Fimmtíu plötur með Caetano Veloso

Caetano VelosoÞað er margt að varast í þessu lífi, margar hættur sem steðja að og stundum áttar maður sig ekki á háskanum fyrr en um seinan. Þannig fór fyrir mér fyrir stuttu.

Einn af þeim tónlistarmönnum sem ég held hvað mest upp á er Brasilíumaðurinn Caetano Veloso. Honum kynntist ég fyrst fyrir einhverjum áratugum og má segja að hann sé eini tónlistarmaður sem ég hef safnað, að því leyti að ég hef keypt allar plötur hans sem eru orðnar býsna margar eftir fjörutíu ára starfsævi.

Flestir þekkja Veloso væntanlega fyrir það er hann söng dúfnasönginn, Cucurrucucu Paloma, í Almodóvar-myndinni Hable con ella. Hann hefur þó afrekað meira en því, á að baki á sjötta tug af breiðskífum, en fyrsta platan kom út 1967 og heitir Domingo. Á henni er að finna bossanovalegt popp, en Gal Costa syngur með honum á plötunni.

Á næstu plötu, sem hét einfaldlega Caetano Veloso, breytti hann um stefnu, spilaði tilraunkennt popp, og hefur breytt reglulega alla tíð. Hann varð fljótlega framarlega í flokki ungra listamanna sem sköpuðu nýja gerð af brasilískri dægurtónlist, hrærðu saman brasilískum hefðum og súru rokki svo úr varð tónlistarstefna sem kallaðist Tropicália eða Tropicalismo og byggðist einna helst á því að gera ekkert það sem áður hafði verið gert; allt var vert að prófa að minnsta kosti einu sinni. Veloso og Gil voru fremstir meðal jafningja í Tropicália-hreyfingunni, en af öðrum þátttakendum í henni má nefna hljómsveitina Tom Zé, Gal Costa og Os Mutantes.

Caetano Veloso sat ekki lengi fastur í Tropicália- sýru, heldur var hann leitandi listamaður og segja má að hver plata sem hann gaf út á áttunda áratugnum hafi verið tilraun til að gera eitthvað nýtt. Hann, og fleiri ungir brasilískir listamenn, hrintu af stað tónlistarhreyfingu sem kölluð var MBP, musica popular Brasileira. Í þeim lauslega félagsskap voru margir tónlistarmenn sem urðu síðar þekktustu listamenn þjóðarinnar, en undir merkimiðann MPB féllu ótal ólíkar tónlistarstefnur; samba, bossanova, tilraunakennt popp og hreinræktuð framúrstefna.

Á þessum árum var herforingjastjórn við völd í Brasilíu og ungu listamennirnir lentu margir upp á kant við stjórnvöld, ekki síst eftir að hert var á ritskoðun og skoðanakúgun í upphafi áttunda áratugarins. Til að mynda varð mikil hneyksli þegar Veloso mætti í kvenmannsfötum á virðulega sönglagakeppni og söng lagið E proibido proibir, það er bannað að banna. Í kjölfarið hrökklaðist hann í útlegð líkt og ýmsir brasilískir listamenn, og dvaldi í Lundúnum í nokkur ár.

Ekki er gott að telja allar þær plötur sem Caetano Veloso hefur gefið út á ferlinum, en nægir að nefna að fyrir nokkrum árum kom út kassinn Todo Caetano, sem hefur að geyma 50 geisladiska og nær þó ekki yfir allt sem hann hefur sent frá sér. Hann er og enn að; 2004 kom út A Foreign Sound, safn bandarískra laga sem Veloso túlkar á sinn hátt og gefin var út til að hylla bandaríska menningu sem hafði mikil áhrif á hann sem ungan mann á leið í tónlistina. Cê kom svo út í september síðastliðnum og enn tekur Veloso skarpa beygju frá síðustu skífu á undan - nú er það nútíma- og framúrstefnuleg nýbylgja.

Í mörg ár keypti ég allt sem Veloso gaf út og átti um tíma á fjórða tug af plötum með verkum hans. Síðan lánaði ég vini mínum stóran hluta af safninu, tuttugu til þrjátíu plötur, og hef aldrei fengið þær aftur. Þegar ég var að skrifa grein um Veloso og Cê, nýju plötuna hans fyrir Moggann um daginn hlustaði ég á Veloso og saknaði þess að geta ekki heyrt margar af hans bestu skífum því þær hafa ekki skilað sér úr láni og gengur illa að heimta þær, sérstaklega Cores nomes, útlegðarplötuna Caetano Veloso (A Little More Blue), Cinema Transcendental, Transa og Bicho. Allt verkaði þetta svo sterkt á mig að áður en ég vissi af var ég búinn að kaupa mér fimmtíu plötur með Caetano Veloso - það er margt að varast ...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Georg P Sveinbjörnsson

úff....hvað ætli maður sé búinn að tapa mörgum dýrgripum sem maður lánaði og ekki fengið aftur...nokkrar plöturnar sem maður hef keypt oftar enn einu sinni vegna þessa....errhm....reyndar einnig nokkrar í hilunni líka sem ég hef fengið lánaðaðar og aldrei skilað.

Georg P Sveinbjörnsson, 21.5.2007 kl. 12:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Árni Matthíasson
Árni Matthíasson
Skoðanir á mönnum og málefnum á þessari síðu eru birtar með opnu notendaleyfi. Öllum er heimilt að tileinka sér þær og halda þeim fram sem sínum eigin.
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (6.5.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 19
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 17
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband