Milljónir myndbanda

YouTube er vefsetur fyrir myndskeið þar sem notendur vefsetursins lesa sjálfir inn efnið. Ef marka má stofnendur YouTube var það ætlun þeirra að vefsetrið yrði vettvangur fyrir myndbönd almennings, myndbönd sem fólk gerði sjálft, hvort sem um væri að ræða listarænar stuttmyndir eða myndir af gæludýrum eða börnum. Það hefur og orðið raunin, á YouTube eru milljónir myndbanda eftir milljónir höfunda, en einnig er þar að finna tugþúsundur myndbanda sem sett eru inn án vitundar og vilja höfundarréttareigenda; myndskeið úr íþróttakappleikjum, tónlistarmyndbönd, brot úr sjónvarpsþáttum og bíómyndum og svo má telja. Samkvæmt nýlegum upplýsingum frá fyrirtækinu senda notendur YouTube inn um 70.000 myndskeið á sólarhring.

Mest ber þó enn á því efni sem almenningur hefur sjálfur sett saman og enda eiga milljónir manna myndbandstökuvélar, enn fleiri síma með myndbandmöguleika og grúi á líka vefmyndavélar sem tengdar eru beint við tölvur. Hægðarleikur er síðan að komast yfir hugbúnað til að vinna myndböndin og hann fylgir til dæmis með helsta stýrikerfi sem notað er í dag. Þetta notar fólk sér og sem dæmi má nefna mashup-myndbönd sem eru gríðarlega vinsæl á YouTube, en þá hafa menn blandað saman efni úr ólíkum áttum til að gera út eitt verk. Dæmi um það er til að mynda myndband þar sem setningar úr The Big Lebowski er blandað saman við myndbrot He-Man, en óteljandi slíkar kássur er hægt að finna á YouTube. Eins er nokkuð um það að tónlistarmenn noti YouTube til að kynna sig sig, til að mynda með því að sýna færni á hljóðfæri. Með vinsælustu myndböndum á YouTube er þannig heimagert myndband eftir tævanskan gítarleikara sem spilar útsetningu á verki eftir Pachebel, en í myndbandinu sýnir hann ævintýralega tækni á rafgítarinn og varð heimsþekktur fyrir vikið.

Upphaflegur tilgangur YouTube, að gera fólki auðveldara að tjá sig með myndböndum, hefur því gengið eftir en einna mestur vaxtarbroddur er þó í að setja inn forvitnileg myndskeið úr sjónvarpi. Þannig rata flest þau myndskeið sem vekja athygli vestan hafs beint á YouTube og oft nánast um leið. Dæmi um það er klúðrið hjá CNN um daginn þegar spjall vinkvenna var óvart sent yfir ræðu George Bush. Öll mismæli og klúður rata þannig beint inn, umdeildar yfirlýsingar, bilanir og  klaufagangur. Gera má ráð fyrir því að í kosningarbaráttunni sem framundan er vestan hafs muni YouTube skipta miklu máli, enda lifir á YouTube öll vitleysa sem frambjóðendur láta frá sér fara in hita leiksins. Sjá til að mynda hvernig fór fyrir frambjóðandanum George Allen sem gerði lítið úr bandarískum kvikmyndatökumanni af indverskum ættum á framboðsfundi - ummælí hans fóru beint inn á YouTube og þaðan í aðra fjölmiðla og í kjölfarið hvarf forskot hans, sem var á annan tug prósenta.

Samkvæmt vefmælingum er YouTube ein af vinsælustu vefsíðum heims, í þrettánda sæti og á uppleið. Gestir á mánuði eru í kringum tuttugu milljónir og alls er horft á um hundrað milljón myndbönd á dag hjá YouTube. Mismunurinn á fjölda gesta og myndbanda skýrist af því að auðvelt er fyrir notendur að vísa á myndbönd sem vistuð eru hjá YouTube og láta þau spilast á viðkomandi vefsíðu. Gríðarlega vinsælt er að birta YouTube myndbönd á bloggsíðum og einnig hafa sprottið upp vefsíður sem veita aðgang að ýmislegu efni sem er í raun vistað hjá YouTube. Gott dæmi um það eru vefsetur sem veita aðgang að anime, japönskum teiknimyndum, en þau haga mörg málum svo að þau halda utan um lýsingar á þáttum, yfirlit yfir þá og tilheyrandi, en þegar notandi vill síðan horfa er myndbandinu streymt frá YouTube. Þar sem ekki má setja lengri myndbönd en tíu mínútur inn á YouTube sjá þannig vefsetur um að þræða efnið saman svo hálftíma þáttur virðist vera heill en ekki í þrem hlutum. (Reyndar er hægt að setja lengri myndskeið inn á YouTube, en til þess þurfa menn að skrá sig sérstakri "leikstjóraskráningu".)

Það gefur augaleið að svo mikið magn af höfundarréttarvörðu efni vekur ýmsar spurningar og þá helst af hverju þeir sem eiga höfundar- og birtingarrétt á viðkomandi efni skuli ekki hafa látið í sér heyra. Nú er því svo háttað vestan hafs að netþjónustur bera almennt ekki ábyrgð á því efni sem viðskiptavinir þeirra dreifa nema þær heykist á því að fjarlægja efnið sé þeim bent á það. YouTue hefur einmitt haft fyrir sið að taka snarlega út efnið um leið og rétthafi þess lætur í sér heyra, en þegar um 70.000 myndskeið eru sett inn á hverjum sólarhring getur nærri að erfitt er við að eiga. Varla þarf að taka fram að ógerningur er fyrir rétthafa að stefna hverjum og einum notanda og heimskulegar aðgerðir sambands hljómplötuframeiðenda vestan hafs, RIAA, gegn nokkrum einstaklingum hafa engu skilað nema aukinni óvild í garð útgefenda.

Kvikmyndafyrirtæki hafa mörg áttað sig á að YouTube er fín leið til að kynna kvikmyndir og hafa því séð í gegnum fingur sér þó einstaklingar hafu verið að setja inn brot úr myndum eða kynningarmyndbönd nýrra mynda. Eins hafa mörg plötufyrirtæki látið afskiptalaust þó á YouTube sé að finna tónlistarmyndbönd, enda eru slík myndbönd alla jafna hreinræktaðar auglýsingar hvorteðer (og geta haft mikið heimildagildi, ef leitað er að sugarcubes birthday lee finnst  myndband sem byggir á tónleikaupptöku frá öðrum tónleikum Sykurmolanna í Lundúnum (1987)).

Aðstandendur YouTube lýst því yfir að fljótlega muni fyrirtækið vista öll tónlistarmyndbönd sem gerð hafi verið vestan hafs og hvað verður þá um MTV?

(Lengri gerð greinar sem birtist í Morgunblaðinu 2. september.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Árni Matthíasson
Árni Matthíasson
Skoðanir á mönnum og málefnum á þessari síðu eru birtar með opnu notendaleyfi. Öllum er heimilt að tileinka sér þær og halda þeim fram sem sínum eigin.
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband