Svíkjum fólkið, mettum börnin

Sú var tíðin að það besta sem hægt var að bjóða Íslendingum var ókeypis brennivín. Eftir að Bretinn kom og fólk kynntist peningum varð það besta að fá ókeypis peninga. Óprúttnir spila inn á það, hvort sem það er með peningakeðjubréfum eða píramídafyrirtækjum. Ekki hef ég tölu á þeim píramídafyrirtækjum sem sprottið hafa upp hér á landi sem hafa alla jafna horfið jafnóðum, oftar en ekki eftir að þátttakendur hafa glatað fé, sumir stórfé.

Nýtt píramídaæði virðist í uppsiglingu hér á landi, Nourish the Children, fyrirbæri sem gengið hefur vestan hafs síðan á síðasta ári. Það er nýstárlegt að því leyti að í stað þess að kaupa dót til endursölu, nefúða, afsláttarkort, heilsuvörur eða álíka dót, kaupa menn þurrmat sem síðan er sendur þurfandi. Þarna er viðkomandi fyrirtæki, NuSkin Enterprises, að spila á samviskubitið og græðgina samtímis sem er býsna magnað hanastél.

NuSkin Enterprises, sem tengist Nourish the Children náið - á Pharmanex sem hannaði fóðurblönduna, First Harvest International sem framleiðir hana, Big Planet Mall sem selur hana og Nourish the Children sem er einskonar andlit á öllu saman - er dæmigert píramídafyrirtæki og hefur iðulega lent uppá kant við Federal Trade Commission, viðskiptaeftirlit Bandaríkjanna.

Mér sýnist þetta vera svo:

NuSkin framleiðir þurrmat úr linsubaunum og hrísgrjónum, vítamínbætir hann og pakkar. Þeir sem þátt taka í Nourish the Children kaupa matinn af fyrirtækinu en í stað þess að éta hann sjálfir sendir fyrirtækið hann til þurfandi barna (og gefur líka einn pakka fyrir hverja átta sem þátttakendur kaupa. Þátttakendur fá síðan aðra til að kaupa pakka (auglýsa og kynna) og fá prósentur af því sem aðrir kaupa. Þeir fá líka kvittun fyrir þeim pökkum sem sendir eru út í þeirra nafni og geta notað þá kvittun til að fá skattaafslátt þar sem slíkt er heimilt.

Á bloggi eins þátttakanda í VitaMeal ævintýrinu kemur fram að hann kaupi hvern VitaMeal-poka frá First Harvest International á um 1500 krónur (sem er vissulega býsna hátt verð fyrir malaðar linsubaunir og vítamín, en látum það vera). Fyrir hvern poka sem keyptur er af honum fær hann síðan 150 krónur. Til að hafa upp í meðal mánaðarlaun þarf hann því að selja nokkuð marga pakka. (Mér skilst að tekjur af hverjum pakka séu mis-háar eftir hvað hver selur mikið á mánuði og því ekki einföld margföldun.)

Ég fær ekki betur séð en að NuSkin / Nourish the Children sé dæmigert píramídafyrirtæki þó því sé pakkað inn líknarstarfsbúning. Það má meira að segja halda því fram að það sé subbulegra en mörg slík fyrirtæki, enda lágkúrulegt að mínu mati að skreyta markaðsdót sitt myndum af svöngum börnum þegar það gefur augaleið að eini tilgangur NuSkin er að hagnast.

Fyrirbæri eins og Nourish the Children byggjast á því að sífellt koma nýir sölumenn inn og þannig heldur fé áfram að streyma til NuSkin. Reyndar er málum svo háttað í dæmigerðum píramídafyrirtækjum að innan við 0,5% þeirra sem þátt taka í slíku verkefni græða, ná til sín gróðanum frá þeim ríflega 99,5% sem tapa. Fyrirtækin sem eru á bak við píramídann, efst í honum, hagnast alltaf, enda eru þau sífellt að fá inn nýjar rollur til að rýja - áætlað er að um helmingur þátttakenda detti út á hverju ári og nýir koma í staðinn.

Píramídafyrirtæki byggjast á trúgirni, hún er í raun eina hreyfiafl þeirra. Fólkið á botninum, neðst í píramídanum tapar alltaf og tap þess er gróði þeirra sem ofar sitja. Það er svo sérstök tegund af siðblindu að skreyta sig með því að verið sé að fæða hungruð börn á sama tíma og fé er svikið út úr trúgjörnum. Hvaðan halda menn að peningarnir komi sem renna til toppanna? Það fer engin virðisaukandi starfsemi fram í píramídafyrirtækjum, þau eru svikamyllur djöfulsins.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Árni Matthíasson
Árni Matthíasson
Skoðanir á mönnum og málefnum á þessari síðu eru birtar með opnu notendaleyfi. Öllum er heimilt að tileinka sér þær og halda þeim fram sem sínum eigin.
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.5.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 24
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 22
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband