Þvílík rosaleg helför!

Mótmælt við stjórnarráðiðÞað vakti athygli mína að sjá borða mótmælenda fyrir utan Stjórnarráðið með áletruninni „Helförin endurtekin" eins og sjá má á meðfylgjandi mynd af mbl.is.

Það er gagnlegt að rifja upp í þessu sambandi að orðið „helförin" er alla jafna notað sem samheiti yfir fjöldamorð Þjóðverja og fleiri á evrópskum gyðingum. Alls er talið að allt að sex milljónir manna hafi verið myrtar, skotnar, brenndar á báli, barðar til bana, hengdar, grafnar lifandi og drepnar með gasi.

(Þó orðið holocaust, sem snarað hefur verið sem helförin, nái alla jafnan aðeins yfir gyðingaofsóknir voru það ekki bara gyðingar sem, myrtir voru, því sígaunar, kommúnistar, samkynhneigðir, pólverjar, sovéskir stríðsfangar, vottar Jehóva, fatlaðir og fleiri voru líka myrtir og alls talið að fórnarlömb skipulagðra morðsveita Þjóðverja hafi samanlagt verið að minnsta kosti níu milljónir manna.)

Í allri samanlagðri glæpa- og illvirkjasögu mannkyns hefur helförin sérstöðu, því hún er eina dæmið á nútíma þegar stjórnvöld í ríki ákveða að myrða á skipulegan hátt alla þá sem tilheyra ákveðnum trúflokki (eða eru skyldir þeir sem tilheyra viðkomandi trúflokki) og þá ekki bara þegna eigin ríkis heldur alla sem hægt er að ná til. Í því ljósi verður hernaði Ísraelsmanna, hvaða augum sem menn annars líta hann, ekki jafnað við slíka voðaatburði. Þeir sem það gera gengisfella ummæli sín.

Greinilegt er að eftir því sem helförin / holocaust / shoah fjarlægist okkur í tíma gleymir fólk hvað fólst í henni og hún breytist í óljósa hugmynd. Orð dofna með tímanum, eyðast með mikilli notkun, og smám saman verða þau svo dauf að hægt verður að nota þau við hvaða tilefni sem er eða svo gott sem.

„Hvernig gekk í prófinu?" „Þetta var algjör helför, ég gat ekki neitt!" „Sástu hvernig United tók Chelsea? Þvílík rosaleg helför!"


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Við ættum líklega að nota frekar orðið útrýming.

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 12.1.2009 kl. 10:15

2 Smámynd: Birgitta Jónsdóttir

Já það er mikilvægt að huga að hugtökum á meðan börnunum er slátrað í Gaza?

Birgitta Jónsdóttir, 12.1.2009 kl. 11:09

3 Smámynd: Árni Matthíasson

Maður á aldrei að hætta að hugsa, Birgitta.

Árni Matthíasson , 12.1.2009 kl. 11:23

4 Smámynd: Birgitta Jónsdóttir

Nei, auðvitað á maður aldrei að hætta að hugsa Árni - en finnst þér ekki skökk myndin sem dregin er upp hér á fréttavefnum mbl.is - reynt að sverta mannorð læknana frá Noregi ítrekað og oft eru hlutirnir ekki kallaðir með réttu nafni í þessu fréttaþýðingum sem þið birtið. Það eru til fjölmargir vefir sem sýna þann skelfilega veruleika sem fólkið í Gaza býr við - undrast hve lítið er gert að því að sýna þann veruleika.

Birgitta Jónsdóttir, 12.1.2009 kl. 12:15

5 Smámynd: Árni Matthíasson

Anna: Pistill minn fjallaði um orðanotkun í umræðu dagsins og það hvernig orð missa merkingu líkt og gerst hefur í mótmælum gegn hernaði Ísraela á Gaza. Ég vek athygli þína á því að á borðanum stendur „Helförin endurtekin" og gefur augaleið að orðið er notað í þeirri merkingu sem ég nefni, þ.e. að framferði þýskra nasista sé sambærilegt við það sem nú á sér stað á Gaza-ströndinni.

Það er svo annað mál að einhvernveginn er manni hlýrra til knattspyrnuliða sem eru í eigu stuðningsmanna sinna og haldi einhver að þau geti ekki náð árangri má benda þeim á þýska boltann.


Birgitta: Fréttaflutningur af átökunum er önnur umræða en sú sem ég velti hér upp. Mér finnst reyndar myndin sem dregin er upp á mbl.is ekki svo ýkja skökk og kannski þér myndi ekki finnast það heldur ef þú myndir leita í fréttum á mbl.is að orðinu Gaza og skoða þann fréttalista sem þá kemur upp.

Árni Matthíasson , 12.1.2009 kl. 13:50

6 identicon

Já, ég fékk aulahroll við að sjá þennan borða. Ekki það að mér þyki í lagi að drepa 900 manns út af einhverjum ómarkvissum flugeldum. Það þarf hinsvegar að verða hugarfarsbreyting varðandi mótmæli. Því ég fæ jafnmikinn aulahroll þegar fólk gefur mótmælum einkunnir út frá gerðum einstakra manna. Það eru alltaf einhverjir fávitar tilbúnir til að skrifa á lakið sitt með varalit móður sinnar og halda út í morgunsortann.

Þó ég viðurkenni að þú skautir nokkuð nett hjá því að gefa mótmælunum beint einkunn. Enda atvinnumaður. :-)

Henrý Þór (IP-tala skráð) 12.1.2009 kl. 20:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Árni Matthíasson
Árni Matthíasson
Skoðanir á mönnum og málefnum á þessari síðu eru birtar með opnu notendaleyfi. Öllum er heimilt að tileinka sér þær og halda þeim fram sem sínum eigin.
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband