Hvert fóru allir?

theworldwithoutusBókin The World Without Us eftir Alan Weisman vakti mikla athygli vestan hafs og austan á síðasta ári enda fjallar hún um mál sem mörgum er hugleikið, en á nýstárlegan hátt. Bókin byggir nefnilega á þeirri einföldu spurningu: Hvernig yrði líf á jörðinni ef mannkynið gufaði upp? Hann leitar víða svara við spurningu sinni, heimsækir frumstæðan ættbálk indíána á bökkum Amason-fljóts, skoða neðanjarðarborg í Tyrklandi, fer á hnotskóg í síðasta stórskógi Evrópu, kafar í hákarlavöðu við Suðureyjakóralrif, gengur eftir varðstöðvum á landamærum Kóreuríkjanna, klífur fjöll í Afríku og svo má telja. Fyrir þá sem nenna ekki að lesa lengra þá er svarið alltaf það sama: heimurinn hefði það betra án okkar, en það kemur kannski ekki á óvart

Bókin er ekki bara fróðleg fyrir vangavelturnar um það hvernig heiminum reiði af án okkar, heldur eru í honum líka fjölmargar skemmtilegar staðreyndir um heiminn eins og hann er, sumt sem verður til þess að mann langar að heyra meira og skoða meira. Það er til að mynda mjög skemmtilegt að lesa um Panamaskurðinn og tilurð hans, vangaveltur um upphaf mannkyns og hvernig það breiddist um jörðina, hvað varð um stórvaxin spendýr í Norður-Ameríku og fróðlegt þótti mér að lesa um það að einn mesti mengunarvaldur okkar tíma er fegurðarsmyrsl ýmiskonar (í þeim eru örsmáar plastörður sem rata í smádýr í sjónum og drepa þau smám saman).

Alan Weisman hefur skrifað greinar í ýmis blöð og tímarit vestan hafs: Harpers, tímarit New York Times og Atlantic meðal annars. Ein af þeim greinum sem hann skrifaði var um það hvernig dýralíf tók því fagnandi þegar menn hrökkluðust undan Tsjernobyl-kjarnorkuslysinu - í nágrenni kjarnakljúfsins, sem enn er lífshættulegur og verður væntanlega í hundruð eða þúsundir ára, blómstrar dýralíf og smám saman brýtur náttúran niður allar mannvistarmenjar. Í kjölfar þeirra greinar var hann beðinn að skrifa grein um það ef allt mannkyn hyrfi á brott og sú grein endaði sem bókin sem hér er gerð að umtalsefni.

Ef mannkyn allt hyrfi skyndilega væri það ekki í fyrsta sinn sem ráðandi lífform á jörðinni stigi inn í eilífðina - gleymum því ekki að það tímaskeið sem nú er er þriðja tilraun til lífs á jörðinni - fyrst var það fornlífsöld sem iðaði af lífi þar til það eyddist nánast alveg á skömmum tíma (95% lífs á jörðinni hurfu í hamförum), síðan miðlífsöld sem endaði líka með látum og loks nýlífsöld sem við lifum. Hún gæti sem best endað með látum líka. Kannski af manna völdum

Hann skoðar líka hvað verður um mannvirkin, húsin okkar og minnisvarða, og kemst að því að þau verða ekki ýkja lengi að hverfa, stíflur fyllast og gefa sig á endanum, hús grotna niður á skemmri tíma en eiganda þeirra grunar (eða kannski þekkja þeir það manna best á eigin skrokki), bændabýli hverfa í óræktina og smám saman hristir landið af sér allt manngert. Allt tekur þetta þó mislangan tíma, hugsanlega líða þúsundir ára þar til fram koma örverur sem éta platsagnirnar, þungmálmar hverfa seint, PCB er nánast eilíft, nema einhver ördýr læri að brjóta það niður, og helmingunartími geislavirks úrgangs er talinn í þúsundum ef ekki milljónum ára (helmingunartími úrans U-238 er hálfur fimmti milljarður ára).

Það verður því ýmislegt eftir en það hverfur smám saman ofan í jörðina og á meðan ekki kemur fram önnur eins dýrategund og við sem getum ekkert séð í friði þá fer allt vel. Það er reyndar huggun að lesa í bók Weismans hve heimurinn verður fljótur að jafna sig á okkur og eins hvað þeir vísindamenn sem hann ræðir við eru rólegir yfir hugsanlegu hvarfi mannsins; allt hverfur á endanum segja þeir, engin dýrategund er eilíf - vísindin hafa kennt okkur það - og maðurinn ekki heldur.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Agnar Ólason

Mikið dæmalaust er þetta upplífgandi skemmtilestur eða hittó.

Ég er bara farinn að  horfa á fimm diska Blade Runner boxsettið mitt (takk fyrir ábendinguna) og þá get ég farið rólegur að sofa í þeirri trú að okkar bíði dýrindis dystópía en ekki þessi bannsetti bölmóður sem þú segir svo kæruleysislega frá.

"Have a better one..." 

Jón Agnar Ólason, 14.1.2008 kl. 23:14

2 identicon

Helmingunartími Urainum-239 er nú reyndar ekki nema tæpar 24 mínútur, U-238 sem er stöðugasti isotópinn hefur hins vegar helmingunartíma upp á 4,5 milljarða ára.

Isotopes of uranium

Gulli (IP-tala skráð) 15.1.2008 kl. 08:48

3 Smámynd: Ásgeir Kristinn Lárusson

Takk fyrir færsluna.

Ásgeir Kristinn Lárusson, 15.1.2008 kl. 09:20

4 Smámynd: Árni Matthíasson

Sæll vertu Jón.

Skil það svosem að þér þyki það ill tilhugsun að allt mannkyn hverfi óforvarandis þar sem þú situr og ruggar barni þínu nýfæddu. Biðst forlát á því að ég skuli hrekkja þig, en á hverju áttirðu svosem von.

Takk fyrir ábendinguna Gulli, ég fór greinilega sætavillt. Leiðrétti þetta.

Árni Matthíasson , 15.1.2008 kl. 14:14

5 Smámynd: Jón Agnar Ólason

Já þú meinar? Fallegt af þér, en ég var nú aðallega að hugsa um eigin rass ...

Jón Agnar Ólason, 15.1.2008 kl. 16:47

6 identicon

Ég verð að viðurkenna að ég kippi mér voða lítið upp við tihugsunina um mannkynslausa veröld. Mér finnst það samt dálítið snjallt hjá þessum höfundi að láta sér detta í hug að skrifa heila bók um afleiðingarnar   Og mér finnst kápumyndin, sérstaklega það hvernig titillinn og myndin vinna saman algjörlega brilljant

Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 15.1.2008 kl. 23:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Árni Matthíasson
Árni Matthíasson
Skoðanir á mönnum og málefnum á þessari síðu eru birtar með opnu notendaleyfi. Öllum er heimilt að tileinka sér þær og halda þeim fram sem sínum eigin.
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband