Þriðji í Airwaves

JakobínarínaMikið var í boði föstudaginn, hálfgerði valþröng. Þannig voru á listanum sextán hljómsveitin sem mig langaði að sjá, en heimskuleg eðlisfræðileg lögmál komu í veg fyrir að það gengi upp.

Eins gott að viðurkenna það strax, ég náði ekki nema í tvö síðustu lögin af Bigga í 12 Tónum. Hefði betur mætt fyrr því þessi tvö lög sem ég heyrði voru hreint afbragð, miklu betri ég ég átti von á. Tónlistin var órafmögnuð að mestu sem átti afskaplega vel við lögin, þó Biggi hafi haft allskyns fyrirvara á því og lagði áherslu á að mestu skipti að sjá sveitina með allt í botni.

Á eftir Bigga kom kanadíska hljómsveitin Patrick Watson. Hún heitir eftir söngvaranum og píanóleikaranum, en aðrir í sveitinni eru henni líka mikilvægir, bæði sem lagasmiðir og sem skapandi hljóðfæraleikarar. Trymbillinn er til að mynda með bestu trommuleikurum sem hingað hafa komið og gítarleikarinn einnig lipur og frumlegur. Þeir félagar slógu ekkert af í 12 Tónum, keyrðu í gegnum nokkur lög af fádæma öryggi og minntu þannig rækilega á nýja plötu sína, Close to Paradise.

Fjörið var ekki búið í 12 Tónum, því næst á svið var Reykjavík! sem spilaði sennilega oftast allra hljómsveita á Airwaves að þessu sinni. Hamagangurinn var magnaður hjá þeim og bensínið í botni allan tímann.

Margir biður eflaust spenntir eftir að fá að heyra í Kimono í 12 Tónum, enda sveitin ekki með á Airwaves að þessu sinni. Þeir Kimono-menn voru þó ekki eins spenntir, vildu ekki halda tónleika nema með eitthvað nýtt í farteskinu og brugðu því á leik; í stað Kimono komu Kimono-börn og spiluðu af fingrum fram í smá stund. Skemmtileg uppákoma, en ekki ýkja innihaldsrík.

Öllu meira innihald og mun meira fjör var í Jakobínurínu sem hituðu sig rækilega upp fyrir spilamennsku seinna um kvöldið með magnaðri frammistöðu í 12 Tónabúðinni. Geggjuð keyrsla og mikið stuð - þeir spengdu nánast utan af sér húsnæðið.

Svo hafði teygst úr fjörinu í 12 Tónum að Baggalútur varð að víkja fyrir frumþörfum. Það kom sér svo vel að vera kominn í stuð aftur þegar Benni Hemm Hemm byrjaði að spila í Listasafninu. Hljómburður í Listasafninu þessa Airwaves-daga var allt frá þvi að vera frábær í að vera skerandi óþægilegur eins og kom í ljós síðar þetta kvöld. Ég get svosem trúað því að erfitt sé að hljóðstýra hljómsveit á við Benni og blásara hans, en það tókst merkilega vel - krafturinn í lúðrablæstrinum skilaði sér  mjög vel og eins hálfrafmagnaðar raddirnar. Það hjálpaði til að gera þessa uppákomu eins skemmtilega og hún vissulega var.

Islands var eina af þeim hljómsveitum sem ég hlakkaði mikið til að sjá og stóð undir væntingum. Ég átti reyndar ekki von á eins mikilli sýru, eins miklu djammi, en það gerði sveitina bara skemmtilegri.

Einar Sonic stakk því að mér að ég ætti að kíkja á norsku sveitina 120 Days sem spilaði á Gauknum og ég sé ekki eftir að hafa farið að hans ráðum því það var magnað stuð í gangi - þétt krautrokkkeyrsla, eiginlega diskósíbylja.

Fyrst ég var kominn á staðinn ákvað ég að bíða aðeins eftir Mammút, ekki séð sveitina í nokkurn tíma. Sú bið var vel þessi virði, því Mammút hefur tekið miklum framförum og breyst talsvert. Ekki er bara að nýr bassaleikari ber með sé nýja stemmningu heldur er sveitin greinilega að vinna í gítarhljómum og -samspili. Nýju lögin eru líka sterk, vek mótið og kröftug.

Í Nasa héldu menn Kerrang! kvöld líkt og þeir hafa gert áður. Þegar ég mætti þangað var franska metalsveitin Gojira að koma sér af stað með miklum tilfæringum við trommusettið. Það kom svo snemma í ljós af hverju svo mikið var stússað við trommurnar því trymbill sveitarinnar er magnaður. Mikið hefði líka verið gaman ef aðrir hljómsveitarmenn hefðu staðið honum á sporði - í fyrsta laginu hugsaði maður: "Djö... er þetta góður trommari." Í þriðja laginu: "Hmm ... ekkert nema trommarinn."

Í Listasafninu var Jakobínarína að klára með látum og ekki minna stuð hjá þeim en í 12 Tónum. Erfitt þó að ná til áheyrenda í Listasafninu og staður sem henta kannski ekki vel fyrir þá pilta.

Í kjölfar Jakobínurínu kom Go! Team og mikil eftirvænting í salnum. Sveitin fór líka af stað með látum, fullmiklum látum kannski. Svo mikil keyrsla var a græjunum að maður fékk snemma höfuðverk af skerandi hvellum hljómnum og á endanum forðaði ég mér út. Mikil vonbrigði, kannski þau mestu þetta árið.

Vegna seinkunar á dagskrá í Nasa var Mínus ekki byrjuð þegar ég mætti þangað aftur. Sveitin er að koam sér í gang aftur eftir gott frí og byrjar fersk - nýju lögin tvö sem þeir félagar byrjuðu með hljóma einkar vel, grípandi kraftmikið rokk.

Frá Nasa rauk ég út í Nasa og náði í skottið á Ghostigital. Þeir félagar Einar og Curver voru einir á sviðinu líkt og eir höfðu hagað málum í langri tónleikaferð sinni um Bandaríkin og kom mjög vel út að mér fannst, lögin nutu sín betur en oftast áður og búningurinn fór þeim vel; minna af gítar.

(Árni Torfason tók myndina af Jakobínurínu, sjá: arni.hamstur.is)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Árni Matthíasson
Árni Matthíasson
Skoðanir á mönnum og málefnum á þessari síðu eru birtar með opnu notendaleyfi. Öllum er heimilt að tileinka sér þær og halda þeim fram sem sínum eigin.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 2
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 117724

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband