Glæponagróska á Ítalíu

EndGamesÞað er góð brella hjá glæpasagnahöfundi að láta bækur sínar gerast í spennandi og helst óvenjulegu umhverfi. Það búum við Íslendingar svo vel að eiga land, borgir og bæi sem fáir þekkja, en útlendir höfundar beita öðrum brögðum, eins og til að mynda að láta söguna gerast annars staðar, í öðru landi, sem hægt er að gæða dulúð, tja, eins og til að mynda Ítalíu. Ekki gerir það eftirleikinn erfiðari að fá bókmenntaminni eru kunnuglegri en ítalskir glæponar.

Ítalskir glæpasagnahöfundar eru legíó, nema hvað, og sumir býsna bókmenntalegir. Þannig sló Umberto Eco í gegn með glæpasögu, ekki satt?, og eins hefur sá mæti rithöfundur Antonio Tabucchi skrifað glæpasögur og eins Leonardo Sciascia og Andrea Camilleri, sem skrifar um Montalbano lögregluforingja, og Massimo Carlotto, nýstirnið á þessu sviði. Svo eru fjölmargir höfundar frá öðrum löndum sem skrifa bækur um ítalska spæjara og lögregluforingja, til að mynda Donna Leon sem segir frá ævintýrum feneyska lögregluforingjans Guidos Brunettis, en hún er bandarísk, Magdalen Nabb, sem var ensk kona sem fluttist í Flórens og skrifaði glæpasögur sem gerast í þeirri borg og svo Michael Dibdin, sem skrifaði bækur um lögregluforingjann sérlundaða Aurelio Zen, en Dibdin lést skyndilega fyrir tæpu ári og síðasta bókin um Zen kom út fyrir stuttu.

Fyrsta bókin um Zen kom út 1988 og vakti þegar hrifningu, enda er hann persóna sem flestir falla yfir, lævís og þrjóskur, strangheiðarlegur en beitir brögðum þegar við á og með óhemju sterka réttlætiskennd, sem hann lætur þó ekki alltaf þvælast fyrir. Alls urðu bækurnar ellefu þar sem Zen kemur við sögu og Dibdin var einmitt rétt búinn að koma elleftu bókinni til útgefanda þegar hann lést eftir stutt en snörp veikindi.

Bækurnar um Zen eru frábrugðnar flestum glæpasögum um ítalska lögregluforingja (eða einkaspæjara) í því að þær gerast eiginlega um alla Ítalíu. Sögusvið fyrstu bókarinnar er Perugia, þar sem Dibdin bjó um tíma, en svo fer Zen um víðan völl, til Feneyja, Bologna og Rómar og lendir meira að segja á Íslandi í einni bókinni, þó atburðarásin það sé óneitanlega nokkuð sérkennileg í augum íslenskra lesenda.

Í síðustu bókunum er Zen aftur á móti staddur á Sikiley, nóg af glæpahyski þar, og meira að segja mátti skilja eina söguna, Blood Rain, sem kom út 1999, svo að mafíósar hefðu myrt lögregluforingjann sem var þeim svo mikill þyrnir í auga. Annað kom þó á daginn, því Zen sneri aftur þrem árum síðar og er sprelllifandi í síðustu bókinni, End Games.

Bækur Dibdins og annarra höfunda sem getið er hér að ofan eru að mörgu leyti eins og ferðabækur, margar lýsa mannlífi og menningu, byggingum og landslagi og matargerðarlist af svo mikilli rómantík að lesendur dauðlangar til að fara á staðinn, ganga sömu götur og Brunetti lögregluforingi eða sitja á veitingahúsi í breiskjuhita hádegisins og borða sikileyskan bændamat, einfaldan og bragðmikinn. Það umhverfi sem Dibdin lýsir er þó ekki alltaf kræsilegt; í bókum sínum lýsir hann skuggahliðum ítalsks samfélags, spillingar og siðblindu sem grasseraði í skjóli kristilegra demókrata og grasserar enn. Kannski ekki svo spennandi áfangastaður þegar grannt er skoðað.

(Hluti af þessari færslu birtist í Morgunblaðinu 23. janúar.) 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Árni Matthíasson
Árni Matthíasson
Skoðanir á mönnum og málefnum á þessari síðu eru birtar með opnu notendaleyfi. Öllum er heimilt að tileinka sér þær og halda þeim fram sem sínum eigin.
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (1.5.): 4
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 19
  • Frá upphafi: 117508

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 19
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband