Miðvikudagur, 4. október 2006
Beðið eftir Goldberg
Fyrir nokkrum árum fékk Hyperion-útgáfan breska kanadíska píanóleikarann Angelu Hewitt til að taka upp syrpu af plötum með tónlist eftir Johann Sebastian Bach. Hewitt er einn af fremstu píanóleikurum okkar tíma, gríðarlega næm og býr yfir mikilli tækni. Ekki hef ég heyrt alla diskana sem hún hefur tekið upp fyrir Hyperion, en af Bach hefur hún spilað inn á fimmtán diska og einnig tekið upp verk eftir Chabrier, Chopin, Couperin, Messiaen og Ravel. Þriðji diskurinn sem Angela Hewitt tók upp í Bach-röðinni fyrir Hyperion var með Goldberg-tilbrigðunum, en af því verki eru margar útgáfur frægar og sumar umdeildar.
Bach samdi tilbrigðin fyrir táninginn Johann Gottlieb Goldberg 1741 og þá fyrir sembal, enda ekki búið að finna upp píanóið eins og við þekkjum það í dag. Fyrst til að spila verkið á þannig hljóðfæri á okkar tímum var Wanda Landowska sem fræg varð fyrir upptöku sína á því 1933. Hún tók það upp aftur 1945 en þá útgáfu þekki ég ekki. Sú fyrri er aftur á móti ævintýraleg í meira lagi, því þó sembal hafi frekar takmarkað tónsvið lifna tilbrigðin í höndum Landowska og hrynskipanin er stórbrotin. Á sínum tíma hugðist RCA gefa Goldberg tilbrigðin út í flutningi Claudio Arrau, sem var þá frægur fyrir flutning sinn á Bach, en síðan var ákveðið að láta hans upptöku bíða og gefa frekar út upptöku Wanda Landowska. (Upptakan með Arrau kom ekki út fyrr en 1988, en hann gaf á sínum tíma fúslega leyfi til að fresta útgáfunni enda var hann ekki sannfærður um að píanó hentaði til að flytja tilbrigðin.)
Bandaríski píanóleikarinn Rosalyn Tureck er gjarnan talin með bestu Bach-flytjendum og útgáfa hennar af tilbrigðunum er vissulega frábær, en full fáguð fyrir minn smekk. Meira gaman hef ég af kanadíska píanóleikaranum Glenn Gould sem tók upp einkar skemmtilega útgáfu af Goldberg tilbrigðunum 1955 - á köflum snargeggjaða finnst manni, en síðan koma kaflar af innblásinni snilld. Það kemur ekki á óvart að þessi útgáfa Goulds hafi vakið umtal og deilur, en hitt vita færri að þegar fyrstu Voyager geimflauginni var skotið á loft með ýmsar upplýsingar um mannkyn innan borðs, teikningar og skýringarmyndir, var plata með Goldberg-tilbrigðunum í flutningi Goulds frá 1955 látin fylgja og leiðbeiningar um hvernig ætti að spila hana.
Til viðbótar við Landowska, Tureck og Gould á ég til þrjár upptökur til af Goldberg tilbrigðunum; Pierre Hantaï sem Opus 111 gaf út og svo hins vegar enn betri útgáfu sem er tilefni þessara hugleiðinga, nefnilega upptöku Angelu Hewitt á verkinu frá því í ágúst 1998.
Hewitt var bókuð í upptökur í Lundúnum 17.-19. ágúst 1998. Hún tók verkið upp á þeim tíma og fagnaði síðan að verkinu væri lokið kvöldið 19. ágúst. Eftir að hún hafði matast með vinum sínum barst takið að Golbgert tilbrigðunum og hvaða tökum hún hefði tekið verkið. Til að skýra mál sitt bauð hún viðstöddum á impromptu tónleika uppi í hljóðveri og hélt þangað með hersinguna. Tæknimaður sem staddur var á staðnum hafði rænu á að kveikja á upptökutæki og þegar Hyperion-stjórar heyrðu upptökuna vissu þeir að þar var komin besta útgáfan og sú sem var á endanum gefin út.
Sem ég sat um daginn og hlustaði á Rosalyn Tureck spila Goldberg-tilbrigði Bachs langaði mig skyndilega til að heyra flutning Hewitt á því sama verki, en þann disk átti ég niðri í tónlistarherbergi, eða svo hélt ég í það minnsta. Eftir nokkra leit var diskinn aftur á móti hvergi að finna - einhver líkastil fengið hann að láni fyrir löngu og gleymt að skila. Nú eða ég gefið hann í tímabundnu æðiskasti.
Það er sama hvað margar plötur eru til í safninu - þegar mann langar til að heyra eitthvað ákveðið kemur ekkert í staðinn. Mér sýndist að það yrði ekki mikið mál að bæta úr því að Hewitt vantaði í safnið, ég myndi bara bregða mér í bæinn og kaupa annað eintak - það getur komið sér vel að eiga tvö eða fleiri eintök af frábærri tónlist.
Hewitt leiðangurinn hófst í Skífunni í Kringlunni, sem var einu sinni helsta plötubúð landsins. Gott ef salan í þeirri búið var ekki jafn mikil og í öllum plötubúðum öðrum í Reykjavík samanlagt fyrir nokkrum árum. Það er þó af sem áður var - hending ef maður sér nokkurn mann þar inni og smám saman er búðin að breytast í háfgerða skranbúð hvað varðar tónlist, hvað þá sígilda tónlist. Lítið sem ekkert úrval af klassík, aðallega ódýrir diskar, Naxos og annað merki sem ég veit ekki deili á. Verðið segir reyndar ekkert til um gæðin, til að mynda eru Naxos diskar margir frábærir, en engan disk fann ég með Angelu Hewitt.
Fyrir nokkrum árum var mjög metnaðarfull deild með klassískri tónlist í Skífunni á Laugavegi en hún er löngu horfin og eins flestir þeir rekkar sem geymdu slíka tónlist eins og ég sá við komuna þangað. Það þótti mér reyndar merkilegt hve úrvalið er orðið lítið á slíkri tónlist, tíu til fimmtán diskar af Bach var allt og sumt af verkum hans, mestmegnis kantötur og engin Angela Hewitt.
Nú er málum svo háttað að Skífan ber ægishjálm yfir alla aðrar plötusjoppur hér á landi; mér skilst að fyrirtækið sé með ríflega 70% af plötusölu á sinni hendi. Það er því stóralvarlegt mál að mínu viti þegar aðili sem komist hefur í slíka yfirburðastöðu, með blessun samkeppniseftirlitsins, nota bene, skuli taka slíkt skref að hætta nánast að selja sígilda tónlist.
Af leitinni að Hewitt er það annars að segja að hún er víst á leiðinni í 12 Tóna sögðu menn þar er ég leitaði þangað, pöntun væntanleg. Það má svo geta þess að í 12 Tónum var engin þurrð á klassík, til að mynda eitthvað á annað hundrað titla með J.S. Bach.
Tenglar
Vefgreinar
- Dont Legalize Drugs by Theodore Dalrymple, City Journal Spring 1997 Advocates have almost convinced Americans that legalization will remove most of the evil that drugs inflict on society. Dont believe them. City Journal - Spring 1997
Vefmiðlar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (18.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 4
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Ég hef heyrt því fleygt að hljóðin í sembal á tímum Bachs megi líkja við skrölt í beinagrindum á bárujárnsþaki. Ímyndaðu þér þá, hvernig það hefur verið að hlusta á Goldberg-varíasjónirnar. Man samt hvar ég heyrði það, og þá getur allt eins verið að ég hafi rekist á líkinguna í dómi Jónasar Sen fyrir einhverjum árum.
Annars mæli ég með lifandi flutningi Goulds á fyrrnefndum varíasjónum í Salzburg árið 1959. Unaður. Líkt og sjúkkulaði leki út um eyrun á manni. Vona að 12 Tónar panti fleiri en einn disk með Hewitt. Gaman verður að heyra hvort henni tekst að slá geðsjúklingnum við.
snillingur-jón, 4.10.2006 kl. 21:47
Kemur fram í þessari grein að Hewitt heldur tónleika í Salnum í Kópavogi 16. október nk. á Kanadískri menningarhátíði í Kópavogi?
Örn Úlfar Sævarsson (IP-tala skráð) 5.10.2006 kl. 12:45
Emmm ... nei það kemur ekki fram í greininni. En það kemur núna fram undir henni og er vel.
Sé á vefsíðu Salarins að hún haldi tvenna tónleika, mánudaginn 16. og þriðjudaginn 17. október, hvora með sinni efnisskránni, en hún hyggist leika verk eftir Bach, Beethoven, Rameau og Chabrier.
Þessi hátíð sýnist mér annars verða mikil og menningarleg skemmtun. Sjá vefsíðu Salarins, http://www.salurinn.is/Default.asp?news_id=6235
Árni Matthíasson , 5.10.2006 kl. 13:34
Þessi hátíð er annað og meira en Salurinn. Kópavogurinn verður kanadískur í einhverjar vikur. Dagskrá í Salnum, kvikmyndasýning og forvitnileg myndlistasýning með verkum kanadamanna af ættum frumbyggja.
Örn Úlfar Sævarsson (IP-tala skráð) 5.10.2006 kl. 14:39
Ágæti Jón snillingur.
Semböl (rétt fleirtala, eða hvað?) þess tíma, þ.e. þegar Bach samdi tilbrigðin góðu, voru vitanlega mjög mismunandi og eflaust hljómuðu sum eins og þú lýsir því, en önnur voru kannski betri. Hljómur í þeim var þó aldrei beinlínis fallegur held ég, of skær og skerandi, hvellur, fyrir mín eyru í það minnsta - háir tónar virka alltaf sterkari í mannseyranu en samsvarandi lágir tónar, sama hvað mælitækin segja um styrkinn.
Held að menn séu almennt hættir að rífast um hvort rétt sé að spila verk eftir Bach og samtímamenn hans aðeins á samtíma hljóðfæri (átti spjall við Evgení Kissin fyrir nokkrum árum þar sem hann hélt því fram að sú iðja að spila tónverk á gömul hljóðfæri væri eins og að punta upp á beinagrindur) - vitanlega skiptir hljóðfærið ekki höfuðmáli, en á móti kemur að það getur verið mjög gagnlegt að heyra hvernig verkin hljómuðu líklega á sínum tíma. Þannig var til að mynda einkar skemmtilegt að heyra sinfóníur Beethovens í seríunni hans John Eliots Gardiners með Orchestre Revolutionnaire et Romantique, ekki síst vegna þess að hann flutti verkin með allt öðrum og meiri hraða en menn höfðu gert fram að því og það á samtímahljóðfæri sem er afrek útaf fyrir sig. Mér fannst til að mynda tyrkneski marsinn undir lok níundu sinfóníunnar mun skemmtilegri og rökréttari á hraða Gardiners en hjá Furtwangler til að mynda, þó sá síðarnefndi sé í miklu uppáhaldi.
Takmarkanir sembalsins leiddu aftur á móti til þess að hljóðfæraleikarar reyndi ýmis tilbrigði í hraða og takti, endurtekningum, flúri og tilheyrandi, og flest af því hefur elst illa og hljómar hjákátlega. Vissulega leika menn sér líka með slíkt þegar píanóið er annars vegar; Goldberg tilbrigðin eru 35 mínútur í flutningi Goulds, en Schiff spilar þau á um klukkutíma og báðir nota píanó. Píanóið gefur aftur á móti svo margfalt meiri möguleika á breytilegum áslætti sem er vitanlega mjög mismunandi á milli píanóleikara (var Lipatti ekki með fegursta hljóminn, tær og fagur eins og til að undirstrika feigðina sem sótti að honum?).
Árni Matthíasson , 5.10.2006 kl. 22:23
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.