Hvað eiga Dan Brown og Anthony Trollope sameiginlegt?

Antony Trollope

Skemmtilegur þykir mér sá slagur sem nú stendur í dómhúsi í Lundúnum þar sem menn deila um Da Vinci lykil Dans Browns. Áður hefur verið rætt á þessum vettvangi um hvað málið snýst og verður því ekki rætt frekar hér, en angi af þessu máli er sú mynd sem birst hefur af Dan Brown, en hingað til hefur hann ekki verið ýkja gefinn fyrir að tala um sjálfan sig og sín vinnubrögð.

Lundúnablaðið The Times birti á dögunum greinargerð Dans Browns sem lögð var fyrir dóminn við upphaf málsins. Í þeirri greinargerð, sem má nálgast á vef Times, segir Brown ævisögu sína og upplýsir um það hvað hafi komið honum til að skrifa bækur, metsölubækur. Uppljómunin varð þegar hann las spennubók eftir Sidney Sheldon, en fram af því hafði hann helst lesið alvarlegri og veigameiri bókmenntir, nefnir Faulkner, Steinbeck, Dostoyevsky og Shakespeare, og ekki neitt léttmeti frá því hann var barn.

Í greinargerðinni lýsir Brown því hvernig hann heillaðist svo af bók Sheldons að hann gat ekki lagt hana frá sér fyrr en hún var búin, „hún minnti mig á hve gaman það getur verið að lesa" segir Brown í greinargerðinni Eftir þessa upplifun, þegar Brown sá hvað söguþráðurinn var einfaldur og textinn léttvægur, eins og hann orðar það, „fór mig að gruna að ég gæti skrifað slíka spennusögu". Það gerði hann síðan eftir að hafa reynt um tíma að hasla sér völl sem lagasmiður.

Annað sem mér fannst skemmtilegt að lesa í þessari ágætu greinargerð Browns sem er bæði opinská og einlæg, er hvernig hann vinnur bækur sínar. Hann byrjar semsagt að skrifa kl. 4:00 á hverjum morgni, alla daga vikunnar, enda eru þá aðrir í fasta svefni og hann hefur vinnufrið. Á skrifborðinu er hann með stundaglas og hvert sinn sem tíminn rennur úr, tekur hann sér smá hlé til að gera líkamsæfingar.

Þessi uppljóstrun á væntanlega ekki eftir að draga úr sölu á bókum Browns, enda ekki ástæða til. Ekki geri ég heldur ráð fyrir að fleira það sem fram kemur eigi eftir að halda vöku fyrir útgefendum hans um allan heim, sé til að mynda ekki að það skipti máli að hann skrifar allar sínar bækur meira og minna eftir sömu formúlunni: Takið umdeilda staðreynd eða hugmynd, bætið útí saklausum vegfaranda og hrærið skammti af fjársjóðsleit saman við. Látið allt síðan gerast á einum sólarhring.
Þeir sem lesið hafa Brown geta væntanlega staðfest að þessi formúla á við um allar bækur hans, en ég get ekki nema staðfest að hún passar við þær sem ég hef lesið, Digital Fortress, Angels & Demons og The Da Vinci Code. Í þeirri fyrstu er starf NSA, þjóðaröryggisstofnunar Bandaríkjanna, umdeilda staðreyndin, saklausi vegfarandinn heitir David Becker og fjársjóðurinn gullhringur. Í Angels & Demons er staðreyndin umdeilda átök vísinda og kirkju krydduð með illvígu leynifélagi, vegfarandinn Robert Langdon og fjársjóðurinn andefni. Í þeirri síðastnefndu er síðan sú „staðreynd" sem tekist er á um fyrir rétti að út frá Jesú og Maríu sé mikill ættbogi, vegfarandinn aftur Robert Langdon og fjársjóðurinn gralið helga.

Frásögn Dans Browns af vinnusiðum hans minnti mig ekki lítið þá högun sem Antony Trollope hafði á sínum ritstörfum á átjándu öld.

Á nítjánda ári, 1934, byrjaði Trollope að vinna hjá enska póstinum og vann þar næstu 33 árin. Samhliða vinnunni á póstinum skrifaði hann svo 47 skáldsögur, 40 smásögur, 3 ævisögur, 5 ferðabækur og á annað hundrað lengri greina um ýmis málefni, póstleg og listræn. Þessu til viðbótar reið hann til veiða þrisvar í viku á veiðitíma, spilaði vist við hvert tækifæri og var tíður gestur í samkvæmum. Lykillinn að þessum miklu afköstum var að hann vaknaði kl. hálf sex á hverjum morgni, fékk sér te og settist við skriftir næstu þrjá tímana, eða þar til tími var til kominn að halda til vinnu.
Trollope skipulagði hverja bók nákvæmlega - áður en haldið var af stað var hann búinn að ákveða söguþráð, helstu persónur, kaflafjölda og lengd hvers kafla og hve marga daga tæki að skrifa hana.

Alla jafna skrifaði Trollope 40 blaðsíður á viku, en það fór þó nokkuð eftir önnum; stundum skrifaði hann ekki nema 20 síður og stundum upp undir 120. Á hverja síðu skammtaði hann sér 250 orð, en hann reyndi að halda þeim hraða að skrifa 250 orð á hverjum stundarfjórðungi, semsagt fjórar síður á klukkutíma. Eftir hvern dag merkti hann síðan við í kladdanum hvernig hefði miðað með verkið. Ef svo vildi til að hann lauk við skáldsögu en var ekki búinn með tímana þrjá þann daginn byrjaði hann þegar á næsta verki.

Sagan segir að þegar útgefendur höfðu samband við Trollope og báðu um skáldsögu, smásögu eða grein spurði hann alltaf fyrst af öllu, hvað þeir vildu mörg orð og síðan hvenær viltu fá verkið. Hann skilaði víst alltaf á réttum tíma.

Vitneskja um þessi vinnubrögð er fengin fá Trollope sjálfum því í ævisögu hans, sem kom út að honum látnum, segir hann skilmerkilega frá öllu saman.

Heldur varð þessi opinskáa frásögn Trollope til nokkurs álitshnekkis, því í stað hinnar rómantísku myndar af innblásna snillingnum birtist lúsiðinn embættismaður.

Trollope hefur eiginlega ekki borið sitt barr upp frá því og það þó til sé félagsskapur sem hefur að markmiði að auka veg hans, The Trollope Society (sem ég var reyndar félagi í um tíma). Vissulega eru bækur hans mis-merkilegar, margar dægurbókmenntir síns tíma, en aðrar hafa staðist tímans tönn að mínu mati, til að mynda Orley Farm, þar sem réttlæti og störf lögmanna eru undir smásjánni, He Knew He Was Right þar sem Trollope segir frá manni sem gengur af vitinu af afbrýðisemi, og svo meistaraverk hans, The Way We Live Now, sem segir meðal annars frá athafnamanninum Auguste Melmotte - ókræsileg persóna sem maður hefur þó vissa samúð með.

(Þess má geta að Trollope fór víða um heim í erindum ensku póstþjónustunnar og kom meðal annars hingað til lands. Gaman væri að komast í heimildir um þá heimsókn.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sérkennilegt að menn séu að státa sig af því að hafa verið í slagtogi við menn eins og grámanninn John Major í The Trollope Society.

(IP-tala skráð) 25.3.2006 kl. 12:10

2 identicon

Hér þykir mér moldin tekin að rjúka í logninu.

Hversemer (IP-tala skráð) 27.3.2006 kl. 08:23

3 identicon

"Trollop".. Hversu súrt er að heita "Léttúðardrós", og nafnið vitlaust stafað í þokkabót.

Jónas frá Hriflu (IP-tala skráð) 27.3.2006 kl. 09:26

4 Smámynd: Baldur Kristinsson

Trollope kom ekki hingað í erindum póstþjónustunnar, heldur var honum boðið í skemmtiferð með John Burns (1829-1901; barón af Inverclyde frá 1897) og fylgdarliði hans sumarið 1878. Burns þessi var vellauðugur skoskur kaupmaður og útgerðarmaður, og einn aðaleigenda hins bresk-bandaríska Cunard skipafélags. Ferðin var farin á nýsmíðuðu póstskipi í eigu Burns, HMS Mastiff. Dvölin hér varaði ekki nema um tvær vikur. Trollope skrifaði ferðalýsingu, How the Mastiffs Went to Iceland, sem Burns lét gefa út í litlu upplagi.

Baldur Kristinsson, 27.3.2006 kl. 23:26

5 identicon

Í bókinni segir Trollope stæka fiskifýlu liggja yfir Reykjavík og að íslenskt landslag sé "curious but not beautiful".

John Major (IP-tala skráð) 28.3.2006 kl. 22:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Árni Matthíasson
Árni Matthíasson
Skoðanir á mönnum og málefnum á þessari síðu eru birtar með opnu notendaleyfi. Öllum er heimilt að tileinka sér þær og halda þeim fram sem sínum eigin.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband