Laukurinn flysjaður

Gunther GrassSjálfsævisaga Günters Grass, Laukurinn flysjaður, eða Peeling the Onion upp á ensku, Beim Häuten der Zwiebel á frummálinu, vakti gríðarlegar deilur þegar hún kom út á síðasta ári, enda skýrir hann frá því í bókinni, og lét þess reyndar getið skömmu áður en hún kom út, að hann hafi verið liðsmaður í Waffen-SS, úrvalssveitum þýska hersins sem höfðu mikil tengsl við nasistaflokkinn. Þetta þótti mörgum mikið hneyksli enda Grass þekktur fyrir gagnrýni sína á auðvalds- og hernaðarhyggju alla tíð.

Í upphafi bókarinnar líkir Grass minni sínu við lauk; þegar flett er utan af lauknum ysta laginu, þurru og sprungnu, kemur í ljós annað lag safaríkt og þar fyrir innan enn annað og svo enn eitt til. "Laukurinn hefur mörg lög. Fjölda laga. Ef hann er flysjaður endurnýjar hann sig; ef hann er saxaður koma tárin; sannleikurinn birtist því aðeins að hann sé flysjaður."

Þessi samlíking er bráðsnjöll og vel nýtt í gegnum bókina. Hún kemur líka heim og saman við gríðarlegan áhuga Grass á matreiðslu sem sér stað í mörgum bóka hans, en uppspretta þess áhuga var matreiðslunámskeið sem hann fór á sem stríðsfangi Bandaríkjamanna og lýst er á óborganlegan hátt í bókinni.

Grass-áhugamönnum finnst eflaust einna mest um vert að í ævisögunni segir Grass frá fyrirmyndum fjölda persóna sem við þekkjum úr verkum hans, Aðallega úr Danzig-þríleiknum, Blikktrommunni, Ketti og mús og Hundaárum, sem er reyndar orðin fjórleikur eftir að Kabbagangur slóst í hópinn 2002, en hann kynnir líka til sögunnar ýmsar persónur sem hann nýtti síðar, aukinheldur sem ýmsar uppákomur í bókum hans eiga sér stoð í raunveruleikanum.

Svo var það hermaðurinn guðhræddi sem var samfangi hans í haldi hjá bandaríska hernum í stríðslok, kýtti við hann um trúmál og heimspeki, spilaði við hann teningaspil og deildi með honum kúmenfræjum. Jósep hét hann, jafnaldri hans frá Bæjaralandi og ætlaði sér að verða kardínáli. Ætli það sé Joseph Alois Ratzinger? Grass segir það ekki beint, en hann gefur það óneitanlega sterklega í skyn.

Forvitnilegt er líka að lesa um brennandi myndlistaráhuga Grass og tilraunir hans til að verða myndlistamaður sem urðu nánast að engu þegar hann tók að skrifa skáldsögur, þó hann hafi haldið áfram að vinna myndlist samhliða skrifunum.

Þessi ævisaga Grass er afskaplega vel skrifuð, eins og hans er von og vísa, og stílsnilldin engu minni en í skáldverkum hans. Í ljósi deilnanna sem spruttu af útkomunni, sem getið er að framan, verður þó að segja að minningar hans frá árunum í Waffen-SS eru býsna þokukenndar og alloft ber Grass við minnisleysi eða skautar yfir hluti. Það er til að mynda erfitt að trúa því að hann hafi aldrei hleypt af skoti, þó hersveit hans hafi ekki komist á vígstöðvarnar fyrr en stríðinu var eiginlega lokið.

Glannalegar yfirlýsingar ýmissa menningarpáfa, þýskra og annarra, um að Grass hafi glatað ærunni með þessari uppljóstrun eru þó kjánalegar og beinlínis heimskulegt þegar menn ætla að dæma ævistarf eins helsta rithöfundar Þjóðverja okkar tíma fyrir glappaskot hans sem unglings.

Ævisögunni lýkur um það leyti sem Blikktromman kemur út, enda sú bók vendipunktur í sögu hans, en ekki líkar mér þau lokaorð hans að hann hafi hvorki lauk né löngun til að segja meira af ævi sinni - hann hefur frá mörgu að segja og merkilegu að mínu viti.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Árni Matthíasson
Árni Matthíasson
Skoðanir á mönnum og málefnum á þessari síðu eru birtar með opnu notendaleyfi. Öllum er heimilt að tileinka sér þær og halda þeim fram sem sínum eigin.
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 20
  • Frá upphafi: 117509

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 20
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband