Þriðjudagur, 21. ágúst 2007
Aðskildir og ójafnir
Árin frá 1955 til 1968 voru mikill átaka og örlagatími í Bandaríkjunum. Blökkumenn í Suðurríkjunum bjuggu við mismunun og fordóma og svo kom að þeir sættu sig ekki við að vera annars flokks og hófu baráttu til að fá því breytt. Á ýmsu gekk í þeirri baráttu og í bókinni The Race Beat, eftir blaðamennina Gene Roberts og Hank Klibanoff, er því haldið fram að veigamikill þáttur í því að blökkumenn báru sigur úr býtum sé sá að þeir nýttu sér fjölmiðla á skipulegan hátt, enda gekk það gersamlega fram af þorra Bandaríkjamanna þegar þeir sáu hvaða ofbeldi fólk var beitt sem sóttist eftir mannréttindum sem áttu þó að teljast sjálfsögð þar vestan hafs.
Eitt af því sem vekur athygli við lestur bókarinnar er að á þessum árum var til grúi dagblaða og tímarita sem blökkumenn gáfu út, 1951 voru 175 slík blöð gefur út vestan hafs, og eins það hve þau voru óvægin í gagnrýni sinni á kynþáttafordómana og aðskilnaðarstefnuna sem gegnsýrði bandarískt þjóðfélag. Þessi fjöldi blaða sem gefinn var út ber því vitni að frelsi fjölmiðla var virt í Bandaríkjunum, þó hluta skýringarinnar á því af hverju þau fengu að starfa í friði sé eflaust líka að leita í því að þetta voru blöð fyrir blökkumenn og hvítum lesendum datt ekki í hug að lesa þau.
Ákveðinn vendipunktur í baráttu blökkumanna fyrir mannréttindi var þegar hæstiréttur Bandaríkjanna felldi þann úrskurð að aðskilnaðarstefnan væri brot á stjórnarskránni. Í því gekk hæstiréttur þvert á eldri dóm, mál frá 1896, en í þeim dómi var staðfest að ríki mættu koma upp aðskilnaði svo framarlega sem kynþættirnir nytu sömu réttinda; væru "separate but equal". Fljótlega varð þó ljóst að þetta voru bara orðin tóm, þ.e. það sem sneri að jafnrétti, því þó flest suðurríkjanna kæmu sér upp sérstökum skólum fyrir svarta var allur aðbúnaður þar mun lakari en í skólum fyrir hvíta, húsnæði lélegt, skólagögn fátækleg og fátt um kennara.
Þessi ákvörðum hæstaréttar hleypti illu blóði í marga suðurríkjamenn, en gagnrýni þeirra byggðist ekki bara á kynþáttafordómum. Nokkrum hóp manna fannst þannig úrskurðurinn vera íhlutun alríkisins í mál sem væri fylkjanna sjálfra að stjórna (umræða sem enn er hávær vestan hafs, þ.e. að hve miklu leyti alríkisstjórnin eigi að setja lög, til að mynda varðandi réttindi samkynhneigðra). Öllu háværari bar þó sá hópur sem byggði afstöðu sína að mestu á kynþáttafordómum, eða þannig birtist það í það minnsta lesanda uppi á Íslandi, þó eflaust hafi iðulega legið flóknari ástæður að baki. Þeirra sjónarmið urðu snemma áberandi í ljósi fjölda ofbeldisverka - líkamsárása, brennuárása og morða auk þess sem lynching, aftökur án dóms og laga, fjölgaði til muna.
Forystumönnum blökkumanna varð snemma ljóst að eina leiðin til að ná árangri í baráttunni væri að ná til almennings í norðurríkjum Bandaríkjanna og eins þóttust þeir vissir um að margir kristnir suðurríkjamenn myndu snúa baki við aðskilnaðarstefnunni ef þeir sæju harðræðið sem blökkumenn voru beittir. Baráttu þeirra var líka stýrt markvisst eftir því hvað búast mætti við ofsafengnustum viðbrögðum yfirvalda, leitaðir voru uppi þeir lögreglustjórar sem áttu erfiðast með að hemja sig og þar var látið sverfa til stáls. Fyrir vikið meiddust fleiri og líka biðu fleiri bana í baráttunni, en sjónvarpsáhorfendur og lesendur blaða og frétttímarita trúðu ekki sínum eigin augum þegar þeir sáu lögreglumenn og skríl berja snyrtilega kurteisa blökkumenn sem sóttust eftir því einu að fá að kjósa eða fá afgreiðslu á veitingastað.
Dæmi um það hvernig sterk áhrif fjölmiðlaumfjöllun hafði var er lögreglumenn réðust á friðsama göngu blökkumanna af mikilli grimmd skammt frá borginni Selma 7. mars 1965. Blaða- og sjónvarpsmenn voru þar og kvikmynduðu átökin og ein fréttastöðin, ABC, rauf dagskrá til að sýna myndir frá átökunum í miðri kvikmynd. Það var svo til að ýta enn undir reiði áhorfenda að myndin sem var rofin var Judgement at Nuremberg, leikin mynd um stríðsglæparéttarhöldin yfir frammámönnum þýskra nasista, því fyrir vikið fannst þeim sem þeir væru að horfa upp á viðlíka viðurstyggð í sínu eigin landi. Í kjölfarið stóðu hundruð manna upp frá sjónvarpstækjunum og fóru beina leið til Selma til að taka þátt í baráttu blökkumanna, sumir án þess að skipta um föt og margir án þess að hafa efni á því; fóru með bílum, lestum, hestvögnum, á puttanum eða fótgangandi.
Eftir því sem þrýstingur jókst frá stjórnvöldum hertust margir suðurríkjamenn í afstöðu sinni og aðskilnaðarstefnunni, segregationism (sem má kannski snara sem "fjölmenning"), sótti í sig veðrið. Ýmsir stjórnmálamenn gerður út á óánægju almennings með réttindabaráttu blökkumanna með góðum árangri - eftir því sem þeir voru glannalegri í yfirlýsingum þeim mun meira fylgi fengu þeir í kosningum.
Þessi bók er merkileg lesning og þó hún sé frásögn af mikilli kúgun og mannvonsku, þá er hún fyrst og fremst hylling mannsandans, þeirra fjölmörgu sem lögðu allt að veði til að berjast fyrir frelsi sínu og annarra og um leið vitnisburður um hve miklu máli það skiptir að í landi séu frjálsir fjölmiðlar.
Sovétmenn bentu iðulega á hlutskipti blökkumanna vestan hafs á sjötta og sjöunda áratugnum til að sýna fram á að líf þar væri lakara en austan járntjalds. Víst má taka undir það að þeir þurftu að þola ýmsar þrautir í baráttu sinni fyrir því sem alla jafna voru talin sjálfsögð mannréttindi fyrir hvíta, en ekki má gleyma því að fyrir tilstilli óháðs dómskerfis og frjálsra fjölmiðla vannst sigur.
The Race Beat - The Press, the Civil Rights Struggle, and the Awakening of a Nation eftir Gene Roberts og Hank Klibanoff. 528 bls. innb. Random House gefur út. Fæst í Máli og menningu.
Meginflokkur: Bækur | Aukaflokkar: Bloggar, Stjórnmál og samfélag | Breytt 28.8.2007 kl. 16:29 | Facebook
Tenglar
Vefgreinar
- Dont Legalize Drugs by Theodore Dalrymple, City Journal Spring 1997 Advocates have almost convinced Americans that legalization will remove most of the evil that drugs inflict on society. Dont believe them. City Journal - Spring 1997
Vefmiðlar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 3
- Frá upphafi: 117723
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Sæll Árni.
Fínn pistill. Ég hef lengi verið áhugasöm um réttindabaráttu svartra og bjó um nokkurt skeið í Newark, New Jersey. Í Newark eru flestir þeldökkir eða af spænskumælandi uppruna - það er skemmst frá því að segja að fátæktin þar er mjög mikil.
Dvöl mín þar leiddi mér í ljós að þrátt fyrir að lagasetningum hafi verið breytt ríkir enn mikil óreiða í kynþáttamálum þar vestra. Baráttumál svartra eru ekki vinsæl í dag og hafa orðið illilega fyrir barðinu á pólitískrí réttsýni - það er að segja, margir frömuðir innan baráttunnar ritskoða fréttaefni í leit að fordómum í stað þess að vekja samfélagið til umhugsunar líkt og var gert á sjötta og sjöunda áratugnum. Sameining er lítil meðal fólks vegna þess að flestir eru of uppteknir við að vinna. Í borg sem innheimtir lítið af sköttum er lítið um góða menntun. Skólarnir eru lélegir og góðir kennarar geta ekki hugsað sér að kenna þar vegna hárrar glæpatíðni. Í gegnum þetta hákaptítalíska skólakerfi er fólki haldið í félagslegri ánauð vanþekkingar. Stúlkur eignast börn ungar, þær hafa oft ekki verið fræddar um getnaðarvarnir (og ekki drengir heldur). Fullorðið fólk fær ekki aðhlynningu í veikindum og hefur oft ekki efni á lyfjum. Þú skilur hvað ég á við...
Vissulega eru þessi vandræði líka til hjá öðrum kynþáttum en það sem ég upplifði svo sterkt hjá fólkinu í Newark var að vonin þeirra er löngu farin. Þau gera sér litlar hugmyndir um betra líf. Það er hreinlega ekki í boði. Frekar sögðust margir ekki kæra sig um að hugsa um þessi mál og reyna frekar bara að hafa ofan í sig og sína. Eins og einhver sagði þá er lítið eftir þegar vonin er farin. Í augum fátækra blökkumanna er erfitt að finna neistann sem við þekkjum úr réttindabaráttunni á dögum Martin Luther Kings. Þess í stað ríkir andleg fátækt og uppgjöf.
Eins og þú lest þá er ég frekar tilfinningasöm yfir þessu. Tíminn í Newark hafði gríðarleg áhrif á litla stelpu frá Ólafsfirði.
Helga Þórey Jónsdóttir (IP-tala skráð) 24.8.2007 kl. 12:11
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.