Stjörnuhrap

Kaavya Viswanathan flaug hratt upp á stjörnuhimininn - síðasta haust gerði Little, Brown & Co. útgáfusamning upp á hátt í fjörutíu milljónir króna við stúlkuna um útgáfu á tveimur skáldsögum. Annar eins samningur hafði ekki verið gerður við við svo ungan höfund sem að auki hafði ekkert gefið út. Fyrri bókin, How Opal Mehta Got Kissed, Got Wild, and Got A Life, kom svo út í apríl síðastliðnum og fékk fínar viðtökur, enda fjörug og fyndin frásögn.Bókin segir frá stúlku sem þráir það helst að komast í Harvard-háskóla en fær óblíðar viðtökur þegar hún sækir um því þó einkunnir hennar séu til fyrirmyndar á hún sé ekkert líf utan námsins. Háskólinn hefur nefnilega ekki áhuga á nemendum sem eiga enga vini og stunda ekkert félagslíf. Faðir Mehta grípur í taumana, gerir áætlun um það hvernig hún geti komið sér upp félagslífi á mettíma og allir leggjast á eitt um að finna handa henni vini og kærasta.
Viswanathan, sem fædd var í Chennai (Madras) á Indlandi og fluttist með fjölskyldu sinni til Bandaríkjanna barn að aldri, gaf það í skyn að sagan væri að einhverju leyti byggð á reynslu hennar, en þegar bókin kom út stundaði hún nám í enskum fræðum við Harvard. Annað átti eftir að koma í ljós.

Útgáfa á bókum fyrir unglingsstúlkur lýtur sömu lögmálum og annar fyrirtækjarekstur vestan hafs, hagræðing og hámarkshagnaður. Það hefur lengi tíðkast að margir séu um eitt höfundarnafn, til að bmynda voru bækurnar um Tom Swift skrifaðar af mörgum höfundum, Victor Appleton var margir menn (Howard Garis, W. Bert Foster, John Duffield, Thomas M. Mitchell, Harriet S. Adams og fleiri), margir skrifuðu Nancy bækurnar og svo má telja. Slíkar bækur eru skrifaðar eftir formúlu, þurfa ekkert að vera verri fyrir það, og alla jafna sér teymi um að þróa sögupersónurnar, ákveða söguþráð, hanna kápu og myndskreytingar. Fyrirtæki sem fást við slíkt hafa lengi verið til, en uppákoman með Kaavya Viswanathan hefur beint sjónum manna að því fyrirtæki sem öflugast er og afkastamest á þessu sviði nú um stundir, Alloy Entertainment.

Umboðsmaður Viswanathan sendi Alloy fyrstu drög að bók hennar og starfsmenn Alloy unnu að fyrstu köflunum með Viswanathan. Að því fram kemur í New York Times kom fyrirtækið ekki frekar að bókinni en það, en þó er útgáfusamningurinn á milli Alloy og Little, Brown & Co. Sá háttur er einmitt hafður á alla jafna - Alloy semur við útgefendur um bækur og við höfundana um hvaða skerf þeir fá af kökunni, hvort sem þeir fá 15% af útsöluverði hverrar bókar eða eru bara á föstum launum ef þeir eru að skrifa undir dulnefni.

Útgefendur kunna vel að meta þá þjónustu sem slík fyrirtæki veita, enda fá þeir í hendurnar bók sem líkleg er til að ná metsölu tilbúna til útgáfu með kápu og öllu tilheyrandi. Slík viðskipti tíðkast líka ekki bara í unglingabókum heldur er það alsiða í æviminningum viða um heim að einhver sé ráðinn til að skrifa ævisögu, til að mynda ævisögur ungra íþróttamanna eða poppara. Eitt frægasta dæmi um slíkt á síðustu árum er rakið i bókinni Ghosting þar sem Jennie Erdal segir frá fimmtán ára starfi sínu fyrir viðskiptajöfurinn Naim Attallah, en á þeim tíma skrifaði hún blaðagreinar, ræður, ýmis bréf, þ. á m.  ástarjátningar, viðtalsbækur við ýmsa og tvær skáldsögur. Allt var þetta gefið út undir nafni Attallah.

Skömmu eftir að How Opal Mehta Got Kissed, Got Wild, and Got A Life kom út fóru að heyrast raddir um að maðkur væri í mysunni, að bókin væri ekki bara eftir Kaavya Viswanathan heldur hefði hún stolið efni í hana frá öðrum höfundum. Lesendur bentu þannig á að langir kaflar í bókinni væru sláandi líkir köflum úr tveimur unglingabókum eftir Megan McCafferty, Sloppy Firsts og Second Helpings. Við nánari skoðun sást að í fjörutíu tilfellum að minnsta kosti væri sláandi líkindi með bók Viswanathan og bókum McCafferty, svo mikil líkindi að engar líkur væri að skrifa mætti það á tilviljun - atburðarás og samskipti sögupersóna eru svipuð, kaflar að segja orðréttir uppúr bókum McCafferty eða setningar.

Framan af gerði Viswanathan lítið úr ásökunum um ritstuld, en játaði síðan að vera mætti að í bókinni væri vitnað í bækur McCafferty, en slíkar tilvitnanir væri ekki vísvitandi. Hún sagðist hafa marglesið bækur McCafferty og hrifist svo af þeim að hlutar úr þeim hefðu síast inn í hana ómeðvitað og þegar hún síðan skrifaði bókina um Opal Mehta hafi hún ekki gert sér grein fyrir að hún væri ekki að skrifa eigin texta, heldur væri hún að vitna í McCafferty. Hún bar sig og vel í fyrstu yfirlýsingum sínum, sagðist ætla að endurskrifa þá kafla í bókinni sem líktust um of því sem McCafferty hefði skrifað og ný útgáfa bókarinnar kæmi á markað sem fljótt sem auðið væri. Frammámenn Little, Brown & Co. tóku í sama streng, sögðu að bókin yrði áfram á markaði þar til ný útgáfa yrði tilbúin og að fyrirtækið hefði fulla trú á Viswanathan.

Allt umtalið, þó neikvætt væri, varð til þess að auka sölu á bókinni, en gagnrýnisraddir urðu æ háværari með þeim afleiðingum að Little, Brown & Co. innkallaði bókina. Þá var búið að prenta 100.000 eintök og dreifa 50.000 þeirra til bókaverslana. Til að byrja með héldu menn fast við að til stæði að gera af bókinni nýja útgáfu, en nú er loks orðið ljóst að svo verður ekki, How Opal Mehta Got Kissed, Got Wild, and Got A Life verður ekki endurútgefin endurgerð, í það minnsta ekki af Little, Brown & Co. Það sem meira er - fyrirtækið hefur rift samningnum við Viswanathan og mun ekki gefa út aðra skáldsögu eftir hana.

Þetta eru svo sem skiljanleg viðbrögð í ljósi þess að Viswanathan stal frá fleirum en Megan McCafferty. Glöggir lesendur hafa nefnilega fundið í bókinni kafla sem rekja má til Can You Keep a Secret? eftir Sophie Kinsella, metölubókarinnar The Princess Diaries eftir Meg Cabot og Haroun and the Sea of Stories eftir Salman Rushdie. Sjá hér.

 Rithöfundaferli Kaavya Viswanathan virðist því lokið eiginlega áður en hann hófst. Við þessa niðurlægingu bætist síðan að henni hefur verið vikið úr Harvard-skóla um sinn og ekki ljóst hvort hún fær aftur inngöngu í skólann. Það verður líka að teljast ólíklegt að Dreamworks geri kvikmynd eftir bókinni eins og stóð til.

Ekki verður undan því vikist að nefna annað mál álíka, þó ekki sé það jafn alvarlegt, en það var er Ólafur Jóhann Ólafsson nýtti sér hluta úr bók M.F.K. Fisher, The Gastronomical Me, í bók sinni  Slóðar fiðrildanna. Í viðtali við Morgunblaðið í janúar 2002 segir Ólafur að hann hafi aldrei farið leynt með að hann hafi fengið að láni frá Fischer þó hann hafi ekki getið hennar í heimildaskrá eða inngangi að bókinni: "[Þ]egar ég hef verið að kynna bókina á upplestrarferðum og þess háttar hef ég mikið talað um þetta. Það hefur ekki verið neitt launungarmál að þegar menn skrifa skáldsögur sem gerast á árum áður viða þeir að sér ýmsu efni og það er hefð fyrir því hvað menn geta notað og hvernig, án þess að geta heimilda."

Í því viðtali segir Ólafur Jóhann að um sé að ræða tvær línur sem hann hafi fengið að láni, en áhöld eru um hvort um meiri texta sé að ræða. Í viðtölum við erlenda fjölmiðla lét Ólafur Jóhann þau orð falla að hann hefði verið að votta Fisher virðingu sína með því að vitna í hana og að allir þeir sem þekktu bók hennar myndu kannast við kaflana í bók hans og skilja að þeir væru virðingarvottur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Tryggvi Thayer

Annað sem vert er að benda á í þessu sambandi er ungdómsdýrkunin hér vestra og hvernig markaðsöflin reyna að mjólka hana eins og hægt er. Sífellt er verið að reyna að gera stórstjörnur úr unglingum sem virðast ráða illa við þá pressu sem því fylgir. Við sjáum þetta í tónlistabransanum, í kvikmyndabransanum og nú virðist þetta vera að aukast í útgáfubransanum. Hverjum dettur í hug að 17 ára stelpa (Viswanathan var 17 ára þegar skrifað var upp á samninginn) sem er í fullu háskólanámi, og ekki í neinum tossaskóla, ráði við þá pressu sem útgefendur setja á sitt fólk? Sérstaklega í þessu tilviki þar sem miklir peningar voru lagðir í algjörlega óþekkta manneskju. Ég er ekki að segja að 17 ára unlingur geti ekki komið á óvart. En hann þarf þá að fá tækifæri til að koma á óvart á eigin forsendum en ekki að vera framleidd af peningamyllu útgefenda. Svona mál eru að koma upp aftur og aftur hérna. Bendi til dæmis á mál þessa unga mans, Ben Domenech, sem þótti þvílík stjarna í fjölmiðlaheiminum þangað til að farið var að skoða ferilinn hans og kom í ljós að hann hafði stundað ritstuld alla vega síðan hann skrifaði fyrir háskólablað þegar hann var 17 ára gamall.

Málið er að þetta eru bara unglingar og ef þessir útgefendur, og markaðsöflin almennt, ætla sér að ýta þeim út í hinn stóra heim áður en þeir eru tilbúnir þurfa þeir að taka eitthvað af sökinni á sig sjálfir. Við verðum að muna að það voru útgefendurnir sem lögðu sína blessun á þetta allt saman og settu bókina í bókabúðirnar.

Tryggvi Thayer, 4.5.2006 kl. 15:32

2 Smámynd: Árni Matthíasson

Þegar svona nokkuð ber á góma finnst mér viðeigandi að rifja upp söguna af Kate Bush sem var sextán ára þegar David Gilmour fór með henni til útgáfustjóra EMI. EMI gerði við hana útgáfusamning og sendi í dans- og söngtíma, aukinheldur sem hún fékk frið til að þroskast sem lagasmiður. Fyrir vikið var hún nánast fullmótuð sem listamaður þegar hún kom fram á sjónarsviðið nítján ára gömul og hóf sinn langa feril. Ef sextán ára stúlka með hennar hæfileika birtist hjá stórútgáfu í dag myndu menn drífa hana úr fötunum og beint í myndbandsupptöku.

Hún er líka fín sagan af Carly Hennessy sem samdi við MCA sextán ára gömul og fyrirtækið eyddi síðan 150 milljónum króna í að taka upp plötu með henni, gera myndband og auglýsa. Fyrsta platan hennar seldist í 378 eintökum.

Árni Matthíasson , 4.5.2006 kl. 19:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Árni Matthíasson
Árni Matthíasson
Skoðanir á mönnum og málefnum á þessari síðu eru birtar með opnu notendaleyfi. Öllum er heimilt að tileinka sér þær og halda þeim fram sem sínum eigin.
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband