Vofa tíðarandans

bralds_marx-s_2.jpgVofa gengur nú ljósum logum um Evrópu – vofa Zetigeist. Kvikmyndin Zeitgeist og síðan Zeitgeist Addendum berst með ógnarhraða um heim allan og í kjölfar þeirra ótal myndir aðrar sem flestar gera sitt til að sýna fram á að hagkerfi heimsins eru sem kölkuð gröf og við öll peð á taflborði auðmanna og óþokka sem skipt hafa heiminum með sér.

Eftir loðmollulega tíma hefur pólitískur áhugi stóraukist hjá ungu fólki - í stað þess að velta helst fyrir sér tískufatnaði, glæsikerrum, skemmtiferðum og afleiðusamningum velta ungmenni nú því fyrir sér hvernig búa megi mannkyni betra líf. Sitthvað hefur ýtt undir þennan áhuga en þó helst af öllu tveir ávextir hins kapítalíska hagkerfis; netvæðing og fartölvur, en upplýsingahraðbrautina varð einmitt til sem tilraunverkefni á vegum bandaríska hersins.

Pólitísk umræða fer í sívaxandi mæli fram á netinu, það er vígvöllur hugmyndanna og þar blómstra vefsíður sem ýmist berjast fyrir tilteknum málstað eða á móti. Ekki síst hefur YouTube orðið skilvirk leið til að skila ádeilunni áfram og eins hafa ýmsir hópar nýtt sér Facebook með góðum árangri; smalað saman mannskap til aðgerða, hnýtt saman hóp óánægðra og miðlað upplýsingum þeim á milli.

Oft eru myndir eins og Zeitgeist-tvennan kallaðar samsærismyndir, enda snúast þær oft um það að á bak við tjöldin sé klíka valdamikilla manna sem véli um líf okkar án þess við fáum nokkru um það ráðið. Það er þó ekki rétt að afskrifa þær því þó sumar myndanna séu tóm steypa, eins og gengur, þá velta aðrar upp spurningum um skipan heimsmála og benda á ýmislegt sem miður hefur farið og miður gæti farið.

Fjármálakreppa sú sem nú gengur yfir heiminn er til að mynda vatn á myllu Zeitgeist-manna, enda fjallar seinni myndin í þeirri syrpu, Zeitgeist Addendum, um peningakerfi sem komið er að fótum fram, aukinheldur sem hún segir frá ýmsum skuggahliðum á Alþjóða gjaldeyrissjóðnum og svo má telja. Ekki ný sannindi en eftirtektarverð í samhengi kvikmyndarinnar. Eins er eftirtektarverður sá hluti myndarinnar sem segir frá Venusar áætluninni, The Venus Project, sem er hugarfóstur Jacque Fresco, en Fresco, sem býr í Flórída, hefur komið upp grunnmynd af samfélagsgerð sem hann tekur að muni nýtast mannkyni betur en það sem nú er við lýði.

Þó höfundur Zeitgeist-myndanna, Peter Joseph, taki ekki beina afstöðu með eða á móti hugmyndum Frescos þá kemur vel í gegn sú hugmyndafræði sem hann aðhyllist; hann er á móti græðgivæðingu heimsins, á móti hagkerfi kapítalismans sem hann segist byggja á skorti, og leggur til nýja skipan mála. Þeim sem þekkja eitthvað fyrir sér í hugmyndasögu kemur skemmtilega á óvart að það sem Joseph er að boða svipar ekki svo lítið til útópíansks kommúnisma (íslenska þýðingin á utiopia, þ.e. staðleysa, á ekki við í þessu sambandi, og þó).

Marx átti ekki sökótt við kapítalismann, hann taldi hann eðlilegan þátt í þróun samfélags mannanna og því ekkert athugavert við það að njóta góðs af auði síns helsta stuðningsmanns, Friedrich Engels. Í augum Marx yrði kapítalisminn sjálfdauður, en þar skilur með Marxistum og Zeitgeististum að þeir síðarnefndu vilja ganga af kapítalismanum dauðum og það ekki seinna en strax.

Zeitgeist-myndirnar er hægt að sjá hér: http://www.zeitgeistmovie.com/


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Það er raunar ekki bara kapítalisminn í núverandi myn, sem er kominn á enda reipisins, heldur er afurð hans, hin línulaga neyslulína og krafa um stöðuga þenslu í neyslu, sem mun örugglega ganga frá honum auk einhverra milljóna manna. Einföld skoðun á því er t.d. í þessari litlu fræðslumynd The story of stuff.  Þessi þensla ýtir líka undir fólksfjölgun með öllu sínu geigvænlega margfeldi. T.d. voru jarðarbúar um hálfur milljarður árið 1000 en um 1860 varð fyrsti milljarðurinn að veruleika. Annar milljarður um 1930 og svo koll af kolli í yfir 7 milljarða árið 2012.

Það þarf ekki eldflaugasérfræðing til að sjá niðurstöðuna í þessari jöfnu.

Jón Steinar Ragnarsson, 21.11.2008 kl. 11:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Árni Matthíasson
Árni Matthíasson
Skoðanir á mönnum og málefnum á þessari síðu eru birtar með opnu notendaleyfi. Öllum er heimilt að tileinka sér þær og halda þeim fram sem sínum eigin.
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband