Minnkandi ójöfnuður

Í ljósi þeirra hamfara sem nokkrir helstu auðjöfrar Íslands hafa nú gengið í gegnum (og sér ekki fyrir endann á) er ég steinhissa á að ekki hafi meira heyrst í þeim mæta hagfræðingi Stefáni Ólafssyni.

Málið er nefnilega það að eftir því sem milljarðar grósseranna hafa gufað upp hefur ójöfnuður minnkað í þjóðfélaginu eins og Stefán Ólafsson mælir hann, bilið milli ríkra og fátækra hefur mjókkað sem gerist vissulega þegar hinum ríku fækkar.

Úr orðum Stefáns mátti og lesa að ef sá ójöfnuður yrði minnkaður myndi hinum fátæku líða betur. Gengur það eftir?


Ómetanleg tónlistarhátíð

We Made GodTónlistarhátíðin Airwaves, sem stóð frá 17. til 21. október sl., hefur að nokkru á sér blæ kaupstefnu, enda var til hennar stofnað með það í hyggju að auka viðskipti; Flugleiðir vildu skapa hátíð sem draga myndi hingað ferðamenn á annars daufum tíma. Það féll svo vel að þeirri hugmynd að liðsinna íslenskum tónlistarmönnum í leiðinni; vænlegra þótti að fá hingað blaðamenn og útsendara plötufyrirtækja en senda út hljómsveitir að spila. Hvort tveggja hefur gengið eftir og vel það; Airwaves hefur vaxið svo fiskur um hrygg að hátíðin skilar kaupsýslumönnum milljónum og hljómsveitum athygli.

Því hefur verið haldið fram að Airwaves sé 3-500 milljóna króna innspýting í miðbæ Reykjavíkur ár hvert, enda talið að hingað komi allt að 600 manns að utan til að fylgjast með og grúi manna kemur í miðbæinn til að njóta þess sem þar er í boði.

Spurningunni um hvað tónlistarmennirnir fá fyrir sinn snúð er erfiðara að svara, enda spila flestir eða allir íslensku listamennirnir ókeypis á hátíðinni. Víst má nefna dæmi um hljómsveitir sem fengið hafa útgáfusamning í kjölfar Airwaves eða svo mikla fjölmiðlaathygli að fleytt hefur þeim áfram, en erfitt að meta hversu stóran þátt Airwaves átti í þeim samningum.

Ég held það velkist þó enginn í vafa um að Airwaves hafi verið íslensku tónlistarlífi lyftistöng og aukið grósku, fagmennsku og metnað íslenskra hljómsveita. Það er ómetanlegt að hafa svo veigamikinn viðburð til að stefna að og ótal dæmi voru um hljómsveitir sem blómstruðu einmitt á Airwaves að þessu sinni eftir stífar æfingar og undirbúning.

Þó vel hafi tekist til að þessu sinni og enn betur en á síðasta ári þarf hátíð eins og Airwaves samt að vera í sífelldri endurskoðun og stöðugri þróun. Menn hafa náð því markmiði að auka hag Icelandair á haustin og eins að ýta undir frekari metnað og dug íslenskra tónlistarmanna.

Uppselt hefur verið á Aiwaves undanfarin þrjú ár og spurning hvort það gefi ekki svigrúm til að bæta hana enn frekar hvað varðar aðkomu íslenskra listamanna að henni. Er ekki lag að styrkja enn faglegan þátt hátíðarinnar, að aðstoða þær hljómsveitir sem þátt taka í hátíðinni við að ná eyrum málsmetandi manna í útgáfuheiminum og eins að ná meiri umfjöllun í erlendum fjölmiðlum?

Af Airwaves 2007 er annars það að segja að meira var um atriði utan dagskrár en áður, sem veit vonandi á gott, og þeir sem nennu höfðu til gátu séð býsna mörg af forvitnilegustu atriðum hátíðarinnar á tónleikum víða um bæ, í 12 Tónum, Máli og menningu, Poppi, Rokki & rósum og Smekkleysu, Skífunni á Laugavegi og í Norræna húsinu. Meira að segja var hægt að hefja daginn með rokki og beikoni á Prikinu, ef sá gállinn var á mönnum, og víst að það er ógleymanlegt að hlusta á Rass á Prikinu kl. 10 á föstudagsmorgni.

Dagskráin í Norræna húsinu var metnaðarfull og margt skemmtilegt að sjá og heyra. Þar er líka svigrúm til að vera með faglegri dagskrá á næstu hátíð, hugsanlega fyrirlestra eða tilheyrandi.

Ekki sá ég margar af erlendu sveitunum, en þó nóg til að sjá að !!! er almögnuð tónleikasveit, Plants & Animals frábærlega forvitnileg og Buck 65 ævintýralega góður, en hann sá ég tvisvar og Plants & Animals reyndar þrisvar.

Af þeim tæplega sextíu íslensku hljómsveitum sem ég sá spila vöktu mesta athygli mína Hjaltalín, sem blómstraði í Listasafninu, We Made God, sem var ótrúlega kraftmikil á Gauknum, Skakkamanage, sem átti tvöfaldan stjörnuleik á Nasa, FM Belfast, sem ég sá fjórum sinnum spila þessa Airwaves-daga, Mugison, sem Sammi lýsti svo: "þetta var eins og að vera nauðgað af nashyrningi", hin fjölmenna og fjölhæfa Retro Stefson, múm, sem átti frábæran leik í Listasafninu, og svo Dr. Spock, sem sýndi að öfgar göfga – viðlíka geggjun hefur ekki sést á sviði.

Aðrar íslenskar hljómsveitir sem stóðu sig afburðavel: Perla, For a Minor Reflection, Soundspell, Benni Hemm Hemm, Bloodgroup, Ghostigital, Kimono, Jónas Sigurðsson, My Summer as a Salvation Soldier, Ólöf Arnalds, Sprengjuhöllin og æringjarnir í 1985!

(Björg Sveinsdóttir tók myndina.)


Airwavesdagar

Airwaves 2007Það eru góðir dagar framundan - Airwavesdagar. Hátíðin mikla hefst í dag og dagskráin að mörgu leyfi mjög nýsileg. Reyndar er íslenski pakkinn ekki eins spennandi og oft áður, fullmikið af hljómsveitum sem reyna svo mikið að vera útlenskar eða alþjóðlegar að þær missa allan sjarma. Svo heita þær margar svo hallærislegum nöfnum.

Þrátt fyrir það er fullt af skemmtilegu stoffi í boði, svo fullt að það var erfitt að setja saman dagskrá fyrir kvöldin. Hér er fyrsta tillaga að slíku sem á eflaust eftir að breytast umtalsvert, sérstaklega þegar á líður hvert kvöld, en svo er líka títt að fólk sem maður hittir á förnum Airwaves-vegi gefi góð ráð og ábendingar.

Nokkuð er um árekstra og þá verður ákvörðun tekin á staðnum eftir stemmningu og líkamlegu ástandi. Stundum er það og svo að það sem maður ætlaði að sjá stenst ekki væntingar og þá er stokkið á eitthvað annað, nú eða eitt eða tvö lög eru nóg. Svo getur sett strik í reikninginn ef aðsókn á eitthvað er svo mikil að maður kemst ekki inn. Það verður til að mynda örugglega erfitt að komast inn á Nasa að sjá of Montreal á föstudagskvöld og !!! á laugardagskvöld.

 

Eitthvað hefur svo að segja að ég er þátttakandi í ráðstefnu um stafræna dreifingu á afþreyingu á miðvikudag og get því ekki byrjað eins snemma þann daginn og ég hefði kosið, og svo verð ég með opin viðtöl í Norræna húsinu á föstudag, meðal annars við Bubba Morthens, og veit ekki hvað við fáum mikinn tíma.

Miðvikudagur
16:40Pop, Rokk & rósir and SmekkleysaBertel!
17:0012 tónarRökkurró
17:3012 tónarGavin Portland
17:40Pop, Rokk & rósir and SmekkleysaSkakkamanage
18:00Mál & menningSprengjuhöllin
18:10SkífanPétur Ben
18:50SkífanHjaltalín
19:30NASARúnar Þórisson
20:15Grand rokkFor a Minor Reflection
20:40GaukurinnOriginal Melody
21:00NASAElíza
21:00OrganB. Sig
21:45NASASmoosh
22:30NASASoundspell
22:30OrganSolid Gold
22:45GaukurinnPoetrix
23:15Grand rokkVicky Pollard
23:30Gaukurinn1985!
00:00Grand rokkAlræði öreiganna
00:15GaukurinnXXX Rottweiler


Fimmtudagur
13:00Norræna húsiðBoys in a Band
13:30Norræna húsiðSprengjuhöllin
16:00Pop, Rokk & rósir and SmekkleysaSmoosh
16:3012 tónarKhonnor
16:40Pop, Rokk & rósir and SmekkleysaElíza
17:00Mál & menningJónas Sigurðsson
17:1512 tónarÓlöf Arnalds
17:30Mál & menningSeabear
17:50SkífanLay Low
18:0012 tónarPlants and Animals
18:30SkífanSprengjuhöllin
19:30Listasafn ReykjavíkurWorm is Green
20:15GaukurinnWe Made God
21:00Listasafn ReykjavíkurJenny Wilson
21:00OrganÚlpa
21:15IðnóMy Summer as a Salvation Soldier
21:30NASARetro Stefson
21:45Grand rokkThe Nanas
22:00IðnóÓlöf Arnalds
22:30OrganKimono
23:00Listasafn ReykjavíkurGrizzly Bear
23:15Grand rokkRoyal Fortune
 0:00OrganKhonnor


Föstudagur
10:00PrikiðRock & bacon morning, Rass
13:00Norræna húsiðLay Low
13:30Norræna húsiðJenny Wilson
14:00BabalúGUM
15:00BabalúJoana
16:00KaffibarinnGreg Haines
16:30KaffibarinnNico Muhly
17:00Norræna húsiðSpecial event: Open interviews
18:0012 tónarAnnuals
18:30SkífanJakobínarína
19:15FríkirkjanSteintryggur + Ben Frost
19:45OrganBúdrýgindi
20:00NASAMr. Silla & Mongoose
20:30LídóSverrir Bergmann
20:45NASABloodgroup
21:15OrganTheatre Fall
21:30NASASkakkamanage
22:00LídóBenny Crespo's Gang
22:15IðnóPlants & Animals
22:45LídóPétur Ben
23:00NASAMotion Boys
23:15IðnóForgotten Lores
 0:00Listasafn Reykjavíkurof Montreal
 1:15NASAGhostigital
 2:00NASAHairdoctor


Laugardagur
12:30Norræna húsiðÓlöf Arnalds
13:00Norræna húsiðFrost
13:30Norræna húsiðSeabear
14:00Norræna húsiðBenni Hemm Hemm
14:30Norræna húsiðRadio LXMRG
15:00Pop, Rokk & rósir and SmekkleysaBloodgroup
15:4512 tónarLost in Hildurness
16:00Norræna húsiðMotion Boys
16:30Mál & menningFM Belfast
17:3012 tónarReykjavík!
18:00FríkirkjanAmiina
19:00Nakti apinnSolid Gold
19:45OrganForeign Monkeys
20:00NASABob Justman
20:30LídóVédís
20:30OrganDrep
20:45IðnóTied & Tickle Trio
21:15LídóKenya
21:30Listasafn ReykjavíkurHjaltalín
22:00LídóVilHelm
22:15NASAMugison
22:30BarinnJohnny Sexual
23:00IðnóBenni Hemm Hemm
23:30OrganOurlives
 0:00GaukurinnChromeo
 0:00NASA!!!
 1:00GaukurinnFM Belfast
 1:00IðnóMammút
 1:15Grand rokkÉg


Sunnudagur
16:00Mál & menningBabar
16:30Mál & menningSkakkamanage
16:30SkífanMúgsefjun
22:30GaukurinnÓákveðið
22:30OrganCoral
23:15GaukurinnÓákveðið
23:15OrganÓákveðið
 0:00GaukurinnCut off Your Hands
 0:00OrganÓákveðið



Kyljur í Kiljan eða kilju

kiljan-4Kiljan, bókmenntaþáttur Egils Helgasonar, hóf göngu sína í vikunni í Sjónvarpi ríkisins. Þátturinn fór vel af stað fannst mér og lofar góðu. Skemmtilegast af öllu var þó að heyra í Páli Baldvini Baldvinssyni, öðrum "álitsgjafa" Egils, sem hann nefndi svo, því hann var úti á þekju í gagnrýni sinni á Bókmenntahátíðina í Reykjavík 2007.

Menn með skoðanir eru skemmtilegir, en skoðanir Páls Baldvins eru skondnar fyrir það hvað hann virðist illa að sér um bókaútgáfu nú um stundir. Þannig kom fram í máli hans að "hópur útgefenda" hefði ákveðið "að dúndra [...] út þýðingum sem að væntanlegar hafa verið, rétturinn hefur verið keyptur að þeim bókum fyrir einhverjum einum, tveimur árum, af því þær gerðu það gott í útlöndum, og það er búið að þýða þær úr ýmsum málum og mér sýnist að þær séu nú flestar þýddar úr ensku".

Núorðið er það aftur á móti svo alla jafna að útgáfuréttur á bókum er keyptur mun fyrr en tíðkaðist á árum áður, bækur eru iðulega keyptar í handriti, og útgáfuréttur á mörgum af þeim bókum sem um ræðir var örugglega keyptur áður en þær komu út og líklega rétturinn á velflestum áður en þær "gerðu það gott í útlöndum".

Að sama skapi er sérkennileg sú staðhæfing að þær séu flestar þýddar úr ensku, því bókunum sem komu út um daginn var snarað úr ensku, þýsku, dönsku og ítölsku.

Það þriðja sem nefna má er að þetta er fráleitt sorplitteratúr þótt einhverjar bækurnar seljist vel og þarf eiginlega ekki að ræða það; bók verður ekki betri fyrir það að enginn vilji lesa hana og ekki verri fyrir það að margir vilji gera það.

Skemmtilegast af öllu var þó að rekast á þá gömlu goðsögn að allt hafi verið betra hér áður fyrr, eða eins og Páll Baldvin orðar það:

"[Á] síðustu öld sáum við alveg gríðarlegt magn af vönduðum þýðingarverkum [...] eru þýðingarnar að taka á sig meira iðnaðarsnið, er verið að skófla inn litteratúr sem er kannski ekki í rosalega háum gæðum?"

Nú er það vissulega svo að á árum áður, fyrri hluta síðustu aldar til að mynda, var gríðarlega mikið gefið út af vönduðum bókmenntaverkum af miklum metnaði meðal útgefenda og þýðenda (þótt margar bókanna hafi ekki verið þýddar úr frummálinu). Það vill þó gleymast að þessi tími, árin frá þarsíðustu aldamótum og fram yfir seinna stríð, voru líka blómatími reyfaranna, sem eru alla jafna taldir lakur litteratúr, þótt skemmtilegir séu. Gríðarlega mikið var gefið út af slíkum ritum aukinheldur sem legíó reyfara var birt í dagblöðum. Í því ljósi breytist menningarlega háhýsahverfið í ósköp venjulegt borgarhverfi með blöndu háhýsa og lágreistra kofa, tvílyftra tvíbýla og einlyftra heildsalahalla; ekki svo frábrugðið því sem gerist í dag, eða hvað?

Svo er það hitt, að megnið af þessari blómlegu útgáfu sem við sjáum í hillingum, gróskan og menningarleg þrekvirki síðustu aldar byggðust á hálfgerðri sjóræningjastarfsemi. Málið er nefnilega það að þessar þýðingar voru yfirleitt gefnar út án þess að spyrja kóng eða prest og án þess að borga fyrir útgáfuréttinn – það þótti merkilegt ef bók var merkt svo að hún væri þýdd með leyfi höfundar.

Árið 1905 voru sett hér á landi lög um höfundarrétt og þar á meðal þýðingarrétt, en gætt að því að hafa ekki nema tíu ára vernd frá útgáfu – eftir það máttu menn taka bækur frillutaki. Skömmu fyrir hvítasunnu 1947 gerðust Íslendingar síðan aðilar að Bernar-samþykktinni um "rithöfundarétt og prentfrelsi", en með þeim fyrirvara þó að 10 ára ákvæðið myndi halda.

1952 var undirritaður í Genf nýr sáttmáli sem kvað á um meiri vernd hugverka og nú kveðið á um að verndin entist ævi höfundar og fimmtíu ár til viðbótar. Þetta gátu Íslendingar ómögulega sætt sig við og fimm manna nefnd á vegum alþingis sem skipuð var fulltrúum rithöfunda og bókaútgefenda lagði til að Íslendingar gerðust ekki aðilar að sáttmálanum nema með þeim skilyrðum að þýðingarvernd erlends höfundar gilti aðeins 25 ár frá því viðkomandi rit var fyrst gefið út.

Í umræðum um þetta mál birtist heilsíðugrein í Morgunblaðinu í mars 1947 þar sem tekið var undir þetta sjónarmið, enda myndu íslenskir bóka- og blaðaútgefendur ekki geta borgað sama fyrir þýðingarrétt og erlend stórfyrirtæki. Ekki fannst höfundi þeirrar greinar svo við hæfi að bera fyrir sig smæð lands og þjóðar þegar sótt væri um leyfi til þýðinga – Íslendingum væri ekki sæmandi að betla. Honum virðist aftur á móti hafa þótt í lagi að stela.


Íslendingar eru dauðyflislegir, skaðlega íhaldssamir og gríðarlega latir

Baring-GouldSabine Baring-Gould fæddist í Exeter 1834. Faðir hans var öryrki, en hafði áður starfað hjá Austur-Indíafélaginu breska. Hann eyddi vetrinum jafna í ferðalög um Evrópu til að forðast vetrarleiðindi heima fyrir og því fékk pilturinn stopula menntun og þannig var barnaskólanám hans aðeins nokkrir mánuðir haustið 1846. Það er þó sagt að hann hafi lært sex tungumál á þrettán ára ferðum um Evrópu með föður sínum.

Þrátt fyrir litla menntun komst Sabine Baring-Gould í gegnum nám við Cambridge, lauk BA gráðu 1857 og síðan MA 1860. Hann vildi verða prestur en foreldrar hans meinuðu honum það, faðir hans vildi að hann yrði verkfræðingur. Næstu árin starfaði Baring-Gould því sem kennari, en er móðir hans lést skipti faðir hans um skoðun og Baring-Gould var vígður til prests 1866 og réðst sem aðstoðarprestur í Horbury í Vestur-Jórvíkurskíri.

Í Horbury hitti Baring-Gould unga stúlku, Grace Taylor, sem var sextán ára en hann var þá þrjátíu og tveggja ára. Hann hreifst svo af henni að hann ákvað að giftast henni. Áður en af því gæti orðið fannst honum þörf á að mennta hana og sendi hana því til náms þar sem hún átti að læra að lesa og skrifa og tala almennilega ensku. Hann giftist henni svo tveimur árum síðar, en það er til marks um hvað ættingjum þeirra fannst um ráðahaginn að hvorki komu foreldra hans eða hennar til brúðkaupsveislunnar. Þrátt fyrir það var hjónabandið hamingjuríkt og traust, stóð allt til hún lést 1916, og alls eignuðust þau fimmtán börn. Því hefur verið haldið fram að samband Sabine Baring-Gould og Grace Taylor hafi verið George Bernard Shaw kveikja að Pygmalion, en þeir munu hafa verið kunningjar Sabine-Gould og Shaw.

Baring-Gould þjónaði sem prestur á nokkrum stöðum, en 1881 fluttist hann á ættarsetur sitt, tók við prestskap í sýslunni og eyddi ævinni í að endurbyggja hús sitt í þýskum stíl, endurreisa kirkju staðarins og hugsa um 350 sálna söfnuð sinn. Tekjur af sókninni voru eðlilega litlar, en Baring-Gould borgaði fyrir allt saman með skrifum sínum, aðallega með vinsælum skáldsögum. Næstu árin safnaði hann líka þjóðlögum í Devon og Cornwall og taldi jafnan sitt helsta afrek, en hann fór víða um, heimsótti söngvara og söngkonur og skrifaðu upp eftir þeim texta og lög. Textarnir sem sungnir voru á alþýðuheimilum í sveit á þessum árum þóttu margir svo óheflaðir að Baring-Gould "lagfærði" þá, hreinsaði úr þeim það sem honum fannst dónaskapur, en leyfði þó ýmsu að standa.

Sabine Baring-Gould lést 1924.

Fjölmargar sögur eru til af sérvisku hans, flestar líklega uppspuni eða færðar í stílinn, en það er þó líklega satt að hann kenndi með tamda leðurblöku á öxlinni og líka trúleg sú saga að hann sagði við telpu í veislu: "Og hver á þig, gæskan", en hún svaraði og brast í grát: "þú átt mig, pabbi". Í Wikipediu kemur líka fram að eitt barnabarna hans, William Stuart Baring-Gould, sem var mikill Sherlock Holmes fræðingur, hafi skrifað uppdiktaða ævisögu Holmes, en byggt hana að nokkru á ævi Sabine Baring-Goulds.

Baring-Gould var hamhleypa til allra starfa og þannig eru ríflega 1.200 atriði í skrá yfir verk hans. Þar af voru um 500 bækur, þar af tugir skáldsagna, en sagt er að á sínum tíma hafi hann verið tíundi vinsælasti höfundur Bretlandseyja þó felst hans verk séu gleymd í dag nema grúskurum. Sálmurinn Áfram Kristsmenn krossmenn lifir þó enn, en þann samdi Baring-Gould á tíu mínútum, eins og hann lýsti því, fyrir skóladrengi í Hurtspierpoint í Sussex, þar sem hann starfaði sem kennari.

Íslandsáhugi Baring-Goulds kviknaði í Hurtspierpoint, en þar kenndi hann sjálfum sér íslensku með aðstoð þýsk-íslenskrar orðabókar og þýddi íslenskar fornsögur á ensku og endurskrifaði sem barna- og unglingasögur fyrir piltana sem hann kenndi. Þessi áhugi jókst með tímanum og á endanum ákvað hann að fara í ferð til íslands. Hann fékk lán hjá föður sínum, en síðan ætlaði hann að fjármagna ferðina með því að skrifa bók um hana.

Baring-Gould landakortBaring-Gould sigldi til Íslands á danska gufuskipinu Arcturus sem flutti varning og farþega á milli Kaupmannahafnar, skoska bæjarins Grangemouth, Færeyja og Reykjavíkur. Hann hugðist fara frá Reykjavík til Þingvalla, þaðan til Kalmannstungu, og Arnarvatn til Hnausa, þá til Akureyrar og Mývatns, síðan suður Austurland að Eyjabakkajökli, vestur eftir Vatnajökli, og norður Sprengisand aftur til Akureyrar. Þegar hann kom í Reykjahlíð varð ljóst að grasspretta hefði verið svo lítið á hálendinu norðan Vatnajökuls að ekki væri óhætt að fara svo langa leið á hestbaki og því sneri hann aftur til Reykjavíkur er fór þó ekki nákvæmlega sömu leið til baka. Alls tók ferðalagið fjörutíu daga og fjörutíu nætur, en hann leit Ísland fyrsta sinn 15. júní 1862

Eins og fyrirhugað var skrifaði Sabine-Gould bók um ferðalag sitt, Iceland: It's Scenes and Sagas kom út 1863 í vandaðri útgáfu, ríkulega myndskreytt af lituðum teikningum eftir Baring-Gould og með skýringarmyndum, meðal annars myndum af íslenskum galdrastöfum (sem hann segist birta fyrir þá lesendur sína sem fáist við svartagaldur), 447 síður alls í kvartbroti. Hún var ófáanleg í marga áratugi, en 2004 var hún fáanleg í bresku sérprenti og 2005 í bandarísku sérprenti. Signal-útgáfan í Oxford gaf bókina síðan út í almennri útgáfu með ítarlegum inngangi eftir Martin Graebe, en Graebe var staddur hér á landi fyrir skemmstu og kynnti þá útgáfuna með skemmtilegum fyritrlestri. 
 
Baring-Gould skrifaði líka tímaritsgreinar um ferð sína og sendi frá sér tvær skáldsögur sem hann byggði á Íslendingasögunum, "Grettir the Outlaw", sem kom út 1890, og "The Icelander’s Sword", sem kom út 1858.

Iceland: It's Scenes and Sagas er stórmerkileg bók aflestrar, enda var Baring-Gould svo vel undirbúinn undir ferðina að undrum sæti. Inngangur bókarinnar er til að mynda einkar góð lýsing á Íslandi, landháttum og íbúum og sögu lands og þjóðar með ýtarlegri tölfræði (1858 sviptu 3 menn sig lífi, 65 drukknuðu, 17 létust af öðrum slysförum og 1.939 létust á sóttarsæng og svo má lengi tína til dæmi). Skemmtileg frásögn er þar og til að mynda af Jörundi hundadagakonungi frá sjónarhorni Englendings.

Íslenskukunnátta Baring-Goulds gerði honum kleift að ræða við hvern þann sem hann hitti á leiðinni og hann var sífellt að spyrja menn spjörunum úr. Eftirminnilegt er til að mynda samtal sem hann á við bónda á Arnarvatnsheiði þar sem þeir ræða landsins gagn og nauðsynjar og síðan álit almennings á skattheimtu og dönskum stjórnvöldum. Hann var líka naskur á að skrifa niður nótur að sálmum sem hann heyrði, greinir íslenska skáldskaparhefð, mældi út fjölda húsa sem hann gisti í og gefur greinargóða lýsingu á búskaparháttum og húsakynnum, en hann fjallar líka mikið um dýralíf á Íslandi og landslag það sem verður á leið hans - maður kemur aldrei að tómum kofanum hjá honum.

Í lok bókarinnar er meira að segja ítarleg skrá yfir hve miklu hann eyddi hvern dag í ferðinni og í hvað. Þar má til að mynda sjá að 20. júlí borgar hann bóndanum á Bjargi einn dal fyrir að hafa rofið fyrir sig vörðu og gefur honum 30 mörk í drykkjufé. Skömmu áður, 17. júlí, borgaði hann bóndanum á Víðimýri 2 dali fyrir mat og óhreinindi og 22. júlí borgar hann bóndanum á Mel í Hrútafirði 2 dali fyrir "alls ekkert".

Að þessu sögðu þá er rétt að lesa bókina með það í huga að Baring-Gould færir víða í stílinn til að gera bókina læsilegri. Hann skýtur til að mynda inn heilu köflunum úr Íslendindasögum til að gæða textann lífi, lætur sem svo að eitthvað sem bar fyrir augu hafi orðið ferðafélögum hans tilefni til spurninga og hann svarað með því að fara með langan kafla úr Grettlu eða annarri sögu. Hann hélt reyndar mikið upp á Grettlu og það verður að segjast eins og er að þýðing hans er býsna lífleg:

Þórir mælti þá: "Ver eigi stygg húsfreyja. Enginn missir skal þér í verða þó að bóndi sé eigi heima því að fá skal mann í stað hans og svo dóttur þinni og öllum heimakonum."

"Slíkt er karlmannlega talað," segir Grettir, "mega þær þá eigi yfir sinn hlut sjá."

Verður svo í meðförum Baring-Gould:

"You need not scream before you are hurt, my good woman," quoth Thorir: "you will want all your words for to-morrow, when I shall carry you and your daughter away with me, and you will have to say good-by to home for many a day. What think you of that?"

"Capital!" roared Grettir. "That is capital."

Alla jafna ber Baring-Gould Íslandi og Íslendingum vel söguna, en á það til að hnýta í menn á skemmtilega meinhæðinn hátt. Sjá til að mynda þessa lýsingu: "Persónugerð [Íslendinga] er með þeim hætti að þeir eru dauðyflislegir, skaðlega íhaldssamir og gríðarlega latir. Þeir hafa sérstakt lag á að vinan verk á eins klaufalegan hátt og mögulegt er. Þegar súrra á kassa, til að mynda, horfir hinn innfæddi á verkið í nokkrar mínútur til að átta sig á hvernig megi binda hann á sem óhagkvæmastan og ólögulegastan hátt, og gefur sér síðan góðan tíma til að vinna verkið einmitt á þann hátt."

Stytt úgáfa þessarar færslu birtist i Lesbók Morgunblaðsins.


Aðskildir og ójafnir

race-beatÁrin frá 1955 til 1968 voru mikill átaka og örlagatími í Bandaríkjunum. Blökkumenn í Suðurríkjunum bjuggu við mismunun og fordóma og svo kom að þeir sættu sig ekki við að vera annars flokks og hófu baráttu til að fá því breytt. Á ýmsu gekk í þeirri baráttu og í bókinni The Race Beat, eftir blaðamennina Gene Roberts og Hank Klibanoff, er því haldið fram að veigamikill þáttur í því að blökkumenn báru sigur úr býtum sé sá að þeir nýttu sér fjölmiðla á skipulegan hátt, enda gekk það gersamlega fram af þorra Bandaríkjamanna þegar þeir sáu hvaða ofbeldi fólk var beitt sem sóttist eftir mannréttindum sem áttu þó að teljast sjálfsögð þar vestan hafs.

Eitt af því sem vekur athygli við lestur bókarinnar er að á þessum árum var til grúi dagblaða og tímarita sem blökkumenn gáfu út, 1951 voru 175 slík blöð gefur út vestan hafs, og eins það hve þau voru óvægin í gagnrýni sinni á kynþáttafordómana og aðskilnaðarstefnuna sem gegnsýrði bandarískt þjóðfélag. Þessi fjöldi blaða sem gefinn var út ber því vitni að frelsi fjölmiðla var virt í Bandaríkjunum, þó hluta skýringarinnar á því af hverju þau fengu að starfa í friði sé eflaust líka að leita í því að þetta voru blöð fyrir blökkumenn og hvítum lesendum datt ekki í hug að lesa þau.

Ákveðinn vendipunktur í baráttu blökkumanna fyrir mannréttindi var þegar hæstiréttur Bandaríkjanna felldi þann úrskurð að aðskilnaðarstefnan væri brot á stjórnarskránni. Í því gekk hæstiréttur þvert á eldri dóm, mál frá 1896, en í þeim dómi var staðfest að ríki mættu koma upp aðskilnaði svo framarlega sem kynþættirnir nytu sömu réttinda; væru "separate but equal". Fljótlega varð þó ljóst að þetta voru bara orðin tóm, þ.e. það sem sneri að jafnrétti, því þó flest suðurríkjanna kæmu sér upp sérstökum skólum fyrir svarta var allur aðbúnaður þar mun lakari en í skólum fyrir hvíta, húsnæði lélegt, skólagögn fátækleg og fátt um kennara.

Þessi ákvörðum hæstaréttar hleypti illu blóði í marga suðurríkjamenn, en gagnrýni þeirra byggðist ekki bara á kynþáttafordómum. Nokkrum hóp manna fannst þannig úrskurðurinn vera íhlutun alríkisins í mál sem væri fylkjanna sjálfra að stjórna (umræða sem enn er hávær vestan hafs, þ.e. að hve miklu leyti alríkisstjórnin eigi að setja lög, til að mynda varðandi réttindi samkynhneigðra). Öllu háværari bar þó sá hópur sem byggði afstöðu sína að mestu á kynþáttafordómum, eða þannig birtist það í það minnsta lesanda uppi á Íslandi, þó eflaust hafi iðulega legið flóknari ástæður að baki. Þeirra sjónarmið urðu snemma áberandi í ljósi fjölda ofbeldisverka - líkamsárása, brennuárása og morða auk þess sem lynching, aftökur án dóms og laga, fjölgaði til muna.

Forystumönnum blökkumanna varð snemma ljóst að eina leiðin til að ná árangri í baráttunni væri að ná til almennings í norðurríkjum Bandaríkjanna og eins þóttust þeir vissir um að margir kristnir suðurríkjamenn myndu snúa baki við aðskilnaðarstefnunni ef þeir sæju harðræðið sem blökkumenn voru beittir. Baráttu þeirra var líka stýrt markvisst eftir því hvað búast mætti við ofsafengnustum viðbrögðum yfirvalda, leitaðir voru uppi þeir lögreglustjórar sem áttu erfiðast með að hemja sig og þar var látið sverfa til stáls. Fyrir vikið meiddust fleiri og líka biðu fleiri bana í baráttunni, en sjónvarpsáhorfendur og lesendur blaða og frétttímarita trúðu ekki sínum eigin augum þegar þeir sáu lögreglumenn og skríl berja snyrtilega kurteisa blökkumenn sem sóttust eftir því einu að fá að kjósa eða fá afgreiðslu á veitingastað.

Dæmi um það hvernig sterk áhrif fjölmiðlaumfjöllun hafði var er lögreglumenn réðust á friðsama göngu blökkumanna af mikilli grimmd skammt frá borginni Selma 7. mars 1965. Blaða- og sjónvarpsmenn voru þar og kvikmynduðu átökin og ein fréttastöðin, ABC, rauf dagskrá til að sýna myndir frá átökunum í miðri kvikmynd. Það var svo til að ýta enn undir reiði áhorfenda að myndin sem var rofin var Judgement at Nuremberg, leikin mynd um stríðsglæparéttarhöldin yfir frammámönnum þýskra nasista, því fyrir vikið fannst þeim sem þeir væru að horfa upp á viðlíka viðurstyggð í sínu eigin landi. Í kjölfarið stóðu hundruð manna upp frá sjónvarpstækjunum og fóru beina leið til Selma til að taka þátt í baráttu blökkumanna, sumir án þess að skipta um föt og margir án þess að hafa efni á því; fóru með bílum, lestum, hestvögnum, á puttanum eða fótgangandi.

Eftir því sem þrýstingur jókst frá stjórnvöldum hertust margir suðurríkjamenn í afstöðu sinni og aðskilnaðarstefnunni, segregationism (sem má kannski snara sem "fjölmenning"), sótti í sig veðrið. Ýmsir stjórnmálamenn gerður út á óánægju almennings með réttindabaráttu blökkumanna með góðum árangri - eftir því sem þeir voru glannalegri í yfirlýsingum þeim mun meira fylgi fengu þeir í kosningum.

Þessi bók er merkileg lesning og þó hún sé frásögn af mikilli kúgun og mannvonsku, þá er hún fyrst og fremst hylling mannsandans, þeirra fjölmörgu sem lögðu allt að veði til að berjast fyrir frelsi sínu og annarra og um leið vitnisburður um hve miklu máli það skiptir að í landi séu frjálsir fjölmiðlar.

Sovétmenn bentu iðulega á hlutskipti blökkumanna vestan hafs á sjötta og sjöunda áratugnum til að sýna fram á að líf þar væri lakara en austan járntjalds. Víst má taka undir það að þeir þurftu að þola ýmsar þrautir í baráttu sinni fyrir því sem alla jafna voru talin sjálfsögð mannréttindi fyrir hvíta, en ekki má gleyma því að fyrir tilstilli óháðs dómskerfis og frjálsra fjölmiðla vannst sigur.


The Race Beat - The Press, the Civil Rights Struggle, and the Awakening of a Nation eftir Gene Roberts og Hank Klibanoff. 528 bls. innb. Random House gefur út. Fæst í Máli og menningu.


Hugsanlega hinsta kveðja

bookwithnonameKæri lesandi. Þegar þú lest þetta er ég væntanlega dáinn. Mér varð það nefnilega á að lesa Bókina nafnlausu eftir Ónefndan, The Book With No Name eftir Anonymous og, eins og kemur fram í bókinni, þá hafa allir lesendur bókarinnar hingað til verið myrtir. (Bókin heitir í raun                , en til hægðarauka er hún kölluð Nafnlausa bókin, enda erfitt að segja               .)

Nafnlaus, Anonymous, er afkastamikill höfundur, skrifaði meðal annars Bjólfskviðu, Egilssögu, Ugluspegil og Biblíuna, svo fátt sé talið og fjöldann allan af bókum um lystisemdir ástarinnar. Hann er því venju fremur fjölhæfur höfundur og afkastamikill og hefur líka látið talsvert til sín taka á spjallvefjum um allan heim, er þannig duglegur athugasemdaskrifari á Moggablogginu, hefur skrifað grúa lesendabréfa og einnig hringt óforvarandis í hina og þessa ef marka má frásagnir manna.

Fyrst bar á þessari merkilegu bók á síðasta ári þegar höfundur hennar, sem kallar sig einnig Viskístrákinn, The Bourbon Kid, kynnti hana á netinu og tók að selja eintök sem hann hafði látið prenta fyrir sig. Viskístrákurinn kemur reyndar nokkuð við sögu í bókinni, en hún hefst einmitt á því að hann kemur inn á skuggalegan bar, Tapioca-barinn, í suður-amríska nápleisinu Santa Mondega og myrðir alla nema barþjóninn (hann vildi ekki skenkja sér sjálfur). Hún er því að einhverju leyti sjálfsævisöguleg.

Barþjóninn, Sanches er áberandi í bókinni, en einnig koma við sögu engillinn Jessica, sem vaknar af fimm ára svefni snemma í bókinni og í frekar vondu skapi, konungur leigumorðingjanna sem heitir Elvis, glæpaforinginn El Santino, slagsmálahundurinn Rodeo, hótelþjónninn Dante, tveir Hubal slagsmálamunkar og fjöldinn allur af afturgöngum, vampírum, þjófahyski og almennu illþýði. Svo má ekki gleyma bláa demantinum dularfulla og gralinu helga.

Í fyrsta kafla bókarinnar, sem er stuttur, fellur fjöldi manna fyrir viskístráknum. Í öðrum kaflanum eru fimmtíu munkar drepnir. Í þriðja kaflanum eru bara þrír drepnir, en þeim fjölgar aftur er líður á bókina og endar með allsherjar skotbardaga og blóðbaði í lokin þar sem þeir eigast við Gene Simmons, Elvis, Tortímandinn (Arnold sjálfur, eða staðgengill hans), Batman, Robin, Kattakonan, Freddy Krueger, tveir Cobra Kai kappar (sjá Karate Kid), Lone Ranger (reyndar tveir slíkir svo órökrétt sem það er) og viskístrákurinn.

Reyndar eru flestir drepnir sem getið er í bókinni og líka þeir sem lesa hana, eins og getið er. Einhverjir vilja eflaust lesa Nafnlausu bókina sem ádeilu eða jafnvel sem skopstælingu; Tarantino uppgötvar Da Vinci lykilinn. Eins og nefnt er hér að ofan bendir þó sitthvað til þess að bókin sé sjálfsævisöguleg og ekki hægt að útiloka að hún segi frá raunverulegum atburðum í Santa Mondega. (Þess má geta að Santa Mondega er ekki á neinum kortum og því opinberlega ekki til. Skýring á því ósamræmi er í bókinni.)

Kannski kemur sannleikurinn betur í ljós í framhaldinu sem höfundurinn hefur rétt lokið við ef marka má MySpace-síðu hans, en samkvæmt því sem þar er ritað er enn meira mannafall í framhaldinu eins og hefð er fyrir. Hvort mér eigi eftir að endast aldur til að lesa hana, kemur í ljós, en þeir sem vilja komast að því hvers vegna allir eru myrtir sem lesa þessa merku bók verða eiginlega að lesa hans sjálfir.


Saga af skjalatösku

Falling ManFalling Man eftir Don DeLillo. Picador gefur út. 246 síður innb.

Ýmsir bandarískir rithöfundar (og svosem frá öðrum löndum líka) hafa glímt við árásirnar á tvíturnana í New York í verkum sínum á undanförnum árum. Það hefur gengið upp og ofan því alla jafna eru tilfinningar þeirra of sterkar eða of blendnar til að þeir nái að skapa eitthvað sem stenst listrænar kröfur og sýnir um leið á þessum voðaatburði nýjar hliðar. Þetta á og við um þann ágæta höfund Don DeLillo sem fjallar um árásirnar í nýrri bók sinni, Falling Man.

DeLillo skipaði sér sess með helstu núlifandi höfundum Bandaríkjanna með bókinni Underworld og því fengur í því að sjá hvaða höndum hann tekur viðfangsefnið. Falling Man hefst einmitt þar sem einn þeirra sem komust lífs af í árásinni gengur ringlaður út úr öskuskýinu með skjalatösku í hendinni. Sagan fylgir síðan honum, fyrrverandi eiginkonu hans og syni þeirra, en einnig kemur við sögu tengdamóðir hans fyrrverandi, kona sem missti mann sinn í árásunum og fleiri.

Mest dýpt er í frásögn af eiginkonunni, sem vinnu við það að hjálpa fólki með elliglöp og eins eru sprettir í samskiptum hennar við móður sína og sambýlismaður hennar, enda er sambýlismaðurinn fyrrverandi hryðjuverkamaður - tók þátt í stríði ofbeldissinnaðra vinstrimanna í Þýskalandi og á Ítalíu á áttunda áratugnum. Aðrir í bókinni eru nánast eins og sálarlausir statistar.

Titill bókarinnar vísar í einkar átakanlega ljósmynd af manni sem er að hrapa úr norðurturni World Trade Center og það verður að segjast eins og er að bókin er talsvert frá því að vera eins áhrifamikil þó sagan af skjalatöskunni geri sitt.


Laukurinn flysjaður

Gunther GrassSjálfsævisaga Günters Grass, Laukurinn flysjaður, eða Peeling the Onion upp á ensku, Beim Häuten der Zwiebel á frummálinu, vakti gríðarlegar deilur þegar hún kom út á síðasta ári, enda skýrir hann frá því í bókinni, og lét þess reyndar getið skömmu áður en hún kom út, að hann hafi verið liðsmaður í Waffen-SS, úrvalssveitum þýska hersins sem höfðu mikil tengsl við nasistaflokkinn. Þetta þótti mörgum mikið hneyksli enda Grass þekktur fyrir gagnrýni sína á auðvalds- og hernaðarhyggju alla tíð.

Í upphafi bókarinnar líkir Grass minni sínu við lauk; þegar flett er utan af lauknum ysta laginu, þurru og sprungnu, kemur í ljós annað lag safaríkt og þar fyrir innan enn annað og svo enn eitt til. "Laukurinn hefur mörg lög. Fjölda laga. Ef hann er flysjaður endurnýjar hann sig; ef hann er saxaður koma tárin; sannleikurinn birtist því aðeins að hann sé flysjaður."

Þessi samlíking er bráðsnjöll og vel nýtt í gegnum bókina. Hún kemur líka heim og saman við gríðarlegan áhuga Grass á matreiðslu sem sér stað í mörgum bóka hans, en uppspretta þess áhuga var matreiðslunámskeið sem hann fór á sem stríðsfangi Bandaríkjamanna og lýst er á óborganlegan hátt í bókinni.

Grass-áhugamönnum finnst eflaust einna mest um vert að í ævisögunni segir Grass frá fyrirmyndum fjölda persóna sem við þekkjum úr verkum hans, Aðallega úr Danzig-þríleiknum, Blikktrommunni, Ketti og mús og Hundaárum, sem er reyndar orðin fjórleikur eftir að Kabbagangur slóst í hópinn 2002, en hann kynnir líka til sögunnar ýmsar persónur sem hann nýtti síðar, aukinheldur sem ýmsar uppákomur í bókum hans eiga sér stoð í raunveruleikanum.

Svo var það hermaðurinn guðhræddi sem var samfangi hans í haldi hjá bandaríska hernum í stríðslok, kýtti við hann um trúmál og heimspeki, spilaði við hann teningaspil og deildi með honum kúmenfræjum. Jósep hét hann, jafnaldri hans frá Bæjaralandi og ætlaði sér að verða kardínáli. Ætli það sé Joseph Alois Ratzinger? Grass segir það ekki beint, en hann gefur það óneitanlega sterklega í skyn.

Forvitnilegt er líka að lesa um brennandi myndlistaráhuga Grass og tilraunir hans til að verða myndlistamaður sem urðu nánast að engu þegar hann tók að skrifa skáldsögur, þó hann hafi haldið áfram að vinna myndlist samhliða skrifunum.

Þessi ævisaga Grass er afskaplega vel skrifuð, eins og hans er von og vísa, og stílsnilldin engu minni en í skáldverkum hans. Í ljósi deilnanna sem spruttu af útkomunni, sem getið er að framan, verður þó að segja að minningar hans frá árunum í Waffen-SS eru býsna þokukenndar og alloft ber Grass við minnisleysi eða skautar yfir hluti. Það er til að mynda erfitt að trúa því að hann hafi aldrei hleypt af skoti, þó hersveit hans hafi ekki komist á vígstöðvarnar fyrr en stríðinu var eiginlega lokið.

Glannalegar yfirlýsingar ýmissa menningarpáfa, þýskra og annarra, um að Grass hafi glatað ærunni með þessari uppljóstrun eru þó kjánalegar og beinlínis heimskulegt þegar menn ætla að dæma ævistarf eins helsta rithöfundar Þjóðverja okkar tíma fyrir glappaskot hans sem unglings.

Ævisögunni lýkur um það leyti sem Blikktromman kemur út, enda sú bók vendipunktur í sögu hans, en ekki líkar mér þau lokaorð hans að hann hafi hvorki lauk né löngun til að segja meira af ævi sinni - hann hefur frá mörgu að segja og merkilegu að mínu viti.


Pepper liðþjálfi fertugur

Sgt. Pepper'sÞess er minnst víða að í dag eru fjörutíu ár síðan Bítlarnir sendu frá sér tímamótaverkið Sgt. Pepper's Lonely Hearts Club Band, áttundu breiðskífu sína á fjórum árum. Menn eru ekki á einu máli um gæði plötunnar, sumir telja aðrar Bítlaplötur betri, ég hallast að Rubber Soul, en ekki verður deilt um mikilvægi hennar – Sgt. Pepper's Lonely Hearts Club Band er merkilegasta plata poppsögunnar og áhrif hennar verða seint ofmetin. Ekki var bara að Bítlarnir komu sítar, skælifetlum, suðboxi og strengjum á poppkortið, heldur voru þeir líka frumherjar í ýmiss konar hljóðverstækni og segulbandapúsli. Margir ganga líka svo langt að segja að með Sgt. Pepper's hafi þeir gengið af popplaginu dauðu, þ.e. hinu klassíska þriggja mínútna popplagi – í stað þess að menn einblíndu á smáskífur fóru þeir að hugsa í stórum plötum, heildarverkum, og þess sér stað enn þann dag í dag.

Sgt. Pepper's var síðasta platan sem Bítlarnir gerðu sem hljómsveit því þótt þeir ættu eftir að gefa út fleiri plötur þá vann hver þeirra að þeim meira og minna út af fyrir sig.

Upptökur tóku líka lengri tíma en á fyrri verkum og fyrst hljómsveitin var hætt að leika á tónleikum gafst tími til að liggja aðeins yfir hlutunum. Segir sitt að 700 hljóðverstímar fóru í upptökurnar, en fyrsta Bítlaplatan var tekin upp á innan við tíu tímum.

Umslag plötunnar vakti mikla athygli á sínum tíma og er eitt frægasta umslag rokksögunnar. Sagan segir að það hafi líka verið dýrasta umslag sögunnar þegar platan kom út, sumir áætla að það hafi verið að minnsta kosti hundrað sinnum dýrara en hefðbundin plötuumslög á þeim tíma og þætti svosem dýrt í dag – framreiknað var kostnaðurinn hálf fimmta milljón.

Hjónin Peter Blake og Jann Haworth hönnuðu umslagið með þá ósk Lennons og McCartneys í huga að Bítlarnir yrðu í gervi annarrar hljómsveitar og því líkast sem sú hljómsveit væri rétt búin að ljúka tónleikum í almenningsgarði. Í framhaldi af því datt Blake í hug að hafa fólk með á myndinni, aftan við hljómsveitina, og Bítlarnir settust niður til að skrifa óskalista yfir það fólk sem þeir héldu mest upp á eða töldu áhrifamest. Ekki fóru allar tillögur inn, til að mynda fannst mönnum ótækt að hafa Hitler og Jesú á myndinni, eins og Lennon stakk upp á, og ekki féll í kramið sú ósk hans að hafa Ghandi á myndinni, enda óttaðist EMI í Indlandi að íbúar þar myndu taka því illa. Ghandi er reyndar á umslaginu, ef svo má segja, en pálmatréð lengst til hægri á myndinni var sett yfir andlitið á honum. Blake heldur því reyndar fram líka að mynd sé af Hitler en á bak við sveitina, sem erfitt er að sannreyna. Eins var málað yfir leikarann Leo Gorcey vegna þess að hann vildi fá borgað fyrir að vera á myndinni.

Að Ghandi og Hitler frátöldum, vaxmyndum, styttum og málverkum eru myndir af sextíu manns á umslaginu, Bítlarnir meðtaldir. Ringo Starr valdi engan á myndina og George Harrison bara indverska hugleiðslukennara og predikara. Af öðrum sem komust á umslagið má nefna Aleister Crowley, Mae West, sem vildi ekki vera með en lét undan þrábeiðni Bítlanna, Lenny Bruce, Karlheinz Stockhausen, Carl Gustav Jung, Bob Dylan, Aldous Huxley, Marilyn Monroe, William S. Burroughs, spaugarana Stan Laurel, Oliver Hardy og Karl Marx, Sigmund Freud, Marlon Brando, Lewis Carroll, T.E. Lawrence, Shirley Temple, Albert Einstein, Marlene Dietrich og mexíkóska leikarinn Tin Tan sem er dulbúinn sem pálmatré.

Þess má svo geta að lokum að þó Bretar fagni útgáfu Sgt. Peppers í dag, ættu Amríkanar ekki að gera það fyrr en á morgun, því platan kom út 2. júlí vestan hafs. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Árni Matthíasson
Árni Matthíasson
Skoðanir á mönnum og málefnum á þessari síðu eru birtar með opnu notendaleyfi. Öllum er heimilt að tileinka sér þær og halda þeim fram sem sínum eigin.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 2
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 117724

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband