Mér leiðist Llosa

Mari Vargas Llosa

Eflaust hefur það verið erfitt að vera rithöfundur á Íslandi á sjötta, sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar, að vera sífellt í skugga Halldórs Laxness. Það kom í hug mér í ferð til Perú fyrir skemmstu að eins hlýtur perúskum rithöfundum að líða þar sem þeir hafa Mario Vargas Llosa sífellt yfir sér, ef svo má segja, enda er hann ekki bara með helstu rithöfundum Suður-Ameríku heldur er hann enn í fullu fjöri, enn að skrifa skáldsögur (Travesuras de la niña mala kom út 2006) og mér fannst ég ekki opna Limeska dagblaðið El Comercio án þess að rekast á grein eftir hann eða um hann.

Mikill áhugi Limamanna á Vargas Llosa um þessar mundir ræðst væntanlega að einhverju leyti af því að sýning sem helguð er lífi hans, "Mario Vargas Llosa, la libertad y la vida", var opnuð í Casa Museo O'Higgins í miðborg Lima í byrjun mánaðarins, en sýningin er sett upp af kristilegum háskóla, Universidad Católica de Lima.

Llosa, sem menn kalla jafnan Vargas Llosa þar suðurfrá, er prýðilegur rithöfundur og alla jafna fer af honum gott orð; menn eru stoltir af sínum manni, dáldið fúlir yfir því að hann skuli ekki hafa hlotið Nóbelinn ennþá almennt sammála um að hann sé mikill og merku rithöfundur. Annað það sem Llosa hefur fengist við er umdeildara, til að mynda stjórnmálastarf hans. Hann er nefnilega mikill frjálshyggjumaður og var einn af stofnendum hægriflokksins Movimiento Libertad sem tók upp samstarf við tvo aðra hægriflokka í samsteypunni Frente Democrático. Llosa bauð sig svo fram sem fulltrúi Frente Democrático í forsetakjöri 1990 og boðaði róttækan uppskurð á perúsku þjóðfélagi. Hann sigraði í fyrri umferð kosninganna, fékk 34% atkvæða, en tapaði svo fyrir öðrum hægrimanni, lítt þekktum verkfræðingi, Alberto Fujimori, í annarri umferð kosninganna.

Stjórnmálavafstur Llosas og skoðanir hans hafa fallið í grýttan jarðveg hjá landsmönnum hans sem þykir mörgum sem hann sé í litlu sambandi við almenning eða það fannst mér í það minnsta á mörgum þeim sem ég ræddi við í Lima. Að því sögðu fannst mér merkilegt hve lítið var spunnið í sýninguna og hvað hún gaf í raun litla innsýn í rithöfundinn Llosa, stjórnmála- og blaðamanninn.Það var skemmtilegt í sjálfu sér að sjá gömlu ritvélina hans og líka gömul bréf, myndir og skruddur (þó ekki hafi allar bækur verið hans, í einu herberginu höfðu menn greinilega keypt nokkra metra af gömlum bókum til skrauts án þess að hirða um innihald þeirra).

Að öðru leyti var sýningin daufleg, fjórtán herbergi af leiðindum - jamm, hann var mjög hrifinn af Flaubert og Sartre, og svo hélt hann líka upp á Faulkner, og skrifaði athugasemdir í bækurnar sínar og páraði í minnisbækur og var í París ... geisp.

Einn kunningi minn perúskur sagðist sakna þess helst á sýningunni að ekki væri sagt almennilega frá sjónvarpsþáttum sem Llosa hefði gert þar sem hann ræddi við rithöfunda víða um Suður-Ameríku, en ég saknaði myndar Rodrigo Moya af Gabriel García Márquez með glóðarauga eftir að Llosa lét hendur skipta í bíói í Mexíkó 1976. Það hefði nú heldur en ekki lífgað upp á sýninguna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Árni Matthíasson
Árni Matthíasson
Skoðanir á mönnum og málefnum á þessari síðu eru birtar með opnu notendaleyfi. Öllum er heimilt að tileinka sér þær og halda þeim fram sem sínum eigin.
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband