Fimmtudagur, 16. mars 2006
"Soft silly music is meaningful magical"
Jeff Mangum var á sínum tíma þátttakandi í Elephant Six samsteypunni, samstarfi skólafélaga frá Ruston í Louisiana-fylki. Tónlistaráhuginn sameinaði þá Mangum, Rob Schneider, Will Cullen Hart og Bill Doss og þeir skiptust á snældum með eigin upptökum, flestum frumstæðum. Þeir Mangum, Doss og Hart stofnuðu saman hljómsveitina Synthetic Flying Machine og uppúr henni varð svo til The Olivia Tremor Control sem var að mestu hljómsveit Hart og Doss, en Mangum lék á trommur í henni um tíma og var með á fyrstu smáskífunni. Aðrar hljómsveitir sem tengjast þeim félögum eru Apples in Stereo (Schneider), Circulatory System (Hart) og Sunshine Fix (Bill Doss).
Mangum var alltaf eilítið utangarðs, hélst ekki í vinnu og var oft á flækingi. Hann byrjaði að semja lög einn og fékk til liðs við sig þá tónlistarmenn sem næst voru hverju sinni. Hann gerði nokkrar snældur undir nafninu Neutral Milk Hotel í litlu upplagi en fyrsta smáskífan, Everything Is, kom út 1994.
Fyrsta breiðskífa Neutral Milk Hotel var On Avery Island og kom út 1996. Það er góð plata, mjög tilraunakennd og útsetningar venju fremur fjölbreyttar. Þá plötu tók Mangum upp með ýmsum vinum og félögum og í framhaldinu varð til eiginleg hljómsveit sem lék á tónleikum. Sú sveit tók síðan upp In the Aeroplane Over the Sea sem kom út 1998.
Núorðið telst með helstu og áhrifamestu rokkskífum sögunnar vestan hafs og kemur kannski ekki á óvart - mann setur hljóðan til að mynda þegar maður heyrir lagið Two Headed Boy á plötunni þar sem gítarstrengirnir eru slegnir af svo miklu krafti að þeir eru við að slitna og sungið er af svo mikilli innlifun og tilfinningaþunga að röddin brestur. Enn ýtir það undir aðdáun manns á verkinu að víða er ekki hægt að skilja um hvað er sungið því textarnir eru svo lyklaðir og snúnir, Mangum gæti verið að syngja um hvað sem er. Hver sá sem á hlýðir upplifir textann á sinn hátt, leggur í hann sína merkingu sem fer fyrir vikið nær hjartanu er texti þar sem allt liggur ljóst fyrir og greinilegt.
Að þessu sögðu er þó eitt leiðistef, sagan af Annie Frank, dagbók gyðingastúlkunnar þýsku sem varð nasistum að bráð. Stuttu eftir að On Avery Island kom út las Mangum Dagbók Önnu Frank og lýsir því svo að hann hafi verið nánast yfirbugaður af sorg eftir lesturinn. Sú sorg gegnsýrir plötuna, en ekki bara sorg, heldur felst í henni líka von og gleði, dýpra á henni kannski, en þó þar að finna - víst er heimurinn vondur og við erum öll glötuð, en njótum þó þess sem það hefur upp á að bjóða. Í titillagi plötunnar segir einmitt: "Einhvern daginn deyjum við / og aska okkar svífur úr flugvélinni til sjávar / en nú erum við ung - liggjum í sólinni og tínum til allt það fallegt sem við sjáum."
Önnu Frank sér víða stað á plötunni, en helst þó í þremur lögum, Holland 1945, Oh Comely og Ghost, þar sem Mangum syngur um fæðingu, dauða og upprisu með textum sem eru margræðir og snúnir, "Now she's a little boy in Spain / Playing pianos filled with flames / On empty rings around the sun / All sing to say my dream has come".
Hún er líka stödd í titillaginu: "Anna's ghost all around / Hear her voice as it's rolling and ringing through me / Soft and sweet / How the notes all bend and reach above the trees" sem kallast á við Oh Comely: "So make all your fat fleshy fingers to moving / And pluck all your silly strings / And bend all your notes for me"
Í lokalaginu, sem er frekar dapurlegt, tempruð uppgjöf: "And in my dreams you're alive and you're crying, / as your mouth moves in mine, soft and sweet, / Rings of flowers round your eyes and / I'll love you for the rest of your life (when you're ready)
In the Aeroplane Over the Sea seldist þokkalega til að byrja með og hefur síðan sótt í sig veðrið. Merge gaf plötuna út vestan hafs á sínum tíma, en dreifing utan Bandaríkjanna var takmörkuð framan af. Seint á síðasta ári gaf svo öðlingsútgáfan Domino plötuna út að nýju, setti utan um hana þekkilegt pappaumslag og skreytti meðal annars tilvitnunum í hljómsveitir eins og Franz Ferdinand, Arcade Fire og Fog, aukinheldur sem Boom Bip fær að leggja orð í belg. Í tilvitnunum mæra viðkomandi plötuna fyrir inntak hennar, tilfinningaríkan flutning og útsetningar. Ýmsir hafa síðan orðið til að taka lög af henni upp á sína arma, til að mynda hefur John Darnelle (Mountain Goats) haft á tónleikadagskrá sinni Two Headed Boy.
Eftir stífa tónleikaferð til að fylgja plötunni eftir má segja að sveitin hafi verið á barmi frægðarinnar, útgáfufyrirtæki voru á höttunum eftir henni og buðu gull og græna skóga fyrir samning. Mangum var þó ekki sáttur við lífið, kunni því illa að vera í sviðsljósinu og félagar hans lýsa því svo að það hafi eiginlega "slökknað á honum" eftir að heim til Atlanta var komið. Hann hætti að umgangast fólk að mestu, neitaði viðtölum og hætti að troða upp opinberlega, hélt sig heima allan daginn og gerði ekkert, sat og horfði út í loftið. Lagðist svo í stefnulaust flakk. Hans saga verður ekki rakin frekar hér, en ólíklegt verður að telja að Neutral Milk Hotel snúi aftur.
Þegar menn lofa In the Aeroplane Over the Sea fyrir tifinningaólguna sem einkennir plötuna, magnaða texta og kraftmikinn flutning Mangums gleymist oft hljómsveitin sem leikur undir en því má halda fram að platan hefði ekki orðið nema svipur hjá sjón ef Mangum hefði ekki haft það einvalaleið sem vann með honum á þeim tíma. Ekki var nefnilega bara að rokk lék í höndum aðstoðarmanna hans heldur gátu þeir brugðið sér í allra kvikinda líki þegar tónlistin var annars vegar og ef lag kallaði á óvenjulega útsetningu lærðu þeir á þau hljóðfæri sem þurfti til.
Forðum liðsmenn Neutral Milk Hotel hafa haldið áfram í tónlist, reka nú sveitirnar The Music Tapes, The Gerbils, A Hawk & A Hacksaw, Bablicon og Marta Tennae.
Víða má finna umfjöllun um In the Aeroplane Over the Sea á netinu og sumir ganga lagt í lofa hana, of langt kannski - eitt dæmi veit ég um þar sem viðkomandi lagðist í ferðalög til að reyna að hafa upp á Mangum og leitaði meðal annars upp föður hans og fyrrverandi kærustu. Mangum vildi ekkert með hann hafa sjálfur, neitaði að hitta hann og benti honum á að hann væri ekki hugmynd heldur persóna sem vildi fá að vera í friði. Sjá hérna.
Best að hafa bara í huga það sem Mangum syngur sjálfur á plötunni: "Soft silly music is meaningful magical".
Tenglar
Vefgreinar
- Dont Legalize Drugs by Theodore Dalrymple, City Journal Spring 1997 Advocates have almost convinced Americans that legalization will remove most of the evil that drugs inflict on society. Dont believe them. City Journal - Spring 1997
Vefmiðlar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.