afskekktu þorpi á Eskel-fjalli þar sem fólk hefur viðurværi sitt af námavinnslu. Úr námunum vinna menn einskonar marmarastein sem er eftirsóttur en ekki ýkja verðmikill, ef marka má lífskjör manna í þorpinu. Þegar Miri er fjórtán ára ber svo við að spámenn konungsins, sem býr á láglendinu, lýsa því yfir að prinsinn verði að velja sér konu úr hópi stúlkna sem búi á fjallinu. Fyrir vikið verði allar stúlkur á aldrinum fjórtán til sextán ára að ganga í skóla til þess að læra að verða prinsessur.
Shannon Hale sannaði það með sinni fyrstu bók, The Goose Girl, að hún er góður penni, en í því endursegir hún gamla Grimmsævintýrið um gæsastelpuna. Princess Academy er líka einkar vel skrifuð, stíllinn meitlaður og lágstemmdur um leið, meira gefið í skyn en sagt er beint út. Sérstaklega fer hún vel með þær tilfinningar sem bærast með Miri í garð Peder leikfélaga síns og togstreituna milli löngunarinnar að vera hluti af samfélaginu á fjallinu og þess að verða prinsessa með þeim lystisemdum sem því hljóti að fylgja. Hale lýsir líka einkar vel atburðarásinni í prinsessuskólanum og ógnvekjandi átökum undir lokin. Sú skoðun hennar að menntun sé til alls fyrst skín í gegn í bókinni, aðallega menntun kvenna. Gæti trúað því að þessi bók myndi einkar falla stúlkum í geð, en allir ætti þó að hafa smekk fyrir henni.
Bækur | Breytt 16.3.2006 kl. 10:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 7. febrúar 2006
Leitað að George Orwell
Emma Larkin, blaðakona sem býr í Bangkok og hefur oft komið til Búrma, fékk þá hugdettu að reyna að rekja slóð Orwells innan Búrma, fara á þá staði sem hann hafði starfað á, reyna að hafa uppi á fólki sem myndi eftir honum og eins að skoða kennileiti sem skilað hafa sér í bækur Orwells. Snemma í bók hennar, Finding George Orwell in Burma, setur hún fram þá tillögu að Orwell hafi ekki bara skrifað eina bók um Búrma, hann hafi í raun skrifað þrjár: Burmese Days, sem rekur söguna af nýlendutímanum, Animal Farm, sem segir frá árunum eftir að Búrma fékk sjálfstæði, og svo 1984 sem lýsi Búrma eins og landið er í dag.
Það segir sitt um ástandið í Búrma að Emma Larkin er dulnefni, enda vill hún ekki að skrif bókarinnar bitni á henni eða vinum hennar í Búrma, en einnig er nöfnum allra sem hún spjallar við breytt til að forða þeim frá því að vera pyntaðir eða hnepptir í varðhald. Málum er nefnilega svo háttað að í Búrma, mesta lögregluríki jarðar, má ekki tala neitt það við ókunnuga sem varpað gæti rýrð á ríkið eða herstjórnina. Kveður svo rammt að þessu að á hverju strái eru uppljóstrarar og stór hluti þjóðarinnar hefur hlotið refsingu fyrir að vera ekki á réttri skoðun eða fyrir að virðast ekki vera á réttri skoðun. Menn eru hýddir og pyntaðir, barðir til bana ef það þykir henta, og lokaðir í fangelsum árum saman, iðulega án þess að vita hvers vegna.
Í gegnum þetta ríki geðveikinnar fer Emma Larkin, reynir að rekja slóðina af George Orwell og tekst býsna vel upp, kemst til að mynda að því að líklega á Orwell afkomendur í Búrma, og hitti fyrir fjöldann allan af landsmönnum sem búa við kröpp kjör, algengt tímakaup fyrir 45 stunda vinnuviku er hálf þriðja króna á tímann, en taka lífinu með þolgæði.
Finding George Orwell in Burma er þó ekki bók um Búrma og ekki heldur bók um þá ótrúlegu herforingjaklíku sem þar ræður ríkjum heldur er þetta bók um George Orwell og ferð hans um Búrma, frá Mandalay, til árósa Irrawaddy, Rangoon, Moulmein, en þaðan var móðir Orwells, og Katha. Larkin fetar slóðina, lýsir aðstæðum í dag og getur sér til um lífshætti á þeim árum sem hinn ungi George Orwell var þar við vinnu sem útsendari nýlenduveldisins.
Eins og getið er er landstjórnin í Búrma ekki í aðalhlutverki í sögunni, en alls staðar skal hún skjóta sér inn, eins og leiður ættingi sem lætur sér ekki skiljast rekur hún inn hausinn hvað eftir annað, treður sér að borðinu í öllum samsætum. Kemur ekki á óvart í ljósi þess að nánast allir sem Larkin ræðir við hafa setið í fangelsi eða verið hart leiknir fyrir skoðanir sínar eða eiga ættingja eða vini sem setið hafa inni.
Allt er öfugsnúið í Búrma, landi sem er bæði gjöfult og fallegt eins og Larkin lýsir því, en einna verst við að eiga er hve herstjórnin er geðveikisleg, það virðist ekkert skipulagt í æðinu. Það er líka ekkert heilagt þegar valdasýkin er annars vegar; ef sagan er til ama þá er henni breytt, saga lands og þjóðar endurskrifuð og þjóðþekktar persónur hverfa eins og þær hafi aldrei verið til, heilu hverfin eru rifin til að losna við götur sem hafa sögulega tilvísun ef sagan er mönnum ekki að skapi, og svo má lengi telja.
Þannig skapaði það mikil vandræði fyrir herstjórnina þegar Aung San Suu Kyi sneri til Búrma 1988 og tók upp baráttu fyrir mannréttindum, því faðir hennar, frelsishetjan Aung San, sem myrtur var 1947, var með helstu táknmyndum stjórnarinnar. Svar herforingjanna var einfaldlega að fjarlægja allar myndir og styttur af Aung San og endurskrifa söguna, smám saman hvarf hann úr sögubókum og heil kynslóð veit varla að hann hafi verið til.
Það segir sitt um stjórnmálaástandið að í fyrradag var tekin í notkun ný höfuðborg Búrma, Pyinmama, sem er á hásléttunni um 3.000 kílómetra norður af Rangoon, gömlu höfuðborginni. Í nóvember síðastliðnum var nefnilega tilkynnt að flytja ætti höfuðborgina með hraði, en ekki kom fram hvers vegna þótt spurnir séu af því að það hafi verið að undirlagi stjörnuspekings herstjórans sem öllu ræður. Í höfuðborginni nýju er ekki búið að setja upp símakerfi, lítið er um húsnæði og raforka af skornum skammti, en þess má svo geta að bannað er að hafa farsíma um hönd og horfa á gervihnattasjónvarp.
Þessi bók Emmu Larkin er bráðfróðleg lesning þeim sem hafa auga á George Orwell og gefur óvænta innsýn í hugarheim hans, hann var ekki síður breyskur en við hin og upp fullur með mótsetningar, en maður fær líka að skyggnast inn í óttalegt myrkur verstu harðstjórnar heims.
Bækur | Breytt 16.3.2006 kl. 10:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 30. janúar 2006
Bókahelgin mikla
Lagðist í lestur um helgina og náði að vinna aðeins á bunkaum á skrifborðinu. Reyndar ekki mikill tími til að lesa á laugardaginn, enda var ég þá með afmælisboð, en náði þó að lesa eina bók á föstudagkvöldið og aðra á laugardagskvöld og þrjár lágu síðan eftir sunnudaginn, tvær sem ég hafði gripið í öðru hvoru í vikunni og svo ein sem rann ljúflega um kvöldið.
Þrjár bókanna eru óútgefnar, The Lost Railway Porter eftir Andrew Martin, Angel Blood eftir John Singleton og We're All in This Together eftir Owen King - eiga allar að koma út í maí næstkomandi.
Andrew Martin hefur skrifað bækur sem gerast um aldamótin þarsíðustu og segja frá Jim Stringer sem dreymir um að verða lestarstjóri en örlögin haga því svo að hann verður lögregluþjónn. Ég las fyrstu bókina í seríunni fyrir nokkrum árum og fannst hún þokkaleg, The Necropolis Railway, en söguþráður hennar snýst á skemmtilegan hátt um greftrunarsiði í Englandi á öndverðri tuttugustu öld, hvernig þeir voru að breytast og hvernig fjárglæframenn nýttu sér það. Stíllinn á bókinni féll mér ekki í geð, fannst hann of tilgerðar- og þunglamalegur og tilraunir h0fundar til að skapa drungalegt andrúmsloft voru á tíðum hlægilegar. The Lost Railway Porter, sem er þriðja bókin um Stringer að mér sýnist, er ekki gallalaust en þó mun betur skrifuð en fyrsta bókin. Sérstaklega eru mannlýsingar betur úr hendi gerðar þó persónurnar vilji of vera hálfgert skrípafólk. Best tekst Martin upp í að lýsa ofbeldi í bókinni sem er mátulega handahófskennt til að geta verið ekta.
We're All in This Together er fyrsta bók Owens Kings, sem er kynntur á kápu sem "brilliant young writer of impressive maturity" sem útgefandinn, Faber and Faber, telur greinilega að verði einn af helstu höfundum sínum í framtíðinni. Má vel vera, það er margt vel gert í bókinni sem segir frá ungum pilti sem á í hálfgerðri tilvistarkreppu, glímir við vonbiðil móður sinnar og hálfgeggjaðan afa sem er gömul verkalýðshetja og ekki við það að láta deigan sína þó hann sé komin á grafarbakkann. Sagan er fjörlega skrifuð, kannski ekki svo sannfærandi á köflum, en fríkuð og frumleg. Sérstaklega er samband afans og besta vinar hans snúið og í raun algeggjað eins og kemur í ljós undir lokin. Mér fannst endir bókarinnar sístur, eins og höfund þryti hugmyndir eða orka til að loka bókinni á almennilegan hátt. Víst er King efnilegur en ekki gott að segja hvort hann sé sú vonarstjarna sem þeir Faber-menn ætla.
Þriðja bókin er svo Angel Blood eftir John Singleton, bók fyrir ungmenni eða unglinga. Singletron hefur skrifað þrjár slíkar bækur, Skinny B, Skaz and Me og Star sem fengið hafa fína dóma. Angel Blood segir frá börnum sem haldið er nauðugum á hæli og þar pínd og kvalin á ýmsan hátt. Börnin er fötluð eða vansköpuð eins og smám saman kemur í ljós í eintali eins þeirra, en heimsmynd þeirra er býsna sérkennileg þar sem þau hafa aldrei komið út undir bert loft og þekkja engan nema hjúkrunarfólk og lækna sem annast þau. Starfsmenn hælisins eða heimilisins sem börnunum er haldið á eru ýmist grimmir sadistar eða kærulausir aumingjar og yfirlæknirinn Mengele holdtekinn, enda gerir hann á börnunum ýmsar voðlegar tilraunir í rannsóknarskyni. Inni í þessar hörmungarsögu flækjast svo tvö ungmenni, vandræðastúlka og vandræðapiltur. Hún er áfram um að bjarga börnunum þegar ghún kemst á snoðir um aðstæður þeirra en hann flækist með nauður viljugur, til að byrja með í það minnsta.
Singleton er fínn penni, með bestu unglingabókahöfundum breskum um þessar mundir, áþekkur höfundur og David Almond (las reyndar nýjustu bóka hans um daginn, Clay, frábær bók og eftirminnileg). Söguþráðurinn er vitanlega fyrirsjáanlegur um margt, en Singleton tekst mjög vel að gera sögupersónurnar sannfærandi, meira að segja fötluðu / vansköpuðu börnin, en líka verður óknyttapilturinn lifandi fyrir manni, þó hann sé klisjukenndur á stundum. Endirinn á bókinni kom svo vel á óvart og það má mikið vera ef þessi bók verður ekki talin með þeim bestu þegar árið verður gert upp.
Fjórða bókin sem lá eftir þessa helgi var Nomadin, barnabók eftir Shwan P. Cormier sem gefin var út 2003, í þriðju útgáfu. Höfundur gefur bókina sjálfur út og ekki þarf að lesa lengi áður en maður áttar sig á hvers vegna. Í bókinni eru allt of margar persónu og allt of mikið í gangi í einu. Sagan segir af ungum pilti sem nemur galdra hjá galdramanni sem starfsheiti hans er Nomadin. Óvættur birtist skyndilega og piltur heldur af stað með lærimeistara sínum að leita hjálpar. nenni eiginlega ekki að rekja atburðarásina frekar, enda er stokkið úr einu í annað, sífellt birtast nýjar og nýjar persónur sem ýmist deyja eða gleymast eins og hendi sé veifað. Ég varð að beita mig hörðu til að nenna að lesa lokaþáttinn - þegar spennan á að vera mest, og þó allt endi í uppnámi á ég ekki eftir að lesa framhaldið. Mér er slétt saman um hvað verður um galdrastrákinn, prinsessuna hugrökku, töfrasvaninn, risann hugumprúða, stríðsmanninn trausta, hundinn talandi, galdrameistarann mikla, býantinn talandi og töfraljósið, svo fátt eitt sé talið af veigamiklum liðsmönnum hins góða. Óþokkarnir voru mun skemmtilegri, enda færri.
Fimmta bókin er svo Finding George Orwell in Burma eftir Emmu Larkin, mjög fróðleg og skemmtileg bók sem gefur einkar áhrifamikla mynd af ástandinu í Burma, eða Myanmar eins og það land heitir víst í dag að geðþótta brjálaðra einræðisherra sem stjórna því. Fyrsta bókin sem Orwell sendi frá sér var Burmese days og er hann lést var hann með í smíðum aðra bók sem einnig átti að gerast í Burma. Þó honum hafi þannig ekki tekist að ljúka við nema eina bók sem beinlínis gerðist í Burma sem Larkin að hann hafi í raun skrifað þrjár bækur um landið, Burmese days, Animal Farm og 1984. Eftir lestur bókarinn er ekki hægt annað en taka undir þessi orð hennar. Mögnuð bók.
Bækur | Breytt 20.4.2006 kl. 12:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 4. janúar 2006
Enn um Gunnar og Halldór
Deilurnar um Gunnar Gunnarsson, Halldór Laxness tóku á sig skondna mynd þegar leynd var aflétt af skjölum sænsku nóbelsakademíunnar og í ljós kom að enginn fótur var fyrir flökkusögunni sem fjölskylda Gunnars Gunnarssonar hafði nært með sér árum saman. Menn láta þó ekki deigan síga eins og sjá mátti á spjalli við þá Hannes Hólmstein Gissurarson og Gunnar Björn Gunnarsson í Morgunblaðinu í gær og svo grein Hannesar Hólmsteins í blaðinu í dag.
Eftir Gunnari Birni er til að mynda hafðar þessar skemmtilegu setningar: "[Halldór Guðmundsson] er að reyna að halda sig við staðreyndir og ég skil það vel. Ég get leyft mér að tala öðruvísi, sem hluti af fjölskyldu Gunnars." Þetta þykir mér býsna vel að orði komist - ég veit að þetta byggist ekki á staðreyndum, en kýs að trúa því samt.
Álíka segir Hannes Hólmsteinn reyndar líka: "Ég tók þá afstöðu í [þriðja bindi ævisögu Halldórs Laxness] að trúa sögunni um símskeytið því ég tel enga ástæðu til að rengja hana."
Semsé: Fræðimaðurinn telur rétt að taka inn í ævisögu, sem alla jafna eiga að byggja á staðreyndum, munnmælasögu sem ekki er hægt að staðreyna. Hann bætir um betur með grein í Morgunblaðinu í dag þar sem lýkur á þessum merkilegu orðum: "Hitt er annað mál, að sennilega hefðu menn eins og Bjarni Benediktsson, Ólafur Thors og Kristján Albertsson frekar viljað, að verðlaununum yrði skipt en að Laxness fengi þau einn. Það hefði að mínum dómi verið heppileg niðurstaða."
Ekki fer milli mála að Hannes Hólmsteinn vísar hér til pólitísks andrúmsloft hér á landi á þeim tíma þar sem tókust á vinstrisinnaðir rithöfundar og hægrisinnaðir og gerir því skóna að hægrimenn hefðu gjarnan viljað að "sinn maður" hlyti Nóbelsverðlaunin, ekki vegna ritsnilli heldur vegna pólitískra skoðana. (Eina bókin sem ég man eftir að Ólafur Thors hafi lofað opinberlega var Sturla í Vogum eftir Guðmund Gíslason Hagalín. Segir sitt um bókmenntasmekk hans.) Gaman væri svo að fá einhverntímann útleggingu Hannesar Hólmsteins á því hvers vegna hann telur að það hefði verið "heppileg niðurstaða" ef verðlaununum hefði verið skipt og þá ekki síst fyrir hvern slík niðurstaða hefði verið heppilegri.
Grein Jóns Óttars Ragnarssonar í blaðinu í dag er gott innlegg í þessa umræðu, kominn tími til að einhver taki upp þykkjuna fyrir Ragnar í Smára vegna þessara fáránlegu ásakana að hann beitt eins lágkúrulegum vinnubrögðum og Hannes Hólmstein Gissurarson og Gunnar Björn Gunnarsson hafa haldið fram. Í greininni segir Jón Óttar meðal annars: "Í samanburði við sína samtíðarmenn - Gunnar Gunnarsson meðtalinn - var Halldór Laxness eins konar atómklukka sem allir aðrir neyddust til að stilla úrin sín eftir hvort sem þeim líkaði það betur eða verr" og dregur síðan fram það sem akademíumenn hafa eflaust sett fyrir sig (að frátöldu því að Halldór var merkari rithöfundur en Gunnar): a. Gunnar skrifaði ekki á íslensku. b. Hann heimsótti Hitler í mars 1940, eftir upphaf seinni heimsstyrjaldarinnar og fór lofsamlegum orðum um hann opinberlega skömmu áður en Þjóðverjar hernámu Danmörku og Noreg.
Það er mín skoðun að Gunnar Gunnarsson hefði aldrei fengið Nóbelsverðlaunin jafnvel þó Halldór Laxness hefði ekki verið til.
Er ekki tími til kominn fyrir þá Hannes Hólmstein og Gunnar Björn til að biðja fjölskyldur Jóns Helgasonar, Peters Hallbergs og Ragnars í Smára afsökunar fyrir að hafa borið upp á þá samblástur og undirferli og fjölskyldu Andrésar Þormar fyrir að hafa borið upp á hann alvarlegt trúnaðarbrot í starfi?
Bækur | Breytt 20.4.2006 kl. 12:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Tenglar
Vefgreinar
- Dont Legalize Drugs by Theodore Dalrymple, City Journal Spring 1997 Advocates have almost convinced Americans that legalization will remove most of the evil that drugs inflict on society. Dont believe them. City Journal - Spring 1997
Vefmiðlar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 4
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 4
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar