Nautgriparán í Ulster

Írskur herSvo uppteknir sem við erum sagnaarfi okkar gleymum við því iðulega að aðrar þjóðir eiga sinn arf síst ómerkari. Írar eru þannig auðugir að gömlum sögum, en þær eru reyndar margar öllu ævintýralegri en Íslendingasögur; minna eina helst á riddarasögur á við þær sem finna má í Fornaldarsögum Norðurlanda sem Forni gaf út á fimmta áratug síðustu aldar. Sjá og sagnir af Colm Cille sem Halldór Laxness nýtti við smíði Kólumkilla í Sjálfstæðu fólki.*

Meðal merkustu sagna Íra er þær sem segja frá hetjunni Cú Chulainn, þar helst Táin Bó Cúailnge sem kom út hjá Penguin í nýrri og einkar skemmtilegri þýðingu Ciarans Carsons sl. haust.

Táin Bó Cúailnge hafa menn ýmist snarað sem kúarekstur Coooleys eða Cooley nautgriparánið en Ciaran Carson leiðir rök að því að eins mætti snara heitinu sem sagnabálkur á skinni. Heiti bókatinnar var lengsat Táin, en í frægri útgáfu á verkinu í þýðingu Thomas Kinsella frá 1969 skeytti Kinsella ákveðnum greini framan við og sá siður hefur verið haldinn upp frá því. Myndir í þeirri bók teiknaði Louis de Brocquy og ein af myndum hans, sem fengin er að láni hjá Wikipedia, skreytir þessa færslu.

Textinn að Táin Bó Cúailnge sem almennt er stuðst við er settur saman úr tveimur textabrotum sem hafa varðveist. Textinn er ekki samfelldur, eins og sjá má á þýðingunum sem út hafa komið, enda telja menn að upprunalegt verk sé nokkuð eldra og þau brot sem til eru séu sett saman úr ýmsum afbrigðum, sumum jafnvel frá áttundu öld sem hafi því lifað í munnlegri geymd í einhver hundruð ára.

Táin segir frá því er þau eiga tal saman Medb drottning og Ailill konungur Connacht á Vestur-Írlandi. Þau eru að metast um auðævi sín (hún segist meðal annars hafa svo marga menn undir vopnum (þrjú þúsund hermenn hafði hún og fyrir hvern þeirra hafði hún tíu til og fyrir hvern þeirra níu til o.s.frv.) að nam  40.478.703.000 manns, en það voru væntanlega ýkjur). Eftir meting þeirra á milli kemur í ljós að það eina sem Ailill hefur fram fyrir Medb er geysi frjósamt risavaxið naut, Finnbhennach, sem fæddist reyndar í nautgripahjörð hennar en kærði sig ekki um að vera í eigu konu og kom sér því yfir í hjarðir Ailills. Medb finnst þetta ótækt og ákveður að komast yfir nautið mikla Donn Cuailnge frá Cooley með góðu eða illu.

Ekki tekst það með góðu og hún safnar því her manna og heldur til Ulster, sem er í dag Norður-Írland, að sækja nautið. Það vill svo til að allir karlar í Ulster eru ófærir um að berjast vegna bölvunar sem lögð var á þá löngu áður. (Crunniuc mac Agnomain óðalsbóndi í Ulster þvingaði Mache konu sína til að þreyja kapp við hesta konungs þó hún væri komin á steypirinn. Hún rann skeiðið nauðug en átti tvíbura á síðustu metrunum og orgaði þá að allir sem heyrðu hróp hennar myndu þjást af fæðingahríðum þegar verst stæði á í fimm daga og fjórar nætur. Svo var í níu ættliði.)

Einn Ulstermaður er undanskilin álögunum, hetjan Cú Chulainn (stundum ritað Cúchulainn), sautján ára gamall, og hann tekur að sér að tefja fyrir hernum með hreystiverkum og klækjum á meðan landar hans eru ófærir um að verja land sitt. Fyrir vikið er stór hluti Táin frásögn af hetjudáðum hans og þar er af nógu að taka því hann bíta engin vopn og hver Connacht-kappinn af öðrum fellur í bardaga við Cú Chulainn. Þar hjálpar vitanlega til að heiður krefst þess að ekki fari nema ein maður gegn honum í einu.

Á endanum kemst Medb yfir nautið Donn Cuailnge og flytur það með sér til Connacht en Finnbhennach kann því illa og ræðst þegar til atlögu við Donn Cuailnge. Síðarnefnda nautið hefur betur í orrahríðinni og drepur Finnbhennach, en svo er af því dregið að það gefur líka upp öndina. Í kjölfarið semja þau frið Medb og Ulstermenn.

Til eru fjórar þýðingar af Táin, en einnig hafa menn sótt innblástur í söguna og skrifað upp úr henni skáldsögur og samið tónlist; sjá til að mynda Táin með þeirri ágætu hljómsveit Horslips og kom út 1973 og samnefnda EP plötu The Decemberists sem kom út þrjátíu árum síðar.

Hluti af texta Táin er fenginn úr Leinster-bókinni sem skrásett var í Leinster-klaustri. Sá sem skráði hefur viljað hafa vaðið fyrir neðan sig því þó bókin sé skráð á fornírsku bætir hann við smá texta á latínu síðast:

En ég, sem ritað hef þessa frásögn eða réttara sagt ævintýrasögu, legg engan trúnað á þau atvik sem í henni er lýst. Því sumt í henni er klækir djöfla, annað skáldskaparórar, sumt líklegt en annað ólíklegt og enn annað er ætlað kjánum. 


* "Íslenskar bækur skýra frá því, að hér á landi hafi snemma dvalist vestrænir menn og skilið eftir sig krossa, klukkur og aðra þvílíka gripi, sem notaðir eru til galdurs. Í latneskum heimildum eru þeir menn nafngreindir sem siglt hafi hingað af vestrænum löndum á öndverðum dögum páfadómsins. Hét þeirra fyrirliði Kólumkilli hinn írski, særíngamaður mikill. Í þá daga voru hér landgæði með afbrigðum á Íslandi. En þá er norrænir menn settust hér að, flýðu hinir vestrænu galdursmenn landið, og telja fornrit að Kólumkilli hafi í hefndarskyni lagt á þjóð þá hina nýu að hún skyldi í þessu landi aldrei þrífast, og fleira í þeim anda, sem síðar hefur mjög þótt gánga eftir. Laungu síðar snerust norrænir menn á Íslandi frá réttum sið og hneigðust að töfrum óskyldra þjóðflokka. Var þá öllu snúið öfugt á Íslandi, guðir norrænna manna hafðir að spotti, en nýir uppteknir og dýrlíngar, sumir af Austurlöndum, aðrir af Vesturlöndum. Segir sagan að þá hafi Kólumkilla verið reist kirkja í þeim dal er síðar stóð bærinn Albogastaðir í Heiði."

(Sjálfstætt fólk e. Halldór Laxness, Helgafell 1934.)

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Árni Matthíasson
Árni Matthíasson
Skoðanir á mönnum og málefnum á þessari síðu eru birtar með opnu notendaleyfi. Öllum er heimilt að tileinka sér þær og halda þeim fram sem sínum eigin.
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband