Allur tilfinningaskalinn

Under byenÞegar danska hljómsveitin Under byen steig sín fyrstu spor fyrir um áratug vakti meðal annars athygli manna að sungið var á dönsku, nokkuð sem menn áttu ekki að venjast í Danmörku - þar var þá, og er reyndar enn, alsiða að sungið væri á ensku. Þegar söngkonan og textahöfundurinn Henriette Sennenvaldt var spurð um þetta atriði í viðtali fyrir nokkru sagði hún að til að byrja með hefði hún sungið á ensku vegna þess að henni fannst auðveldara að syngja hana en dönskuna, en síðan fannst henni holur hljómur í enskunni, að hún næði ekki jafn vel til áheyrenda og ef hún notaði dönsku.

Þetta rímar nokkuð vel við það sem Björk Guðmundsdóttir sagði í viðtali fyrir nokkrum árum - henni hefði liðið eins og hún væri að ljúga þegar byrjaði að syngja á ensku, svo langt fannst henni frá tilfinningunni sem hún var að tjá í tungumálið erlenda sem hún notaði til að tjá þær. Með tímanum hefur hún eflaust minnkað þetta bil, en þegar maður heyrir frá henni stök orð eða setningar á íslensku í lögum hennar finnur maður að þau orð koma beina leið frá hjartanu og rata skemmri leiði beint í hjartastað þess sem hlustar.

Það eru fjölmargar ástæður fyrir því að menn syngja á öðru tungumáli en sínu eigin, en að mínu viti er það oftast ótti sem verður til þess, ótti við orð, við tilfinningar. Þannig getur söngvari horft í augu hundruða áheyrenda og sungið "I love you" en ef hann á að segja þau orð á íslensku roðnar hann og stamar. Prófaðu þetta ágæti lesandi og finndu hvernig íslensku orðin hafa allt aðra og dýpri merkingu en þau ensku, hvernig maður fyrirverður sig eiginlega að vera segja annað eins við ókunnuga upp á íslensku, en getur svosem látið það vaða á ensku. (Þeir sem eiga annað móðurmál en íslensku get snúið þessu við til að finna sömu áhrif.)

Tilfinningavirkið í hausnum á okkur er allt byggt upp á móðurmálinu og fyrir vikið næst best samband við tilfinningarnar í gegnum móðurmálið. Ég hef því aldrei skilið hvers vegna tónlistarmenn sem eru að syngja fyrir Íslendinga nota ekki allan tilfinningaskalann, hvers vegna þeir breiða teppi yfir lögin áður en þau eru borin á borð fyrir áheyrendur, hvers vegna þeir ganga ekki alla leið. Nema þeir hafi ekkert að segja.

Á þessu ári hafa mér borist sextíu íslenskar plötur ólíkrar gerðar og mis-góðar eins og gengur. Af þeim eru sjö án söngs, nítján á ensku og ein á ensku að mestu. Einhverjar af þeim plötum sem sungnar eru á ensku eru gefnar út ytra og því skiljanlegt að því leyti að menn séu að syngja á alþjóðlegu tungumáli, en flestar þó gefnar út fyrir íslenskan markað og stendur ekki til að gefa þær úr erlendis að því ég best veit.

Mín reynsla er sú að það sé ákveðinn þröskuldur á íslenskum markaði fyrir þá sem syngja á ensku, þær plötur seljast almennt betur sem notast við það mál sem flestir skilja og gildi einu hvort verið sé að syngja um eitthvað sem skiptir máli eða bulla út í eitt. Þó eru dæmi um íslenskar plötur sem sungnar hafa verið á ensku og selst bráðvel hér á landi þannig að ekki er það einhlítt.

Að þessu sögðu má gera ráð fyrir að einhverjir af þeim sem senda frá sér ísl-enskar plötur sem ég hef heyrt á árinu séu að horfa til útlanda - syngi á ensku til að auðvelda sér leið á erlendan markað. Það er þó hægar sagt en gert, þarf til mikla hæfileika eins og dæmin sanna og líka það að vera öðruvísi, að skera sig úr. Til dæmis að syngja á íslensku.

(Rétt er að geta þess að myndin er af Under byen. Henriette Sennenvaldt er lengst til vinstri. Til gamans má svo nefna að ég er á leið til Kaupmannahafnar í byrjun desember með það að markmiði að sjá hljómsveitina á sviði öðru sinni, en ég sá hana fyrst í Árósum fyrir nokkrum árum.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon


Ég held að það hjálpi Under Byen (sem ég kynntist í gegnum þig, hvað annað) að þar er kannski meiri stuðningur við listina, og meira til að vinna. Þó danskir listamenn og tónlistamenn leiti að sjálfsögðu yfir landamærin (og höfin) að frægðinni, þá er neyðin kannski ekki jafn mikil og hjá íslenskum böndum sem vilja fleyri eyru.

Halli (IP-tala skráð) 2.10.2006 kl. 09:13

2 identicon

Þorsteinn Gylfason skrifaði mjög skemmtilega bók um einmitt það "Að hugsa á íslensku" og muninn á því að tjá sig á eigin móðurmáli og svo öðru máli. Fékk að því ég best veit Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir.

Jóhannes (IP-tala skráð) 6.10.2006 kl. 15:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Árni Matthíasson
Árni Matthíasson
Skoðanir á mönnum og málefnum á þessari síðu eru birtar með opnu notendaleyfi. Öllum er heimilt að tileinka sér þær og halda þeim fram sem sínum eigin.
Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (13.7.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband