Fimmtudagur, 26. janúar 2006
Tónlistarverðlaunin og ég
Þá eru afstaðin íslensku tónlistarverðlaunin eitt árið til, mikill glaumur og einhver gleði í Þjóðleikhúsinu sl. miðvikudagskvöld. Ég var ekki á staðnum, hef reyndar aldrei verið á staðnum frá því verðlaunin voru endurvakin fyrir nokkrum árum. Af hverju ekki? Tja, ýmsar ástæður, aðallega þó að mér finnst svona samkomur alla jafna leiðinlegar. ("It's always entertaining when you're hanging out with entertainers" söng Neil Finn í Hold Steady og víst er skemtilegt að skemmta sér með skemmtikröftum, ekki síst ef þeir eru að taka við verðlaunum, en ekki súrir á barnum.)
Lengi vel þótti mér tónlistarverðlaunin ekki marktæk vegna nálægðar þeirra við DV, þetta voru eiginlega DV-verðlaun framan af, hálfgerð Stjörunmessa, en síðan kom alltaf eitthvað uppá þegar á reyndi. Eitt árið ætlaði ég að fara til að mynda, en miðinn týndist í höndum skipuleggjenda. Annað árið átti ég að afhenda verðlaun en var upptekinn við annað og svo má telja. Með tímanum hafa verðlaunin þó fengið á sig klúðurslegt yfirbragð, tilnefningar kjánalegar og jafnvel þvert á reglur verðlaunanna, verðlaunin út í hött, skipast í flokka í tómu tjóni og svo má telja. Keyrði svo um þverbak á síðustu verðlaunahátíð að ég held þau eigi varla viðreisnar von
Verðlaunin voru nú veitt í tólfta sinn. Stjórn verðlaunanna skipa Margrét Bóasdóttir, sem er stjórnarformaður, Pétur Grétarsson, Sigurgeir Sigmundsson og Björn Th. Árnson. Berglind María Tómasdóttir er framkvæmdastjóri þeirra.
Reglur verðlaunanna eru ekki tiltækar öllum og ekki gott að átta sig á því hversu vel menn þekkja þær almennt. Framkvæmd verðlaunanna er að einhverju leyti níu manna nefndar sem skipuð er þeim Frey Eyjólfssyni, Lísu Pálsdóttur, Ragheiði Eiríksdóttur, Bjarna Braga Kjartanssyni, Skarphéðni Guðmundssyni, Pálma Sigurhjartarsyni, Birgi Nielsen, Andreu Jónsdóttur og Trausta Júlíussyni. Allt klúður skrifast á ofangreinda.
Ég tók einu sinni þátt í að tilnefna plötur til verðlauna og kom á óvart hve skipulagning væri ófullkomin og eins hvað þeir sem störfuðu með mér að því vali væru illa að sér um þá tónlist sem við vorum með í höndunum. Í einhverjum tilfellum var viðkomandi ekki búinn að hlusta á nema lítinn hluta af þeim plötum sem hann síðan tók þátt í að tilnefna. Það er nefnilega svo að þeir sem starfa að tónlist hafa oft ekki áhuga á tónlist nema á sínu þrönga áhugasviði, eða jafnvel alls engan. Það er þó erfitt við að eiga fyrir aðstandendur þykist ég vita, því ekki er hægt að hlýða fólki yfir.
Rétt er að hafa það í huga þegar amast er yfir Íslensku tónlistarverðlaununum að ekki er verið að velja bestu plötur / listamenn / lög eða umslög ársins. Slíkt væri ómögulegt, enda byggist þannig val á smekk viðkomandi en ekki vísindalegu mati. Þrátt fyrir það eru tilnefningar og verðlaun oft sérkennileg, eiginlega óskiljanleg á köflum. Ég sæki þó skýringar í reynslu mína af störfum dómnefnda.
Meginflokkur: Tónlist | Aukaflokkur: Bloggar | Breytt 20.4.2006 kl. 12:47 | Facebook
Tenglar
Vefgreinar
- Dont Legalize Drugs by Theodore Dalrymple, City Journal Spring 1997 Advocates have almost convinced Americans that legalization will remove most of the evil that drugs inflict on society. Dont believe them. City Journal - Spring 1997
Vefmiðlar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 5
- Frá upphafi: 117725
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 5
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.