Mánudagur, 30. janúar 2006
Bókahelgin mikla
Lagðist í lestur um helgina og náði að vinna aðeins á bunkaum á skrifborðinu. Reyndar ekki mikill tími til að lesa á laugardaginn, enda var ég þá með afmælisboð, en náði þó að lesa eina bók á föstudagkvöldið og aðra á laugardagskvöld og þrjár lágu síðan eftir sunnudaginn, tvær sem ég hafði gripið í öðru hvoru í vikunni og svo ein sem rann ljúflega um kvöldið.
Þrjár bókanna eru óútgefnar, The Lost Railway Porter eftir Andrew Martin, Angel Blood eftir John Singleton og We're All in This Together eftir Owen King - eiga allar að koma út í maí næstkomandi.
Andrew Martin hefur skrifað bækur sem gerast um aldamótin þarsíðustu og segja frá Jim Stringer sem dreymir um að verða lestarstjóri en örlögin haga því svo að hann verður lögregluþjónn. Ég las fyrstu bókina í seríunni fyrir nokkrum árum og fannst hún þokkaleg, The Necropolis Railway, en söguþráður hennar snýst á skemmtilegan hátt um greftrunarsiði í Englandi á öndverðri tuttugustu öld, hvernig þeir voru að breytast og hvernig fjárglæframenn nýttu sér það. Stíllinn á bókinni féll mér ekki í geð, fannst hann of tilgerðar- og þunglamalegur og tilraunir h0fundar til að skapa drungalegt andrúmsloft voru á tíðum hlægilegar. The Lost Railway Porter, sem er þriðja bókin um Stringer að mér sýnist, er ekki gallalaust en þó mun betur skrifuð en fyrsta bókin. Sérstaklega eru mannlýsingar betur úr hendi gerðar þó persónurnar vilji of vera hálfgert skrípafólk. Best tekst Martin upp í að lýsa ofbeldi í bókinni sem er mátulega handahófskennt til að geta verið ekta.
We're All in This Together er fyrsta bók Owens Kings, sem er kynntur á kápu sem "brilliant young writer of impressive maturity" sem útgefandinn, Faber and Faber, telur greinilega að verði einn af helstu höfundum sínum í framtíðinni. Má vel vera, það er margt vel gert í bókinni sem segir frá ungum pilti sem á í hálfgerðri tilvistarkreppu, glímir við vonbiðil móður sinnar og hálfgeggjaðan afa sem er gömul verkalýðshetja og ekki við það að láta deigan sína þó hann sé komin á grafarbakkann. Sagan er fjörlega skrifuð, kannski ekki svo sannfærandi á köflum, en fríkuð og frumleg. Sérstaklega er samband afans og besta vinar hans snúið og í raun algeggjað eins og kemur í ljós undir lokin. Mér fannst endir bókarinnar sístur, eins og höfund þryti hugmyndir eða orka til að loka bókinni á almennilegan hátt. Víst er King efnilegur en ekki gott að segja hvort hann sé sú vonarstjarna sem þeir Faber-menn ætla.
Þriðja bókin er svo Angel Blood eftir John Singleton, bók fyrir ungmenni eða unglinga. Singletron hefur skrifað þrjár slíkar bækur, Skinny B, Skaz and Me og Star sem fengið hafa fína dóma. Angel Blood segir frá börnum sem haldið er nauðugum á hæli og þar pínd og kvalin á ýmsan hátt. Börnin er fötluð eða vansköpuð eins og smám saman kemur í ljós í eintali eins þeirra, en heimsmynd þeirra er býsna sérkennileg þar sem þau hafa aldrei komið út undir bert loft og þekkja engan nema hjúkrunarfólk og lækna sem annast þau. Starfsmenn hælisins eða heimilisins sem börnunum er haldið á eru ýmist grimmir sadistar eða kærulausir aumingjar og yfirlæknirinn Mengele holdtekinn, enda gerir hann á börnunum ýmsar voðlegar tilraunir í rannsóknarskyni. Inni í þessar hörmungarsögu flækjast svo tvö ungmenni, vandræðastúlka og vandræðapiltur. Hún er áfram um að bjarga börnunum þegar ghún kemst á snoðir um aðstæður þeirra en hann flækist með nauður viljugur, til að byrja með í það minnsta.
Singleton er fínn penni, með bestu unglingabókahöfundum breskum um þessar mundir, áþekkur höfundur og David Almond (las reyndar nýjustu bóka hans um daginn, Clay, frábær bók og eftirminnileg). Söguþráðurinn er vitanlega fyrirsjáanlegur um margt, en Singleton tekst mjög vel að gera sögupersónurnar sannfærandi, meira að segja fötluðu / vansköpuðu börnin, en líka verður óknyttapilturinn lifandi fyrir manni, þó hann sé klisjukenndur á stundum. Endirinn á bókinni kom svo vel á óvart og það má mikið vera ef þessi bók verður ekki talin með þeim bestu þegar árið verður gert upp.
Fjórða bókin sem lá eftir þessa helgi var Nomadin, barnabók eftir Shwan P. Cormier sem gefin var út 2003, í þriðju útgáfu. Höfundur gefur bókina sjálfur út og ekki þarf að lesa lengi áður en maður áttar sig á hvers vegna. Í bókinni eru allt of margar persónu og allt of mikið í gangi í einu. Sagan segir af ungum pilti sem nemur galdra hjá galdramanni sem starfsheiti hans er Nomadin. Óvættur birtist skyndilega og piltur heldur af stað með lærimeistara sínum að leita hjálpar. nenni eiginlega ekki að rekja atburðarásina frekar, enda er stokkið úr einu í annað, sífellt birtast nýjar og nýjar persónur sem ýmist deyja eða gleymast eins og hendi sé veifað. Ég varð að beita mig hörðu til að nenna að lesa lokaþáttinn - þegar spennan á að vera mest, og þó allt endi í uppnámi á ég ekki eftir að lesa framhaldið. Mér er slétt saman um hvað verður um galdrastrákinn, prinsessuna hugrökku, töfrasvaninn, risann hugumprúða, stríðsmanninn trausta, hundinn talandi, galdrameistarann mikla, býantinn talandi og töfraljósið, svo fátt eitt sé talið af veigamiklum liðsmönnum hins góða. Óþokkarnir voru mun skemmtilegri, enda færri.
Fimmta bókin er svo Finding George Orwell in Burma eftir Emmu Larkin, mjög fróðleg og skemmtileg bók sem gefur einkar áhrifamikla mynd af ástandinu í Burma, eða Myanmar eins og það land heitir víst í dag að geðþótta brjálaðra einræðisherra sem stjórna því. Fyrsta bókin sem Orwell sendi frá sér var Burmese days og er hann lést var hann með í smíðum aðra bók sem einnig átti að gerast í Burma. Þó honum hafi þannig ekki tekist að ljúka við nema eina bók sem beinlínis gerðist í Burma sem Larkin að hann hafi í raun skrifað þrjár bækur um landið, Burmese days, Animal Farm og 1984. Eftir lestur bókarinn er ekki hægt annað en taka undir þessi orð hennar. Mögnuð bók.
Meginflokkur: Bækur | Aukaflokkur: Bloggar | Breytt 20.4.2006 kl. 12:50 | Facebook
Tenglar
Vefgreinar
- Dont Legalize Drugs by Theodore Dalrymple, City Journal Spring 1997 Advocates have almost convinced Americans that legalization will remove most of the evil that drugs inflict on society. Dont believe them. City Journal - Spring 1997
Vefmiðlar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 4
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 4
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.