Friðarsinni og mannvinur

Lauk í vikunni við A Man Without a Country, hugleiðingar Kurts Vonnegut um að hvernig sé að lifa undir stjórn George Bush og kóna hans. Bókin sú er um margt skemmtileg, kannski ekki ýkja veigamikil, en mjög í anda Vonneguts, húmorísk og meinhæðin í bland við barnaskap og yfirborðskenndara snakk. Þannig eru bækur hans, og kannski það sem gerir þær einna skemmtilegastar, hvernig hann blandar saman alvöru og barnslegri einlægni, djúpri hugsun og sakleysislegu hjali.

Vonnegut er í nöp við Bush, sem kemur víða fram í bókinni, en hann er þó aðallega að beina sjónum sínum að mannkyninu, hvernig mannkynið allt sé meira og minna á leið til helvítis. Ekki frumleg hugsun hjá gömlum manni, en hann færir þó einhver rök fyrir mati sínu, aukinheldur sem þeirri skoðun skýtur upp hjá honum, og hefur heyrst oft áður, að kárínur þær sem dunið hafa á jarðarbúum undanfarin ár séu til marks um að jörðin sé að gera sig líklega til að hreinsa sig af óværunni: "Þegar síðasta lífveran / hefur gefið upp öndina af okkar völdum / hversu ljóðrænt það þá yrði / ef Jörðin gæti sagt / í rödd sem bærist upp / kannski / frá botni / Miklagils / "það er gert". / Fólki líkaði ekki veran."

Kurt Vonnegut var meðal stríðsfanga í Dresden þegar fræg loftárás var gerð á borgina í seinni heimsstyrjöldinni og sú árás varð vendipuktur í ævi hans eins og sjá má í bókum hans, mótaði lífsskoðun hans og gerði að einlægum friðarsinna. Segir sitt um áhrif árásarinnar að í A Man Without a Country skuli hann enn vitna í árásina og afleiðingar hennar. Hann er og við sama heygarðshornið og í Slaughterhouse 5, sinni fyrstu og helstu bók, er hann heldur fram að loftárás bandamanna á Dresden hafi verið "mestu fjöldamorð í sögu Evrópu" eins og hann orðar það og heldur svo áfram: "Ég veit vitanlega um Auschwitz, en fjöldamorð er eitthvað sem gerist skyndilega, dráp á fjölda fólks á mjög skömmum tíma. Í Dresden, 13. febrúar 1945, fórust um 135.000 manns á einni nóttu í eldsprengjuárás Breta."

Þessi setning rímar vel við það sem breski rithöfundurinn David Irving hélt fram í bók sinni Apocalypse 1945: The Destruction of Dresden. (Sjá hér.) Helstu heimildir Irvings eru síðan frá áróðursteymi Göbbels sem ýkti íbúatölur og tölur yfir fjölda fallinna, en stjórnvöld í Austur-Þýskalandi beittu álíka áróðri frá 1950 og héldu því fram að árásin hefði verið að undirlagi Bandaríkjamanna. Nýnasistar hafa svo nýtt þessar staðleysur og bent á árásina á Dresden sem sönnun þess að þó nasistar hafi verið vondir þá hafi það bara verið vegna vonsku bandamanna - þýska þjóðin hafi verið að berjast fyrir lífi sínu.

Í bókinni Dresden: Tuesday 13 February 1945 eftir breska sagnfræðinginn Frederick Taylor kemur fram að þó margir hafi farist í loftárásinni á Dresden-árásinni þá bendi gögn til þess að þeir hafi verið mun færri, um 25.000 - mikið, mjög mikið reyndar en þó mun færri en Vonnegut og Irving hafa haldið fram og talsvert færri en létust í einni árás á Hamborg 27. júlí 1943 (árásin sú var kölluð "Gomorra áætlunin"). Sjá viðtal við Taylor á vef Der Spiegel og eins góða grein um loftárásirnar á Dresden á vef Wikipedia.

Í ljósi hryllingsins sem loftárásir á óbreytta borgara eru skiptir engu hvort 25.000 manns fórust eða 135.000 og það er að vissu leyti ógeðfellt að menn séu að metast um annað eins, þ.e. hvorir drápu fleiri. Mér finnst þó ólíklegt að friðarsinninn og mannvinurinn (þrátt fyrir allt) Kurt Vonnegut kunni að meta það að óþjóðalýður og nasistapakk skuli nýta orð hans til að kalla til sín fleiri fylgismenn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Tryggvi Thayer

Það er varla hægt að fjalla um Vonnegut og Dresden sprengjuárásina án þess að minnast á Sláturhús 5. Flestir vita að eitt meginþema í bókinni er sprengjuárásin í Dresden. En það sem margir vita kannski ekki er að bókin gerði mikið til að vekja athygli á sprengjuárásina, sem hafði fengið furðulitla umfjöllun í allri analýsunni sem fylgdi seinni heimsstyrjöldinni. Reyndar hafði bók Irvings komið út og Vonnegut notaði tölur hans, sem við vitum nú að eru stórlega ýktar, í bókinni sinni. En tölurnar eru ekki svo mikið atriði. Það sem skiptir meira máli er að Vonnegut vakti athygli á þær ómannúðlegu aðferðir sem voru notaðar í stríði sem var mikið búið að sveipa ljóma hetjudáðar og ævintýramennsku. Það að bókin kom út akkúrat þegar mótmæli gegn Víetnamsstríðinu (þar sem bandaríkjamenn notuðu napalm óspart - ekki ólíkt sprengjum sem varpað var á Dresden) voru að ná hámarki varð bara til þess að undirstrika skilaboð Vonneguts um að hvernig sem á það er litið, er ekkert mannúðlegt við stríð. Og hvað hefur mannkynið lært síðan...? So it goes.

Tryggvi Thayer, 19.6.2006 kl. 11:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Árni Matthíasson
Árni Matthíasson
Skoðanir á mönnum og málefnum á þessari síðu eru birtar með opnu notendaleyfi. Öllum er heimilt að tileinka sér þær og halda þeim fram sem sínum eigin.
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband