Enn um Gunnar og Halldór

Deilurnar um Gunnar Gunnarsson, Halldór Laxness tóku á sig skondna mynd þegar leynd var aflétt af skjölum sænsku nóbelsakademíunnar og í ljós kom að enginn fótur var fyrir flökkusögunni sem fjölskylda Gunnars Gunnarssonar hafði nært með sér árum saman. Menn láta þó ekki deigan síga eins og sjá mátti á spjalli við þá Hannes Hólmstein Gissurarson og Gunnar Björn Gunnarsson í Morgunblaðinu í gær og svo grein Hannesar Hólmsteins í blaðinu í dag.

Eftir Gunnari Birni er til að mynda hafðar þessar skemmtilegu setningar: "[Halldór Guðmundsson] er að reyna að halda sig við staðreyndir og ég skil það vel. Ég get leyft mér að tala öðruvísi, sem hluti af fjölskyldu Gunnars." Þetta þykir mér býsna vel að orði komist - ég veit að þetta byggist ekki á staðreyndum, en kýs að trúa því samt.

Álíka segir Hannes Hólmsteinn reyndar líka: "Ég tók þá afstöðu í [þriðja bindi ævisögu Halldórs Laxness] að trúa sögunni um símskeytið því ég tel enga ástæðu til að rengja hana."

Semsé: Fræðimaðurinn telur rétt að taka inn í ævisögu, sem alla jafna eiga að byggja á staðreyndum, munnmælasögu sem ekki er hægt að staðreyna. Hann bætir um betur með grein í Morgunblaðinu í dag þar sem lýkur á þessum merkilegu orðum: "Hitt er annað mál, að sennilega hefðu menn eins og Bjarni Benediktsson, Ólafur Thors og Kristján Albertsson frekar viljað, að verðlaununum yrði skipt en að Laxness fengi þau einn. Það hefði að mínum dómi verið heppileg niðurstaða."

Ekki fer milli mála að Hannes Hólmsteinn vísar hér til pólitísks andrúmsloft hér á landi á þeim tíma þar sem tókust á vinstrisinnaðir rithöfundar og hægrisinnaðir og gerir því skóna að hægrimenn hefðu gjarnan viljað að "sinn maður" hlyti Nóbelsverðlaunin, ekki vegna ritsnilli heldur vegna pólitískra skoðana. (Eina bókin sem ég man eftir að Ólafur Thors hafi lofað opinberlega var Sturla í Vogum eftir Guðmund Gíslason Hagalín. Segir sitt um bókmenntasmekk hans.) Gaman væri svo að fá einhverntímann útleggingu Hannesar Hólmsteins á því hvers vegna hann telur að það hefði verið "heppileg niðurstaða" ef verðlaununum hefði verið skipt og þá ekki síst fyrir hvern slík niðurstaða hefði verið heppilegri.

Grein Jóns Óttars Ragnarssonar í blaðinu í dag er gott innlegg í þessa umræðu, kominn tími til að einhver taki upp þykkjuna fyrir Ragnar í Smára vegna þessara fáránlegu ásakana að hann beitt eins lágkúrulegum vinnubrögðum og Hannes Hólmstein Gissurarson og Gunnar Björn Gunnarsson hafa haldið fram. Í greininni segir Jón Óttar meðal annars: "Í samanburði við sína samtíðarmenn - Gunnar Gunnarsson meðtalinn - var Halldór Laxness eins konar atómklukka sem allir aðrir neyddust til að stilla úrin sín eftir hvort sem þeim líkaði það betur eða verr" og dregur síðan fram það sem akademíumenn hafa eflaust sett fyrir sig (að frátöldu því að Halldór var merkari rithöfundur en Gunnar): a. Gunnar skrifaði ekki á íslensku. b. Hann heimsótti Hitler í mars 1940, eftir upphaf seinni heimsstyrjaldarinnar og fór lofsamlegum orðum um hann opinberlega skömmu áður en Þjóðverjar hernámu Danmörku og Noreg.

Það er mín skoðun að Gunnar Gunnarsson hefði aldrei fengið Nóbelsverðlaunin jafnvel þó Halldór Laxness hefði ekki verið til.

Er ekki tími til kominn fyrir þá Hannes Hólmstein og Gunnar Björn til að biðja fjölskyldur Jóns Helgasonar, Peters Hallbergs og Ragnars í Smára afsökunar fyrir að hafa borið upp á þá samblástur og undirferli og fjölskyldu Andrésar Þormar fyrir að hafa borið upp á hann alvarlegt trúnaðarbrot í starfi?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Árni Matthíasson
Árni Matthíasson
Skoðanir á mönnum og málefnum á þessari síðu eru birtar með opnu notendaleyfi. Öllum er heimilt að tileinka sér þær og halda þeim fram sem sínum eigin.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband