Fimmtíu plötur með Caetano Veloso

Caetano VelosoÞað er margt að varast í þessu lífi, margar hættur sem steðja að og stundum áttar maður sig ekki á háskanum fyrr en um seinan. Þannig fór fyrir mér fyrir stuttu.

Einn af þeim tónlistarmönnum sem ég held hvað mest upp á er Brasilíumaðurinn Caetano Veloso. Honum kynntist ég fyrst fyrir einhverjum áratugum og má segja að hann sé eini tónlistarmaður sem ég hef safnað, að því leyti að ég hef keypt allar plötur hans sem eru orðnar býsna margar eftir fjörutíu ára starfsævi.

Flestir þekkja Veloso væntanlega fyrir það er hann söng dúfnasönginn, Cucurrucucu Paloma, í Almodóvar-myndinni Hable con ella. Hann hefur þó afrekað meira en því, á að baki á sjötta tug af breiðskífum, en fyrsta platan kom út 1967 og heitir Domingo. Á henni er að finna bossanovalegt popp, en Gal Costa syngur með honum á plötunni.

Á næstu plötu, sem hét einfaldlega Caetano Veloso, breytti hann um stefnu, spilaði tilraunkennt popp, og hefur breytt reglulega alla tíð. Hann varð fljótlega framarlega í flokki ungra listamanna sem sköpuðu nýja gerð af brasilískri dægurtónlist, hrærðu saman brasilískum hefðum og súru rokki svo úr varð tónlistarstefna sem kallaðist Tropicália eða Tropicalismo og byggðist einna helst á því að gera ekkert það sem áður hafði verið gert; allt var vert að prófa að minnsta kosti einu sinni. Veloso og Gil voru fremstir meðal jafningja í Tropicália-hreyfingunni, en af öðrum þátttakendum í henni má nefna hljómsveitina Tom Zé, Gal Costa og Os Mutantes.

Caetano Veloso sat ekki lengi fastur í Tropicália- sýru, heldur var hann leitandi listamaður og segja má að hver plata sem hann gaf út á áttunda áratugnum hafi verið tilraun til að gera eitthvað nýtt. Hann, og fleiri ungir brasilískir listamenn, hrintu af stað tónlistarhreyfingu sem kölluð var MBP, musica popular Brasileira. Í þeim lauslega félagsskap voru margir tónlistarmenn sem urðu síðar þekktustu listamenn þjóðarinnar, en undir merkimiðann MPB féllu ótal ólíkar tónlistarstefnur; samba, bossanova, tilraunakennt popp og hreinræktuð framúrstefna.

Á þessum árum var herforingjastjórn við völd í Brasilíu og ungu listamennirnir lentu margir upp á kant við stjórnvöld, ekki síst eftir að hert var á ritskoðun og skoðanakúgun í upphafi áttunda áratugarins. Til að mynda varð mikil hneyksli þegar Veloso mætti í kvenmannsfötum á virðulega sönglagakeppni og söng lagið E proibido proibir, það er bannað að banna. Í kjölfarið hrökklaðist hann í útlegð líkt og ýmsir brasilískir listamenn, og dvaldi í Lundúnum í nokkur ár.

Ekki er gott að telja allar þær plötur sem Caetano Veloso hefur gefið út á ferlinum, en nægir að nefna að fyrir nokkrum árum kom út kassinn Todo Caetano, sem hefur að geyma 50 geisladiska og nær þó ekki yfir allt sem hann hefur sent frá sér. Hann er og enn að; 2004 kom út A Foreign Sound, safn bandarískra laga sem Veloso túlkar á sinn hátt og gefin var út til að hylla bandaríska menningu sem hafði mikil áhrif á hann sem ungan mann á leið í tónlistina. Cê kom svo út í september síðastliðnum og enn tekur Veloso skarpa beygju frá síðustu skífu á undan - nú er það nútíma- og framúrstefnuleg nýbylgja.

Í mörg ár keypti ég allt sem Veloso gaf út og átti um tíma á fjórða tug af plötum með verkum hans. Síðan lánaði ég vini mínum stóran hluta af safninu, tuttugu til þrjátíu plötur, og hef aldrei fengið þær aftur. Þegar ég var að skrifa grein um Veloso og Cê, nýju plötuna hans fyrir Moggann um daginn hlustaði ég á Veloso og saknaði þess að geta ekki heyrt margar af hans bestu skífum því þær hafa ekki skilað sér úr láni og gengur illa að heimta þær, sérstaklega Cores nomes, útlegðarplötuna Caetano Veloso (A Little More Blue), Cinema Transcendental, Transa og Bicho. Allt verkaði þetta svo sterkt á mig að áður en ég vissi af var ég búinn að kaupa mér fimmtíu plötur með Caetano Veloso - það er margt að varast ...


Áttu eina svarta?

0611macbook_blackÉg fékk í hendur verkefni um daginn sem ég þarf að vinna í Makka. Ákvað því að kaupa mér vél, fartölvu, og eftir smá vangaveltur fann ég út að ég þyrfti vél með ca. 2 GHz örgjörva, um 100 GB hörðum disk og ekki minna en 1 GB í minni. Skjárinn mátti vera 13"-15". Ég hringdi því í Eplaumboðið og fékk samband við ráðgjafa:

Ég: Hæ. Ég var að spá í að kaupa mér fartölvu. Áttu vél með 2 GHz örgjörva eða meira, um 100 GB hörðum disk og 1-2 GB í minni. Skjárinn má vera þrettán til fimmtán tommur.

Ráðgjafinn: Þögn í smá stund svo: Hmm, ertu að meina svarta tölvu?

Ég: Eeee, mér er nú sama hvernig hún er á litinn, ef hún uppfyllir þetta. Áttu þannig vél á lager?

Ráðgjafinn: Já, við erum með svarta vél með 13,3" skjá. Bíddu, ég ætla að gefa þér samband niðrí búð.

---

Búðin: Halló.

Ég: Já, ég var að leita að 2 GHz vél með 1-2 GB í minni, 100 GB disk eða meira og 13,3" skjá.

Búðin: Ha, já, ertu að meina svarta tölvu?

Ég: Ja, mér er sama hvernig hún er á litinn. Eigið þið þannig vél á lager?

Búðin: Já, við eigum eina svarta.


Leyndarmálið mikla

The SecretSvonefndar sjálfshjálparbækur byggjast að því mér hefur sýnst á því sem kalla má almælt sannindi eða almenna vitneskju. Til að mynda deila menn varla um það að þeim vegnar yfirleitt vel í lífinu sem skipuleggja tíma sinn vel, bægja frá sér þráhyggju og slæmum hugsunum og eru fullir sjálfstrausts. Frá því sjónarhorni eru bækur þessarar gerðar þarfaþing þeim sem á þurfa á sjálfstyrkingu að halda og reyndar má færa fyrir því rök að flestir hafi gott af að tileinka sér margt það sem kennt er í slíkum ritum þó leiðir að því marki sé alla jafna betra að finna með almennri skynsemi en með því að lesa bækur sem pakka sannindum inn í gervivísindi eða trúarstagl.

Sjálfshjálparfræðin eru arðbær í meira lagi og bækur þeirrar gerðar eru gjarnan metsölubækur víða um heim, því við viljum öll verða betri, eða flest í það minnsta. Reglulega rísa líka bylgjur sjálfshjálparfræða, allir verða að kynna sér þennan eða hinn fræðinginn, lesa allt sem hægt er um þessa eða hina aðferðina. Algengt er að þessi fræði berist hingað frá Bandaríkjunum, enda eru trúarbrögð þar markaðsvædd, sjálfshjálpartrú líka, og það sem best er gert, hannað eða útfært góð útflutningsvara. Nú ber aftur á móti svo við að mest selda sjálfshjálparbók vestan hafs er ættuð frá Ástralíu. The Secret heitir hún. 

The Secret hefur ekki enn borist hingað til lands, en á eflaust eftir að gera það, kemur örugglega út á íslensku fljótlega, kannski í sumar eða haust, enda er markaðssetning á bókinni snilldarlega útfærð; í senn höfðað til þeirra milljóna sem keyptu Da Vinci Lykilinn og þeirra sem keypt hafa bækur eftir Mitch Albom, Paulo Cohelo og Robin Sharma og ótal annarra sjálfshjálparfræðinga. leydarmálið er nefnilega sannkallað leyndarmál, eða var það í það minnsta þar til Rhonda Byrne kom upp um allt saman.

Eins og því er lýst á vefsetri útgáfunnar og ótal vefsetrum sem mæra bókina hefur leyndarmálið verið ljóst öllum helstu stórmennum sögunnar, Plato, Leonardo Da Vinci, Galileo, Napoleon, Victor Hugo, Ludwig van Beethoven, Jesú Kristur, Abraham Lincoln, Thomas A. Edison, Alfred Einstein og Dale Carnegie, svo dæmi séu tekin (ekki ætla ég að hætta mér út í deilur um það hvort Dale Carnegie eigi það skilið að vera nefndur í sömu setningu og Albert Einstein, Ludvig van Beethoven eða Abraham Lincoln). Allir þekktu þessir andans jöfrar leyndarmálið, eða réttara sagt Leyndarmálið, og nýttu það í vísindum sínum, listsköpun, heimspeki, stjórnmálastarfi, hernaðarbrölti eða gróðabralli.

Leyndarmálið mikla var aðeins varðveitt í munnlegri geymd í gegnum aldirnar og það var ekki fyrr en Rhonda Byrne, fráskilin miðalda móðir sem glímdi við þunglyndi rakst á bók frá 1910 sem hét því dægilega nafni Vísindin við að verða ríkur, The Science of Getting Rich. Í þeirri bók var því haldið fram að það eina sem þyrfti til að verða auðugur væri að hugsa sér það - ef maður hugsar nógu stíft um það sem manni langar í fær maður það. (Þetta er semsagt leyndarmálið, Leyndarmálið, sem þú, kæri lesandi, færð hér gratís.)

Gleymum því svo ekki að hvert selt eintak af Leyndarmálinu er sönnun þess að það sé sannleikur - aðstandendur útgáfunnar, sem hljóta að vera öðrum fremri í fræðunum, vaða í peningum geislandi af lífshamingju á öllum myndum. Þarf frekari vitnanna við?


Merkilegur dómur

Það kemur ekki á óvart að Bubbi skuli hafa unnið málið, en dómurinn gefur að mínu viti merkilegt fordæmi varðandi myndbirtingar af fólki á förnum vegi.

Þegar umræddar myndir voru teknar var gagnáfrýjandi eins og áður sagði á ferð um Reykjavík í bifreið sinni. Mátti hann við þær aðstæður með réttu vænta þess að friðhelgi einkalífs síns yrði virt. Sú friðhelgi var brotin með birtingu fyrrgreindra mynda ...

segir í dómnum. Semsagt: óheimilt er að taka myndir af fólki á förnum vegi, til að mynda á ferð í eigin bifreið, og birta í fjölmiðlum. Nú brestur mig lögfræðiþekking til að rekja þetta mál lengra, en má ekki segja að hér bergmáli Karólínudómurinn þýski?


mbl.is Bubba Morthens dæmdar bætur fyrir meiðyrði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fingrafimi og snerpa

Marc-André HamelinKanadíski píanóleikarinn Marc-André Hamelin, sem  lék á Listahátíð í hitteðfyrra, er með mögnuðustu hljóðfæraleikurum sem nú eru starfandi. Til sannindamerkis um það eru tónleikar hans í Háskólabíói og eins fjölmargir diskar sem hann hefur gefið út. Til að mynda diskur frá Hyperion þar sem hann leikur meðal annars sem etýður eftir Paganini í endurritun Franz Liszt, þar á meðal þriðju etýðuna, La Campanella, sem kallar á ótrúlega fingrafimi fiðluleikarans og ekki síður fimi og snerpu píanóleikarans í umrituninni.

Að vissu leyti má segja að Hamelin spili etýðuna of vel, hann spilar hana af svo mikilli íþrótt að manni finnst nánast eins og hann sé eiginlega ekki á reyna á sig, það vantar alla spennu í verkið. Á móti kemur að ljóðrænan í því kemst betur til skila, laglínur ná að anda um stund áður en þær hverfa í nótnaflóðið að nýju.

Gott vald á tækni gefur listamanninum líka svigrúm til að leyfa tilfinningunum í verkinu að njóta sín; ef tæknin er ekki til staða næst ekki samfella í túlkuninni. Gott dæmi um það er Grande sonate 'Les quatre ages' opus 33, eitt helsta verk Charles Valentins Alkans. Í því lýsir hann mannsævinni frá þrítugu til fimmtugs.

Verkið er fjörutíu mínútna sónata í þremur þáttum þar sem hver þáttur er hægari en sá á undan, aukinheldur sem tónmálið tekur breytingum eftir því sem á líður mannsævina, þróttmikil bjartsýni hins tvítuga blómstrar í líkamsstyrk hins þrítuga, snýst svo í raunsæi hins fertuga og síðan sættir sá fimmtugi sig við að hann mun ekki breyta heiminum úr þessu.

Breski píanóleikarinn Roland Smith var fyrstur til að flytja verkið opinberlega svo vitað sé, en hann flutti það á tónleikum vestan hafs 1973 og hljóðritaði síðar sama ár. Hann spilar verkið afskaplega vel, en heldur finnst mér hann hikandi í hröðum sprettum tvítugsaldursins og eins er ekki nógu mikill þungi hjá hinum þrítuga, hann á að vera í blóma lífsins en hljómar frekar eins og settlegur stofuherra með innfallið brjóst. Eftir því sem aldurinn færist yfir stendur Smith sig betur, en þó er hann full-daufur fyrir minn smekk, full dapur kominn á fimmtugsaldurinn, nánast samfelldur útfararmars. Gleymum því þó ekki að á dögum Alkans voru meðallífslíkur innan við fimmtíu ár í Frakklandi (43 ár 1850, en féll svo aftur vegna styrjalda undir lok aldarinnar).

Marc-André Hamelin spilar þessa miklu sónötu af slíkum þrótti að maður hrekkur við, tempóið hjá honum í fyrsta þætti er ótrúlega snarpt og tónmótun góð. Ungi maðurinn sprettur fram af leik hans, eilítið fljótfær og og galgopalegur. Hamelin er líka í essinu sínu á þrítugsaldrinum, fertugur er hann yfirvegaður og traustur og óneitanlega meiri reisn yfir "öldungnum" fimmtuga, þó ekkert sé dregið úr því að dauðinn sé á næsta leyti.

Charles-Valentin Morhange, sem tók sér síðar nafnið Alkan, var gyðingur, fæddur í París 1813 og lést þar í borg 1888. Hann var talinn með fremstu píanóleikurunum síns tíma og eins eitt merkasta tónskáld píanóbókmenntanna; Ferrucio Busoni taldi hann þannig með fimm fremstu tónskáldum píanósins eftir Beethoven, skipaði honum í flokk með Chopin, Schumann, Liszt og Brahms.

Alkan var sjúklega feiminn og átti mjög erfitt með að spila opinberlega. Það fór og svo að hann dró sig í hlé 1848 og heyrðist ekki frá honum í aldarfjórðung. Í einverunni samdi hann mikið af píanótónlist, þar á meðal mörg sín helstu verk eins og Douze Etudes dans les tons majeurs og Douze Etudes dans les tons mineurs, sem kunnugir telja með helstu píanóverkum sögunnar. Það er þó ekki fyrr en á síðustu áratugum sem verk hans hafa fengið almenna útbreiðslu.

Roland Smith, sem lést fyrir tveimur árum, er þó helst að þakka að Alkan er spilaður í dag, enda var hann óþreytandi við að kynna tónskáldið, lék verk Alkans á tónleikum árum saman, skrifaði ævisögu hans og stofnaði félag Alkan-vina. Sagan segir að hann hafi náð ástum konu sinnar með því að spila fyrir hana fimmtu dúr etýðuna, Allegro Barbaro.

Hamelin hefur líka verið duglegur við að draga fram í dagsljósið gleymda höfuðsnillinga píanósins og annar pínaóleikari og tónskáld sem hann hefur tekið upp talsvert af er Leopold Godowsky, sem frægastur er fyrir stúdíur sínar og umritanir á etýðum Chopins.

Það er líka gaman að bera sama hvernig Hamelin hefur þroskast sem tónlistarmaður. Gott dæmi til samanburðar er umritanir Godowskys á etýðum Chopins sem Hamelin tók upp fyrir Musica Viva 1987 (tónleikaupptaka) sem bera má saman við upptöku hans á öllum umritununum fyrir Hyperion tólf árum síðar. Honum hefur farið fram í tækni, en líka tónhugsun því lýríkin skilar sér mun betur og íþróttin hverfur í bakgrunninn, maður tekur ekki eins eftir því hve erfiðar sumar umritanirnar eru en því betur hve vel heppnaðar þær eru.

Annar píanóleikari sem tók minna þekkt verk upp á sína arma var Bretinn John Ogdon sem vakti mikla athygli fyrir flutning sinn á píanókonsertnum sem Alkan settu saman út þremur af moll etýðunum, nr. átta, níu og tíu. Sá konsert hafði áður verið tekin upp í styttri útgáfu af áðurnefndum Roland Smith, en hljóðritun Ogdons er frá 1969 og kom út 1973 með síkadelísku umslagi að því menn segja.

Ogdon var einkar þróttmikill píanóleikari og spilar verkið af miklum krafti, og miklum reyndar á köflum, átökin verða fullmikil fyrir minn smekk. Hamelin fer betur með í upptöku sem Music 6 Arts gaf út 1992, þó hann eigi enn nokuð í land með að ná þeim listaræna þroska sem við þekktum í dag og sumir kaflar séu spilaði af mikilli nákvæmni, en ekki nógu mikilli tilfinningu.  

Til gaman læt ég fylgja með YouTube vídeó með Hamelin, annars vegar að spila fimmtu dúr etýðuna eftr Alkan, Allegro Barbaro, og svo hins vegar Ungverska rapsódíu númer tvö eftir Liszt sem er einkar skemmtilega spiluð. Hamelin semur sjálfur kadensuna undir lokin og það enga smá kadensu, rúmar þrjár mínútur.

 


Kjöt með götum

Snow GatheringMikið hefur verið fjallað um ráðstefnu klámframleiðenda sem halda átti á Hótel Sögu, en var aflýst þegar hótelið afturkallaði bókun vegna gistingar ráðstefnugesta. Frétt á mbl.is um afturköllun bókunarinnar vakti mikla athygli og margir kusu að tjá sig um hana, blogga um hana, 73 alls frá því fréttin birtist rétt fyrir kl. 14:00 á fimmtudag og til miðnættis. Af þeim voru 28 andvígir ákvörðun hótelsins og lýstu henni, oft með sterkum orðum. Þrjár konur voru meðal þeirra sem andmæltu ákvörðun hótelsins.

Athugasemdir voru beinskeyttar og sumar harkalegar. Margir töluðu hástöfum um að þeir væru í raun að berjast fyrir frelsið og ekki fer milli mála, að þeirra mati, hverjum var um að kenna: femínískum vælukjóum, vinstra rauðsokkuliði, fasískum femínistum, femínasistum, ferköntuðum kverúlöntum, pemprum sem væru öskrandi af fáfræði og fordómum, ofstækisfullum fasistum, feminískum beljum og þess háttar lýð, feministapakki, kvenréttindasinnum, helv. feministum, öfga feministum, fasistunum í femínistasamtökum og rasistum. " ... eigendur og hótelstjóri Radisson SAS eru búnir að drulla svo svaðalega uppá bak, að maður finnur lyktina til Danmerkur" skrifaði einn frá Danmörku.

Þær þrjár stúlkur sem samsinntu piltunum fengu klapp á bakið: "Heyr heyr! Loksins kona með eitthvað á milli eyrnanna, ólíkt fasistunum í femínistasamtökum" og "Ég er mjööööög ánægður meðað sjá konu með þroskuð viðhorf. Þú hefur, án gríns, algjörlega viðreist virðingu mína fyrir kvennþjóðinni."

Ekki nennti ég að telja athugasemdir við bloggfærslur, með og á móti, enda skiptu þær hundruðum. Margir þeirra sem skrifuðu þær endurnýttu athugasemdir á milli blogga, til að mynda "Geir" og "Fannar frá Rifi" sem settu sömu athugasemdina inn ótal sinnum.

Karlarnir voru flestir á aldrinum 23 til 26 ára gamlir sýndist mér, af klámkynslóðinni, fyrstu kynslóðinni sem fékk Netið beint í æð, fyrsta kynslóðin sem gat komist í klámefni á Netinu á mótunarskeiði kynþroska. Þeir líta það greinilega öðrum augum en þeir sem eldri eru, finnst klám eiginlega vera hið besta mál. Kannski dreymdi einhverja þeirra um að vera foli í klámmynd.

"Konurnar eru á hærri taxta," segja þeir til sannindamerkis um það að klámleikkonur hafi það í raun bara gott. "Ættu þessar kerlingar ekki frekar að vera að berjast fyrir launajafnrétti í kámmyndum," sagði einn við mig. Annar skrifaði svo: "Afhverju er svo alltaf talað um að þær konur sem leika í klámmyndum séu fórnarlömbin??? Þær eru á mun hærri launum heldur en karlmennirnir sem leika á móti þeim.  Engin minnist á það að karlmennirnir í kláminu séu tilneyddir til þess að leika í klámmyndum."

Málið er bara það að konur í klámmyndum eru ekki í hlutverki kvenna, þær eru bara kjöt með götum, "fucktoys" segja folarnir kampakátir.


Hjartað slitið úr Mosfellsbæ

Bryndís SchramFyrir rúmum tuttugu árum settu menn í Mosfelsbæ á skipulag vegspotta sem tengja átti íbúðahverfi við helstu umferðaræðar. Gatan sú átti að vera svonefnd safngata og þjóna 200 íbúa byggð. Á skipulaginu lá hún skammt frá verksmiðjuhúsum í niðurníðslu í kvos við Varmá og öllum var sama.

Það breytist margt á tuttugu árum, 200 íbúa byggðin verður víst 1200 manna og hrófatildrin í Varmárkvosinni breyttust í íbúðarhús, menningarsetur, listakvos, Álafosskvos.

Um það leyti sem ég byrjaði að skrifa um tónlist fyrir Moggann, fyrir rúmum tuttugu árum, var Mosfellsbærinn fyrir mér bara staður þar sem hægt var að kaupa bensín. Ekki löngu síðar höfðu samband við mig strákar úr Mosfellsbæ sem þá voru nýkomnir frá útlöndum.

AmiinaHljómsveitin þeirra hét Gildran, hafði verið á samningi hjá útgáfu sem ekkert varð úr, en ætlaði nú að hasla sér völl hér heima. Talsmaður Gildrunnar var Karl Tómasson, framúrskarandi trommuleikari, en Birgir Haraldsson sá um söng og gítarleik og Þórhallur Árnason var geysiþéttur bassaleikari. Ég heimsótti Gildruna í Mosfellsbæinn oftar en einu sinni og komst síðan í kynni við fleiri hljómsveitir sem ráku ættir sínar þangað.

Álafosskvosin tók að byggjast upp á þessum árum, ýmislegt hugsjónafólk tók til við að endurbyggja hús í kvosinni og fluttist síðan þangað. Þorlákur Kristinsson vinur minn kom sér þar upp vinnustofu og þangað kom ég á sýningar eða til að sníkja kafi. Annar vinur, Arnþór Jónsson, sellóleikari, settist þar líka að. Smám saman byggist upp sérstakt samfélag í kvosinni, einskonar listamannanýlenda, þó ekki hafi allir íbúarnir verið listaspírur.

Sigur RósÞað var alltaf tilhlökkunarefni að koma í kvosina, aka í gegnum steinsteypu- og malbiksmartröð og síðan eftir eina beygju og nokkur hundruð metra var maður kominn upp í sveit, fann hvernig spennan hvarf úr líkamanum við það eitt að stíga út úr bílnum í kyrrðinni, kominn til annars lands, í annan heim. Hér sló hjarta Mosfellbæjar.

Fyrir um áratug byrjuðu ungir strákar að æfa í bílskúr í Mosfellsbænum. Þeir byrjuðu á Smashing Pumpkins lögum en áttuðu sig snemma á því að það væri ömurlegt og fóru að semja eigin lög. Með tímanum óx þeim ásmegin og þeir tóku upp plötu í Mosfelslbænum, máluðu hljóðver til að borga fyrir stúdíótíma.

Steindór í ÁsgarðiNæstu plötu unnu þeir að miklu leyti í Reykjavík, en þeir héldu tryggð við uppruna sinn og um leið og kostur gafst komu þeir sér upp vinnuaðstöðu þar, keyptu sundlaugina gömlu í kvosinni og breyttu í hljóðver. Þegar Sigur Rós var búin að sigra heiminn, sneri hún heim í sína heimabyggð.

Vegspottinn sem settur var á skipulag fyrir tutugu árum óx og dafnaði ofan í skúffu hjá bæjarstjórninni, byggðin sem hann átti að þjóna blés út og hann stækkaði að sama skapi eins og ormur á gulli, glópagulli. Á þessu áttuðu menn sig skyndilega - byggðin í kvosinni hafði þróast til hins betra, Álafosskvosin iðaði af mannlífi og var orðinn einn helsti ferðamannastaður Mosfellsbæjar, en vegurinn þróast til verri vegar og orðinn að ófreskju. Að þvílíkri ófreskju að einsýnt er að verði hann lagður eins og ætlað er er úti um sérstöðu Álafosskvosarinnar, útséð um listalíf það sem, þar hefur þróast, hjartað slitið úr bænum.

Pétur BenÞað er svo gráglettni örlaganna að Gildrumaðurinn Karl Tómasson sé einn helsti fjandi menningarlífsins í kvosinni, nú orðinn forseti bæjarstjórnar.

Nú er það svo að vegaspottinn ógurlegi, Helgafellsvegur er opinbert heiti hans, liggur ekki í gegnum kvosina, en hann liggur utan í kvosinni á þannig stað að úti verður um friðsældina, mengun eykst umtalsvert og mikið lýti verður af þessari framkvæmd. (Það er svo til að bíta höfuðið af skömminni að bæjaryfirvöld skuli birta á vefsetri sínu skekkta mynd af svæðinu eins og sjá má ef smellt er hér. Þessi mynd er nefnilega teygð eins og menn sjá væntanlega um leið, en mér þykir líklegt að það sé fyrir aulagang, frekar en vísvitandi gert.)

Steindór og SigurðurÍ gær voru í Verinu vestur í bæ tónleikar til styrktar Varmársamtökunum, samtökum sem tekið hafa að sér að berjast fyrir lífi Álafosskvosarinnar. Mæting var fín á tónleikana, húsið fullt og rúmlega það, sennilega vel á áttunda hundrað gesta í húsinu.

Á tónleikunum léku hljómsveitir og tónlistarmenn sem unnið hafa í hljóðverinu í kvosinni, Sundlauginni, eða tengast henni á annan hátt. Fram komu Amiina, Sigur Rós, Pétur Ben, Dór DNA, Bogomil Font og Flís og Benni Hemm Hemm. Ýmsir komu einnig við sögu, fluttu tölur og kynningar, fóru með gamanmál og kváðu rímur. Best að taka það fram hér að ég tók þátt í þessari skemmtan, flutti stutta ræðu og kynnti Sigur Rós á svið.

Dóri DNABryndís Schram setti tónleikana, flutti inngangsorð. Henni höfum við margt að þakka, því það var hún sem settist fyrir framan gröfurnar og kom þessari geðveikisframkvæmd þannig í alla fjölmiðla, gerði baráttu í héraði að landsmálabaráttu. Hún nefndi það og í sínu spjalli að baráttan gegn vegnum um kvosina er liður í stærri baráttu, baráttu gegn umhverfisspjöllum og skeytingareysi stjótrnvalda víðar - við byrjum í kvosinni, sagði hún efnislega, næst björgum við Hafnarfirði og svo landinu öllu.

Fyrsta hljómsveit á svið var Amina, sem átt hefur margar stundir í Sundlauginni, en segja má að Amiina hafi verið á sviðinu stóran hluta kvöldsins, því Amiinu-stöllur léku einnig með Sigur Rós og Pétri Ben. Upphafslag þeirra var einskonar elegía vegna kvosarinnar, ábending um hvernig farið getur, en lokalagið upp fullt af von og kærleika. Frábært lag sem hljómað hefur í kollinum á mér síðan.

Sigur Rós spilaði órafmagnað, ef svo má segja, hljóðfæri mækuð upp en ekki rafmögnuð sjálf. Það fannst mér ganga vel upp og viðeigandi af þessu tilefni. Lokalag þeirra félaga var Ágætis byrjun sem segir frá því er þeir luku við Von, plötu sem varð að mestu til í Mosfellbæ, og tilfinningunum sem bærðust með þeim þegar þeir höfðu lokið við hana, léttinum og voninni.

Á fætur Sigur Rósar komu á svið félagar úr listasmiðjunni í Ásgarði og sögðu frá tilurð hennar og starfi sem mér fannst mjög merkilegt. Ég náð því miður aðeins nafni annars þeirra, Steindórs, en frásögnin var góð.

Bogomil FontPétur Ben hefur unnið talsvert í Sundlauginni, gert þar tvær bíómyndir og að auki eina breiðskífu. Sú skífa, Wine for My Weakness, var vel heppnuð og því gat maður átt von á góðum tónleikum frá Pétri. Hann stóð og undir þeim væntingum því frammistaða hans var hreint út sagt framúrskarandi og lögin komu frábærlega vel út, hvort sem þau voru af plötunni eða úr bíómynd.

Þeir félagar Steindór Andersen og Sigurður Sigurðarson, sem aldrei er kallaður annað en Sigurður dýralæknir, tróðu næstir upp, fóru með gamanmál, kveðlinga og vísur, og kváðu svo rímu sem þeir áður tóku upp undir brúnni við Sundlaugina. Mjög skemmtileg uppákoma og bráðfyndin.

UnaSteindór kynnti á svið Halldór Halldórsson, Dóra DNA, sem fór hreinlega á kostum í magnaðri ræðu. Hann byrjaði mál sitt á að rifja upp fyrsta sleikinn sem hann upplifði tólf ára gamall í kvosinni þjóðhátíðardag einn fyrir löngu Hann rakti síðan hve bæjaryfirvöldum í Mosfellsbæ hefur illa tekist upp í viðleitni sinni að gæða bæinn lífi. Sannar ekki Helgafellsvegurinn að þau horfa jafnan í ranga átt? Leyfa græðginni að ráða.

Bogomil Font söng einmitt um græðgina, Perlur fyrir svín, í fínni sveiflu. Frábær hljómnsveit Flís og Bogomil í fínu formi, en þess má geta að skömmu áður átti hann stjörnuleik á trommurnar með Pétri Ben.

Ung stúlka úr Álafosskvosinni, sem ólst þar upp og hefur búið frá barnsaldri, kynnti lokaatriði kvöldsins,  Benna Hemm Hemm, en sagði okkur í leiðinni stuttega frá lífinu í kvosinni, hvernig það var að alast upp þar, fyrstu árin innan um hálfhrunda hættulega kofa og úreltar verksmiðjur sem síðan öðluðust nýtt líf. Færði okkur aðeins nær fólkinu sem býr í kvosinni og vill fá að búa þar í friði - ekki óðelileg ósk, eða hvað.

benni Hemm HemmFáar hljómsveitir eru eins skemmtilegar á sviði og Benni Hemm Hemm, með sín epísku háreistu mögnuðu lög. Því miður fengum við ekki nema þjú lög að þessu sinni, en Benni og félagar stóðu sig frábærlega vel, slógu botninni í fjölbreytta og skemmtilega tónleika með góðan og göfugan tilgang.

(Björg Sveinsdóttir tók myndirnar. Sleppi mönnum við mynd af mér.)

Fékk "vinsamlega" ábendingu um að núlli væri ofaukið. Það hefur verið leiðrétt í færslunni.


Klipptur og skorinn Oliver Twist

Oliver TwistÞessi pistill byrjaði sem athugasemd við athugasemd við góða færslu um dálæti lögreglustjóra vor á Oliver Twist á Krummablogginu en teygðist svo úr henni að betur fer á að láta hana standa eina og sér.

Ekki kemur á óvart og svo grandvar og góður maður sem Stefán Eiríksson er hafi dálæti á þeirri fínu bók Oliver Twist og gera má ráð fyrir að hann sé gefinn fyrir fleiri bækur eftir þennan mikla meistara Charles Dickens. Í gegnum tíðina hafa bókmenntafræðingar átt það til að hnýta í hann fyrir að vera ekki nógu agaður, vandaður, sjálfum sér samkvæmur og guðmávitahvað, en þeir sem lesið hafa Dickens vita að það þar fer einn að helstu rithöfundum sögunnar, svo mikið er víst.

Charles Dickens var óhemju afkastamikill höfundur, eftir hann liggja fimmtán langar skáldsögur, talvert af öðrum skrifum og bréf hans skipta þúsundum (þess má geta til gamans að í bókum Dickens koma fyrir 13.143 persónur).  Áðurnefnd Oliver Twist var önnur skáldsaga hann og birtist sem framhaldssaga á árunum 1837 til 1839. Nú veit ég ekki hvaða útgáfu af Oliver Twist Stefán heldur upp á en í athugasemd Péturs Blöndal við fyrrnefnda færslu vitnar hann í bók sem bróðir hans fékk gefins "frá afa og ömmu á Rauðalæk". Af tilvitnuninni má ráða að þar sé um að ræða þýðingu Hannesar J. Magnússonar sem Æskan gaf út í fyrsta sinn 1943, en JPV gaf hana aftur út á síðasta ári. Sú þýðing er líklega gerð úr dönsku og mikið stytt; íslenska útgáfan er 367 síður með myndum og 10 punkta letri, en til samburðar má nefna að ensk útgáfa Oliver Twist frá Penguin, kilja með smáu letri, ca 8 punkta, er 477 síður.

Pétur vitnar í fræga uppákomu í bókinni þegar Oliver litli biður um meira af lapinu sem drengirnir fengu í kvöldverð:

"Ekki vænti ég, að ég megi biðja ráðsmanninn um meiri mat?"

Naumast verður með orðum lýst þeim áhrifum, sem þessi orð Olivers höfðu. Oliver var sjálfur næstum utan við sig af því að hugsa til þess, að hann hefði haft einurð til þess að mæla þessi orð. Ráðsmaður mátti ekki mæla fyrir skelfingu. Um stund starði hann á óróasegginn höggdofa, greip því næst hendi sinni til ketilsins til þess að styðja sig við falli. Eldakonurnar voru sem lostnar þrumu af undrun en drengirnir af ótta.

"Hvað var það sem þú sagðir?" mælti ráðsmaður og var þungt um mál.

"Ég bað ráðsmanninn um ofurlítið meira," svaraði Oliver aftur.

Ráðsmaður gaf nú Oliver utan undir með eysilnum, greip í öxl honum og kallaði hárri röddu á umsjónarmanninn.

Þetta kveld sat stjórnarnefndin á fundi og ræddi alvarleg málefni. Vissi hún ekki fyrr en signor Bumble æddi inn í salinn og var á honum fát mikið; gekk hann rakleiðis fyrir manninn í háastólnum og mælti:

"Herra Limbkins, Oliver Twist hefur beðið um meira!"

Felmtri sló á alla stjórnarnefndarmenn við þessi orð.

"Beðið um meira?" mælti maðurinn í háa stólnum.

"Verið þér nú rólegur, signor Bumble, og svarið mér greinilega. Á ég að skilja orð yðar svo, að hann hafði beðið um meira, eftir að hann hafði neytt þess matar, er honum bar að réttu samkvæmt reglugerðinni?"

"Já, það gerði hann, velæruverðugi herra!" svaraði Bumble.

"Hann hættir ekki fyrr en hann verður hengdur, og sannið þið nú til," mælti maðurinn í hvíta vestinu.

Enginn varð til að andmæla spádómi hans. Nú var haldinn fundur um þetta mál og var mönnum mikið niðri fyrir. Oliver var settur í varðhald þegar í stað, og næsta morgun var fest upp auglýsing og 90 krónum heitið hverjum manni, er létta vildi Oliver af sveitinni. Með öðrum orðum: 90 krónum og Oliver var heitið heitið hverjum þeim, karli eða konu, er óskaði lærlings í hverja iðn eða starf sem var.

"Aldrei hefi ég alla mína ævidaga verið eins sannfærður um nokkurn hlut, eins og ég er um það, að þessi drengur hættir ekki fyrr en hann verður hengdur," mælti maðurinn í hvíta vestinu, þegar hann las auglýsinguna næsta dag.

Þetta er skemmtileg frásögn, en heldur flöt ef litið er til upprunalegs texta:

'Please, sir, I want some more.'

The master was a fat, healthy man; but he turned very pale. He gazed in stupefied astonishment on the small rebel for some seconds, and then clung for support to the copper.  The assistants were paralysed with wonder; the boys with fear.

'What!' said the master at length, in a faint voice.

'Please, sir,' replied Oliver, 'I want some more.'

The master aimed a blow at Oliver's head with the ladle; pinioned him in his arm; and shrieked aloud for the beadle.

The board were sitting in solemn conclave, when Mr. Bumble rushed into the room in great excitement, and addressing the gentleman in the high chair, said,

'Mr. Limbkins, I beg your pardon, sir!  Oliver Twist has asked for more!'

There was a general start.  Horror was depicted on every countenance.

'For 'more'!' said Mr. Limbkins.  'Compose yourself, Bumble, and answer me distinctly.  Do I understand that he asked for more, after he had eaten the supper allotted by the dietary?'

'He did, sir,' replied Bumble.

'That boy will be hung,' said the gentleman in the white waistcoat.  'I know that boy will be hung.'

Nobody controverted the prophetic gentleman's opinion.  An animated discussion took place.  Oliver was ordered into instant confinement; and a bill was next morning pasted on the outside of the gate, offering a reward of five pounds to anybody who would take Oliver Twist off the hands of the parish.  In other words, five pounds and Oliver Twist were offered to any man or woman who wanted an apprentice to any trade, business, or calling.

'I never was more convinced of anything in my life,' said the gentleman in the white waistcoat, as he knocked at the gate and read the bill next morning: 'I never was more convinced of anything in my life, than I am that that boy will come to be hung.'

Annað dæmi um hve íslenska þýðingin er ólík frumtextanum er upphaf bókarinnar. Fyrsta málsgrein upprunalegrar útgáfa er svo:

Among other public buildings in a certain town, which for many reasons it will be prudent to refrain from mentioning, and to which I will assign no fictitious name, there is one anciently common to most towns, great or small: to wit, a workhouse; and in this workhouse was born; on a day and date which I need not trouble myself to repeat, inasmuch as it can be of no possible consequence to the reader, in this stage of the business at all events; the item of mortality whose name is prefixed to the head of this chapter.

Þýðingin hefst svo:

Í borginni Modfog var fátækrahæli, eins og í flestum öðrum borgum. Og í þessu fátækrahæli fæddist Oliver Twist.

Væntanlega hefur þessi útgáfa Æskunnar verið sérsniðin fyrir ungmenni og þýsk ungmenni fengu álíka takteringar því til er þýsk útgáfa af bókinni sem hefst svo:

Unter anderen öffentlichen Gebäuden befindet sich in Modfog, wie in den meisten großen und kleinen Städten, auch ein Armenhaus; in diesem wurde an einem Tag, dessen genaues Datum für den Leser unwichtig ist, Oliver Twist geboren.

Eins og sjá má er íslenska útgáfan enn styttri en sú þýska, þrjátíu og sex orð verða að átján. Sú þýska er líka aðeins nær upprunalegum texta, "on a day and date which I need not trouble myself to repeat" / "an einem Tag, dessen genaues Datum für den Leser unwichtig ist"

Þó er þýska útgáfan litlu betri en sú íslenska, sjá til að mynda næstu málsgrein:

Noch lange, nachdem der Arzt ihn in diese Welt der Sorgen und Mühen befördert hatte, war es sehr ungewisse ob er am Leben bleiben würde. Es war äußerst schwierig, ihn zum Atmen zu bringen; er lag keuchend und zuckend gleichsam auf der Grenzscheide dieser und jener Welt. Es war niemand in seiner Nähe außer einer alten, ein wenig vom Bier benebelten Frau und dem Armenarzt, der die Geburtshilfe kontraktmäßig leistete. Das Ergebnis war, dass Oliver endlich den Hausbewohnern sein Erscheinen in der Welt durch ein lautes Schreien ankündigte.

Als er dieses Lebenszeichen gab, hob eine bleiche, junge Frau den Kopf vom Kissen und flüsterte mit matter Stimme: "Lasst mich das Kind sehen und sterben."

Sem hljóðar svo í frumtextanum:

For a long time after it was ushered into this world of sorrow and trouble, by the parish surgeon, it remained a matter of considerable doubt whether the child would survive to bear any name at all; in which case it is somewhat more than probable that these memoirs would never have appeared; or, if they had, that being comprised within a couple of pages, they would have possessed the inestimable merit of being the most concise and faithful specimen of biography, extant in the literature of any age or country.

Although I am not disposed to maintain that the being born in a workhouse, is in itself the most fortunate and enviable circumstance that can possibly befall a human being, I do mean to say that in this particular instance, it was the best thing for Oliver Twist that could by possibility have occurred.  The fact is, that there was considerable difficulty in inducing Oliver to take upon himself the office of respiration,--a troublesome practice, but one which custom has rendered necessary to our easy existence; and for some time he lay gasping on a little flock mattress, rather unequally poised between this world and the next: the balance being decidedly in favour of the latter.  Now, if, during this brief period, Oliver had been surrounded by careful grandmothers, anxious aunts, experienced nurses, and doctors of profound wisdom, he would most inevitably and indubitably have been killed in no time.  There being nobody by, however, but a pauper old woman, who was rendered rather misty by an unwonted allowance of beer; and a parish surgeon who did such matters by contract; Oliver and Nature fought out the point between them.  The result was, that, after a few struggles, Oliver breathed, sneezed, and proceeded to advertise to the inmates of the workhouse the fact of a new burden having been imposed  upon the parish, by setting up as loud a cry as could reasonably have been expected from a male infant who had not been possessed of that very useful appendage, a voice, for a much longer space of time than three minutes and a quarter.

As Oliver gave this first proof of the free and proper action of his lungs, the patchwork coverlet which was carelessly flung over the iron bedstead, rustled; the pale face of a young woman was raised feebly from the pillow; and a faint voice imperfectly articulated the words, 'Let me see the child, and die.'

Snilldin er augljós í texta Dickens, til að mynda: "The fact is, that there was considerable difficulty in inducing Oliver to take upon himself the office of respiration,--a troublesome practice, but one which custom has rendered necessary to our easy existence" og "Now, if, during this brief period, Oliver had been surrounded by careful grandmothers, anxious aunts, experienced nurses, and doctors of profound wisdom, he would most inevitably and indubitably have been killed in no time."

Allt þetta er numið á brott til að auðvelda ungmennum að lesa söguna. Geri ekki athugasemd við það í sjálfu sér, en bendi mönnum á að lesa endilega frumútgáfur Dickens, en ekki íslenskar þýðingar (Nicholas Nickleby fær enn harkalegri meðferð, en það er önnur saga).


... úr allt annarri átt,

Cansei de Ser SexyÁrslistar eru til margs brúklegir en einna best nýtast þeir til að leita að nýrri músík, tónlist sem maður missti af á árinu eða hlustaði ekki nógu mikið á. Víst eru þeir oft svo almennar upptalningar að lítið er á þeim að græða, allir með nýju Dylan plötuna, Scott Walker (ein af þessum plötum sem kemst á lista án þess að menn geti hlutað á hana), Arctic Monkeys allstaðar, Yeah Yeah Yeahs líka og gott ef Band of Horses er ekki á öllum listum.

Skemmtilegast er að rekast á eitthvað sem maður þekkir ekki, að ekki sé talað um ef það er mikil snilld, og þó það gerist því miður ekki oft verður það æ algengara, hugsanlega vegna netvæðingar heimsins, skyndilega opnast fyrr mönnum að til er heill heimur tónlistar sem er fersk, framandlega og spennandi, við þurfum ekki að sitja föst í vestrænni rokkformúlu eða iðnaðarpoppi.

Það er kannski óskhyggja, en síðustu ár hefur mér sýnst ég sjá breytingu á árslistum hjá helstu plötuverslunum á Netinu og gott dæmi árslisti Amazon netverslunarinnar, þar sem tíundaðar eru bestu plötur að mati tónlistarritstjórnar verslunarinnar. Þegar skoðaðar eru þrjátíu bestu plöturnar gefur að líta allt það sem búast mátti við, Dylan, Beck, TV on the Radio og Hold Steady, svo dæmi séu tekin, en kemur á óvart hve margar plötur eru úr allt annarri átt, frá öðrum löndum en þessum venjulegu, Bandaríkjunum og Bretlandi. Fimm plötur er með breskum listamönnum, fjórtán bandarískar, en síðan eru plötur frá ýmsum löndum, ein frá Kanada, ein frá Venesúela, ein frá Ástralíu, tvær frá Malí, ein frá Mexíkó, ein frá Frakklandi, ein frá Noregi og þrjár frá Brasilíu.

Væntanlega þekkja margir kanadísku söngkonuna Neko Case, frönsku sveitina Gotan Project og Ástralina í Wolfmother. Eins má gera ráð fyrir því að einhverjir kannist við norska söngvarann Sondre Lerche og Malímennina Ali Farka Toure og Toumani Diabate, en sá fyrrnefndi lék eitt sinn hér á landi. Væntanlega þekkja svo fáir venesúelsku fjörkálfana í Los Amigos Invisibles, sem sendu frá sér stuðplötuna Superpop Venezuela og rataði á lista Amazon - blanda af fönki, dansdjass, merengue og diskó, en lögin á skífunni, sautján alls, eru einskonar saga venesúelsks vinsældapopps síðustu áratuga. Eins geri ég ráð fyrir að fæstir kannist við mexíkóska parið Rodrigo Sanchez og Gabriela Quintero, sem hafa þó náð hylli á Írlandi sem Rodrigo y Gabriela, en þau leika líflegt kassagítarpopp og taka meðal annars Zepplin-lummuna Stairway to Heaven og  Metallicu-lagið Orion á síðustu skífu sinni.

Af öðru forvitnilegu sem Amazon tínir til er þrjár skífur brasilískar; Tropicalia-safnplata, ný plata Badi Assad og einkar skemmtileg plata CSS, Cansei de Ser Sexy, sem er upp full með nýbylgjukenndu dansskotnu rokki - frábær plata.

Í áratugi hafa útgefendur skammtað okkur tónlist sem iðulega var frekar að sem þeim hentaði að selja frekar en það sem okkur langaði til að heyra og nú þegar netið hefur rutt þeim úr vegi að mestu uppgötvar maður ótalmargt nýtt, hvort sem það er á MySpace, YouTube.com, eMusic, Pitchforkmedia, Stylus Magazine, mundanesounds eða einhverju af þeim milljón músíkbloggum sem dreifa mis-löglegri tónlist.

(Þess má geta að Cansei de Ser Sexy, sem er á meðfylgjandi mynd, heitir eftir heimskulegu tilsvari Beyonce sem sagðist eitt sinn vera leið á því að vera kynþokkafull, cansei de ser sexy upp á portúgölsku.)


Keppt í lýsingarorðaklámi

Sigur Rós í MogganumÍ viðtali við Morgunblaðið fyrir nokkrum árum lét Atli Heimir Sveinsson þau orð falla að menn skyldu hafa hugfast að listir séu ekki íþróttakeppni, "listsköpun snýst ekki um að hreppa verðlaunasæti og enn hefur ekki verið sett heimsmet í listum," sagði hann. Það er nú samt svo að okkur finnst gaman að raða listamönnum í verðlaunasæti, velja bestu bækur, plötur eða myndir, fjasa um þær söluhæstu og svo má telja. Öðrum þræði er slíkt markaðstengt, þ.e. blöð velja lista til að selja fleiri eintök, útvarpsstöðvar spila topplista til að fleiri hlusti og svo má telja. (Líka er gaman að benda öðrum á einhverja snilld sem maður hefur sjálfur uppgötvað, en það er eiginlega til hliðar við þennan pistil.)

Alllengi hafa bókaútgefendur haldið úti bókmenntaverðlaunum sem nokkur sátt gefur verið um, en þau eru fyrst og fremst til að selja bækur, sýnist mér - eftir tilnefningu er merkimiða smellt á allar bækur sem tilnefndar hafa verið til að auka á þeim söluna. Nú veit ég ekki hversu vel hefur tekist til við þá söluaukningu, en skilst að sambærileg verðlaun bresk, Booker verðlaunin, hafi stóraukið sölu á þeim bókum sem tilnefndar eru. Íslensk tónlist á sér líka verðlaun, Íslensku tónlistarverðlaunin (hljómar eiginlega betur að segja Hin Íslensku tónlistarverðlaun, en kannski full hátíðlegt). Þau voru fyrst veitt 1993, en mér skilst að félagsmenn úr rokkdeild FÍH hafi verið upphafsmenn verðlaunanna, en síðastliðin ár hefur Samtónn "verið ábyrgðaraðili Íslensku tónlistarverðlaunanna" eins og það er orðað á síðu þeirra.

Fyrir þeim sem fylgjast með íslenskri tónlist hafa íslensku tónlistarverðlaunin eiginlega alltaf verið hálf hallærisleg og tilnefningar oft svo útúr kú að ekki er hægt annað en skella uppúr þegar þær eru lesnar. Hugsanleg skýring á þessu er að þeir sem um véla eru ekki að fylgjast með íslenskri tónlist og ég get borið vitni um það að í þau tvö skipti sem ég tók þátt í slíku vali var ég hissa á því hve sumt samstarfsfólk mitt í því vali, "samdómarar", var úti að aka, höfðu til að mynda ekki hlustað á alla þá diska sem velja átti úr, en völdu samt.

Tilnefningar vegna síðustu verðlauna þóttu mér til að mynda sérstaklega ankannanlegar, hljómsveit tilnefnd sem bjartasta vonin sem var að gefa út sína þriðju breiðskífu, tilnefnd hljómsveit sem ekki hafði gefið neitt út og svo má telja. (Vilji menn leita lengra aftur má nefna er Björk Guðmundsdóttir söng fyrir milljarða manna á Ólympíuleikunum árið sem Medúlla kom út og fékk enga tilnefningu þó.) Þetta ár er líka slæmt hvað þetta varðar að mínu viti, tilnefningarnar gefa mjög skakka og villandi mynd af tónlistarárinu og fyrir vikið eru Íslensku tónlistarverðlaunin sama ruglið og endranær. Hvernig stendur til að mynda á því að Sigur Rós er ekki tilnefnd fyrir að hafa spilað fyrir þorra þjóðarinnar á þessu ári með magnaðri tónleikaferð um landi síðsumars? (Ekkert tuð um að hún hafi ekkert gefið út, takk, annað eins hefur nú gerst.) Hvernig stendur á því að Jóhann Jóhansson er hvergi að finna? Hvernig stendur á því að Pældu í því sem pælandi (ýmsir flytja Megasarlög) er tilnefnd sem dægurtónlistarhljómplata ársins en Skakkamanage kemst ekki á lista?

Á síðu tónlistarverðlaunanna má síðan lesa rökstuðning dómnefndar sem er hvorki vandaður né ítarlegur: "Frábær frumraun söngkonunnar sem byrjaði að ferðast um heiminn með Gus Gus þegar hún var aðeins 15 ára gömul," segir til að mynda um plötu Hafdísar Huldar, en ekki ljóst hvort rökin fyrir tilnefningunni eru þau að frumraun hennar sé frábær eða að hún hafi ung lagst í ferðalög. "Popp með lúðrasveitaívafi er sjaldgæft og því sérstakt" segir í rökstuðningi vegna tilnefningar Kajak, þeirrar fínu plötu Benna Hemm Hemm. Þess má geta að hann fékk Íslensku tónlistarverðlaunin 2005 fyrir áþekka plötu.

Annars eru þessar "röksemdir" að mestu lýsingarorðaklám: "Afskaplega mikill gleðigjafi", "hljómsveitin sem íslenska þjóðin elskar að elska, aftur og aftur...", "Ein ferskasta rokkplata sem komið hefur út á Íslandi í langan tíma", "Heillandi nýliði ... " "Frábær frumraun ... " (aftur!), "Skemmtileg fjölbreytni ... ", "það er margt í mörgu" (!), ""Hressandi plata með suðrænni stemmningu", "Falleg tónlist ... Klassík fyrir popparana ... ?-)" (!), "Einn óvæntasti gleðigjafi ársins ... Algjör gullmoli!", " ... frábærir textar og æðislegar útsetningar", "SöngvarINN!", "Næstum fullkomið lag!", "Hún er sjúkleg á nýju ... plötunni ... ", "Ein sérstakasta gulrótin í matjurtagarðinum þetta misserið", "Óþarfi að segja meira".

Óttalegur vaðall er þetta. Hvað þýðir það til að mynda að einhver sé "SöngvarINN!"? Og hvað er átt við með þessum orðum: " ... hljómsveitin sem íslenska þjóðin elskar að elska, aftur og aftur..."? Óneitanlega setur þessi "rökstuðningur" Íslensku tónlistarverðlaunin í ankannalegt ljós, en hæfir skel kjafti.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Árni Matthíasson
Árni Matthíasson
Skoðanir á mönnum og málefnum á þessari síðu eru birtar með opnu notendaleyfi. Öllum er heimilt að tileinka sér þær og halda þeim fram sem sínum eigin.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband