Hugmyndafræðilegur orðaskógur

Joanna NewsomTónleikar Joanna Newsom í Fríkirkjunni fyrr á árinu eru eftirminnilegir fyrir margt og þá kannski helst það að þeir voru einhvernveginn allt öðruvísi en maður átti von á. Í stað gelgjulegrar framúrstefnu, grípandi léttra laglína, stuttra laga og eilítið falsks söngs bauð hún upp á snúna og víraða lagabálka, lög sem flæktust um hugmyndafræðilegan orðaskóg þar sem tónlistin nánast hvarf í flóð orða, setninga sem brotnuðu upp rétt þegar þær virtust nálgast merkingarkjarna, hugsana sem tvístruðust eins og stóðhestahópur á ódáinsengi.

Að þessu sögðu tók Joanna Newsom aðeins þrjú ný lög í Fríkirkjunni, þó maður muni eiginlega ekki eftir nema þessum þremur lögum, en þá er líka til þess að líta að þessi þrjú lög tóku samtals rúman hálftíma í flutningi og voru því helmingur reglulegrar tónleikadagskrár hennar.

Fyrir stuttu kom út önnur breiðskífa Joanna Newsom, Ys heitir sú og hefur að geyma Fríkirkjulögin og tvö lög til, hátt í klukkutíma af tónlist alls. Eins og tónleikarnir títtnefndu gáfu til kynna er sú Joanna Newsom sem birtist okkur á Ys, talsvert frábrugðin þeirri sem heillaði okkur á The Milk-Eyed Mender, víst er þetta sama listakona, en það er eins og hún hafi tekið út áratuga þroska á þeim rúmum tveimur árum sem liðin eru frá því The Milk-Eyed Mender kom út.
Eitt af því sem vekur áhuga og forvitni þeirra sem hagvanir eru í tónlistarsögunni er að útsetningar á plötunni, sem eru íburðarmiklar og ævintýralegar á köflum, eru skrifaðar á Van Dyke Parks, sem er einn sérkennilegasti og fremsti upptökustjóri bandarískrar tónlistarsögu. Parks er frægastur fyrir að hafa unnið með mörgum helstu tónlistarmönnum vestan hafs og austan, til að mynda Beach Boys, The Byrds, Tim Buckley, Ry Cooder, Ringo Starr, Gabby Pahinui og Fiona Apple, en hann sendi líka frá sér sólóskífur á árum áður, sem sumar eru sannkölluð meistaraverk, til að mynda Song Cycle, Discover America og Jump!

Varla þarf að taka fram að Van Dyke Parks er löngu hættur að nenna að vinna nema þau verkefni sem honum þykja skemmtileg og kostar líka sitt að fá hann til starfa. Joanna Newsom lýsti því í spjalli í apríl sl. að hún hafi eiginlega ekki gert sér grein fyrir við hvern hún var að tala, þekkti Parks ekki nema fyrir það sem hún hafði heyrt frá honum og vissi ekki hversu mikils metinn hann var almennt og frægur. Parks tók henni líka vel og eftir að hún hélt prívattónleika fyrir hann og konu hans, flaug til Kaliforníu með hörpuna og spilaði lögin nýju fyrir þau. Hann vildi ólmur vinna með Newsom og sló af taxtanum þar til útgáfa hennar, smáfyrirtækið Drag City, hafði efni á að ráða hann.

Þó erfitt sé fyrir hlustanda að stíga inn í lögin á Ys grípur maður lögin smám saman, úr textabrotunum, upp úr póstmódernísku flóðinu, stíga myndir. Newsom hefur líka gefið lykla að verkinu í viðtölum, þann helstan að lögin fjögur Emily, Monkey & Bear, Sawdust & Diamonds og Cosmia lýsa ári í lífi hennar, fjórir af helstu viðburðum í lífi hennar sem allir áttu sér stað það ár. Fimmta lagið, Only Skin, bindur síðan plötuna saman merkingarlega, tengir saman lögin fjögur í eina heild. Með þetta að leiðarljósi er léttara að rata þó enn eigi maður eftir langt ferðalag.

Að því hún hefur sagt vatt hvert lag smám saman upp á sig og lengdist eftir því sem hún mjakaðist nær því sem hún vildi segja og eins og hún nefndi í vor fór hljómsveit snemma að hljóma í kolli hennar og henni varð líka snemma ljóst að hún þyrfti aðstoð til að búa lögin svo að sómi væri að.

Í fróðlegu viðtali í vefritinu Pitchfork lýsir Newsom því hvernig þau Parks unnu útsetningarnar og fer ekki á milli mála að hún réð ferðinni. Þannig sendi hún honum punkta um hverja textalínu, hvað hún sæi fyrir sér þegar hún syngi hana, stemmningu, lit og áferð. Það var síðan Parks að ná sýninni fram á þann hátt að hún yrði sátt. Og sátt var hún að eigin sögn, segir að Parks hafi sjaldan viljað fara aðra leið en hún lagði til en þegar hann þráaðist við segist hún líka hafa fljótlega áttað sig á að hann hafði rétt fyrir sér.

Þegar Joanna Newsom kom hingað var hún bara með hörpuna í för með sér og því sérkennilegt til að byrja með að heyra lögin komin í fullan skrúða á Ys. Hún varð líka að grípa til sparnaðarráðstafana þegar hún lagði upp í tónleikaferð að kynna plötuna - í stað strengja koma cimbalon og harmonikka - en einir tónleikar að minnsta kosti verða með fullskipaðri sinfóníuhljómsveit því hún heldur tónleika í Barbican í Lundúnum 19. janúar næstkomandi með Sinfóníuhljómsveit Lundúnaborgar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Árni Matthíasson
Árni Matthíasson
Skoðanir á mönnum og málefnum á þessari síðu eru birtar með opnu notendaleyfi. Öllum er heimilt að tileinka sér þær og halda þeim fram sem sínum eigin.
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (6.5.): 5
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 24
  • Frá upphafi: 117525

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 22
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband