Noruwei no mori

Fyrir stuttu kom út á íslensku skáldsagan Norwegian Wood eftir Haruki Murakami og kominn tími til finnst eflaust einhverjum, enda nauðsynleg bók að lesa til að fá sem besta mynd af þessum merkilega rithöfundi, en nítján ár eru síðan bókin kom út í Japan. Bjartur gefur út.

Aftan á íslenskri útgáfu bókarinnar stendur þessi setning: "Þessi áhrifamikla saga skaut Haruki Murakami upp á stjörnuhimin bókmenntanna (og metsölulista heimsins)."

Víst er það rétt að bókin varð metsölubók í Japan, en hitt er della að hún hafi skotið honum á metsölulista heimsins, enda kom hún ekki út utan Japans fyrr en mörgum árum eftir að Murakami sló í gegn sem rithöfundur utan heimalandsins.

Samkvæmt Wikipedia er útgáfuröðin þessi: 

Kaze no uta wo kike / Hear the Wind Sing 1979
1973-nen no pinboru / Pinball 1980
Hitsuji o meguru boken / A Wild Sheep Chase 1982
Sekai no owari to hadoboirudo wandarando / Hard-Boiled Wonderland and the End of the World 1985
Noruwei no mori / Norwegian Wood 1987
Dansu dansu dansu / Dance Dance Dance 1988
Kokkyo no minami, taiyo no nishi / South of the Border, West of the Sun 1992
Nejimaki-dori kuronikuru / The Wind-Up Bird Chronicle 1992-1995
Suputoniku no koibito / Sputnik Sweetheart 1999
Umibe no Kafuka / Kafka on the Shore 2002
Afutadaku / After Dark 2004

Noruwei no mori, sem heitir eftir Bítlalaginu Norwegian Wood (og þó ekki, betur útskýrt síðar í þessu bloggi), var semsé fimmta skáldsaga Murakamis og sú sem gerði hann að stjörnu í heimalandi sínu. Fram að því höfðu bækur hans selst þokkalega, í 50.000-100.000 eintökum hver. Murakami hefur lýst því að vinsældir Noruwei no mori / Norwegian Wood hafi komið sér óþægilega á óvart; hann hafi verið sáttur við að hafa í kringum 100.000 lesendur sem dáðu hann og elskuðu en þegar Norwegian Wood skreið yfir milljón eintaka múrinn hafi honum þótt sem allir hafi farið að hata hann. Í kjölfarið treysti hann sér ekki til að skrifa skáldsögu í nokkur ár, en hann lauk við Dance Dance Dance um það leyti sem Norwegian Wood æðið hófst.

Fyrir ókunnugan er erfitt að gera sér grein fyrir því hvers vegna Norwegian Wood sló svo rækilega í gegn í Japan, en í ljósi þess að það voru víst unglingsstúlkur sem féllu fyrst fyrir bókinni má gera því skóna að það sé hvaða tökum Murakami tekur ást og kynlíf í bókinni. Unglingsstúlkurnar hrifust af bókinni og síðan aðeins eldri stúlkur, svo ungar konur, þá konur á miðjum aldri og svo koll af kolli. Síðan bættust piltar við, þá ungir menn og svo má telja. Í lok árs 1988, ári eftir að bókin kom út, hafði hún selst í hálfri fjórðu milljón eintaka í Japan sem var og er fáheyrt.

Um gervallt Japan var Murakami æði, eða réttara sagt Norwegian Wood æði og ýmis annar varningur kom á markað til að nýta æðið - hægt var að kaupa gríðarstóra veggmyndir af norskum furuskógi, sælgæti sem hét eftir bókinni, geisladiskar og fleira, aukinheldur sem sala á Rubber Soul tók kipp.

Bein þýðing á japönsku heiti bókar Murakamis er skógur í Noregi eða norskur skógur, ekki Norwegian Wood, norskur viður, en alla jafna skildu japanskir Bítlaaðdáendur titil lagsins svo að verið væri að syngja um ástarfund í norskum skógi.

Réttur skilningur á titlinum er þó annar, því hann vísar til svefnherbergisinnréttingar úr furu. Lennon var að syngja um það er hann hélt framhjá Cynthiu Lennon, en vildi þó ekki segja það svo beint að hún myndi skilja það. Hann lýsti því eitt sinn að hann hafi viljað gera grín að stúlkum sem keyptu sér ódýrar furuinnréttingar og kölluðu norskan við, en benti þó á að titillinn Cheap Pine hefði vissulega ekki hljómað eins vel.

I once had a girl, or should I say, she once had me.
She showed me her room, isn't it good, Norwegian wood?
She asked me to stay and she told me to sit anywhere,
So I looked around and I noticed there wasn't a chair.

I sat on a rug, biding my time, drinking her wine.
We talked until two and then she said, "it's time for bed".
She told me she worked in the morning and started to laugh.
I told her I didn't and crawled off to sleep in the bath.

And when i awoke I was alone, this bird had flown.
So I lit a fire, isn't it good, Norwegian wood.

Eins og sjá má segir textinn frá því er sögumaður hittir stúlku og fer með henni heim. Hún sýnir honum þó ekki þá hlýju sem hann hefði helst óskað og á endanum neyðist hann til að sofa í baðkarinu. Hann kemur þó fram hefndum að lokum því hann hann kveikir í viðarinnréttingunni góðu.

Þegar Lennon samdi lagið haustið 1965 var hann undir sterkum áhrifum frá Bob Dylan, gekk með samskonar húfu og Dylan var með á umslagi fyrstu plötu sinnar, Bob Dylan, sem kom út 1962, og var nú farinn að semja lög eins og Dylan sem heyra má af Norwegian Wood. Lennon sagði frá því í viðtali löngu síðar að félagar hans hefðu strítt honum mikið á Dylan-áráttunni, en í Revolution in the Head, því lykilverki Bítlafræða, segir Ian MacDonald frá því að Norwegian Wood sé fyrsta Bítlalagið þar sem texinn er mikilvægari en lagið. Í þeirri bók kemur og fram að þeir félaga hafi baslað talsvert við lagið og tekið það upp í mjög ólíkum. Heyr til að mynda fjórðu tökuna.

Dylan tók víst stælingunni með jafnaðargeði og svaraði fyrir sig með góðlátlegri stælingu á Norwegian Wood, laginu 4th Time Around sem er á meistarastykki hans Blonde on Blonde (kom út 1966). Ekki er bara að hann er greinilega að snúa útúr textanum heldur snýr hann líka útúr laglínunni.

Eins og getið er fjallar texti Lennons um stúlku sem dregur sögumann með sér heim en sýnir honum síðan fálæti en í 4th Time Around segir frá manni sem á stormasöm samskipti við vændiskonu, ekki síst eftir að hann reyndir að borga henni fyrir greiðann með tyggjói:

I stood there and hummed,
I tapped on her drum and asked her how come.
And she buttoned her boot,
And straightened her suit,
Then she said, dont get cute.
So I forced my hands in my pockets
And felt with my thumbs,
And gallantly handed her
My very last piece of gum.

Þeim viðskiptum lýkur með því að hún fær flog og fellur að fótum honum:

She screamed till her face got so red
Then she fell on the floor,
And I covered her up and then
Thought Id go look through her drawer.

Dylan fór ekkert leynt með að hann hefði verið að stæla Norwegian Wood og staðfesti það í viðtölum. Hann kunni víst vel að meta Lennon, en fannst lítið til Pauls McCartneys koma og finnst víst enn.

Eins og fram kemur í upptalningunni sem ég fann á Wikipedia kom Norwegian Wood út í Japan 1987. Hún var síðan gefin út á ensku í Kodansha English Library 1989, en þá aðeins til sölu í Japan. Þar keypti íslenskur vinur minn hana fyrir mig um miðjan tíunda árautuginn og reyndar líka Hear the Wind Sing og Pinball, 1973, fyrstu og aðra bókina í Rottu þríleiknum (sú þriðja er Wild Sheep Chase), en þær bækur vill Murakami víst ekki gefa út á Vesturlöndum. Það er því ljóst að Murakami var orðinn stjarna áður en Norwegian Wood kom út.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: snillingur-jón

Fín úttekt, sem verður að geymast fram á morgundag að lesa til enda því maður er jú orðinn syfjaður eftir Magnamót (já, ég gengst við því að ég er hvítt rusl). Mig minnir samt eins og Murakami hafi unnið nokkuð virta smásagnasamkeppni í upphafi ferils síns, sem gerði honum ljóst að hann gæti skrifað. Einhver aur fylgdi verðlaununum. Sala hans á djassbar, sem hann hafði rekið í einhver ár á undan - líklega í bjartsýniskastinu yfir því að geta höndlað penna - spilar örugglega líka inn í. En minnir líka eins og Villtur eltingaleikur við rollu hafi fleytt honum upp á japanska stjörnuhimininn í bókmenntum og að Harðsoðni Undraheimurinn og endalok heimsins - eins og bókin hlýtur að heita í íslenskri þýðingu Ugga, sem þýtt hefur hinar bækurnar (ég veit ekki hver þýðir Norwegian Wood) - hafi fest hann endanlega í himinhvolfinu. Það er með ólíkindum annars hvað maðurinn afkastar miklu. Engu líkara en að þeir séu tveir, Murakami-ar, á ferð í Japan. Mæli annars með nafna hans Ryu Murakami. Afbragðs subbu og dónapönkliteratúr þar á ferðinni fyrir þá sem ekki þekkja.

snillingur-jón, 6.9.2006 kl. 02:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Árni Matthíasson
Árni Matthíasson
Skoðanir á mönnum og málefnum á þessari síðu eru birtar með opnu notendaleyfi. Öllum er heimilt að tileinka sér þær og halda þeim fram sem sínum eigin.
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.5.): 0
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 23
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 23
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband