Annar í Airwaves

Tilly and the WallÁ pappírnum var ekki eins margt spennandi í boði annað Airwaves-kvöldið og það fyrsta, en það rættist heldur en ekki úr. Kvöldið byrjaði til að mynda mjög vel með fínni frammistöðu Johnny Sexual í 12 Tónum. Tónlistin skemmtilegt technodiskó með súrum textum. Annað var ekki í boði í bili, enda hætti Tilly and the Wall við að koma fram í búðinni vegna veikinda.

Fjörið hófst svo fyrir alvöru í Listasafni Reykjavíkur kl. 19:00 þegar Ske hóf leik sinn. Nýir liðsmenn voru áberandi í sveitinni, magnaður trommuleikar og síðan Höskuldur Óafsson, forðum söngvari Whool. Skemmst er fráþví að segja að Höskuldur stóð sig afbragðsvel, svo vel reyndar að ég var að spá í það um tíma af hverju hann væri í Ske. Svo bráði af mér og ég áttaði mig á að það sem fór í mig var að gömlu Skelögin pössuðu einhvernveginn ekki í rokkbúninginn, hér stóð olnbogi útúr og þar of stuttar skálmar. Nýju lögin gengu aftur á móti vel upp, en heldur fannst mér mikið tilfinningaklám í lokalaginu.

Þau hjón í Mates of State kunna vel að fara með hlutina; sönnuðu að einfaldleikinn er bestur. Trommur, hljómborð og tvær samstilltar söngraddir skiluðu mun meiri spennu og dramatík en fullt hús hljóðfæraleikara. Miklu skiptir vitanlega að lögin eru góð, en spilamennskan líka góð, þrátt fyrir hrösun hér og þar á hljómborðinu. Lokalagið var snilld - hrífandi útgáfa af Punchlines. Það eina sem ég saknaði er að fá ekki Running Out, besta lagið af Bring it Back.

Einhver seinkun hafði orðið í Nasa og því ná ég í blábyrjunina hjá Lay Low. Hún er gríðarlegt efni stelpan sú, afbragðs söngkona, góður lagasmiður og góður flytjandi. Sveitin hennar var líka fín og útsetningar vel unnar. Það eina sem stóð í mér voru textarnir, það var eins og þeir væri ekki um neitt, að henni lægi ekkert á hjarta. Fyrir vikið fékk ég snert af krútteitrun og varð frá að hverfa eftir nokkur lög, ákvað að fara út í Listasafn og bíða þar eftir Tilly and the Wall.

Á leiðinni í Listasafnið ákvað ég að kíkja aðeins inn á Gaukinn og eins gott að ég gerði það því þar var Skakkamanage í fínu formi. Frábær frammistaða sveitarinnar og mögnuð spilamennska - mig dauðlangaði að rjúka heim að hlusta á nýju Skakkamanageplötuna þegar þau höfðu lokið sér af.

Tilly and the Wall er sérkennileg sveit um margt, þrjár stelpur og þrír strákar, sem er ekki merkilegt í sjálfu sér, en sveitin sker sig úr fyrir að það er enginn trommuleikari í henni, heldur er takturinn framkallaður með fótunum - í sveitinni er steppdansari sem dansar á hljóðnemavæddum palli. Þar virkaði alla jafna afskaplega vel og ekki saknaði ég trommuleiks. Tónlist sveitarinnar er líka í fínu lagi, heldur meiri hamagangur reyndar en á breiðskífunni Wild Like Children, en nær því sem heyra má á Bottoms of Barrels. Á köflum fannst mér reyndar eins og sveitin væri að leggja of hart að sér, væri að vaða yfir áheyrendur frekar en að hrífa þá með sér.

Eftir smá skammt af Tilly and the Wall fór ég á Gaukinn og sá My Summer as a Salvation Soldier, sem mér er nú tamara að kalla Þóri. Skemmst er frá því að segja að hann stóð sig sérdeilis vel og gaman að heyra ný Þórislög. Það segir sitt um hve vel honum tókst upp að drykkjuskvaldur á staðnum hætti nánast alveg undir það síðasta - ef mann tekst að heilla drukkna blaðamenn og plötubransalið svo að það gleymir stælunum um stund þá er vel að verki staðið.

Af Gauknum hélt ég út í Iðnó að reyna að ná einhverjum af skjólstæðingum Bedroom Community og kom inn í tónleika Nico Muhly. Þar var heldur en ekki ævintýralegt stuð í gangi, magnaður bræðingur af pínaóspuna, framúrstefnulegri taktfléttu og fiðlufantasíu - einskonar nútímaklassík. Muhly er frábær píanóleikari og gaman eð heyra hvernig hann notaði píanóið sem einskonar slagverkshljóðfæri.

Á eftir Muhly kom Mugison en ekki á sama stað, spilaði í Listasafninu. Ég saknaði nýrra laga hjá honum, en það kom svosem ekki að sök því gömlu lögin eru góð og með svo magnaðar sveit og hann hefur komið sér upp hlaut útkoman að verða fyrsta flokks. Gaman að sjá (og heyra) Pétur Hallgrímsson á sviði að nýju.

Eftir nokkur lög af Mugison dreif ég mig upp í Þjóðleikhúskjallara og náði þar í smá skammt af Seabear. Mér skilst að í vændum sé plata með sveitinni á vegum Morr og ástæða til að hlakka til því lögin eru frábær og flutningur með miklum ágætum.

(Árni Torfason tók þessa fínu mynd af Tilly and the Wall. Sjá: arni.hamstur.is)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Árni Matthíasson
Árni Matthíasson
Skoðanir á mönnum og málefnum á þessari síðu eru birtar með opnu notendaleyfi. Öllum er heimilt að tileinka sér þær og halda þeim fram sem sínum eigin.
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 32
  • Frá upphafi: 117574

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 30
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband