Færsluflokkur: Bækur

Fótbolti fyrir hugsandi menn

Mér finnst ástæða til að vekja athygli manna á þeirri ágætu bók The Thinking Fans Guide to the World Cup, en í henni er fjallað um fótboltakeppnina miklu frá skemmtilegu sjónarhorni. Ýmsir mætir menn, rithöfundar og fleiri, voru fengnir til að skrifa um löndin sem þátt taka í kepninni og þá ekki endilega á fótboltalegum forsendum. Eins er að finna í bókinni ýmsar tölfræðilegar upplýsingar fyrir þá sem áhuga hafa á slíku.

Í bókinni kemur einnig fram, og er rökstutt rækilega, hvað þjóðir þurfa til að ná langt í HM:

  • Tilheyra Evrópusambandinu
  • Vera nýfrjáls
  • Nýlenduherrar sigra nýlendur (ekki þó Frakkar Senegala)
  • Illt er að vera olíuframleiðsluþjóð
  • Ekki vera of frjálslynd í fjármálum

Best af öllu er þó að vera Brasilía. 

Bókin er víst uppseld en meira væntanlegt


Glæpasögur á tímaflakki

Glæpasöguformið gefur ekki mikið svigrúm til nýjunga eða stílbragða - morð er morð og geta verið leiðgjörn. Flestar glæpasögur eru líka formúlusögur, morð, rannsókn og æsilegur lokapsrettur, en sumar svo listilega skrifaðar að maður gleymir sér í persónulýsingu eða þjóðfélagsgreiningu og man varla eftir morðinu fyrr en allt kemst upp að lokum. Eða ekki.

Undanfarin ár hefur mjög fjölgað glæpasögum þeirrar gerðar að þær gerast í framandlegu umhverfi, hefur til að mynda dugað vel fyrir Arnald Indriðason til að vekja áhuga erlendra lesenda, en eins hefur þeim bókum fjölgað gríðarlega sem gerast fyrir löngu, jafnvel fyrir hundruðum eða þúsundum ára.

Brautryðjandi í slíkum bókum er hollenski diplómatinn Robert Hans van Gulik sem skrifaði bækur um kínverska dómarann Dee og gerast á sjöundu öld. Serían varð þannig til að hann þýddi kínverska glæpasögu frá átjándu öld um dómarann Dee, Dee Goong An, og byggð var á spæjaranum Ti sem uppi var á sjöundu öld í Kína. Í kjölfarið skrifaði hann sextán bækur um Dee.

Margir þekkja eflaust bækur Anne Perry sem gerast í Englandi á Viktoríutímanum og segja ýmist frá spæjaranum William Monk eða lögregluforingjanum Thomas Pitt og Charlotte konu hans, um margt skelfilega lélegar bækur reyndar. Jaqueline Winspear skrifar bækur um spæjarannn Maisie Dobbs sem gerast á þriðja áratug síðustu aldar.

Fáar slíkar bækur hafa notið eins mikilla vinsælda og The Alienist eftir Caleb Carr sem varð metsölubók fyrir rúmum áratug, en hún gerist í New York 1896 og segir frá Theodore Roosevelt, sem þá var lögreglustjóri í New York, sálfræðingnum Laszlo Kreitzler og John Schuyler Moore, blaðamanni New York Times.

Hugsanlega má kenna Umberto Eco um munkaæðið, því í kjölfar metsölubókar hans um munkinn Vilhjálm Baskerville, Nafn rósarinnar, hafa fjölmargir fylgt, til að mynda nunnan Fidelma eftir Peter Tremayne (Peter Berresford Ellis), en hennar sagan gerist á sjöundu öld, og munkurinn Athelstan (Aðalsteinn) eftir Paul Harding (P.C. Doherty) sem ævintýri hans gerast á fjórtándu öld.

(Hvaðan Eco fékk hugmyndina er ekki gott að segja, kannski var hún sjálfsprottin, en ekki má gleyma vinsælum bókum um miðaldamunkinn welska Cadfael eftir Ellis Peters sem gerast á tólftu öld og nutu svo mikilla vinsælda að gerðir voru eftir þeim sjónvarpsþættir, en fyrsta bókin í þeim flokki kom út 1977.)

Enn bætist í þennan flokk, til að mynda ágætis bækur eftir C.J. Sansom sem segja frá Matthew Shardlake, lögmanni og krypplingi, sem rannsakar ýmis mál fyrir Thomas Cromwell um miðja sextándu öld. Ekki má gleyma bókunum um Erast P. Fandorin eftir Boris Akunin sem gerast í Rússlandi á seinni hluta nítjándu aldar. Þær bækur hafa náð milljónasölu víða um heim, meðal annars verið snarað á íslensku, enda skemmtilega húmorískar, hálfgerðar ævintýraspennubækur upp á gamla móðinn. Framundan eru svo fleiri sögulegar söguhetjur, ef segja má svo, því tvær slíkast slást í hópinn í sumar, önnur prússnesk, hin tyrknesk, og að segja samtímamenn.

Critique of Criminal Reason heitir skáldsaga eftir Michael Gregorio sem kemur út í sumar, fyrsta bók útgáfuraðar um Hanno Stiffeniis héraðsdómara í Lothingen í Prússlandi í upphafi nítjándu aldar. Michael Gregorio er í raun tveir höfundar, Daniela Gregorio og Michael Jacobs, en meðal sögupersóna í bókinni er heimspekingurinn Immanuel Kant. Ágæt bók um margt en full hástemmd.

Mun betra verk er The Janissary Tree eftir Jason Goodwin. Sú bók gerist í Tyrklandi á tímum Ottómanveldisins í upphafi nítjándi aldar, um áratug eftir að Mahmud II. braut á bak aftur veldi janissaranna. Sagan segir frá spæjaranum Yashim sem falið er að rannsaka tvo mál; annars vegar mannrán og morð fyrir herinn sem myndaður var til að ganga milli bols og höfuðs á janissörunum á sínum tíma og hinsvegar morð á einni af stúlkunjum í kvennabúri soldánsins og stuldi á skartgripum móður soldánins. Yashim er hugmyndaríkur og harðsnúinn og hefur betri aðgang að kvennabúrinu er aðrir vegna þess að hann er geldingur.

Goodwin er manna fróðastur um sögu Miklagarðs og veldir Ottómana, hefur enda skrifað margar bækur um þau mál, síðast Lords of the Horizons, sem segir einmitt sögu janissaranna, jeni ceri, frá 1365 til atburðanna í júní 1826 er Mahmud annar gekk á milli bols og höfuðs þeim. Istanbúl lifnar og í höndum Goodwins og bókin er ekki bara skemmtilega snúin glæpasaga heldur líka bráðfróðleg lýsing á lífinu í Istanbúl á nítjándu öld með sagnfræðilegu ívafi. Þó Yashim sé geldingur vantar ekki í bókina erótík, enda gerist hún að nokkru leyti í kvennabúri soldánsins, og þegar við bætast flugumenn erlendra ríkja, skuggaleg undirheimagengi og mataruppskriftir verður eiginlega ekki betur gert.


Stjörnuhrap

Kaavya Viswanathan flaug hratt upp á stjörnuhimininn - síðasta haust gerði Little, Brown & Co. útgáfusamning upp á hátt í fjörutíu milljónir króna við stúlkuna um útgáfu á tveimur skáldsögum. Annar eins samningur hafði ekki verið gerður við við svo ungan höfund sem að auki hafði ekkert gefið út. Fyrri bókin, How Opal Mehta Got Kissed, Got Wild, and Got A Life, kom svo út í apríl síðastliðnum og fékk fínar viðtökur, enda fjörug og fyndin frásögn.Bókin segir frá stúlku sem þráir það helst að komast í Harvard-háskóla en fær óblíðar viðtökur þegar hún sækir um því þó einkunnir hennar séu til fyrirmyndar á hún sé ekkert líf utan námsins. Háskólinn hefur nefnilega ekki áhuga á nemendum sem eiga enga vini og stunda ekkert félagslíf. Faðir Mehta grípur í taumana, gerir áætlun um það hvernig hún geti komið sér upp félagslífi á mettíma og allir leggjast á eitt um að finna handa henni vini og kærasta.
Viswanathan, sem fædd var í Chennai (Madras) á Indlandi og fluttist með fjölskyldu sinni til Bandaríkjanna barn að aldri, gaf það í skyn að sagan væri að einhverju leyti byggð á reynslu hennar, en þegar bókin kom út stundaði hún nám í enskum fræðum við Harvard. Annað átti eftir að koma í ljós.

Útgáfa á bókum fyrir unglingsstúlkur lýtur sömu lögmálum og annar fyrirtækjarekstur vestan hafs, hagræðing og hámarkshagnaður. Það hefur lengi tíðkast að margir séu um eitt höfundarnafn, til að bmynda voru bækurnar um Tom Swift skrifaðar af mörgum höfundum, Victor Appleton var margir menn (Howard Garis, W. Bert Foster, John Duffield, Thomas M. Mitchell, Harriet S. Adams og fleiri), margir skrifuðu Nancy bækurnar og svo má telja. Slíkar bækur eru skrifaðar eftir formúlu, þurfa ekkert að vera verri fyrir það, og alla jafna sér teymi um að þróa sögupersónurnar, ákveða söguþráð, hanna kápu og myndskreytingar. Fyrirtæki sem fást við slíkt hafa lengi verið til, en uppákoman með Kaavya Viswanathan hefur beint sjónum manna að því fyrirtæki sem öflugast er og afkastamest á þessu sviði nú um stundir, Alloy Entertainment.

Umboðsmaður Viswanathan sendi Alloy fyrstu drög að bók hennar og starfsmenn Alloy unnu að fyrstu köflunum með Viswanathan. Að því fram kemur í New York Times kom fyrirtækið ekki frekar að bókinni en það, en þó er útgáfusamningurinn á milli Alloy og Little, Brown & Co. Sá háttur er einmitt hafður á alla jafna - Alloy semur við útgefendur um bækur og við höfundana um hvaða skerf þeir fá af kökunni, hvort sem þeir fá 15% af útsöluverði hverrar bókar eða eru bara á föstum launum ef þeir eru að skrifa undir dulnefni.

Útgefendur kunna vel að meta þá þjónustu sem slík fyrirtæki veita, enda fá þeir í hendurnar bók sem líkleg er til að ná metsölu tilbúna til útgáfu með kápu og öllu tilheyrandi. Slík viðskipti tíðkast líka ekki bara í unglingabókum heldur er það alsiða í æviminningum viða um heim að einhver sé ráðinn til að skrifa ævisögu, til að mynda ævisögur ungra íþróttamanna eða poppara. Eitt frægasta dæmi um slíkt á síðustu árum er rakið i bókinni Ghosting þar sem Jennie Erdal segir frá fimmtán ára starfi sínu fyrir viðskiptajöfurinn Naim Attallah, en á þeim tíma skrifaði hún blaðagreinar, ræður, ýmis bréf, þ. á m.  ástarjátningar, viðtalsbækur við ýmsa og tvær skáldsögur. Allt var þetta gefið út undir nafni Attallah.

Skömmu eftir að How Opal Mehta Got Kissed, Got Wild, and Got A Life kom út fóru að heyrast raddir um að maðkur væri í mysunni, að bókin væri ekki bara eftir Kaavya Viswanathan heldur hefði hún stolið efni í hana frá öðrum höfundum. Lesendur bentu þannig á að langir kaflar í bókinni væru sláandi líkir köflum úr tveimur unglingabókum eftir Megan McCafferty, Sloppy Firsts og Second Helpings. Við nánari skoðun sást að í fjörutíu tilfellum að minnsta kosti væri sláandi líkindi með bók Viswanathan og bókum McCafferty, svo mikil líkindi að engar líkur væri að skrifa mætti það á tilviljun - atburðarás og samskipti sögupersóna eru svipuð, kaflar að segja orðréttir uppúr bókum McCafferty eða setningar.

Framan af gerði Viswanathan lítið úr ásökunum um ritstuld, en játaði síðan að vera mætti að í bókinni væri vitnað í bækur McCafferty, en slíkar tilvitnanir væri ekki vísvitandi. Hún sagðist hafa marglesið bækur McCafferty og hrifist svo af þeim að hlutar úr þeim hefðu síast inn í hana ómeðvitað og þegar hún síðan skrifaði bókina um Opal Mehta hafi hún ekki gert sér grein fyrir að hún væri ekki að skrifa eigin texta, heldur væri hún að vitna í McCafferty. Hún bar sig og vel í fyrstu yfirlýsingum sínum, sagðist ætla að endurskrifa þá kafla í bókinni sem líktust um of því sem McCafferty hefði skrifað og ný útgáfa bókarinnar kæmi á markað sem fljótt sem auðið væri. Frammámenn Little, Brown & Co. tóku í sama streng, sögðu að bókin yrði áfram á markaði þar til ný útgáfa yrði tilbúin og að fyrirtækið hefði fulla trú á Viswanathan.

Allt umtalið, þó neikvætt væri, varð til þess að auka sölu á bókinni, en gagnrýnisraddir urðu æ háværari með þeim afleiðingum að Little, Brown & Co. innkallaði bókina. Þá var búið að prenta 100.000 eintök og dreifa 50.000 þeirra til bókaverslana. Til að byrja með héldu menn fast við að til stæði að gera af bókinni nýja útgáfu, en nú er loks orðið ljóst að svo verður ekki, How Opal Mehta Got Kissed, Got Wild, and Got A Life verður ekki endurútgefin endurgerð, í það minnsta ekki af Little, Brown & Co. Það sem meira er - fyrirtækið hefur rift samningnum við Viswanathan og mun ekki gefa út aðra skáldsögu eftir hana.

Þetta eru svo sem skiljanleg viðbrögð í ljósi þess að Viswanathan stal frá fleirum en Megan McCafferty. Glöggir lesendur hafa nefnilega fundið í bókinni kafla sem rekja má til Can You Keep a Secret? eftir Sophie Kinsella, metölubókarinnar The Princess Diaries eftir Meg Cabot og Haroun and the Sea of Stories eftir Salman Rushdie. Sjá hér.

 Rithöfundaferli Kaavya Viswanathan virðist því lokið eiginlega áður en hann hófst. Við þessa niðurlægingu bætist síðan að henni hefur verið vikið úr Harvard-skóla um sinn og ekki ljóst hvort hún fær aftur inngöngu í skólann. Það verður líka að teljast ólíklegt að Dreamworks geri kvikmynd eftir bókinni eins og stóð til.

Ekki verður undan því vikist að nefna annað mál álíka, þó ekki sé það jafn alvarlegt, en það var er Ólafur Jóhann Ólafsson nýtti sér hluta úr bók M.F.K. Fisher, The Gastronomical Me, í bók sinni  Slóðar fiðrildanna. Í viðtali við Morgunblaðið í janúar 2002 segir Ólafur að hann hafi aldrei farið leynt með að hann hafi fengið að láni frá Fischer þó hann hafi ekki getið hennar í heimildaskrá eða inngangi að bókinni: "[Þ]egar ég hef verið að kynna bókina á upplestrarferðum og þess háttar hef ég mikið talað um þetta. Það hefur ekki verið neitt launungarmál að þegar menn skrifa skáldsögur sem gerast á árum áður viða þeir að sér ýmsu efni og það er hefð fyrir því hvað menn geta notað og hvernig, án þess að geta heimilda."

Í því viðtali segir Ólafur Jóhann að um sé að ræða tvær línur sem hann hafi fengið að láni, en áhöld eru um hvort um meiri texta sé að ræða. Í viðtölum við erlenda fjölmiðla lét Ólafur Jóhann þau orð falla að hann hefði verið að votta Fisher virðingu sína með því að vitna í hana og að allir þeir sem þekktu bók hennar myndu kannast við kaflana í bók hans og skilja að þeir væru virðingarvottur.


Heimspekileg morðsaga

Critique of Criminal Reason eftir Michael Gregorio. Faber and Faber gefur út í júlí 2006. 

Critique of Criminal Reason eftir Michael Gregorio er víst fyrsta bók af nokkrum sem segja munu frá sögu söguhetju. Höfundurinn er í raun tveir höfundar, Daniela Gregorio og Michael Jacobs, annað víst heimspekingur og hitt rithöfundur, eftir því sem ég kemst næst, par sem býr í Spoleto á Ítalíu.

Faber & Faber-menn, útgefandinn, láta mikið með þessa bók og markaðsdeild útgáfunnar spáir henni frama, enda hugmyndin prýðileg að flétta saman þekktum sögulegum persónum og morðgátum.

Sagan hefst þar sem Hanno Stiffeniis héraðsdómari í Lothingen í Prússlandi er kallaður til Königsberg (nú Kaliningrad) í upphafi nítjándu aldar. Þar hafa verið framin óttaleg morð og Stiffeniis falið að upplýsa þau. Hann á erfitt með að átta sig á hvers vegna hann var kallaður til verksins en áttar sig síðan á að það var gert að undirlagi heimspekingsins Immanuels Kants sem hann hafði hitt að máli áratug fyrr.

Þeim samskiptum hafði aftur á móti lokið svo að aðstoðarmaður Kants og náinn vinur hafði tekið það loforð af Stiffeniis að hitta Kant aldrei aftur, enda hafði eitthvað það sem hann sagði honum komi heimspekingnum í svo mikið uppnám að menn óttuðust um heilsu hans. Það kemur og á daginn að eitthvað í orðum Stiffeniis fyrir áratug hafði hrundið af stað í hugsuðinum mikla heilabrotum sem koma talsvert við sögu í rannsókn á morðunum dularfullu.

Staðarlýsingin er sannfærandi, í það minnsta er vetri við sunnanvert Eystrasalt lýst svo vel að maður kannast við sig. Ýmsar aukapersónur ná einnig að lifna á síðum bókarinnar og eins er gefin trúverðug mynd af prússnesku stjórnarfari og skriffinnsku. Höfundar lýsa líka vel grimmdinni sem var aðal verkfæri löggæslu á þeim tímum, þegar allir voru sekir þar til sakleysi þeirra var sannað, ef þeir lifðu þá af yfirheyrslur og varðhald. Aftur á móti gengur þeim ver þegar þeir reyna að skapa drunga- og draugalegt andrúmsloft.

Í heiti bókarinnar, Critique of Criminal Reason, er snúið út úr ensku heiti helsta verks Kants, Critique of Pure Reason (Kritik der reinen Vernunft) eða gagnrýni hreinnar skynsemi. Kant kemur mjög við sögu í bókinni, bæði er hann Stiffeniis ofarlega í huga eftir heimsóknina dularfullu áratug fyrir morðin, en skýring á henni kemur smám saman í ljós og verður fullljós í lokin. Þá verður reyndar hálfgert spennufall, því manni finnst sú flækja óneitanlega full veigalítil til að vera undirrót að eins miklum hörmungum og sagan segir frá.


Sherlock Holmes snýr aftur

The Italian Secretary eftir Caleb Carr, Little, Brown gaf út í ágúst 2005. 278 síður innbundin. Keypt í Máli og menningu.

Þar sem Arthur Conyan Doyle sat og lét sér leiðast sem ungur læknir byrjaði hann að skrifa sögur af einkaspæjaranum Sherlock Holmes og hlaut fyrir heimfrægð, ríkidæmi og aðalstign.

Þó Doyle hafi skrifað fjórar skáldsögur og 56 smásögur um Holmes og Watson félaga hans hafði hann aldrei mikið álit á þessari sköpun sinni og var hirðulaus um margt. Hann var til að mynda ekki viss um hvar kúlan hefði eiginlega lent í Watson í Afganistan, húr fór á milli staða í sögunum, og kona Watsons, Mary Morstan, söguhetja úr Sign of the Four, hvarf óforvarandis og ný ónefnd kom í staðinn eftir stutt hlé. Allar slíkir smágallar skipta þó ekki miklu, en verra var að Holmes var sífellt að nefna mál sem hann hafði glímt við en heimurinn væri ekki reiðubúinn að heyra af, til að mynda risarottunni frá Súmatra, ævintýrum Patterson-fjölskyldunnar á eynni Uffa og af ítalska ritaranum. Þá koma til bjargar höfundar eins og Caleb Carr, sem sendi á dögunum frá sér bók um Sherlock Holmes og ritarann ítalska.

Caleb Carr varð frægur fyrir bók sína um sálfræðinginn Lazlo Kriezler, The Alienist, og hefur skrifað sitthvað síðan. Hann hefur löngum verið meðlimur í félagsskap áhugamanna um Holmes, The Baker Street Irregulars, og kemur í sjálfu sér ekki á óvart að hann kjósi að skrifa bók um spæjarann mikla.

Í The Italian Secretary reynir Carr að fara sem næst stíl Doyles og tekst býsna vel þó hann nái eðlilega aldrei að skapa sama andrúmsloft og Doyle sem var að skrifa sögu úr samtíma sínum. Fléttan er fín, mátulega ógnvænleg og ótrúverðug eins og flétturnar flestar ef ekki allar í sögum Doyles. Það er helst að Carr leyfi sér að fara frjálslega með persónu Mycrofts Holmes, enda var hún svo lítt mótuð af Doyle að Carr getur leyft sér sitthvað með hana.

Á síðasta ári komu út tvær fínar bækur ungra höfunda þar sem Sherlock Holmes kemur við sögu, sú sem hér er gerð að umtalsefni og The Final Solution eftir Michael Chabon. Það er gott til að vita að Shelock Holmes lifir góðu lífi.

(Þess má svo geta að ítalski ritarinn var David Rizzio, tónlistarmaður og ritari Maríu Skotadrottningu, sem myrtur var 1566. Mynd af honum hér.)


Hver var Johnny Lim?

The Harmony Silk Factory, skáldsaga eftir malaysíska-breska rithöfundinn Tash Aw. HarperPerennial gefur út. 384 síðna kilja. Fékkst í Máli og menningu.

Sagan segir frá ómenntuðum ólæsum kínverskum verkamanni, Lim Seng Chin, sem fluttur er til Malaysíu af breskum nýlenduyfirvöldum sem ódýrt vinnuafl. Hann tekur sér nýtt nafn, Johnny Lin, eftir sjónvarpsstjörnu, og brýst til mikilla efna sem eigandi verslunarfyrirtækisins Harmony Silk Factory. Hvernig hann fór að því er aftur á móti umdeilt, eins og kemur fram í sögu hans sem þrír sögumenn segja, Jasper, eftirlifandi sonur hans, Snow, látin eiginkona hans, og Peter Wormwood, enskur vinur hans sem búið hefur í Malaysíu lungann af ævinni.

Þessir þrír sögumenn hafa hver sína sýn á Johnny Lim, Jasper hatar hann og segir sína sögu til að fletta ofan af því sem hann tekur glæpi föður síns. Snow, sem saga hennar er fengin úr dagbók hennar, er breysk og ótrú, og Wormwood er upptekinn af sjálfum sér og sínum vandamálum. Þegar frásögn þeirra þriggja er fléttuð saman bitrtist mynd af manni sem var hugmyndaríkur og handlaginn vélvirki, leiðtogi kommúnista, flugumaður Japana, margfaldur morðingi, siðlaus svartamarkaðsbraskari, dugmikil hetja, og vandræðalegur verkamaður sem gat ekki haft mök við konu sína vegna þess hve hann dáði hana.

Sonur Johnnys Lim gerir hvað hann getur til að draga fram allt það versta og ljótasta sem faðir hann hafi gert um dagana og túlkar allt á versta veg. Eiginkonan Snow er hálf flöktandi, giftist Johnny eiginlega af skyldurækni, en dagbókin, sem er að mestu frásögn hennar af sjóferð þeirra, vina og japansks njósnara, er draumkennd og óljós. Raunsannasta lýsingin kemur frá Wormwood, sem hefur þá tilfinningalegu fjarlægð sem þarf til að lýsa Johnny Lim á trúverðugan hátt, en hann er líka að skálda, ómeðvitað.

Þessi bók Tash Aw var tilnefnd til Booker-verðlaunanna síðasta haust en hlaut þau þó ekki. Hún átti tilnefninguna skilda að mínu mati, enda vel skrifuð og skemmtilega snúin. Eini galli á henni er að mér finnst frásögn Snow, í dagbók hennar, ótrúverðug. Aw tekst þó að gefa góða mynd af innviðum þeirra sem segja söguna sem er vel af sér vikið, aukinheldur sem myndin sem gefin er af Johnny Lim er líka skemmtilega brotakennd - eftir því sem líður á bókina veit maður í senn meira um Lim og minna.


Ys og þys útaf Jesú

Það kemur ekki á óvart að dómstóll í Bretlandi skuli hafa vísað frá máli höfunda The Holy Blood and the Holy Grail gegn Dan Brown útaf Da Vinci lyklinum, enda þarf ekki mikla umhugsun til að sjá hversu fáránlegt það var að þeir Michael Baigent, Richard Leigh og Henry Lincoln, höfundar The Holy Blood and the Holy Grail, gætu haldið því fram annars vegar að sú bók sé sagnfræðirit og svo hinsvegar, þegar þeir sjá pening í spilinu, að hún sé skáldverk. Ég las The Holy Blood and the Holy Grail fyrir mörgum árum, man ekki hver hélt henni að mér á þeim forsendum að þar væri mikil snilld á ferðinni, en niðurstaðan var eiginlega bara fyndin, þ.e. að Jesú og María hafi sest að í Frakklandi og komið þar upp konungaætt. Da Vinci lykilinn var eiginleg betri að því leyti að hún var bara spennubók og ekki ætlast til að maður trúði einu eða neinu - bók sem maður gat hent að henni lokinni. Þeir Baigent, Leigh og Lincoln geta svosem vel við unað, málshöfðunin hefur komið bókinni þeirra aftur á metsölulista og því finnst þeim eflaust að málaferlin hafi verið hið besta mál. Allt umstangið hefur líka komið sér vel fyrir Baigent sjálfan, því hann gaf út fyrir skemmstu bókina The Jesus Papers: Exposing the Greatest Cover-Up in History sem selst hefur vel. Nú hef ég ekki lesið hana og á væntanlega ekki eftir að gera það, en skilst að í bókinni sé hann að jórtra á sömu gömlu hugmyndinni og hampað er í The Holy Blood and the Holy Grail. Hvað sem því líður þá er hún nú í ellefta sæti á sölulista Amazon.

Stanislaw Lem, 1921 - 2006

Einu sinni las ég mikið af vísindaskáldsögum, svo mikið að ég las þær eiginlega mér til óbóta, sérstaklega af bandarískum vísindaskáldskap frá sjötta og sjöunda áratugnum. Þær bækur voru upp fullar með gríðarlegri bjartsýni og trú á manninn, að vísindin myndu sigra allt, leggja heiminn að fótum okkar, þ.e. þeirra okkar sem vorum svo heppin að búa í Bandaríkjum Norður-Ameríku.

Þegar mest var átti ég sennilega á fjórða þúsund vísindaskáldsagna sem ég hafði safnað frá því ég las fyrstu vísindaskáldsöguna á tíunda ári (The Voyage of the Space Beagle eftir Alfred Elton Van Vogt. Þegar ég sá Alien löngu síðar kannaðist ég við söguþráðinn, enda er sú mynd bygð á síðasta hluta bókarinnar).

Á endanum óx ég upp úr vísindaskáldskapnum og losaði mig við allar bækurnar á nokkrum dögum, seldi Ingvari á Laufásveginum þær. Þær fóru þó ekki allar; ég hélt eftir öllu sem átti eftir Philip K. Dick, nokkrum bókum eftir Jack Vance, Clifford Simak, Robert Sheckley og reyting af öðrum höfundum sem mér fast eitthvað spunnið (enginn Heinlein, Asimov, Pohl, Varderman, Niven eða Farmer). Tvo höfunda hélt ég mest upp á, og finnst merkilegir enn þann dag í dag, Philip Kindred Dick og Stanislav Lem, en sá síðarnefndi er einmitt kveikjan að þessum skrifum, því hann lést í vikubyrjun, háaldraður. Dick er löngu látinn.

Stanislav Lem var pólskur, lifði heimsstyrjöldina síðari og bjó í alræðisríki. kemur væntanlega ekki á óvart að hann hafði tölvuvert aðra sýn á heiminn en amrískir vísindaskáldsagnahöfundar, átti til að mynda ekki þá barnalegu trú á vísindin sem gegnsýrði skrif samhöfunda hans eða var eins bjartsýnn á mannlegt eðli. lem var efahyggjumaður á flest og þess sér stað í bókum hans. Einna þekktust er sjálfsagt bókin Solaris, sem hefur verið kvikmynduð tvívegis, fyrst af Andrei Tarkovskíj 1972 og síðan af Steven Soderbergh 2002.

Stanislaw LemBáðar myndirnar eru prýðilegar, sú fyrrnefnda þó betri finnst mér, en hef reyndar ekki séð hana síðan ég sá hana í MÍR fyrir tuttugu átum eða svo. Þær eru þó báðar nokkuð á skjön við inntak bókarinnar að mér finnst - að mínu viti snýst Solaris um það að þrátt fyrir leit að vitsmunalífi um alheiminn muni menn aðeins finna sjálfa sig, ef svo má segja, aðeins skilja það sem passar í ramma mannlegrar þekkingar.

Fyrir stuttu las ég skemmtilega bók eftir Lem sem ég fann á útsölu í Bóksölu stúdenta, Highcastle: A Remembrance, þar sem Lem skrifar um æsku sína eins og hann man hana, en bókin nær fram til 1940. Bókin er ekki venjuleg ævisaga, heldur tilraun Lems til að draga fram úr skúmaskotum minnis síns raunsanna frásögn af því hvernig æsku hans var háttað, reyna gefa hlutlausa mynd af sannleikanum sem er vitanlega óráð, eins og hann játar í lokin; minnið er ekki vinur okkar, frekar óvinur, samskipti okkar við minnið er eins og hesta sem fara vilja hvor sína leið með vagninn, segir hann. (sama samlíking reyndar og hann notaði um Tarkovskíj og sig í viðtali um kvikmyndum Solaris skömmu eftir að hún var frumsýnd.)


Himneskt samræmi

Svarta bókinHvíta bókinÞað telst eðlileg afleiðing margra ára bóklesturs að bækur safnist fyrir á heimilinu og þó reglulega sé gripið til þess að hreinsa það út sem maður ekki vill eiga fyrir einhverjar sakir (lélegt, engin fræðileg not, afgreitt) hlýtur að fara svo að bókunum fjölgi með tímanum. (Engin góð formúla er til yfir að hvað margar bækur þarf til að mynda það sem maður myndi kalla gott bókasafn, en hleypur á einhverjum þúsundum - ég er kominn með nálægt 5.000 en vantar talsvert uppá).

Eitt af því sem auðveldast er að losa sig er tvítakið, bækur sem maður á í fleiri en einu eintaki, hefur til að mynda fengið annað eintak að gjöf, komist yfir bók í betra bandi, eða fullkomnari útgáfu til að mynda. Þegar maður rekst á slíkt er auðvelt að hreinsa út, gefa aukaeintökin eða henda þeim (enginn bissness í að selja gamlar bækur lengur, þær hafa fallið svo í verði að þær eru nánast einskis virði). Inn á milli eru þó alltaf bækur sem maður verður eiginlega að eiga í tvítaki, þrátt fyrir samviskubitið (plássið, rykið og kostnaðurinn) og sumar vill maður eiginlega eiga í fleiri eintökum.

Það vakti að vonum mikla athygli þegar sá kunni höfundur Neil Gaiman lét þau orð falla að bókin Jonathan Strange & Mr. Norrell eftir Susanna Clarke væri besta ævintýrabók, fantasía, sem komið hefði út á Bretlandseyjum síðustu 70 ár. Undrun manna var ekki síst til kominn vegna þess að bækur J.R.R. Tolkien um hringinn magnaða komu út fyrir minna en 70 árum, The Hobbit 1937, The Fellowship of the Ring og The Two Towers 1954 og The Return of the King 1955.

Það þarf kannski ekki að koma á óvart að einhver ævintýrabók sé betri en sagan af hringnum og föruneyti hans, þær eru fjölmargar betri, enda var Tolkien merkilegur hugsuður og hugmyndasmiður en minna fór fyrir stílsnilld hans. Það er aftur á móti sjaldgæfara að menn taki svo stórt upp í sig þegar verk eru mærð og Gaiman gerði, en þeir sem lesið hafa bók Clarkes hljóta að taka undir orð hans að einhverju eða öllu leyti - mér er til efs að skrifuð hafi verið betri ævintýrabók á síðustu áratugum austan hafs eða vestan.

Fyrir þá sem ekki vita þá gerist bókin Jonathan Strange & Mr. Norrell á Bretlandi á öndverðri nítjándu öld um það leyti er Bretar glíma við Napoleon og heri hans. Í því Bretlandi sem sagt er frá hafa galdrar nánast gleymst, en þó eru til menn sem kalla sig galdramenn, aðallega sagfræðingar sem fæstir trúa því að menn hafi í raun stundað galdur, heldur sé allt að sem til er af frásögnum um slíkt, bækur og annað, hindurvitni og þjóðögur.

Í borginni Jórvík er til félagsskapur áhugamanna um galdrafræði og hafa spurnir af einrænum manni sem búi í Jórvíkurskíri og eigi mikið safn af galdrabókum, mesta safn sem um geti reyndar. Þeir bjóða honum í félagsskap sinn, félagsskap galdramanna sem þeir kalla svo. Náunginn sá, hr. Norrell, tekur boðinu illa, enda geti þeir menn ekki kallað sig galdramenn sem ekki geti galdrað. Félagarnir fróðu taka afsvarinu illa og krefja hann um galdra þá sem hann segist kunna. Hann fellst að lokum á að sýna þeim galdur með því skilyrði þó að eftir þá sýningu hætti þeir allir að kalla sig galdramenn.

Í framhaldinu stefnir hr. Norell galdramönnunum sjálfskipuðu í Jórvíkurdómkirkju og fremur þar býsna eftirminnilegan galdur því líkneski öll í kirkjunni taka að mæla og segja því sem fyrir augu hefur borið þau hundruð ára sem þau hafa verið lífvana.

Svo vindur fram sögunni að smám saman fá menn trú á að galdrar séu raunverulegir og sannast fyrir fullt og fast er Norrell áskotnast einskonar lærisveinn, Jonathan Strange, sem skoðanir hans á göldrum ganga mjög á skjön við skoðanir lærimeistara síns sem síðan verður fjandi hans.

Ekki verður hér rakinn söguþráður þessar merku bókar, enda ekki rúm til þess að endursegja bók upp á mörg hundruð síður (kiljan er 1.066 síður, innbundin er bókin ríflega 800 síður). Nægir að nefna að bókin er öll ævintýraleg og þá ekki bara söguþráðurinn heldur allt það mikla verk sem Susanna Clarke lagði í verkið á þeim áratug sem það tók hana að skrifa það. Út um alla bók eru þannig óteljandi neðanmálsgreinar, sumar með eigin neðanmálsgreinar, þar sem finna má allskyns fróðleik og fjöldann allan af þjóð- og munnmælasögur sem koma sögunni ekki við í sjálfu sér en sem gerir heiminn sem hún gerist í stærri og veigameiri, svo stóran og veigamikinn reyndar að hann sprengir af sér viðjar bókarinnar, nær langt út fyrir hana.

Jonathan Strange & Mr. Norrell kom út haustið 2004 og bar svo við að ég var staddur í Lundúnum útgáfudaginn. Ekkert vissi ég um bókina þá, en fannst hún fróðleg er ég rakst á hana í Borders búðinni á Tottenham Court Road. Í stæðunni þar var bókin til í tveimur útgáfum, annars vegar til með hvítri kápu, hvít í skurðinn, og svartri með svörtum skurði. Ég var ekki lengi að hugsa mig um, keypti þá með svörtu kápunni, enda hljótum við að sækja í myrkrið.

Komum við nú að því er ég nefni í upphafi - tvítakinu. Málið er nefnilega það að varla var ég búinn að leggja bókina frá mér lesna ekki löngu síðar að að mér sótti efi, hvíta útgáfan sótti á huga minn. Víst gerði ég rétt í að taka þá svörtu, en hefði ég ekki átt að taka hvítu líka? Sjúklegt segir einhver, en það er bara svo heillandi samhverfa í því að hafa bækurnar í hillu hlið við hlið, hvíta og svarta, og mjög viðeigandi fyrir bók eins og þá sem hér um ræðir. Það vita þeir sem hafa lesið hana.

Það er kunnara en frá þurfi að segja að freistingar eru til að falla fyrir þeim og fyrir stuttu keypti ég mér eintak af hvítu útgáfunni. Áritað eintak meira að segja. Fann það á abebooks.com, sem allir þeir sem haldnir eru bókaáráttu ættu að forðast. Það kemur málinu ekki við hvað það kostaði, en mér fannst verðið sanngjarnt þegar ég sá bækurnar saman í hillunni, hvíta og svarta. Himneskt samræmi.


Hvað eiga Dan Brown og Anthony Trollope sameiginlegt?

Antony Trollope

Skemmtilegur þykir mér sá slagur sem nú stendur í dómhúsi í Lundúnum þar sem menn deila um Da Vinci lykil Dans Browns. Áður hefur verið rætt á þessum vettvangi um hvað málið snýst og verður því ekki rætt frekar hér, en angi af þessu máli er sú mynd sem birst hefur af Dan Brown, en hingað til hefur hann ekki verið ýkja gefinn fyrir að tala um sjálfan sig og sín vinnubrögð.

Lundúnablaðið The Times birti á dögunum greinargerð Dans Browns sem lögð var fyrir dóminn við upphaf málsins. Í þeirri greinargerð, sem má nálgast á vef Times, segir Brown ævisögu sína og upplýsir um það hvað hafi komið honum til að skrifa bækur, metsölubækur. Uppljómunin varð þegar hann las spennubók eftir Sidney Sheldon, en fram af því hafði hann helst lesið alvarlegri og veigameiri bókmenntir, nefnir Faulkner, Steinbeck, Dostoyevsky og Shakespeare, og ekki neitt léttmeti frá því hann var barn.

Í greinargerðinni lýsir Brown því hvernig hann heillaðist svo af bók Sheldons að hann gat ekki lagt hana frá sér fyrr en hún var búin, „hún minnti mig á hve gaman það getur verið að lesa" segir Brown í greinargerðinni Eftir þessa upplifun, þegar Brown sá hvað söguþráðurinn var einfaldur og textinn léttvægur, eins og hann orðar það, „fór mig að gruna að ég gæti skrifað slíka spennusögu". Það gerði hann síðan eftir að hafa reynt um tíma að hasla sér völl sem lagasmiður.

Annað sem mér fannst skemmtilegt að lesa í þessari ágætu greinargerð Browns sem er bæði opinská og einlæg, er hvernig hann vinnur bækur sínar. Hann byrjar semsagt að skrifa kl. 4:00 á hverjum morgni, alla daga vikunnar, enda eru þá aðrir í fasta svefni og hann hefur vinnufrið. Á skrifborðinu er hann með stundaglas og hvert sinn sem tíminn rennur úr, tekur hann sér smá hlé til að gera líkamsæfingar.

Þessi uppljóstrun á væntanlega ekki eftir að draga úr sölu á bókum Browns, enda ekki ástæða til. Ekki geri ég heldur ráð fyrir að fleira það sem fram kemur eigi eftir að halda vöku fyrir útgefendum hans um allan heim, sé til að mynda ekki að það skipti máli að hann skrifar allar sínar bækur meira og minna eftir sömu formúlunni: Takið umdeilda staðreynd eða hugmynd, bætið útí saklausum vegfaranda og hrærið skammti af fjársjóðsleit saman við. Látið allt síðan gerast á einum sólarhring.
Þeir sem lesið hafa Brown geta væntanlega staðfest að þessi formúla á við um allar bækur hans, en ég get ekki nema staðfest að hún passar við þær sem ég hef lesið, Digital Fortress, Angels & Demons og The Da Vinci Code. Í þeirri fyrstu er starf NSA, þjóðaröryggisstofnunar Bandaríkjanna, umdeilda staðreyndin, saklausi vegfarandinn heitir David Becker og fjársjóðurinn gullhringur. Í Angels & Demons er staðreyndin umdeilda átök vísinda og kirkju krydduð með illvígu leynifélagi, vegfarandinn Robert Langdon og fjársjóðurinn andefni. Í þeirri síðastnefndu er síðan sú „staðreynd" sem tekist er á um fyrir rétti að út frá Jesú og Maríu sé mikill ættbogi, vegfarandinn aftur Robert Langdon og fjársjóðurinn gralið helga.

Frásögn Dans Browns af vinnusiðum hans minnti mig ekki lítið þá högun sem Antony Trollope hafði á sínum ritstörfum á átjándu öld.

Á nítjánda ári, 1934, byrjaði Trollope að vinna hjá enska póstinum og vann þar næstu 33 árin. Samhliða vinnunni á póstinum skrifaði hann svo 47 skáldsögur, 40 smásögur, 3 ævisögur, 5 ferðabækur og á annað hundrað lengri greina um ýmis málefni, póstleg og listræn. Þessu til viðbótar reið hann til veiða þrisvar í viku á veiðitíma, spilaði vist við hvert tækifæri og var tíður gestur í samkvæmum. Lykillinn að þessum miklu afköstum var að hann vaknaði kl. hálf sex á hverjum morgni, fékk sér te og settist við skriftir næstu þrjá tímana, eða þar til tími var til kominn að halda til vinnu.
Trollope skipulagði hverja bók nákvæmlega - áður en haldið var af stað var hann búinn að ákveða söguþráð, helstu persónur, kaflafjölda og lengd hvers kafla og hve marga daga tæki að skrifa hana.

Alla jafna skrifaði Trollope 40 blaðsíður á viku, en það fór þó nokkuð eftir önnum; stundum skrifaði hann ekki nema 20 síður og stundum upp undir 120. Á hverja síðu skammtaði hann sér 250 orð, en hann reyndi að halda þeim hraða að skrifa 250 orð á hverjum stundarfjórðungi, semsagt fjórar síður á klukkutíma. Eftir hvern dag merkti hann síðan við í kladdanum hvernig hefði miðað með verkið. Ef svo vildi til að hann lauk við skáldsögu en var ekki búinn með tímana þrjá þann daginn byrjaði hann þegar á næsta verki.

Sagan segir að þegar útgefendur höfðu samband við Trollope og báðu um skáldsögu, smásögu eða grein spurði hann alltaf fyrst af öllu, hvað þeir vildu mörg orð og síðan hvenær viltu fá verkið. Hann skilaði víst alltaf á réttum tíma.

Vitneskja um þessi vinnubrögð er fengin fá Trollope sjálfum því í ævisögu hans, sem kom út að honum látnum, segir hann skilmerkilega frá öllu saman.

Heldur varð þessi opinskáa frásögn Trollope til nokkurs álitshnekkis, því í stað hinnar rómantísku myndar af innblásna snillingnum birtist lúsiðinn embættismaður.

Trollope hefur eiginlega ekki borið sitt barr upp frá því og það þó til sé félagsskapur sem hefur að markmiði að auka veg hans, The Trollope Society (sem ég var reyndar félagi í um tíma). Vissulega eru bækur hans mis-merkilegar, margar dægurbókmenntir síns tíma, en aðrar hafa staðist tímans tönn að mínu mati, til að mynda Orley Farm, þar sem réttlæti og störf lögmanna eru undir smásjánni, He Knew He Was Right þar sem Trollope segir frá manni sem gengur af vitinu af afbrýðisemi, og svo meistaraverk hans, The Way We Live Now, sem segir meðal annars frá athafnamanninum Auguste Melmotte - ókræsileg persóna sem maður hefur þó vissa samúð með.

(Þess má geta að Trollope fór víða um heim í erindum ensku póstþjónustunnar og kom meðal annars hingað til lands. Gaman væri að komast í heimildir um þá heimsókn.)


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Árni Matthíasson
Árni Matthíasson
Skoðanir á mönnum og málefnum á þessari síðu eru birtar með opnu notendaleyfi. Öllum er heimilt að tileinka sér þær og halda þeim fram sem sínum eigin.
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (17.5.): 0
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 20
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 20
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband